Færsluflokkur: Dægurmál
27.2.2007 | 16:52
Frekar vandræðalegt PR hjá Pizza Hut

Enda hlýtur það að teljast frekar vandræðalegt að vera að auglýsa eitthvað sem viðkomandi getur ekki notað sjálfur. Þetta væri svona eins og að sykursjúk kona væri brosandi við að auglýsa kók í glansblaði eða blindur maður með blindrastaf í hendi væri að auglýsa Stöð 2 og hversu góð dagskráin þar væri. Absúrd. Kaupir nokkur pizzu vegna þess að hvítbrosandi söngkona presentarar það? Líður okkur karlmönnum betur með pizzu því að kynbomba kynnir hana?
Veit ekki. Auglýsingar hafa þó mjög lítil áhrif á mig. Kaupi vöruna ef hún er góð og ef hún er ekki góð kaupi ég hana ekki. As simple as that. Ég veit þó að ég myndi ekki kaupa mér pizzu ef ég hefði ofnæmi fyrir henni. En þetta slæma PR fyrir Pizza Hut sýnir okkur vel að auglýsingarnar með hvítbrosandi stjörnum geta verið sem holasta síldartunna undir niðri.
![]() |
Andlit pítsukeðju með ofnæmi fyrir pítsum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2007 | 14:46
Hetjusaga Thelmu kvikmynduð
Fyrst og fremst dáðist ég að því hugrekki sem Thelma sýndi með því að rjúfa þögnina sem er svo mikilvægt að verði gert - þögnina um líkamlegt og andlegt ofbeldi og kynferðislega misnotkun. Fáum blandast hugur um að sú bók sem hafi haft mest áhrif á samfélagið á síðustu árum hafi verið bókin: Myndin af pabba - Saga Thelmu sem kom út haustið 2005 og var rituð af Gerði Kristnýju.
Segja má með sanni að Thelma Ásdísardóttir hafi orðið táknmynd hugrekkis og mannlegrar reisnar og hvernig hægt hafi verið að rísa upp yfir aðstæður sínar til að takast á við erfiðleika fortíðar. Þessa sögu verður að festa í minni fólks, til umhugsunar öllum, og það er því ánægjulegt að heyra fréttir af því að verði gert.
![]() |
Samið um sögu Thelmu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2007 | 14:18
Menningarhús rís á Dalvík - mjög höfðingleg gjöf

Sparisjóður Svarfdæla hefur verið fjármálastofnun fólksins í heimabyggð í rúmlega öld. Fólk þar skiptir við sinn sparisjóð og unir þar vel við sitt. Frissi og hans fólk hafa haldið vel utan um sparisjóðinn og ræktað hann mjög vel. Þessi tíðindi sýna betur en allt annað hversu vel sparisjóðurinn stendur. Hann hugsar um hag fólksins. Þessi gjöf er til fólksins í bænum, viðskiptavina sparisjóðsins, enda mun gjöfin hagnast öllum íbúum, þó fullyrða megi að flestir íbúar þar skipti við sparisjóðinn, sem hefur sterka stöðu í heimabyggð og þakkar það vel með þessu.
En til hamingju íbúar á Dalvík. Það verður gaman að koma í heimsókn í menningarhúsið þegar að það verður risið. Það verða margar hamingjustundir í þessari miðstöð menningar og lista.
![]() |
Sparisjóður Svarfdæla kostar byggingu menningarhúss á Dalvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2007 | 07:53
Ekki er nú öll vitleysan eins....
Það er nú ekki hægt annað en að hlæja aðeins yfir fréttinni um kínverska kaupsýslumanninum sem hefur auglýst á netinu eftir hjákonustaðgengli til að þola barsmíðar reiðu eiginkonunnar hans. Það er ýmislegt reynt segir maður bara. Til að hlífa eiginkonunni að þá er bara auglýst eftir einhverri til að taka við fýlunni í frúnni. Fannst eiginlega merkilegast að þetta gerðist í Kína, hefði kannski búist við þessu í Bandaríkjunum eiginlega mun frekar.
Fyndnast við þetta allt er að skv. fréttinni hafa tíu konur sýnt áhuga á þessu djobbi, ef það má þá kalla það því nafni. Boðið er upp á greiðslu fyrir verkefnið. Þetta er því bissness fyrir þá konu sem verður valin. Finnst þetta svona frekar óviðurkvæmilegt eiginlega. Kannski er þetta til marks um það að fólk sé tilbúið til að gera næstum því hvað sem er fyrir peninga. Sennilega eru femínistarnir hérna heima ekki parhrifnir af þessu.
Enda er þetta ekki beint í þeirra huga góð framkoma við konur. En þarna á kona að taka við barsmíðum frá konu. Kostulegt alveg. Það er hægt að hlæja af þessu úr fjarlægð við Kína. Efast um a þetta væri eins fyndið ef þetta væri smáauglýsing í DV og þetta væri fjölskyldudrama í Breiðholtinu.
![]() |
Hjákonustaðgengill óskast til að þola barsmíðar eiginkonunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 12:56
Kostuleg kaldhæðni

En það er himinn og haf í prísum sé miðað við hérna heima. Það er skiljanlegt að fólk vilji reyna að spara fyrir sér. Get ekki ímyndað mér að mikill gleðisvipur hafi verið á Davíð eftir helgina. Þetta hefur verið allavega mikið símaspjall. Viðbrögðin segja kannski öll sína sögu. Tannlækningar hérna heima eru rándýrar og sumir setja það fyrir sig að fara vegna þess. Þetta er kannski vitnisburður þess að fólk vilji reyna að hafa þetta ódýrara. Blasir reyndar við.
Hef ekki mikið heyrt af tannlækningum heima - hinsvegar hef ég heyrt af tannlækningum á hjólum en Egill Jónsson, tannlæknir hér á Akureyri, bauð upp á það. Man ekki alveg hvernig það gekk, en það var allavega mikið í fréttum. Það er nú reyndar svo að tannlækningar eru hlutur sem kemur okkur öllum við. Kostnaður er mikill við þær og þessi viðbrögð sýna okkur mjög vel að meðalJóninn vill reyna að fá þetta ódýrara.
En fyndið er þetta.... vildi hinsvegar varla lenda í því að fá svona símtöl eða lenda í svona.... og það á laugardegi af öllum dögum. Kómík.
![]() |
Tannlækningar í heimahúsi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 21:03
Ólafur Ragnar og Dorrit fá ekki að gista í höllinni
Athygli hefur vakið að forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, fengu ekki að gista í konungshöllinni í Osló nú er þau eru viðstödd sjötugsafmæli Haraldar Noregskonungs. Konungborið fólk fær aðeins gistingu í höllu konungs og þjóðkjörnir leiðtogar verða að gera sér að góðu að vera á hóteli. Ólafur Ragnar og Tarja Halonen falla því undir önnur viðmið og fá ekki að gista í sama húsi og þeir konungbornu.
Málið hefur verið nokkuð í umræðu í Noregi, enda merkilegt að norrænir þjóðarleiðtogar fái ekki allir inni í höllinni. Hirðin hefur svarað með afgerandi hætti að það sé ekki það sama að vera konungborinn og vera ekki með blátt blóð í æðum. Eru því Ólafur Ragnar og Tarja flokkuð með öðrum hætti. Þau eru einu kjörnu þjóðhöfðingjarnir sem fá boðsmiða í afmælið og sitja því utangarðs í þessu afmæli þegar að kemur að gistingunni.
Þó að Ólafur Ragnar sé flokkaður skör neðar en aðrir er ekki beinlínis eins og honum og Dorrit sé vísað á lélega gistingu í borginni. Kjörnu norrænu þjóðarleiðtogarnir gista nefnilega með mökum sínum á Hotel Continental, sem er sennilega virðulegasta hótelið í borginni og með öllum þeim þægindum sem þjóðhöfðingjar, meira að segja þeir sem ekki hafa blátt blóð í æðum, geta verið stoltir af. Þau leggja því ekki kolli á auvirðilegan kodda, er ekki beinlínis í kot vísað.
Það er samt það merkilegasta við þetta afmæli að norrænir þjóðhöfðingjar sitja ekki við sama borð - þeim er raðað í þá sem hafa blátt blóð í æðum og þeirra sem koma af ósköp venjulegum ættum og hafa þurft að eyða fúlgu fjár til að ná kjöri á valdastól. Við skulum vona að Dorrit og Ólafur Ragnar séu ekki á bömmer yfir þessu, verandi á Hótel Continental. Annars tók Spaugstofan þetta vel fyrir áðan - magnaður húmor vægast sagt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2007 | 17:16
Snjókorn falla
Það var alhvít jörð hér á Akureyri þegar að ég vaknaði í morgun. Meiri snjór og meiri kuldi en á sjálfum jólunum, en það var nærri snjólaust öll jólin. Frekar napurt, miðað við að í gærkvöldi var snjólaust og gott veður. Var að koma af fundi sem var gagnlegur og góður - alltaf gaman að hitta gott fólk og ræða málin.
Þetta hefur verið snjóléttur og góður vetur hérna á Akureyri að mínu mati, það sem af er. Það kom leiðinlegur kuldakafli snemma vetrar en hefur síðan verið gott. Jólin voru yndisleg... en enginn snjór. Ég er nú þannig gerður að einu dagarnir á hverju ári þar sem nauðsynlegt er að hafa smásnjó eru sjálf jólin. Það er allt svo miklu jólalegra með smáögn af snjó.
Það var smá hríðarfjúk núna þegar að ég kom heim. Það falla snjókorn fyrir utan gluggann minn. Mörgum finnst snjókoman vera rómantísk og notaleg, ég er svo sannarlega ekki einn af þeim. Það er hinsvegar oft gaman að fara á skíði og njóta vetraríþróttaaðstöðunnar upp í fjalli. Það hef ég þó alltof lítið gert á seinustu árum. Sennilega er þessi sæla of nálægt manni til að maður meti hana eins vel og rétt sé.
Það er allavega gott að vera kominn heim og inn úr kuldanum. Það er mjög notalegt að fá sér kakóbolla og lesa fréttirnar. Svo ætla ég að fara í það að skrifa Óskarsverðlaunaspána mína. Óskarinn er á morgun - mikilvægt að skrifa niður pælingarnar sínar um það og fara yfir. Þetta er ómissandi partur á hverju ári. Ég hef alltaf verið mikill kvikmyndafíkill og hef gaman af svona pælingum.
Þannig að nú tekur það við. Er búinn að vera viss nokkuð lengi um hvernig helstu flokkarnir muni fara og skrifa betur um það á eftir hvað ég held að muni gerast. Svo er mikill rómans yfir því að horfa á verðlaunaafhendinguna sjálfa, vaka alla nóttina. Það er ómissandi fyrir alla kvikmyndafíkla... enginn vafi á því. Get ekki hugsað mér að missa af þessu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2007 | 02:01
Notaleg leikhúsferð - farið að sjá Svartan kött

Leikritið fjallar um atburði sem gerast í kjölfar dauða svarta kattarins. Þrátt fyrir að verkið sé mjög skelfilegt og gengið sé nærri leikhúsgestinum er þetta gert með glæsibrag; ekki vantar drápin, byssuskotin, sundurskorna líkamsparta, blóðið og dökkan hryllinginn. Það er allavega enginn kærleikur og gleði á heimilinu sem er sjónarsvið áhorfandans frá upphafi til enda. Þar er grimmdin og mannvonskan ein ansi ráðandi.... bæði með gamansömum og nöturlegum hætti. Það er eitt það kostulegasta við verkið hvernig að húmor og ógeði er blandað saman í ramman kokteil.
Stjarna sýningarinnar er meistari Þráinn Karlsson. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hann hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa. Þráinn er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar.
Þráinn fer algjörlega á kostum í þessu leikriti. Þar leikur hann óheflaðan (svo vægt sé til orða tekið) mann, kominn af léttasta skeiði, sem annaðhvort virkar ráðalaus og utangátta eða er hreinlega í áfengismóki. Það eru fá lífsviðmið í hávegum höfð hjá honum. Þráinn er á nærklæðunum í verkinu allan tímann, er með tattú og krúnurakaður. Merkilegur karakter. Hann hefur á löngum leikferli túlkað allan skalann og sennilega er þetta óheflaðasta týpan sem Þráinn hefur túlkað á leiksviðinu í Samkomuhúsinu. Guðjón Davíð Karlsson og Ívar Örn Sverrisson eiga svo stjörnuleik þar sem túlkað er upp og niður karakterskalann.
Leikhópurinn stendur sig í heildina mjög vel - sennilega er þó svarti kötturinn eftirminnilegastur allra í sjálfu sér. Umgjörðin er öll hin besta; lýsingin er stórfín (eins og venjulega hjá LA), tæknibrellur virkilega flottar og vel gerðar og leikmyndin er mögnuð, þar er öllu vel komið fyrir og inni- og útiatriði fléttuð saman með vönduðum hætti í leikmyndinni. En þetta er semsagt sýning sem markast bæði af gleði og hryllingi - hárfín blanda. Hvet alla til að skella sér á sýninguna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 13:35
Nafnlaust bréf veldur ólgu í Baugsmálinu
Var að lesa áðan nafnlausa bréfið sem nú skekur Baugsmálið. Mjög athyglisverð lesning, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar er því haldið greinilega fram að dómarar í Hæstarétti Íslands hafi bæði sýknað menn og vísað frá ákæruliðum í Baugsmálinu til þess að hefna sín á Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra og fv. forsætisráðherra, fyrir að hafa beitt sér fyrir því að þeir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hafi verið skipaðir hæstaréttardómarar.
Eins og flestir vita stóð töluverður styr um þær ákvarðanir árin 2003-2004 og eins og frægt var mælti meirihluti réttarins með hvorugu dómaraefninu á sínum tíma, en það kom í hlut dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að ákveða hverjir færu í réttinn. Eins og flestir hafa séð er þetta mál mjög flókið og ekki virðist það vera að verða eitthvað auðveldara viðfangs eða einfaldara úr fjarlægð. Það stefnir greinilega í sviptingar í dómsstigum fram á veginn, ef marka má það sem gerist núna.
Þetta bréf er mjög alvarlegs eðlis að mínu mati. Það hlýtur að teljast nokkuð alvarleg atlaga að réttarskipan hér á landi. Þetta er mjög ógeðfellt bréf og það hlýtur að fara fram athugun á því hver sé uppruni þess. Þetta er einfaldlega of alvarlegt mál til að það liggi í þagnarhjúpi.
Svona samsæriskenningar og allt að því dylgjur er vont veganesti í málið á þessu stigi - það er engin þörf á einu óskiljanlega púslinu enn í þessa torskildu heildarmynd.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2007 | 11:59
Ferðaþjónustan ósátt við flokkun ferðamanna
Samtök ferðaþjónustunnar sendi í morgun frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að aðstandendum Snow Gathering-klámþingsins, sem átti að halda hér í marsbyrjun, var vísað frá Hótel Sögu og hætt var við þinghaldið. SAF sendir Hótel Sögu þar greinilega tóninn og bendir á að ekki sé hægt að flokka ferðamenn sem koma hingað til landsins og það sé óæskilegt. Með þessu sé vont fordæmi gefið. Orðrétt segir:
"Þrátt fyrir óbeit sem fólk kann að hafa á klámiðnaði og annarri starfsemi sem fólk stundar löglega í heimalandi sínu en er bönnuð á Íslandi, er vandséð hvernig ferðaþjónustufyrirtæki geti meinað því fólki að koma í skemmtiferð til Íslands. Það koma rúmlega 400 þúsund ferðamenn árlega til Íslands, þeir eru ekki yfirheyrðir um störf sín heima við enda ógerlegt. Samkvæmt dagskrá þessarar umræddu samkomu ætlaði fólkið að vera í skipulögðum skoðanaferðum allan tímann.
Ljóst er að ómögulegt er fyrir fyrirtækin að flokka gesti sína í æskilega og óæskilega gesti hafi engin lögbrot verið framin. Frávísun hópa, sem engin lög hafa brotið, er alvarlegt mál sem getur leitt til skaðabóta enda um mikil viðskipti að ræða fyrir mörg fyrirtæki hér á landi."
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst í þessu máli. Tekist hefur verið á um það á netinu af miklum krafti, man varla annað eins - þar sem tekist er á með og á móti. Sitt sýnist hverjum. Hef séð það vel hér á blogginu, en mörg góð komment hafa þar komið.
![]() |
Ómögulegt að flokka ferðamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)