Færsluflokkur: Tónlist

Flott söngkeppni á Akureyri - þörf á breytingum?

Sigurður Þór Óskarsson Við á Akureyri megum vera stolt af söngkeppni framhaldsskólanna, sem var haldin hér í bænum í kvöld. Hún tókst í alla staði mjög vel upp og gott að metnaður sé fyrir því af hálfu allra aðila að senda keppnina út héðan. Held að þetta sé í þriðja eða fjórða skiptið sem það var gert. Anna Katrín og Eyþór Ingi unnu keppnina bæði hérna heima á sínum tíma, fyrir sína skóla - MA og VMA.

Vil óska Sigurði Þór Óskarssyni, sem söng fyrir Verzlunarskóla Íslands, innilega til hamingju með verðskuldaðan sigur, en mér fannst hann standa sig hiklaust best í kvöld með flott lag, íslenskaða útgáfu af The Professor með Damien Rice. Fulltrúar skólanna hér stóðu sig vel; bæði Stefán Þór Friðriksson með Radiohead-lagið Fake Plastic Trees og Helga Maggý Magnúsdóttir með Coldplay-smellinn Fix You. Lagið sem lenti í þriðja sætinu, sungið af fulltrúa FÁ, var líka súpergott. 

Hér um helgina hefur mikið af ungu fólki verið í bænum vegna keppninnar og ég vona að það hafi skemmt sér vel og notið þess að koma norður. Vonandi verður það fastur liður hér eftir að keppnin sé haldin hér nyrðra. Skemmtilegt að horfa á keppnina, enda eru mörg góð tónlistarefni í þessum hópi, flestir undirbjuggu sig vel og lögðu allt sitt í atriðið. Flest mjög fagmannlega gert. Ekki geta allir unnið, en ég hef trú á því að í þessum hópi sé margir mjög efnilegir söngvarar sem geti farið mjög langt.

Í fyrra sigraði Dalvíkingurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson keppnina, fyrir VMA, með Deep Purple-laginu Perfect Stranger. Man ekki hvað það hét á íslensku í flutningi hans. En hvað með það, Eyþór Ingi stóð sig langbest í keppninni þá og hefur vakið mikla athygli síðan. Þá varð Arnar Már Friðriksson í öðru sætinu, man reyndar ekki fyrir hvaða skóla. Þeir keppa um næstu helgi til úrslita um söngvarastöðuna í Bandinu hans Bubba. Tveir flottir söngvarar. Mér finnst þó Eyþór Ingi bera af og er viss um að hann sigri.

Reyndar er einn galli við keppnina. Hún er eiginlega of löng. 32 söngatriði eru ansi veglegt prógramm og væri ekki svo galið að splitta keppninni upp og gera þetta þéttara prógramm. Þó það sé alltaf gaman af söngkeppnum er þetta kannski einum of langt. Mætti hugsa um margar leiðir til að stokka þetta eitthvað upp.

mbl.is Verslósigur í söngkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul Simon með tónleika á Íslandi í júlí

Paul Simon Jæja, þá er Paul Simon á leiðinni á klakann til að halda tónleika í sumar. Seint og um síðir. Held að það sé rétt munað hjá mér að hann hafi aldrei komið hingað á tónleika áður og við því aldrei heyrt í dúettnum margfræga, Simon og Garfunkel. Hef svosem aldrei verið mikill aðdáandi Paul Simon, en virði mjög framlag hans til tónlistarinnar. Hann er einn af þessum söngvurum sem hefur virkilega markað söguleg skref í sínum bransa.

Verð hinsvegar að viðurkenna að ég hef alla tíð dýrkað þá tvo saman, Art Garfunkel og Paul Simon. Þegar að þeir sömdu tónlistina við hina yndislegu kvikmynd, The Graduate, árið 1967 komu með þeir eitthvað svo innilega ferskt og gott í bransann, tónlist sem hefur staðist tímans tönn. Þeir voru auðvitað frábær dúett og lögin þeirra algjör meistaraverk. Sérstaklega finnst mér The Sounds of Silence þar standa upp úr, en röddunin og takturinn í laginu er hrein snilld.



Mrs. Robinson er auðvitað tímamótasnilld sem aldrei klikkar, en mér finnst Scarborough Fair, ekki mikið síðra lag, eiginlega vinna meira á með árunum. Það er eitthvað við þetta lag sem er svo traust og magnað. Bridge Over Troubled Water er svo eitt af þessum ódauðlegu lögum sem aðeins verða betri með árunum.



Kannski maður skelli sér á tónleikana. Á í tónlistarsafninu tónleikana þeirra í Central Park, sem eru með þeim bestu fyrr og síðar. Alveg yndislegir. Þetta eru lög sem lifa og tónlistarmenn sem gerðu saman nokkur af bestu lögum allra tíma að mínu mati.

Sem minnir mig á eitt: það er orðið alltof langt síðan að ég hef séð The Graduate! Ein af þeim bestu fyrr og síðar.

mbl.is Paul Simon með tónleika á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingurinn Morricone og meistaraverkin hans

Ennio Morricone Er að horfa á ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone stjórna útvarpshljómsveitinni í Berlín við að leika meistaraverkin hans í Sjónvarpinu. Þvílík snilld. Að mínu mati er Morricone besta kvikmyndatónskáld allra tíma, með sterk höfundareinkenni og fágaður í verkum sínum en samt svo djarfur í tilraunum sínum með tónlistarform kvikmyndanna.

Morricone hefur samið fagra tóna sem hafa prýtt stórmyndir í yfir hálfa öld. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á Cinema Paradiso (uppáhaldsmyndin mín), The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, Malena, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Spagettívestratónlistin er einstök að öllu leyti og ekki hægt að bera hana saman við neitt. Mikil snilld sem eru alveg í sérflokki. Utan þeirra verka standa fjögur verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, Harvest úr Days of Heaven og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll snerta þau hjarta sannra kvikmyndaunnenda - svo falleg eru þau.

Þrátt fyrir óumdeilda snilld sína hefur meistari Morricone aldrei hlotið óskarinn fyrir kvikmyndatónlist sína, þrátt fyrir ótalmargar tilnefningar. Hann hlaut hinsvegar heiðursóskarinn í Los Angeles í febrúar 2007 - var það síðbúinn og löngu verðskuldaður virðingarvottur við æviframlag þessa mikla meistara til kvikmyndamenningarinnar.

Morricone hefur alltaf kunnað þá list að semja tónlist sem hittir í hjartastað. Eitt fallegasta kvikmyndatónverk hans, Heaven úr Days of Heaven, er í tónlistarspilaranum auk hins frábæra lags Cavallina a Cavallo sem hann samdi sérstaklega fyrir Ciccolinu, og hún söng svo eftirminnilega, og stefsins í The Untouchables.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna og um leið djarfur í sköpun sinni. Þakka innilega Sjónvarpinu fyrir að færa okkur kvikmyndaáhugafólki þessa fögru kvikmyndatóna.

Þrír áratugir frá andláti Vilhjálms Vilhjálmssonar

Vilhjálmur Vilhjálmsson Þrír áratugir eru liðnir frá því að Vilhjálmur Vilhjálmsson, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, lést í umferðarslysi í Lúxemborg. Villi Vill er að mínu mati besti söngvari sinnar kynslóðar - hafði tæra og hljómþýða rödd, algjörlega einstaka og pottþétta að öllu leyti. Um leið er Villi einn af þeim allra bestu á síðustu öld. Þeir eru fáir sem hafa markað stærri skref í íslenska tónlistarsögu á svo skömmum tíma eins og hann gerði.

Villi varð fyrst frægur þegar að hann söng lögin Vor í Vaglaskógi, Raunasaga, og Litla sæta ljúfan góða með Hljómsveit Ingimars Eydals hér á Akureyri árið 1965 og voru allir vegir færir eftir það. Ekki aðeins vegna þess að hann var bróðir einnar ástsælustu söngkonu þjóðarinnar, Ellyjar Vilhjálms, heldur vegna þess að hann hafði allt sem þurfti. Á þrettán árum tók hann upp fjölda laga og lét eftir sig fjölbreytt og vandað ævistarf þegar að hann kvaddi þennan heim langt um aldur fram í sorglegu slysi.

Það var mikið áfall fyrir íslenska tónlist að missa Villa sem aðeins 33 ára gamall hafði náð hátindi í sínum bransa og hafði planað svo margt meira í tónlistinni. Það var mikill harmleikur fyrir íslenskan tónlistarbransa að honum auðnaðist ekki að eiga fleiri ár í tónlistarsköpun sinni. En Villi lét eftir sig mikið og veglegt safn af vönduðu efni og enn í dag hlustar þjóðin á þennan frábæra söngvara. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan að vegleg minningarútgáfa á lögum Villa fór í gull og er orðin ein mest selda plata af endurútgefnu efni til þessa. Hann heillar fólk af öllum kynslóðum - jafnt unga sem aldna.

Eftir því sem árin líða met ég Villa meira. Mér finnst hann vera sá söngvari á síðustu áratugum sem var einlægastur í tónlistarsköpun sinni, söng tærast og hljómþýtt. Hann náði að afreka mjög miklu og hans sess er ódauðlegur meðal þjóðarinnar í íslenskri tónlist. Það er mjög ánægjulegt að heyra að fundist hafi eitt lag til viðbótar við hans vandaða ævistarf og enn megi eiga von á að upplifa söngröddina hans Villa í nýju lagi á næstu mánuðum. Það er mikill fjársjóður fyrir íslenska tónlist.

Uppáhaldslögin mín með Villa Vill eru svo ótalmörg; en mér finnst þó Lítill drengur, Söknuður, Jamaíka, Þú átt mig ein, Það er svo skrítið, Ég labbaði í bæinn og Vor í Vaglaskógi standa upp úr. En það er hægt að telja endalaust upp eftirminnileg lög. Einshljóðfærissinfónían er svo algjörlega ógleymanlegt lag - þvílík snilld.

Villi er einfaldlega háklassi í íslenskri tónlist - ber mikla virðingu fyrir framlagi hans og ævistarfi í tónlist. Guð blessi minningu hans.

Er Bandið hans Bubba eðall eða hágæðarusl?

Bandið hans Bubba Bandið hans Bubba er umtalaðasti þátturinn núna. Annaðhvort er elskað að hata þáttinn og dissa Bubba í tætlur, eða dýrkað bæði kóng og showið. Ekki vantar umtalið og Bubbi hefur sjálfur kryddað vel í það með yfirlýsingum um mann og annan. Hiklaust allt eitt risastórt plott til að næla sér í umfjöllun og athygli, sem hefur tekist. Bubbi er eitt mesta yfirlýsingatröll síðustu áratuga, pólitískur og mannlegur í skotheldri blöndu, og nær enn athygli út á það, síðast sem yfirlýsingabloggarinn Ásbjörn.

Hef haft gaman af þættinum hans Bubba. Kannski ekki vegna Bubba prívat og persónulega, heldur vegna þeirra söngtalenta sem þar eru algjörlega að blómstra. Missti alveg af kynningarkvöldunum og sá því keppendur fyrst í þessari uppsetningu í sjónvarpssal. Þessir tíu söngvarar sem héldu í vegferðina til að fronta bandið hans Bubba eru mjög misjafnir en eiga allir heiður skilið fyrir að leggja í slaginn og taka lög, sum misjafnlega æfð í framkomu og eru að slípast til eins og demantar með hverju kvöldinu, á meðan að sumir finna ekki fjölina sína.

Frá fyrsta kvöldinu hef ég átt mína tvo uppáhaldskeppendur. Ef allt er eðlilegt fara þeir í úrslitin. Þeir sem mér fannst lélegastir í keppninni eru farnir heim fyrir nokkru sem betur fer. En það er alveg kristalstært að Eyþór Ingi og Arnar eru svo algjörlega langbestir í þessari keppni að úrslitaþátturinn hlýtur að vera á milli þeirra. Þvílíkir snillingar. Dalvíkingurinn Eyþór Ingi er auðvitað náttúrutalent og það segir allt um hæfileika hans að Bubbi skyldi sækja hann til þátttöku á vinnustaðinn í Sundlauginni á Dalvík, leggja lykkju á leið sína og sækja þennan frábæra söngvara í keppnina. Enda er hann að standa sig frábærlega.

Arnar hóf þessa keppni með frábærri íslenskaðri útgáfu af Queen-smellinum The Show Must Go On og var algjörlega frábær og hefur verið í sérflokki alla tíð síðan, var síðast að brillera í gærkvöldi með Álfa Magnúsar Þórs. Frábær frammistaða og alveg ljóst að kappinn fer í úrslitaþáttinn. Hinir þátttakendurnir eru svona misjafnlega mikið la la. Þeir sem hafa verið lakastir hafa verið að detta út einn af öðrum. En það er ljóst hvert stefnir og allt er eðlilegt með tónlistarsmekk landans fara Eyþór Ingi og Arnar í úrslitin.

Það er deilt um það hvort svona söngprógramm virki. En svo fremi sem að við fáum frábæra söngvara í íslensku tónlistarflóruna, söngvara sem geta meikað það án athyglinnar sem fylgir vikulegum sjónvarpsþáttum og nafni kóngsins Bubba að þá er þörf á svona þáttum. Og ég er viss um að flestir þessir keppendur finna sína fjöl þó að það sé eins og gengur svo að það eru afburðakeppendur í hverjum leik. Þeir eru sannarlega þessir tveir söngvarar sem eru á öðrum klassa en aðrir.

Bubbi er bara fínn. Hef ekki alltaf verið sammála honum. En ég er hrifinn af pólitíska tóninum í honum, yfirlýsingum um mann og annan. Þetta er bara hans stíll. Það væri stílbrot ef Bubbi færi að breyta sér á sextugsaldri fyrir einhverja besservissera úti í bæ. Þetta er Bubbi, hann var fílaður svona í denn og engin þörf á að breyta því á 21. öld.

mbl.is Bubbabörnum boðið upp á tattú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviðshræddu stjörnurnar með grímuna

MadonnaÞað er svolítið skondin staðreynd að söngkonan Madonna taki kvíðaköst í hvert skipti áður en hún fer á svið og óttist jafnvel að deyja við að skemmta aðdáendum sínum, svo mikil sé paníkin innst inni. Madonna hefur verið þekkt fyrir að vera með ákveðnari stjörnum í sínum bransa og óhikað sýnt allt og verið áberandi við allt að því að glenna sig til að ná athygli fólks um allan heim. Þeir sem muna eftir Madonnu í gegnum tíðina sjá ekki sviðshræddu stjörnuna, heldur þá sem hefur gaman af að stuða.

Þegar að Madonna lék í Dick Tracy árið 1990 og átti í stuttu ástarsambandi við leikarann Warren Beatty, sem lék Tracy eins og flestir vita auðvitað, þótti hún vera á vissum hápunkti. Átti marga smelli undir lok níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda - var líka djörf á því skeiði og ófeimin við að syngja fáklædd á sviði og opinbera allt hið heilagasta í einkalífi sínu og karakter. Það er því svolítið sérstakt að Madonna skuli viðurkenna, nú þegar að hún er orðin fimmtug, að hún sé paníkeruð fyrir hverja framkomu og óttist um að geta jafnvel ekki klárað prógrammið.

Það er margþekkt að stjörnur setji á sig vissa grímu, fari í annan karakter, til að klára prógrammið sitt og nái vissum hæðum í túlkun sinni í leik og söng með því að vera allt annar en innsti kjarninn ætti að sýna í sjálfu sér. Flestir muna eftir leikaranum Peter Sellers, sem aldrei var í eigin karakter en gat leikið óteljandi karaktera með miklum glans en faldi sig á bakvið allan þann fjölda alla tíð. Margir tala líka um leikarana Bill Murray, Steve Martin og Chevy Chase með sama stíl. Laddi er þekkt dæmi hér heima og í söngbransanum eru til fjöldi söngvara sem hafa viðurkennt að setja á sig grímu til að fela innsta óttann í eigin karakter fyrir aðdáendum.

Madonna bætist nú í þann flokk. Það eru viss tíðindi. Þeir sem hafa fylgst með henni í þessa tvo áratugi sem hún hefur verið á toppi sinnar frægðar hafa jafnan talið hana eina sviðsöruggustu manneskju bransans, sem þorir að gera allt og sýna allt til að halda í frægðina. En kannski er það eitt stórt skuespil til að fela innsta kjarnann og þann viðkvæmasta.

mbl.is Óttast að deyja á sviðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarna fædd í Idol - yndisleg útgáfa á Imagine



Lagið Imagine eftir John Lennon er eitt fallegasta lag 20. aldarinnar, tímalaus klassík sem aldrei klikkar. Í gær tókst hinum sautján ára David Archuleta að gera lagið að sínu í American Idol svo að aðdáunarvert telst. Sá þennan tónlistarflutning og hugsaði með mér að ekki þyrftu þau að leita meira að amerísku stjörnunni. Hún væri komin til sögunnar. Held að Archuleta muni fara létt með að vinna keppnina. Þvílíkur söngvari og það aðeins sautján ára.

Hlustið á Imagine með honum í þessari nýju útsetningu. Þvílíkur draumur segi ég bara. Orginalinn með Lennon er í tónlistarspilaranum hér á síðunni.

Frikki og Regína til Serbíu - glæsilegur sigur

Regína Ósk og Friðrik Ómar Vil óska Frikka og Regínu innilega til hamingju með glæsilegan sigur í söngvakeppninni í kvöld. Þau komu, sáu og sigruðu með This is My Life - var einfaldlega langbesta lagið og atriðið í kvöld. Það bætti lagið mikið að yfirfæra það á ensku með aðstoð Páls Óskars og breyta aðeins taktinum í því. Allavega, stórglæsilegt í alla staði. Og auðvitað kaus ég þetta lag.

Er mjög ánægður með að alvöru lag með góðum söngvurum fer fyrir okkar hönd út að þessu sinni, rétt eins og í fyrra þegar að Eiríkur Hauksson fór út með pottþétt rokklag, sem því miður komst ekki í úrslitakeppnina. Fannst Ho Ho Ho, We Say Hey Hey Hey ágætt lag en mér fannst það síga mjög við að taka bakraddirnar út og það varð mun flatara. Þó að það hafi verið ágætt lag og þau sem sungu það staðið sig vel átti það ekki roð í This is My Life.

Það er löngu kominn tími til að Regína og Frikki fari út og keppi í Eurovision. Það var reyndar einn mesti skandall íslenskrar Eurovision-sögu þegar að Regína tapaði keppninni hérna heima fyrir tveim árum og fór ekki út með lagið Þér við hlið. Það er eitt besta lagið í Eurovision-sögunni okkar. Er sannfærður um að það lag hefði náð góðum árangri, mun betri en Silvía Nótt náði. Frikki hefur viljað fara út í mörg herrans ár - varð í þriðja sæti fyrir tveim árum og í öðru sætinu í fyrra, tapaði naumlega fyrir Eika Hauks. Það er ánægjulegt að sjá hann fara út núna.

Friðrik Ómar og ég þekkjumst frá því í denn á Dalvík, erum æskuvinir. Eru orðin eitthvað um tuttugu ár síðan að við kynntumst. Hann hefur sífellt verið að bæta sig í tónlistinni og stendur sig mjög vel. Fólkið útfrá og við öll hér reyndar getum verið stolt af framgöngu hans. Ekki hefði mér órað fyrir fyrst þegar að ég kynntist Frikka að hann ætti eftir að enda í Eurovision sem fulltrúi okkar, en þó vissi ég að hann ætlaði sér langt og tónlistin hefur verið hans líf í mörg ár.

En já; enn og aftur innilegar hamingjuóskir til Frikka og Regínu. Þið eigið þetta skilið! Gangi ykkur últravel í Serbíu í vor! :)

mbl.is Eurobandið fer til Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eric Clapton að koma til Íslands

Eric Clapton Það verður ekki um það deilt að Eric Clapton er einn besti tónlistarmaður síðustu áratuga, goðsögn í lifanda lífi. Það er því mjög ánægjulegt að hann sé að koma til Íslands og halda tónleika. Loksins, loksins, segja eflaust helstu aðdáendur hans. Clapton hefur verið goð sinnar kynslóðar og að svo mörgu leyti annarra. Auðvitað ekki vegna margfrægs lífstíls síns, heldur umfram allt tónlistarinnar. 

Aldrei hefur Clapton þó snortið mig og eflaust fleiri meira en þegar að hann samdi og söng hið undurljúfa lag sitt Tears in Heaven - þar braust rokkgoðið harða og ákveðna allt að því fram með tárin í augunum og samdi kveðjuóð til sonar síns, Connors, sem hafði látist með sorglegum hætti í New York. Þar fór lífsreyndi rokkarinn með tilfinningar, eins og við öll, en líka faðirinn með ábyrgðartilfinninguna sem hafði boðskap fram að færa - talaði hreint út, lét tilfinningarnar koma óhikað. Og lagið er einstakt.



Annars er erfitt að nefna bestu lög Claptons, en þau sem koma helst í huga mér eru lög á borð við; Layla, Tears in Heaven, Crossroads, Bellbottom Blues, Have You Ever Loved A Woman, Badge, Cocaine, I Shot the Sheriff, My Father´s Eyes, Change the World, Old Love og Wonderful Tonight. Allt perlur rokksögunnar að sínu leyti, minnisvarði um rokkgoð.

Eric Clapton er einn þeirra sem hefur flutt sterk og eftirminnileg lög, sem þekja allan skalann, eru eftirminnileg, ekkert síður en karakterinn á bakvið lögin. Gott að fá hann hingað á konsert. Verður hann ekki Íslandsvinur með því?


mbl.is Clapton með tónleika á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósvikin jólastemmning hjá Bó Hall í Höllinni

Björgvin og Sigga Það hefur eflaust verið ósvikin jólastemmning hjá Björgvini Halldórssyni og gestum í Höllinni í dag. Bó fyllti Höllina þrisvar og geri aðrir betur á jólatónleikum. Annars er með ólíkindum að hann hafi ekki haldið jólatónleika áður. Björgvin hefur sungið mikinn fjölda jólalaga og meðal annars gefið út fjórar sérstakar jólaplötur í eigin nafni með gestum, en sungið á fleirum í gegnum tíðina.

Fagmennska hefur löngum einkennt verk Björgvins. Hann hefur jafnan ekki gefið út efni eða haldið tónleika nema að hvert smáatriði sé vandlega úr garði gert. Það sést einna best af tónleikunum hans með Sinfó í fyrra, sem voru fullkomnir í gegn. Skildist á fréttum að á jólatónleikunum væri jólastemmning par excellence; heitt súkkulaði, piparkökur og ýmislegt fleira í boði. Það er spáð í alla þætti.

Á myndinni eru Bó og Sigga að syngja eitt jólalag saman. Væntanlega hefur það verið hið frábæra Nei, nei ekki um jólin, sem Sigga söng með HLH-flokknum á jólaplötunni þeirra fyrir rúmum tveim áratugum. Algjörlega ómissandi lag í desember. Það er að sjálfsögðu í tónlistarspilaranum hér á vefnum.

Þar eru reyndar fleiri frábær jólalög með Björgvini, t.d. dúettar hans með Svölu, Ruth og Siggu á öðrum lögum, jólalögum með ítölsku ívafi. Þar er ennfremur dúett hans með Ellý Vilhjálms, Jólafrí, en ég held að það sé eina lagið sem þau sungu saman opinberlega.

mbl.is Björgvin í jólaskapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband