Færsluflokkur: Tónlist
4.12.2007 | 11:06
Vinsældir eilífðartöffarans Bó Hall
Hef t.d. alltaf metið mikils hversu öflugur hann er í textaframburði, hann er einn af þeim fáu hér heima sem getur sungið ensku af fagmennsku og hann syngur hvert orð af innlifun, tært og undurljúft. Það skilja allir hvert orð í söng Björgvins. Hann er svona eins og Raggi Bjarna og Haukur Morthens sinnar kynslóðar. Reyndar er Bubbi Morthens aðeins fimm árum yngri en Björgvin en það er ekki rétt að bera þessa tvo tónlistarmenn saman, svo stórir eru þeir báðir í tónlistarsögu okkar og hafa markað mikil áhrif á sínum vettvangi bransans.
Björgvin hefur líka staðið sig vel í jólatónlist og virðist helst vera í umræðunni þessa dagana vegna tónleikanna um næstu helgi og útgáfu nýrrar jólaplötu. Það eru tveir áratugir síðan að Björgvin gaf út sína fyrstu jólagestaplötu. Þar var fókusinn ekki á að syngja gömlu jólalögin sem allir þekktu heldur spáð í nýjum lögum - leitað var til Ítalíu og settar jólakúlur á góð ítölsk lög. Þetta form hefur ekki klikkað og mörg eftirminnilegustu jólalög síðustu áratuga eru ítalíuskotnu jólalögin hans Björgvins.
Nokkur jólalög með Björgvini og gestum hans eru í tónlistarspilaranum hér á vefnum. Eins og allir ættu að taka eftir er kominn jólabragur á spilarann, enda viðeigandi, þar sem aðeins tuttugu dagar eru til jóla. Best allra þessara jólalaga sem Björgvin ættleiddi frá Ítalíu og gerði að sínum er dúett hans og Ruth Reginalds - það er að sjálfsögðu í spilaranum.
Bó plataði Loga í beinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2007 | 22:38
Mikill áhugi fyrir jólatónleikum Björgvins
Er hreinlega ekki viss hvað Björgvin hefur sungið mörg jólalög. Sennilega eru þau nærri að fylla hundraðið. Hann hefur hinsvegar gefið út hið minnsta fjórar jólaplötur sjálfur og sungið á mörgum öðrum plötum með hinum ýmsu listamönnum úr ólíkum áttum. Ætlar hann að vera með gesti á jólatónleikunum og eflaust verða tónleikarnir yndislegir. Björgvin hefur jafnan gert hlutina annaðhvort upp á 110% eða sleppt þeim. Það má því stóla á vandaða umgjörð, rétt eins og fylgir plötum hans og tónleikum jafnan.
Það verður reyndar áhugavert að sjá núna hvort bætt verður við tónleikum fyrst uppselt var á innan við klukkutíma á þessa einu. Ekki yrði ég undrandi á því að reynt yrði að bæta við tónleikum fyrst áhuginn fyrir þeim er svo mikill sem raun ber vitni.
Uppselt á jólatónleika Björgvins Halldórssonar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 01:07
Andrea Bocelli á Íslandi - frábær listamaður
Það var leiðinlegt að geta ekki farið á tónleikana hans, en það stendur þannig á að það er ekki hægt. Ef hefði verið helgi hefði ég hiklaust skellt mér. Verð því að láta mér nægja tónlistardiskana með honum á cd og dvd. Það er efni sem klikkar aldrei. Þetta hefur eflaust verið tónlistarupplifun af yndislegum toga í kvöld og þeir sem þar fóru hafa eflaust farið syngjandi sælir úr Egilshöll. Hann hefur notalega nærveru sem persóna og heillar fólk með söng sínum.
Andrea Bocelli hefur sömu náðargjöfina og meistari Luciano Pavarotti. Báðir snerta þeir streng í brjósti þeirra sem hlusta á tónlist - syngja frá hjartanu og eru einlægir í túlkun sinni. Báðir eru þeir alþjóðlegir söngvarar sem hrífa fólk með sér. Hann er að mínu mati einn allra besti tenórsöngvari í heiminum eftir að Pavarotti skildi við, hefur sömu stöðu fyrir nútímann og Pavarotti hafði áður að mjög mörgu leyti.
Eitt besta lag tónlistarferils Bocelli, Time to Say Goodbye, dúett með Söruh Brightman, er í tónlistarspilaranum hér á síðunni. Eitt af allra fallegustu lögum síðustu áratuga að mínu mati.
Bocelli í Egilshöll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.9.2007 | 15:16
Draumur um Nínu er frábært lag
Mér hefur alltaf fundist Draumur um Nínu besta lagið sem við höfum sent í Eurovision, ef frá er skilið All Out of Luck með Selmu Björns, sem var hársbreidd frá því að vinna keppnina fyrir um áratug (sem reyndar var mikil skömm að varð ekki reyndin). Það má vel vera að einhverjir þoli ekki þetta lag, en hey þetta er ekki versta lag íslenskrar dægurlagasögu. Gæti eflaust setið hérna í allan dag og tínt til lög sem eru verri allavega. Gott dæmi er lagið sem varð í öðru sæti í þessu vali, allavega mun frekar.
En kannski er það svo að ballaðan um Nínu sé umdeilt lag, en ég hef aldrei orðið var við annað en að þetta sé lag sem allir kunni og vilji syngja. Það er allavega mín reynsla. Er því sannarlega ósammála þessu vali.
Lagið Draumur um Nínu er í spilaranum hér á síðunni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2007 | 18:18
Avril í vanda - undarlega orðuð frétt
Orðalagið í fréttinni er mjög skringilegt og vekur athygli. Sérstaklega fannst mér fyrirsögnin vera kostuleg að mörgu leyti. Það vekur athygli að talað er um að hún geti verið þjófótt. Svolítið spes. Annars hef ég heyrt þetta lag en þess þá síður heyrt lagið frá þessari hljómsveit The Rubinoos, sem ég hef aldrei heyrt talað um. Viti einhver deili á henni eða lögum hennar væri gott að heyra um það hér í kommentakerfinu.
Það er að verða sífellt algengara að þekkt lög séu véfengd. Það verður fróðlegt að heyra hvernig þetta mál fari og ekki síður baráttan milli Jóhanns og Rolfs.
Er Avril Lavigne þjófótt? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2007 | 20:23
Jóhann Helgason kærir stuld á laginu Söknuði
You Raise Me Up er samið af Norðmanninum Rolf Lovland. Hann hefur dvalið langdvölum á Íslandi og telur Jóhann að hann hafi samið lagið undir áhrifum af Söknuði. Sjónvarpsþátturinn Kastljós fjallaði um málið í tilefni Íslandsfarar Josh Groban og þá kipptist söngvarinn allsnarlega við að heyra lagið Söknuð, sem skiljanlegt er miðað við hversu lík lögin eru.
Lagið Söknuður hljómaði fyrst opinberlega á plötunni Hana nú árið 1977, síðustu hljómplötu Vilhjálms Vilhjálmssonar, skömmu fyrir andlát söngvarans, sem sjálfur samdi textann við lagið. Það er öllum ljóst að líkindi laganna eru mikil og mun Jóhann ætla að láta reyna á sína stöðu.
Lögin Söknuður og You Raise Me Up eru bæði í spilaranum hér, fyrir þá sem vilja hlusta aftur á þau.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2007 | 15:52
Björgvin og Raggi syngja loks saman dúett
Það er viðeigandi að þeir syngi saman undurfagurt lag Ragga sjálfs við glæsilegt ljóð Steins Steinarrs, Barn. Lagið var samið í upphafi áttunda áratugarins og er eitt besta lagið sem Raggi hefur sungið á löngum tónlistarferli. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég sá þessa frétt að þeirra leiðir hefðu aldrei legið saman í dúett með neinu tagi fyrr en núna, eiginlega seint og um síðir.
Þetta eru svo áberandi fulltrúar íslenskrar tónlistar fyrr og nú að það er með ólíkindum að svo seint komi að því að þeir taki lagið saman. Það er jafnan svo mikið um dúetta og allskyns útgáfur að það er mjög spes að aldrei hafi nokkrum manni dottið í hug að láta þá syngja saman. Það verður áhugavert að heyra lagið Barn í þessari útsetningu.
Viðbót - kl. 19:30
Nýrri útgáfa lagsins Barn í flutningi Ragnars Bjarnasonar, frá árinu 2004, er í spilaranum hér á síðunni minni.
Björgvin Halldórsson og Ragnar Bjarnason syngja saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2007 | 12:24
Serbía sigrar í Eurovision - skrautleg keppni
Mér fannst serbneska lagið mjög fallegt og það verðskuldaði vissulega sigur. En mörg önnur lög verðskulduðu sigur. Vond útreið V-Evrópuþjóðanna í undanriðlinum var gríðarlega áberandi. Sérstaklega vakti vond staða Íslands mikla athygli. Hinsvegar var Eiríkur Hauksson sorglega nærri því að komast áfram. Honum vantaði svipað lítið upp á það og Silvíu Nótt fyrir ári þegar að hún datt út með Congratulations.
Enn er talað um hvað eigi að gera varðandi þessa keppni. Það er ljóst að eitthvað verður að stokka hana upp. Mér finnst ekki galin hugmynd að hafa einfaldlega tvær keppnir á svipuðum tíma, þar sem annarsvegar er fókuserað á vesturhluta Evrópu og hinsvegar austurhlutann. Þetta eru mjög ólíkar tónlistarstefnur og samræmast illa. Þetta eru tveir menningarheimar, enda mjög ólík svæði.
En það væri gott að heyra í þeim sem lesa um hvað hafi verið uppáhaldslagið þeirra og hvað þeim finnst að eigi að gera varðandi keppnina.
Veðjaði aleigunni á sigur dóttur sinnar í Evróvisjón | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.5.2007 | 14:58
Samsæri í Eurovision - verður keppninni breytt?
Það er alveg ljóst, og staðfestist af úrslitum kosningarinnar í gærkvöldi, að möguleikar Íslands á að komast upp úr botninum eru hverfandi og greinilegt að stokka verður keppnina upp. Ólgan hefur oft verið ráðandi hér heima allt frá því að Selmu Björnsdóttur mistókst að komast upp úr botninum með If I had your Love í maí 2005 í keppninni í Kiev. Í fyrra var talað um að Silvía Nótt hefði skemmt fyrir sér og því ekki komist áfram. Staða Eiríks nú vekur nýjar spurningar.
Ekki aðeins reyndar er staða Eiríks rædd þarna heldur staða Vestur-Evrópu almennt. Í raun væri heiðarlegast að brjóta upp keppnina. Þarna keppa yfir 40 lönd um árangur. Það væri auðvitað best að hafa keppni fyrir Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu. Með því væri eflaust tekið á þessu og um leið væri auðvitað tekið á þessum undanriðli og keppninni skipt upp í heiðarlegar heildir, enda er tónlistarsmekkurinn mjög misjafn á svæðinu og því miður er ráðandi staða þjóðanna í austri að eyðileggja keppnina..
Eiríkur Hauksson er töffari, hefur alltaf verið það og mun verða það í huga landsmanna. Hann talaði hreint út í gærkvöldi. Ég get tekið undir hvert einasta orð hans í þessu viðtali við Sigmar bloggvin minn. Það verður að taka þessa keppni í gegn og gera hana eðlilegri vettvang, ekki klíkumyndun og samsærisplotterí milli þjóða með þeim napra hætti sem blasir við.
Eigi Ísland að taka áfram þátt í keppninni verður að stokka hana upp, enda er orðrómurinn um samsærið ekki lengur íslenskur heldur ómar um alla V-Evrópu. Það er engin furða á því.
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.5.2007 | 23:45
Eiríkur kemst ekki áfram - vonbrigði í Helsinki
Eiríkur var greinilega hundfúll með stöðu mála í viðtali í tíufréttum í kvöld. Ég skil hann mjög vel. Það fer að verða umhugsunarefni um framtíð okkar í þessari keppni þykir mér. Staða mála er ekki góð og vakna spurningar um hvort við getum yfir höfuð komist lengra en þetta. Botninn er að verða harður fyrir okkur þarna.
Við í fjölskyldunni komum saman og áttum yndislega stund; grilluðum saman og nutum kvöldsins. Það var því gaman hjá okkur þó að það séu auðvitað gríðarleg vonbrigði að Eiríki hafi ekki tekist að komast áfram. En þannig er nú það bara. Heldur litlausara verður að fylgjast með úrslitakvöldinu á kjördag... án Eika rauða.
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)