Færsluflokkur: Tónlist

Magni heldur á vit bandarískra tónlistarævintýra

Magni Þá er Magni haldinn út á vit bandarískra tónlistarævintýra. Það mun vonandi ganga vel hjá honum. Hörkutónlistarferðalag framundan - hann missti reyndar af byrjuninni eins og frægt er orðið fyrir löngu síðan. Sannaðist þá að það er ekki stokkið 1, 2 og 3 til Bandaríkjanna til verka. Sagan segir að Valgerður Sverrisdóttir hafi prívat og persónulega fengið tonn af tölvupóstum. Efast þó stórlega um að hún hafi lesið alla póstana sjálf.

Það að fá atvinnuleyfi í USA er stórmál, sérstaklega eftir 9/11, þó að alltaf hafi þeir hlutir verið flóknir. En þetta gekk allt að lokum og ferðin er hafin. Þetta er víst mikið prógramm. Það hlýtur að vera mjög strangt prógramm að vera á svona tónleikatúr satt best að segja. Ekki gert fyrir alla og sérstaklega ekki fjölskyldufólk. Hlýtur samt að vera alveg einstakt tækifæri fyrir þá sem virkilega unna tónlist og vilja tækifæri til að stimpla sig inn í harðkjarnabransann úti.

Það er reyndar helsta spurningin núna hvort að Magni fær það gott tækifæri út að hann vilji helga sig algjörlega svona hörðum bransa. Það er enda óravegur á milli þessa bransa og þess sem gerist og gengur á gamaldags sveitaballamarkaðnum hér heima á Íslandi. Vona annars að Magna gangi vel úti. Þetta er harður bransi sem hann heldur í, en hann er eflaust með þau sterku bein sem þarf í hann.

mbl.is Magni farinn til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elton John kominn til Íslands

Sir Elton John Hinn heimsþekkti breski tónlistarmaður, Sir Elton John, lenti á Reykjavíkurflugvelli nú síðdegis. Hann kom hingað með einkaflugvél sinni. Hann mun í kvöld syngja í afmælisveislu Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og mun fá um 70 milljónir króna fyrir ef marka má fréttir. Elton John er einn þekktasti söngvari sinnar kynslóðar og hefur hlotið öll helstu tónlistarverðlaun samtímans.

Hann á eina mest seldu smáskífu sögunnar, sem var plata með laginu Candle in the Wind, er var gefin út til minningar um Díönu, prinsessu af Wales. Hann hlaut óskarsverðlaun fyrir lagið Can You Feel The Love Tonight? í kvikmyndinni Lion King árið 1995. Hann hefur gefið út fjölda laga sem hlotið hafa alheimsfrægð.

Það eru nokkuð merkileg tíðindi að tónlistarmaður á kalíber Sir Elton John komi til landsins til þess eins að syngja í afmælisveislu þekkta fólksins. Kannski erum við að upplifa nýja menningarheima, eða hvað?

Fallegt lag

Guðrún Árný Mikið innilega er það fallegt lagið Þula sem frænka mín, Guðrún Árný Karlsdóttir, og Leone Tinganelli sem hafa sungið til minningar um Svandísi Þulu Ásgeirsdóttur, sem lést í sorglegu bílslysi fyrir rúmum mánuði síðan.

Lagið er eitt af fjórum á plötu sem gefin hefur verið út til minningar um Svandísi Þulu og styrktar fjölskyldu hennar á þessum sorgartímum, en bróðir hennar liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi eftir slysið.

Ég ætla mér að kaupa þessa plötu og hvet alla lesendur til að gera slíkt hið sama.

mbl.is Leggur sitt af mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðir tónleikar

Bó Ég fékk tónleikadisk Björgvins Halldórssonar í jólagjöf eins og allir Hafnfirðingar. Það var notaleg jólagjöf. Í kvöld voru tónleikarnir sýndir á Stöð 2 í boði Alcan, rétt eins og diskarnir til Hafnfirðinga. Eflaust eru margir þakklátir Alcan fyrir diskana og eins að sýna þá heima í stofu til allra landsmanna. Ég hef nokkrum sinnum horft á tónleikana um jólin, þar er hægt að stilla í alvöru hljóðgæði og setja allt í botn og njóta til fulls.

Að mínu mati er Bó Hall alveg frábær tónlistarmaður. Svo mikið er allavega víst að tónlistarsaga okkar verður ekki rituð án þess að minnast á ævistarf hans, en í fjóra áratugi hefur hann verið einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Hann slær ekki feilnótu á þessum tónleikum og allt er eins fullkomið eins og mögulegt má vera. Björgvin kann sitt fag og sannar enn og aftur hversu stór hann er í íslenskri tónlist.

Lagavalið á tónleikunum er gott, sannkallaður þverskurður alls þess besta sem hann hefur gert, þó alltaf sakni maður nokkurra laga. Það er gott að lagið Tvær stjörnur eftir Megas sé þarna. Mér hefur alltaf fundist það lag eitt hitt allra bestu síðustu áratugina. Innilega fallegur texti og lag eftir Megas, algjör perla í tónlistarsögu 20. aldarinnar. Þarna eru svo öll lykillögin sem marka frægð Björgvins. Óþarfi að telja þau upp. Flottast af öllu er að fá dúett feðganna Björgvins og Krumma við eðalsmellinn You Belong to Me.

Allavega, mögnuð skemmtun. Hvort sem er í boði Alcan heim í stofu eða bara heima á eigin diski. Rétt eins og afmælistónleikar Bubba er þetta eðaltónlistarviðburður sem nauðsynlegt er að eiga og njóta vel.

Bubbi er alveg magnaður

Bubbi Morthens Þeir eru ekki margir sem halda upp á fimmtugsafmælið sitt með þriggja tíma tónleikahaldi og hoppa um risasvið hylltir af þúsundum gesta. Þetta gerði Bubbi Morthens á fimmtugsafmælinu þann 6. júní sl. Útkoman voru ógleymanlegir tónleikar sem lengi verða í minnum hafðir. Það var alveg magnað, satt best að segja, að setja DVD-disk með tónleikunum í tækið í gærkvöldi. Það var vel hækkað og notið tónlistarinnar til fulls. Tónleikarnir voru gefnir út í veglegri mynddiskaútgáfu og er þegar orðinn einn mest seldi tónleikadiskur hérlendis.

Tónleikarnir sem haldnir voru á þeirri merku dagsetningu 060606 eru með þeim bestu hérlendis síðustu árin. Þar var farið yfir tæplega þriggja áratuga tónlistarferil Bubba, allar hljómsveitirnar sem hann hefur sungið með og öll ógleymanlegu lögin sem eftir standa á þessum glæsilega ferli sem Bubbi hefur átt. Þessir tónleikar eru merkileg upplifun, sérstaklega fyrir okkur sem höfum verið aðdáendur Bubba alla tíð. Hann hefur oft verið gríðarlega pólitískur og gengið langt, ég persónulega hef ekki alltaf verið sammála honum en met framlag hans til tónlistarinnar.

Það er auðvitað bara hreint og klárt afrek sem Bubbi skilar á þessum tónleikum. Þriggja tíma þéttur pakki og öflugt prógramm sem coverar feril Bubba. Ég horfði á tónleikana í beinni útsendingu á sínum tíma og fannst þeir flottir þá, þeir urðu enn flottari í DVD-pakkanum er ég sá þá í gærkvöldi. Þar er hægt að stilla betra hljóð og finna betri vinkla sem ekki voru til staðar í útsendingu Stöðvar 2 á 060606. Útkoman er tónlistarviðburður sem allir njóta sem meta tónlist Bubba. Það er erfitt að velja uppáhaldskafla tónleikanna en mér fannst þó standa upp úr kaflinn með Utangarðsmönnum og Egó.

Það er ekki laust við að ég hafi saknað eins besta lags Bubba í seinni tíð, lagið Fallegur dagur, en kaflinn með Bubba einum þar sem hann tekur nýjasta smellinn, Grafir og bein, og Rómeó og Júlíu er gríðarlega góður. En í heildina eru þetta auðvitað frábærir tónleikar með mörgum hápunktum sem vert er að njóta í alvöru myndgæðum og klassaumbúnaði sem er á þessari DVD-útgáfu sem er ómissandi í safnið fyrir alla unnendur tónlistar þessa fimmtuga alþýðupoppara.

Yndislegir jólatónleikar í Glerárkirkju

Glerárkirkja Þeir voru alveg yndislegir jólatónleikarnir sem ég fór á í Glerárkirkju í kvöld. Maður komst endanlega í þessa eðalgóðu jólastemmningu þessa góðu kvöldstund, rúmri viku fyrir jólin. Okkur viðskiptavinum Sparisjóðs Norðlendinga var boðið til sannkallaðrar tónlistarveislu og þakka ég kærlega stjórnendum Sparisjóðsins fyrir höfðinglegt og gott boð.

Á tónleikunum fluttu Regína Ósk Óskarsdóttir, Karlakór Eyjafjarðar og stúlknakór Akureyrarkirkju gullfalleg jólalög, sem nutu sín vel í sneisafullri kirkjunni, en tveir tónleikar af þessu tagi voru haldnir í kvöld. Mikil aðsókn var á tónleikana, enda ekki á hverjum degi sem viðskiptavinum er boðið hér til slíkrar tónlistarveislu. Fór ég á fyrri jólatónleikana, kl. 20:00.

Senuþjófur tónleikanna var svo sannarlega Regína Ósk, en hún er svo sannarlega ein af bestu söngkonum landsins. Auk nokkurra jólalaga flutti hún nokkur lög af nýrri geislaplötu sinni, t.d. Eurovision-lagið Þér við hlið, sem varð í öðru sæti í undankeppninni hér heima í febrúar. Hefur mér alltaf fundist að það lag hefði átt að vinna og fara út fyrir okkar hönd, enda besta lagið í keppninni.

En þetta var semsagt notalegt og gott kvöld. Gestur Einar Jónasson fór alveg á kostum sem kynnir á tónleikunum og kom með góða og netta brandara svona inn á milli atriða sem léttu þessa kvöldstund enn frekar. Við sem vorum á tónleikunum fórum allavega glöð í hjarta heim á leið að tónleikum loknum.

Þakka enn og aftur Sparisjóði Norðlendinga fyrir gott boð og tónlistarfólkinu fyrir að koma okkur endanlega í hið eina sanna jólaskap. Nú styttist mjög í jólin og sem betur fer er ég búinn að nær öllu fyrir jólin.

Courtney Love dömpar endanlega Kurt Cobain

Kurt Cobain Þegar að ég var unglingur var Kurt Cobain og Nirvana málið. Það var uppáhaldstónlistin mín á þeim árum. Ekkert sló við Nirvana. Það var rosaleg upplifun þegar að Nevermind var gefin út árið 1991 - rosalega góð plata og flottur toppur á glæsilegum ferli. Dúndur. Ein þeirra platna sem ég met mest. Er alltaf eðall á að hlusta. Þegar að hún kom út var það toppurinn - er það eiginlega enn að svo mörgu leyti. Cobain hafði mikil áhrif á heila kynslóð.

Þau áhrif náðu út fyrir gröf og dauða. Cobain fyrirfór sér árið 1994 og eftir stóðu lögin. Tólf árum eftir endalokin lifir minning hans og tónlistarinnar góðu lífi. Margar kjaftasögur ganga enn um samband Cobain og Courtney Love. Bæði lifðu þau hátt á sínum tíma, fallið varð mikið en Love lifir enn hærra en flestir. Er þekkt fyrir það. Flestir hafa alltaf talið að Cobain væri ást lífsins hennar, þrátt fyrir allt og allt. Sterkt samband en rosalega beitt og afgerandi. Lifandi var allavega lifað, hátt yfir öllum mörkum.

Finnst mjög merkilegt að Love telji leikarann Edward Norton ást ævinnar. Annars er Love ekki alveg normal á því, eins og flestir vita. Merkilegt að Cobain sé talinn besti vinur ævi hennar, þrátt fyrir allt sem gekk á. Ég hélt að þetta væri einmitt alveg hið gagnstæða. Mjög merkilegt bara, finnst mér. Fannst alveg skemmtilega villt að sjá myndina um þau skötuhjú fyrir nokkrum árum og ég hef reyndar lesið mikið um ævi Cobain. Stjörnuheimurinn er oft ansi feik og þar er lifað hátt.

En þetta eru merkilegar persónulegar uppljóstranir sem koma fram. Það má kannski segja að Courtney hafi endanlega dömpað Kurt Cobain. Kaldhæðnislegt alveg, merkilegt alveg.

En Nirvana-fíklar - hvert er uppáhaldslag ykkar með bandinu. Má til með að spyrja ykkur. Endilega kommentið. Mitt er Lithium. Smells Like Teen Spirit er líka eðall.

mbl.is Courtney Love segir Kurt Cobain ekki stóru ástina í lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilld Megasar

Megas Í gær keypti ég mér plötuna Pældu í því sem pælandi er í, en þar taka landsþekktir söngvarar lög Megasar með sínu nefi. Þetta er virkilega vönduð og góð plata. Þarna er lögum Megasar gerð góð skil. Best af þeim finnst mér lagið Dauði Snorra Sturlusonar í túlkun KK, Táraborg í túlkun Ragnheiðar Gröndal og Þóttú gleymir Guði í túlkun Páls Óskars. Mæli svo sannarlega með þessari plötu.

Fullyrða má að Megas sé merkilegur tónlistarmaður í tónlistarsögu landsins. Hann er snillingur orðsins í nútíma ljóðlist og hefur tekist með undraverðum hætti að tjá sig með næmleika og merkilegri fegurð um daglegt líf og getur tjáð sig með svipmiklum hætti um samtíma sinn. Umfram allt er þó Megas kaldhæðinn og napur í yrkisefnum, það er viss ádeila í honum sem alltaf er gaman af.

Það hefur líka verið gaman af því hvernig hann hefur notað heimsbókmenntirnar, sagnaarfinn okkar og þá hefð sem hann byggist á og kveðskap fyrri tíma sem efnivið í verk sín. Hann hefur með merkilegum hætti náð að flétta saman slangri, rokkfrösum seinustu áratuga, nýyrðum og sett saman við gullaldarmál fyrri tíma, svo úr verði næm meistaraverk. Hef ég lengi borið mikla virðingu fyrir verkum hans og tónverkum. Með vinnubrögðum sínum hefur hann tekist bæði að heilla og hneyksla.

Hvað sem segja má þó um Megas leikur þó enginn vafi á því að hann hefur náð til fólks og hreyft við samtímanum með merkilegum hætti. Það er hans afrek og verður það sem mun ávallt setja mestan svip á feril hans. Hvernig er annars hægt að gera upp tónlistarsögu 20. aldarinnar án þess að taka fyrir plötur hans, t.d. Millilendingu, Fram og aftur blindgötuna, Á bleikum náttkjólum, Drög að sjálfsmorði og síðast en ekki síst Loftmynd?

Fallegasti texti Megasar er þó hiklaust Tvær stjörnur. Gríðarlega fallegt og táknrænt. Eitt af uppáhaldslögunum mínum. Sætt og ljúft lag.

Endurkoma Sykurmolanna

Sykurmolarnir Sykurmolarnir er ein vinsælasta hljómsveitin í íslenskri tónlistarsögu og henni hlotnaðist alheimsfrægð. Í kvöld koma Sykurmolarnir saman í Laugardalshöll í fyrsta skipti í tæpan einn og hálfan áratug. Tveir áratugir eru frá stofnun Sykurmolanna á þessu ári. Þetta er því dagur endurkomu fyrir þessa merku hljómsveit og má búast við líflegum tónleikum. Þúsund tónleikagestir koma gagngert á tónleikana erlendis frá.

Sykurmolarnir var stofnuð árið 1986 í framhaldi af stofnun Smekkleysu. Stofnendur Sykurmolanna voru Bragi Ólafsson, Björk Guðmundsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Einar Melax, Friðrik Erlingsson og Sigtryggur Baldursson. Síðar bættust við þau Þór Eldon og Margrét Örnólfsdóttir. Fyrsta útgáfa hljómsveitarinnar var smáskífa með lögunum Ammæli og Köttur. Varð Ammæli gríðarlega vinsælt um allan heim og markaði það sem við tók. Varð Ammæli eitt vinsælasta lag níunda áratugarins og er hiklaust þekktasta lag hljómsveitarinnar.

Fyrsta stóra plata Sykurmolanna hét Life´s Too Good og kom út árið 1988 og naut mikilla vinsælda um allan heim. Erlendis urðu Sykurmolarnir auðvitað þekktir sem The Sugarcubes. Aðrar plötur Sykurmolanna voru Here Today, Tomorrow, Next Week! og kom út árið 1989 og svo hin stórfenglega Stick Around for Joy, á árinu 1991. Safnplötur Sykurmolanna voru Its It og The Great Crossover Potential. Hljómsveitin hætti störfum árið 1992. Lokatónleikar hljómsveitarinnar voru 17. nóvember 1992, á þessum degi því fyrir fjórtán árum.

Ég hef alltaf verið mikill unnandi tónlistar Sykurmolanna. Hún markaði skref í tónlistarsöguna og eftir standa eftirminnileg lög og lífleg augnablik. Það er ánægjulegt að hún komi aftur saman nú. Ekki eru gefnar neinar vonir með frekari hljómleika, svo að þetta gæti orðið einstök upplifun fyrir aðdáendur hljómsveitarinnar.

mbl.is Þúsund tónleikagestir til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brosað með Baggalút

Baggalútur Fastur liður í vefrúntinum á hverjum degi er hinn óborganlegi vefur félaganna á Baggalút. Stórskemmtilegur og flottur vefur með góðu gríni. Allavega hentar hann vel mínum húmor. Finnst þeir félagar þar algjörir snillingar. Lög þeirra hafa létt mörgum lundina. Á hverju ári bíðum við svo eftir sykursætu aðventulagi vefsins og vel rokkuðu jólalaginu.

Finnst plöturnar þeirra virkilega góðar. Sú fyrri: Pabbi þarf að vinna..., var með flottum lögum og góðum húmor, eins og þeirra er von og vísa. Sérlega eru flott þar titillagið og svo auðvitað Settu brennivín í mjólkurglasið vina.... Alveg eðall. Platan þeirra í sumar: Aparnir í Eden, er ekki síðri og t.d. er lagið Allt fyrir mig með Bo Hall rosalega gott og grípandi. Textinn stuðaði suma, en hann er nettur og hress að hætti Baggalútsmanna.

Á fimmtudagskvöldið horfði ég á fínan skemmtiþátt Hemma Gunn á Stöð 2. Þar var frumflutt enn eitt úrvalslagið með Baggalút. Það heitir einfaldlega: Brostu! Fannst þetta grípandi og gott lag, eins og mörg hin lögin. Það passar allavega vel við núna um háveturinn. Það jafnast enda einfaldlega ekkert á við að brosa. Eitt bros getur enda dimmu í dagsljós breytt, eins og skáldið sagði. :)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband