Færsluflokkur: Dægurmál
23.2.2007 | 10:19
Óskiljanlega dómsmálið

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.
Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.
![]() |
Óskar eftir fundi vegna nafnlauss bréfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.2.2007 | 23:33
Anna Nicole jarðsett á Bahama-eyjum

Það var athyglisvert að sjá þegar að niðurstaðan lá fyrir. Sá þetta í beinni útsendingu á Sky. Dómarinn brotnaði saman við lestur dómsorðs og stemmningin var mjög undarleg í salnum, þar sem allir dómsaðilar komu saman. Niðurstaðan markar lok eins undarlegasta dómsmáls síðustu ára. Það að takast þurfi á hinsta legstað manneskju fyrir dómi er sorglegt og átakanlegt með að fylgjast í sannleika sagt.
Næst tekur væntanlega við að úrskurða um hver hafi verið faðir fimm mánaða gamallar dóttur Önnu Nicole Smith. Fyrst mun útför hennar fara fram væntanlega á Bahama-eyjum, líklega á allra næstu dögum. Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag hefur markað nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Þetta hefur verið táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.
Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla. Það sést vel umfram allt á þessu athyglisverða dómsmáli þar sem skorið var úr um hvor aðilinn fengi jarðneskar leifar hennar í sína vörslu. Napurt, ekki satt?
![]() |
Anna Nicole verður jarðsett á Bahamaeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 19:05
Klámþingsfulltrúum úthýst úr Bændahöllinni
Mikið líf hefur verið í bloggheimum og samfélaginu öllu eftir að forysta Bændasamtakanna ákvað að meina hópi fólks í klámbransanum um gistingu á Hótel Sögu eftir hálfan mánuð, dagana 7.-11. mars. Hiti hafði verið í samfélaginu að undanförnu vegna málsins og hótelið bognaði með athyglisverðum hætti eftir að borgarstjórn samþykkti þverpólitíska ályktun gegn klámráðstefnunni undir verkstjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra.
Aðstandendur ráðstefnunnar bregðast harkalega við á vef sínum og tala þar um að hræsni sé hjá Íslendingum að leyfa hvalveiðar en leyfa ekki aðstandendum ráðstefnunnar að koma til landsins með eðlilegum hætti. Skotin ganga þar heldur betur og yfirlýsing ráðstefnuhaldaranna er ansi beitt orðuð. Greinilegt er að Hótel Saga vísar sérstaklega í ákvörðun sinni til þess sem borgaryfirvöld hafa sent frá sér um málið. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur tók á málinu í upphafi með afgerandi ummælum borgarstjóra sem gerðist öflugur andstæðingur ráðstefnunnar við hlið femínista strax í upphafi.
Ég tjáði þá afstöðu í upphafi málsins að ég vildi ekki banna komu þessa fólks til landsins. Hinsvegar hefur staðan orðið þannig að hótelið hefur bognað og vísar til þess að borgaryfirvöld vilji ekki þessa gesti hingað. Þetta er fordæmalaus ákvörðun, man ekki eftir öðru eins, semsagt að gestum á hóteli hafi verið vísað á dyr og þeim hafnað sem viðskiptavinum. Þetta er því mjög athyglisverð ákvörðun. Ýmist er fólk ánægt eða ósátt við ákvörðunina. Það hefur valdið hvössum skoðanaskiptum á netinu.
Athyglisvert hefur verið að margir þeirra sem mest börðust fyrir komu Falun Gong-liða hér til lands á þeim forsendum að þau hefðu rétt til að koma hingað hafa stutt það að þessu fólki sé meinaður aðgangur. Ég vildi ekki meina því að koma og hef ekki stutt neitt í þá átt, enda tel ég að fólk megi koma hingað nema að það hafi beinlínis illt í huga fyrirfram. Mér finnst þetta ekki gott mál, enda vil ég að fólk hafi frelsi til að koma hingað og upplifa landið á sinn hátt.
En það er spurning hvernig að fólk metur frelsi til að koma hingað og í rauninni þetta hótel, ef út í það er farið, eftir þessa atburði. Það vakna margar spurningar við þessi sögulok að mínu mati.
![]() |
Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
22.2.2007 | 00:12
Flestir búnir að gleyma Silvíu Nótt

Um allt land fóru krakkar í búðir og fyrirtæki... voru að syngja fyrir nammi. Gamall og góður siður. Krakkarnir fóru sem fyrr í ýmis gervi. Allir skemmtu sér vonandi vel. Þegar að ég var krakki fannst mér þetta yndislegur dagur og ég tók þátt í slatta ára. Þegar að ég var tólf ára hafði ég misst áhugann og ég tók þá ekki þátt. Fannst þetta ekki minn stíll lengur. Það er eins og það er. En í minningunni sem krakki var þetta yndislegur dagur, mjög svo.
Nú er Silvía Nótt engin fyrirmynd krakkanna á öskudeginum eins og í fyrra. Er það gott eða slæmt? Ég hallast að hinu síðarnefnda og er eflaust ekki einn um þá skoðun.
![]() |
Silvía Nótt hvergi sjáanleg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2007 | 13:40
Samband tveggja skaphunda í uppnámi

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.
Nú virðist þetta allt vera að stranda á því hvort þau muni ganga í hjónaband. Jolie vill það ekki en Pitt krefst þess. Deilupunkturinn liggur þar á hvort þeirra hafi betur og virðist það vera að sliga þetta fræga samband. Hvorugt þeirra vill gefa eftir. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, en það má fullyrða að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) árið 1996 og skildi við hann árið 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.
Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.
Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Nú virðist vera að steyta allverulega á skeri hjá þeim. Það yrðu fáir hissa myndi þessu ástríðufulla og sviptingasama sambandi ljúka einmitt vegna þess að gætu ekki komið sér saman um að heita hvoru öðru ævilanga trú og ástúð.
![]() |
Samband Jolie og Pitt sagt í vanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 00:07
Leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar
Um fátt hefur meira verið rætt í dag en rúllandi kartöflur í Bónus, í bakgrunni Sölva Tryggvasonar, fréttamanns, í Íslandi í dag í umfjöllun um verð í lágvöruverslunum hér heima og í Danmörku. Ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir þessu er ég sá umfjöllunina fyrst en leit á þetta síðdegis þegar að ég heyrði umræðuna um þetta. Ég var svo upptekinn að spá í verðlagi milli þess sem gerist hér og í Danmörku að þetta fór framhjá mér.
Það hefði verið skelfilegt fyrir Bónus hefði verið músagangur þar. Hefði verið vont fyrir orðsporið og það. Þeir geta þó andað léttar enda er ljóst að þetta voru kartöflur en ekki kartöflumús þó. Hún fæst bara í duftpakkaformi þarna semsagt. Lifandi mýs eru því ekki til staðar. Í Íslandi í dag í kvöld var sýnt vel í nærmynd hvers eðlis málið er. Það þarf ekki að efast um eftir þær myndir hvernig allt er í pottinn búið semsagt.
Ég dáist að þeim sem sáu þetta í gærkvöldi meðan að háalvarleg verðmæling fór fram. Þetta fór allavega framhjá mér. Pælingarnar um þetta mál allt í dag hafa verið spekingslegar og lifandi. Skiptar skoðanir voru; sumir töldu þetta mýs og aðrir kartöflur. Það þarf semsagt ekki að rífast um þetta lengur. Kartöflur voru það, mjög vænar meira að segja; kartöflur sem myndu sóma sér sem bakaðar með grillsteikinni.
En já, leyndardómurinn um Bónus-kartöflurnar hefur verið sviptur hjúp óvissunnar og hægt að spá því í einhverju öðru. Við getum því öll sem eitt andað léttar.... með Baugi.
![]() |
Kartöflumús í Bónus? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 19:28
Harðvítugar deilur um hinsta hvílustað Önnu Nicole

Ekkert samkomulag er um nein atriði málsins og því verður það dómarans að taka ákvörðun um hvar Anna Nicole Smith verði í raun jarðsett og hvernig gengið verði frá málum dóttur hennar. Móðir Önnu Nicole, Vergie Arthur, og sambýlismaður og meintur barnsfaðir Önnu Nicole, Howard Stern, takast á í fyrrnefnda málinu en það verður væntanlega til lykta leitt á næstu dögum enda getur varla annað en talist mikilvægt að það verði ljóst fljótlega hvar stjarnan verði jarðsett. Móðirin vill jarðsetningu í Texas, en Stern vill að hún hvíli við hlið sonar síns á Bahama-eyjum.
Það er afskaplega ömurlegt að fylgjast með þessu máli. Það er eiginlega svo sorglegt að skynja það að þessi kona hefur verið umkringd fólki sem vilja aðeins hagnast á frægð hennar og ríkidæmi. Það er enda deilt um öll atriði. Það að takast þurfi á fyrir dómi um jarðsetningu er væntanlega hið sorglegasta. Það verður eins og fyrr segir dómara í ósköp venjulegum dómstól í Flórída, Larry Seidlin, að ákveða greftrunarstað - það verður því ósköp venjulegur embættismaður sem tekur þá ákvörðun vegna þess að samstaða er ekki til staðar. Málsaðilar talast ekki við nema í gegnum lögmenn og átökin hörð. Enda sást það vel á myndunum áðan.
Bein útsending er víst í bandarísku sjónvarpi frá þessum undarlegu réttarhöldum. Það er undarlegt að það sé talið áhugavert sjónvarpsefni að fylgjast með þessu. Kannski segir það talsvert um fréttamat og hversu mjög í kastljósinu þetta mál allt er. Þetta er allt mjög óraunverulegt. Í reyndina snýst þetta mál allt um peninga og hagsmuni tengda þeim. Það blasir við. Það er kuldalegt vissulega. Þetta gæti sennilega varla gerst nema í Bandaríkjunum. En það var sagt fyrir nokkrum áratugum að peningar og hagsmunaátök um þá gæti gert heilsteyptasta fólk að hreinræktuðum skrímslum.
Fjölmiðlar spila svo meginhlutverk í þessum darraðardans öllum. Það kemur svosem ekki neinum á óvart. Hrægammahugsun fjölmiðlanna er hinsvegar alltaf jafnnöturleg að sjá svona í nærmynd. Þetta mál er ekker einsdæmi en það virkar það sennilega vegna þess hversu opinbert það er. Það verður enda seint sagt að þetta mál sé heilsteypt. Það að þessari konu sé ekki leyft að hvíla í friði og ekki sé hægt að jarða hana án átaka segir allt sem segja þarf um þá sem næst henni stóðu.
Þetta væri sennilega ekki í fréttum ef þetta væri ekki fræg kona og ekki í Bandaríkjunum. Þeir vestanhafs eru snillingar að hype-a upp fréttir af stjörnum og þetta mál er risavaxið vegna þess að sú sem það snýst um er fræg. En það er sorglegt engu að síður.
![]() |
Harðar deilur um hvílustað Önnu Nicole Smith |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2007 | 11:19
Er Halla Vilhjálms nýja konan í lífi Jude Law?

Einkalíf hans hefur verið stormasamt síðustu árin. Hann giftist leikkonunni Sadie Frost árið 1997. Þau eignuðust saman þrjú börn en fyrir átti Sadie einn son sem Jude gekk í föðurstað. Þau slitu samvistum fyrir fjórum árum eftir tíu ár saman. Síðan hefur Jude verið einn eftirsóttasti piparsveinn kvikmyndaheimsins. Sadie og Jude börðust um forræði barnanna í rúm tvö ár. Á þeim tíma hóf Jude ástarsamband við leikkonuna Siennu Miller, sem er eitt hið stormasamasta í stjörnuheimum síðustu árin. Þau hættu þrisvar saman og tóku hvort annað í sátt meira að segja eftir að Jude hélt framhjá henni með barnfóstrunni sinni.
Undir lok síðasta árs slitu Sienna Miller og Jude Law endanlega samvistum. Það var í bresku pressunni túlkað sem hart lokauppgjör milli þeirra eftir beisk sambandsslit. Það væri freistandi að vita hvar Halla Vilhjálmsdóttir, söngkona, kom til sögunnar hjá Jude Law. Ef marka má fréttir á hún nú hug og hjarta leikarans. Hann kom til Íslands í síðustu viku og virðist hafa bæði borðað með henni og skoðað næturlífið í fylgd hennar. The Sun hefur nú birt fréttir þess efnis að Halla og Jude hafi verið í símasambandi eftir að hann kom heim til Bretlands og greinilegt að sambandið er eitthvað meira en bara vinahjal.
Það var reyndar sagt í fréttum í gær að þetta hafi verið þriðja Íslandsför leikarans. Var liggur við talað um það sem hneyksli, enda hefði þá pressan misst af honum. Ég held að það sé gleðitíðindi að þekktir menn á borð við Jude Law geti komist óséðir til Íslands og sloppið við pressuna. Við eigum líka að gefa þekktu fólki af þessu tagi tækifæri til að lifa sama frjálsa lífinu og við viljum sjálf. Stærsti kosturinn er að hér getur fólk verið í friði og lifað frjálst sínu lífi. Það er stór kostur.
Það er skiljanlegt að The Sun velti þó fyrir sér þessum böndum milli Jude og Höllu Vilhjálms. Er hún nýja konan í lífi hans? Það er óhætt að segja að kynnishlutverkið í X-Factor verði ekki tækifæri ársins fyrir hana ef þær sögusagnir eru réttar. Íslendingar virðast fylgjast með þessu með sama hætti og þegar að Fjölnir Þorgeirsson nældi sér tímabundið í Mel B. Meira að segja er strax farið að tala um Jude Law sem tengdason Íslands rétt eins og Mel B. var kölluð tengdadóttir landsins.
Klisja.... eða hvað?
![]() |
The Sun fjallar um Jude og Höllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2007 | 00:34
Sköllótt og tattúveruð Britney slær í gegn

Það er svona frekar ólíklegt að stílistinn hennar hafi ráðlagt henni þessa villtu karakterbreytingu. Í kvöld sá ég kostulegt myndskeið af Britney á Sky þar sem hún kemur til tattústofunnar í San Fernando-dalnum og sýnir beran skallann. Kostulegar myndir sem dókúmentar hratt fall stjörnu. Hún er orðin jafnberskjölduð á hausnum og Egill Ólafsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ómar Ragnarsson. Hún gekk þó ekki alla leið til heljar og lét tattúvera skipperamerki á upphandlegginn eða djöflatákn á bakið heldur lét sér nægja að fá lítið brostákn á upphandlegg.
Ég man þegar að Britney var að byrja að ótrúleg ímynd saklausrar stelpu, allt að því hreinnar meyjar með tæra englaásýnd, var búin til fyrir hana. Sú ímynd var kostulega hjúpuð. Hún var undir þeim merkjum mjög lengi. Á tveim til þrem árum er ferill hennar fokinn út í veður og vind og hún er orðin eins og útlifuð tuskudúkka sem heldur aðeins áfram að steypast í glötun. Hún virðist vera að taka sess Önnu Nicole Smith sem gleðidívu sem fer sínar leiðir og hikar ekki við að hneyksla. Ekki langt síðan að hún var mynduð nærbuxnalaus og nú lítur hún út eins og Ripley í Alien 3. Hrá týpa.
Britney virðist ekki lifa neinu skemmtilífi. Hún er greinilega orðin eitthvað gúgu og gaga, sem varla kemur á óvart. Það er ekki fjarstæðukennt að telja að henni vanti stórlega hjálp frá glötun. Hún er nefnilega á hraðri niðurleið og aðeins spurning hvenær að hún steypist endanlega í duftið. Vona að henni verði allavega forðað frá sömu örlögum og stjörnunnar Önnu Nicole sem nú liggur smurð í kæliklefa í líkhúsi í Flórída - bíður nú þess að dómari ákveði hvort hún verði grafin í Texas eða á Bahama-eyjum.
Skelfileg örlög það - og nöpur.... fyrir hvaða konu sem er; fræga eða óþekkta. Í rauninni er þetta kennslubókardæmi um hvernig frægðin getur leikið fólk. Hún getur verið dauðadómur í sjálfu sér sé hún ekki höndluð.
![]() |
Britney snoðklippt á húðflúrsstofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.2.2007 | 17:02
Konudagur
Móðurbróðir minn, Helgi Seljan, fyrrum alþingismaður, er þekktur hagyrðingur og hann orti eitt sinn ljóðið Kvennaminni, sem er fallegt mjög, það eru 20 erindi - óður til kvenna. Birti hér nokkur erindi.
Konur okkur gleði gefa,
geta náð að hugga og sefa.
Dásamlegar utan efa
við að knúsa og kela,
kossum mætti stela.
Kostum ykkar karlar lýsa,
kannski á suma galla vísa,
fegurð ykkar frómir prísa,
færa lof í kvæði,
njóta ykkar í næði.
Ekki má ég einni gleyma,
yndi mínu og gleði heima.
Í hjarta mér sem gull vil geyma,
gjöfin lífsins besta.
Konan kostamesta.
Ykkur konum yl ég sendi,
á ástarþokkann glaður bendi.
Mínu kvæði í kross bendi,
kyssi ykkur í anda
enn til beggja handa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)