Færsluflokkur: Tónlist
19.2.2007 | 14:57
Eiríkur áfram með í Eurovision-spjallþættinum
Margir óttuðust að sigur Eiríks Haukssonar í keppninni myndi þýða að hann yrði ekki með í þættinum þetta árið. Það þarf semsagt ekki að hafa áhyggjur af því. Það er nú bara undir Eiríki sjálfum komið hvort hann vilji taka þátt. Það er mikið gleðiefni og gott að þurfa ekki að ræða það frekar og velta fyrir sér öðrum nöfnum í þáttinn, enda er Eiríkur þar á heimavelli og okkar besti kandidat í þáttinn.
Svíar vilja fá Eirík áfram í vinsæla sjónvarpsþætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.2.2007 | 13:39
Tónlistarspilari
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2007 | 14:55
Glæsilegur sigur Eiríks - frábær kvöldstund
Um eitt voru þó allir sammála í gærkvöldi. Eiríkur Hauksson var langflottastur, með besta lagið og stóð öðrum fremri. Enda vann hann. Glæsilegur sigur það og mjög verðskuldaður. Eiríkur einfaldlega kann sitt fag. Hann hefur mikla sögu í keppninni, hefur verið þar sem keppandi tvisvar og fulltrúi Íslands í hinum frábæra spekingaþætti í aðdraganda keppninnar síðustu árin, og var sá keppenda sem var langöruggastur á sviðinu í gær, hann einfaldlega stóð fremri öðrum. Það skiptir máli að mínu mati. Þetta er bakgrunnur sem einn og sér fleytir langt.
Það voru held ég flestallir glaðir með úrslitin. Eiki er einfaldlega söngvari af þeim skala að við erum stolt af honum. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hefði þess vegna viljað að fimm lög myndu vinna; auk Eika voru Jónsi, Frikki, Heiða og Andri öll í toppformi. Öll þessi níu lög voru ágæt hver á sinn máta, þó ég verði að viðurkenna það að mér fannst kántrýskotna lagið Áfram þeirra síst, en það er kannski bara vegna þess að ég er mjög lítið fyrir kántrýtónlist, allavega mjög í hófi vægast sagt. Lögin sem voru í gær fara allavega sterk til leiks í Eurovision-keppnissöguna sem er alltaf að verða blómlegri.
Það var svona nett nostalgía sem fór um mann við að rifja upp lögin hans Björgvins Halldórssonar í keppninni. Það er enn skandall að sum þeirra, t.d. Sóley, fóru ekki út í keppnina á sínum tíma. Björgvin fór svo seint og um síðir í keppnina, með gott lag en einum of seint samt. Það hefði verið gaman að sjá hann taka eitthvað gamalt Júrólag þarna í gærkvöldi. Hefði ekki verið eðall að fá hann með Ernu Gunnarsdóttur, gamla enskukennaranum mínum í VMA í denn, til að rifja upp eðalsveiflulagið Lífsdansinn, eftir Geirmund Valtýsson? Hví ekki, lagið er jú tvítugt á árinu.
En mesti skandallinn fannst mér að sjá þennan rúmenska úr keppninni í fyrra "mæma" lagið Tornero. Þetta er flott lag og góður söngvari.... en að mæma er fyrir neðan allar hellur. Ræður hann ekki lengur við lagið? Mikil vonbrigði að sjá þetta. Svo var Regína Ósk alveg yndisleg í Júrólaga-upprifjuninni. Það er einn mesti skandall íslenskrar Eurovision-sögu að hún skyldi ekki vinna í fyrra með lagið hans Trausta Bjarnasonar, Þér við hlið. Einstakt lag... mjög vandað, lag á öllum skalanum. Það átti að fara til Aþenu. Regína Ósk var alveg frábær í gærkvöldi.
Silvía Nótt var aldrei þessu vant hógvær og stillt og átti stutta innkomu með nýjasta lagið sitt, nýjan smell sem hún söng mjög vel. Hún stóð sig vel. Var þó að vona að hún myndi syngja sigurlagið sitt frá því í fyrra... en kannski vill hún horfa í aðrar áttir. Það er skiljanlegt vissulega. En í heildina; þetta var magnað kvöld. Virkilega gaman og við skemmtum okkur vel yfir pizzu, nammi, góðum veigum og líflegu spjalli. Eðalgott - svona eins og það á að vera.
Þetta er enda skemmtilegasta sjónvarpskvöld ársins, tja nema kannski þegar að aðalkeppnin er ytra. Ætla svo sannarlega að vona að Eiki Hauks skili okkur glæsilegum árangri í vor. Efast ekki um að við verðum allavega mjög stolt af honum. Og svo er kominn enskur texti á lagið. Getur ekki verið betra! Og svo gerum við öll sem eitt þá lykilkröfu nú að kappinn verði í leðri, sömu múnderingu í gær. Svona á hann að vera.... þetta er málið!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2007 | 23:52
Eiríkur sigrar í Eurovision - íslenskt rokk til Helsinki
Eiríkur söng Gleðibankann í Bergen í Noregi árið 1986 ásamt Helgu Möller og Pálma Gunnarssyni, undir merkjum Icy-tríósins, sem var fyrsta framlag Íslendinga til keppninnar. Síðan söng hann lagið Mrs. Thompson með hljómsveitinni Just 4 Fun sem var framlag Noregs árið 1991. Það lag hafnaði í 17. sæti en Gleðibankinn lenti í því 16. eins og frægt er orðið og var það hlutskipti okkar í keppninni fyrstu þrjú árin. Aðeins fjórum sinnum hefur Ísland náð að komast á topp tíu í keppninni. Frammistaða Selmu Björnsdóttur í Jerúsalem fyrir átta árum, annað sætið, er okkar besta.
Lagið Ég les í lófa þínum, eftir Svein Rúnar Sigurðsson við texta Kristjáns Hreinssonar, verður tuttugasta framlag Íslands í Eurovision. Sigur Eiríks nú er svo sannarlega verðskuldaður. Hann hefur ekki tekið þátt í undankeppninni hérna heima í tvo áratugi, en hann ásamt söngflokknum Módel lenti í öðru sæti í keppninni árið 1987 með lagið Lífið er lag. Eiríkur var einfaldlega langsterkasti flytjandinn og lagið hið besta. Ekta rokksveifla. Þetta er mjög góð niðurstaða og vonandi mun Eiríki ganga vel eftir þrjá mánuði.
En hver á nú að vera fulltrúi Íslands í norræna spekingahópnum sem fer yfir lögin nú þegar að Eiríkur er orðinn flytjandi sjálfur í keppninni? Þar verður eftirsjá af okkar manni. Við eigum að senda Selmu Björns til leiks í það dæmi núna að mínu mati.
Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2007 | 17:34
Hvaða lag mun sigra í Eurovision?
Framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Helsinki í Finnlandi þann 10. maí nk. verður valið í símakosningu í kvöld. Sigurlagið í ár er tuttugasta lagið sem Ísland sendir til leiks í Eurovision, en Ísland tók þar þátt í fyrsta skipti með Gleðibankanum árið 1986. Níu lög keppa til úrslita að þessu sinni og er keppnin mjög jöfn og erfitt að spá um sigurvegara.
Á morgun er ár liðið frá stórsigri Silvíu Nætur (a.k.a. Ágústu Evu Erlendsdóttur) í síðustu undankeppni Eurovision hér heima. Hún hlaut um 70.000 atkvæði í keppninni þá með lagið Til hamingju Ísland, eftir Þorvald Bjarna, rúmum 30.000 atkvæðum fleiri en Regína Ósk Óskarsdóttir hlaut fyrir lagið Þér við hlið. Silvía Nótt keppti svo í keppninni í Aþenu í Grikklandi í maí 2006 og lenti í þrettánda sæti í forkeppninni og komst því ekki áfram, en tíu efstu lögin fengu farmiða á sjálft úrslitakvöldið. Frægt varð að Silvía Nótt var púuð niður fyrir og eftir flutning lagsins, sem var sögulegt.
Árið hennar Silvíu Nætur hefur svo sannarlega verið skrautlegt. Það verður fróðlegt að sjá hvaða lag og flytjandi feta í fótspor hennar. Búast má við að ögn rólegra verði yfir þeim sem fer núna, enda öll atriðin nokkuð rólegri miðað orkubombuna og skvettuna sem send var út í fyrra. Í huga mér er þetta mjög jafnt. Enginn flytjenda er með afgerandi forskot og því spennandi kvöld framundan. Í kvöld á ég bæði ættingja og vini sem flytja lag. Ætla að vona að þau sem berjist um þetta séu Jónsi, Andri, Friðrik Ómar, Eiki Hauks, og Heiða. Lögin þeirra eru öll góð að mínu mati.
Hvaða lag haldið þið að muni vinna?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2007 | 23:21
Skandall í X-Factor í kvöld - Siggi sendur heim
Elínborg Halldórsdóttir, betur þekkt sem Ellý í Q4U, sendi Sigga heim í kvöld. Hún hafði oddaatkvæðið að þessu sinni, enda stóðu Einar Bárðarson og Páll Óskar með sínu fólki, sem skiljanlegt er. Ég hef aldrei skilið af hverju þessi kona var valin þarna til dómarastarfa. Það er hreinn og klár skandall svo sannarlega. Það hefur sannað sig að hún hefur engan þann bakgrunn til að meta söng og virðist koma með hverja steypuna á fætur annarri í umsögnum og vera mjög mislagðar hendur.
Það er ekki hægt annað en tjá afgerandi þá skoðun að Ellý eigi ekki erindi í þessum þætti og ég tek undir skoðanir Einars Bárðarsonar að það sé þessari konu til skammar að senda einn allra frambærilegasta söngvara keppninnar heim á þessari stundu. Það er ekki ofsögum sagt að valið á Ellý sem dómara hafi sannað sig sem algjört flopp, fyrir Stöð 2 og þá sem standa að keppninni.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2007 | 17:00
Tónlistarspilari á blogginu
Tónlist | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2007 | 22:47
Andri áfram í Eurovision - stuðlögin blíva nú
Var að horfa á þriðja og síðasta undanriðil forkeppni Eurovision. Ágæt lög og greinilegt að þjóðin vill fjörugri lög áfram. Er alsæll með að frænda mínum, Andra Bergmann frá Eskifirði, tókst að komast áfram með lagið Bjarta brosið, eftir Torfa Ólafsson. Fannst þetta fallegt lag og er auðvitað ánægður með að kappinn er kominn á úrslitakvöldið.
Andri er sonarsonur móðurbróður míns, Þorvaldar Friðrikssonar frá Eskifirði. Það er mikil tónlistarhefð í okkar fólki og Valdi frændi lifði fyrir tónlistina, samdi mörg lög og var mjög áberandi í tónlistarlífi Austfjarða í áratugi og kom fram opinberlega við að syngja og spila nær alveg fram í andlátið. Heimili Valda, Sigurðarhúsið á Eskifirði, er eitt músíkalsta heimili sem ég hef kynnst. Þar skipti tónlistin máli. Það sést mjög vel í börnum Valda, en sennilega er Ellert Borgar, sonur hans, sem síðar varð forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, þeirra þekktast en hann söng í árafjöld með hljómsveitinni Randver.
Frænka mín, úr sömu góðu austfirsku tónlistarfjölskyldunni, söng líka í kvöld. Soffía Karlsdóttir er sonardóttir móðursystur minnar, Árnýjar Friðriksdóttur, og er systir Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur, sem söng í keppninni í fyrra lagið Andvaka. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð nokkuð hissa að lagið sem hún söng, Júnínótt, eftir Ómar Þ. Ragnarsson, sjónvarpsmann, tókst ekki að komast á úrslitakvöldið. Soffía stóð sig vel og hún má vera stolt af sínu. Það hefur hinsvegar komið vel fram í keppnunum síðustu vikur að fólk vill stuðlög eða lög með hraðari takta áfram og það kom vel fram í kvöld. En lagið hans Ómars var fyrst og fremst hugljúft og notalegt.
Varð svosem ekki hissa með að Hafsteinn Þórólfsson og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða) skyldu komast. Lagið hans Hafsteins er ekta Eurovion-stuðbombulag og fyrirfram ljóst, t.d. af viðbrögðum áhorfenda að það hefði sterkan grunn. Dr. Gunni hefur alltaf verið með öflug lög og merkilegt að sjá hann kominn í Eurovision. Fannst lagið hans og Heiðu ljúft og létt. Líst því vel á lagavalið í kvöld bara. Það er greinilegt að lög í svona stuðtakti er það sem landsmenn vilja og bera öll lögin níu sem keppa um sætið til Helsinki þess merki.
Fyrst og fremst vil ég óska Andra frænda mínum til hamingju og vona að hann standi sig súpervel eftir hálfan mánuð.
Undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.1.2007 | 23:20
Góð lög áfram í Eurovision - betri pakki en síðast!
Jónsi og Friðrik Ómar eru báðir Eyfirðingar, svo að við getum bara verið nokk sátt hér fyrir norðan með að þeir hafi komist áfram. Jónsi er auðvitað héðan frá Akureyri, við erum jafnaldrar og leiðir okkar hafa legið saman. Feður okkar voru saman í sundi í denn tid og auk alls annars býr Vala, systurdóttir mín og litla fjölskyldan hennar, í kjallaranum hjá Snæbirni og Liv, foreldrum Jónsa, í Steinahlíðinni úti í þorpi. Jónsi fór út í Eurovision árið 2004 með lagið Heaven eins og flestir muna eflaust eftir.
Friðrik Ómar og ég þekkjumst frá því í denn á Dalvík. Hann hefur sífellt verið að bæta sig í tónlistinni og stendur sig vel. Fólkið útfrá og við öll hér reyndar getum verið stolt af framgöngu hans. Ekki hefði mér órað fyrir fyrst þegar að ég kynntist Frikka að hann ætti eftir að enda í Eurovision sem mögulegt efni í okkar nafni á erlendri grund en það hefur lengi verið ljóst að vegur hans væri í tónlistinni. Þar gengur honum líka vel. Flott lag með honum. Svo var auðvitað meistarinn Eiríkur Hauksson flottur í sínu lagi og enginn vafi að hann færi áfram. Hann hefur ekki tekið þátt í keppninni hér heima í tvo áratugi; söng Gleðibankann úti 1986 og vann næstum keppnina árið eftir.
Leist vel á pakkann í kvöld, mun betur en síðast. Þá var þetta frekar dauft satt best að segja. Verður fróðlegt hvaða þrjú lög bætast við að viku liðinni. Það er þó nokkuð ljóst að það verður ekki alveg eins mikið drama og glamúr yfir þessu úti nú og var fyrir ári hjá fröken Silvíu Nótt.
Tveir Eurovisionfarar í úrslit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 20:33
Silvía Nótt snýr aftur
Eins og allir vita náði hún ekki að komast alla leið. Það fór eins og fór hjá henni vegna yfirlætis sem engin innistæða var fyrir úti, merkilegt fall í rauninni. Í upphafi var Silvía Nótt ágætis karakter og lagið fínt. Karakterinn hélt áfram að þróast og ekki til góða. Undir lokin var þetta orðin sorgarsaga og hún gekk endanlega frá öllu sem hét sigurmöguleikar með framkomu sinni ytra dagana sem hún dvaldi þar vegna keppninnar. Að mörgu leyti var leitt að sjá hvernig að hún eyðilagði fyrir sjálfri sér.
Það er nær einsdæmi að púað hafi verið á keppanda fyrir og eftir flutning en það henti Silvíu Nótt í keppninni fyrir ári. Það er engin furða að þetta hafi farið svona - ég varð allavega ekki hissa á gengi Silvíu eftir allt sem gengið hafði á í Aþenu. Margir áttuðu sig reyndar ekki á því að þetta var einn stór brandari að keppninni, en hvað með það. Brandarinn varð of súrrealískur. Þessi local-brandari varð einum of allavega. Það stefnir ekki í að við fetum sömu leið í Helsinki í maí, sama hver vinnur nú.
Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru.
Silvía Nótt með nýjan umboðsmann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)