Færsluflokkur: Dægurmál
12.2.2007 | 00:02
Ótti um stórslys - 112 dagurinn haldinn hátíðlegur
Ég hélt svei mér þá að það hefði orðið stórslys hér á Akureyri í hádeginu í dag þegar að sjúkrabílar, slökkviliðsbílar og bílar björgunarsveitanna keyrðu allar hér niður Þórunnarstrætið með sírenur gjallandi á fullu gasi. Þetta var allavega ekki sérstaklega ánægjulegt áheyrnar að heyra sírenuvælið og sjá allan þennan viðbúnað. Þetta er allavega ekki algeng sjón að sjá hér og ég hélt í svipinn að mjög alvarlegt slys hefði orðið.
Svo var þó sem betur fer ekki. Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á að 112 dagurinn var í dag og þetta hefði því verið svokölluð 112 lest sem fór niður Þórunnarstrætið, en í henni voru fyrrnefndir bílar. Það er þarft og gott verkefni að minna vel á neyðarlínuna á þessum táknræna degi sem minnir á símanúmerið, 112, og það góða starf sem unnið er þar.
Að þessu sinni var dagurinn helgaður margvíslegum störfum sjálfboðaliða að forvörnum, leit og björgun, almannavörnum og neyðaraðstoð, sem er mjög verðugt að minnast á degi sem þessum. En ég man allavega framvegis eftir 112 lestinni, svo að hún komi mér ekki svona að óvörum.
![]() |
112 dagurinn helgaður störfum sjálfboðaliða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2007 | 13:18
Andlát sveipað dulúð - baráttan um ríkidæmið

Það tók nokkrar vikur að fá skorið úr dánarorsök Daniel Smith, sonar Önnu Nicole, þegar að hann lést fyrir fimm mánuðum og sama dulúðin er í kringum lát hennar sjálfrar. Með réttarkrufningu í Flórída í gær tókst þó að loka á þann möguleika að dánarorsök sem flestir bjuggust við merkilegt nokk; ofnotkun ólöglegra lyfja og það voru engar töflur í maga stjörnunnar. Það verður því að leita í aðrar áttir en þá sem talin var líklegust til að loka á dulúð þessa máls...... og það tekur eflaust einhverjar vikur.
Nú mun mikill fókus alls þessa máls falla á það hver hafi verið faðir hinnar fimm mánuðu dóttur Önnu Nicole Smith. Sá sem er faðir hennar mun nefnilega fá mikil áhrif og í raun full yfirráð yfir frægu erfðamáli Önnu Nicole gegn börnum olíuauðjöfurins J. Howard Marshall. Þar sem stelpan er aðeins fimm mánaða verður hún undir yfirráðum föðurins í yfir heil sautján ár. Um mikla peninga er að telja og varla við öðru að búast en að faðerninu fylgi mikil völd í öllum málarekstrinum, sem hefur þegar tekið tæp tólf ár og náði Anna Nicole aldrei fullnaðarsigri í málinu, sem er þegar orðið eitt hið mest áberandi síðustu áratugina.
Þrír menn segjast vera faðir stelpunnar og ljóst að brátt fæst úr þessu skorið með læknisfræðilegri tækni. Ekki er hægt að segja annað en að málið líkist nokkuð dauða Christinu Onassis, einkadóttur skipakóngsins Aristotle Onassis, sem lést langt fyrir aldur fram árið 1988, aðeins 38 ára gömul. Christina lét aðeins eftir sig eina dóttur, Athinu. Hún erfði allt eftir móður sína og meginhluta þess sem eftir stóð af Onassis-ættarveldinu, sem afi hennar lét eftir sig er hann lést árið 1975.
Vandinn var hinsvegar sá að Athina var aðeins þriggja ára gömul. Faðir hennar, Thierry Roussel, sem hafði skilið við Christinu fyrr sama árið og hún dó, hafði því full yfirráð yfir málefnum erfðaríkis Christinu og málefnum dóttur þeirra. Það stóð í rúm fjórtán ár. Enn í dag hefur Athina, sem vill lítið vita af föður sínum í dag ekki fengið öll yfirráð yfir Onassis-arfleifðinni og standa meira að segja málaferli um að hún fái full yfirráð þó að hún hafi skv. erfðaskrá átt að erfa móður sína að öllu leyti og endanlega er hún varð 21 árs á síðasta ári.
Nei, það er ekki tekið út með sældinni að vera frægur...... er það ekki lexían af þessu öllu? Held það....
![]() |
Önnu Nicole ekki allstaðar hlýlega minnst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2007 | 00:02
Leiksnillingur kveður

Eftirminnilegasta hlutverk hans er án nokkurs vafa karakter hins slóttuga og vægðarlausa Francis Urquhart sem fetaði pólitískan valdastiga í breskum stjórnmálum með köldum huga ljónsins og varð forsætisráðherra Bretlands með klækjabrögðum og vílaði ekki fyrir sér að drepa jafnvel þá sem mest stóðu í vegi framavona hans. Í þessu hlutverki naut sín allra best allir styrkleikar Richardsons sem leikara og hlutverkið er eitt hið eftirminnilegasta í breskri sjónvarpssögu.
Urquhart í túlkun Richardsons gleymist engum sem sáu allar þrjár sjónvarpsþáttaraðirnar um hann; House of Cards, To Play a King og The Final Cut, sem gerðar voru á níunda og tíunda áratugnum. Endalok persónunnar voru kaldhæðnust af öllu sem gerðist og víst er að þeir sem muna svip klækjarefsins á lokastund síðustu þáttaraðarinnar muna vel að eflaust hafi hann þá hugsað hver hafi er á hólminn kom verið snjallari. Á ég allar þessar sjónvarpsmyndir og hef notið þeirra mjög í áranna rás. Fyrst tók ég þær upp á spólum en keypti þær í gegnum amazon.com fyrir nokkrum árum. Skyldueign fyrir alla sanna stjórnmálaáhugamenn.
Eftirminnilegasta kvikmyndahlutverk Ian Richardson er án nokkurs vafa hlutverk Hr. Warrenn í Brazil, hinni stórfenglegu kvikmynd Terry Gilliam, sem gerð var árið 1985. Mynd sem ég mæli hiklaust með við alla sanna kvikmyndaunnendur. Richardson var alveg yndislega svipmikill í þeirri mynd. Einnig mætti nefna Cry Freedom, Mistral´s Daughter, Much Ado About Nothing, A Midsummer Night's Dream og The Hound of the Baskervilles svo að mjög fátt sé nefnt. Þeir sem vilja þó sjá snilli hans í hnotskurn ráðlegg ég öllum að sjá myndirnar um Francis Urquhart, en sjálfur sagði hann að karakterinn hefði hann mótað með Ríkharð III í huga. Þeir eiga svo sannarlega margt sameiginlegt.
En blessuð sé minning meistara Richardson. Nú er svo sannarlega komið gott tilefni til að rifja upp House of Cards, To Play a King og The Final Cut á næstu dögum.
![]() |
Ian Richardson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2007 | 20:17
Sorgarsaga konu sem lifði og dó í kastljósi fjölmiðla

Það er allavega öllum ljóst að dauðsfall hennar verður jafn umkringt sorglegum spurningum og vofveiflegheitum og var í tilfelli Marilyn. Krufning á líki stjörnunnar fór fram í dag í Flórída. Sérfræðingar vestan hafs gáfu sér þá niðurstöðu nær algjörlega fyrirfram að hún hefði dáið úr ofneyslu lyfja. Skv. niðurstöðu krufningarinnar er óljóst hver dánarorsökin er og tekur lengri tíma að fá úr því skorið. Ekki aðeins verður þetta mál um dauða hennar heldur er yfirvofandi faðernismál til að fá úr því skorið hver hafi verið faðir fimm mánaða dóttur Smith.
Ekki var það rétt hjá mér sem ég sagði í gærkvöldi að frægu erfðamáli milli Önnu Nicole og fjölskyldu olíuauðjöfursins J. Howard Marshall, sem Anna Nicole Smith giftist árið 1994, sé lokið með dauða hennar. Það mál erfist nú til dóttur Önnu Nicole, hinnar fimm mánaða gömlu Dannie Lynn Hope. Það má því búast við að það hver sé faðir hennar muni ráða miklu um framtíð þessa máls og hver fái yfirráð yfir erfðamálinu fræga.
Dramatík virðist því ætla að halda áfram á fullum krafti í kringum Önnu Nicole Smith þó að hún hafi nú sjálf hinsvegar yfirgefið hið jarðneska líf. Hún lifði og dó í kastljósi fjölmiðla. Ekki er við því að búast að dauði hennar bindi enda á umfjöllunina. Sorgarsaga hennar mun enn um sinn verða umfjöllunarefni fjölmiðla. Fjölmiðlar geta enda fylgt fólki út yfir gröf og dauða.
![]() |
Talið hugsanlegt að dauði Anne Nicole Smith tengist lyfjaneyslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 18:41
Máli gegn olíuforstjórunum þremur vísað frá

Það var þann 13. desember sl. sem að Bogi Nilsson, ríkissaksóknari, gaf út ákæru á hendur Kristni Björnssyni, fyrrum forstjóra Skeljungs, Einari Benediktssyni, forstjóra OLÍS, og Geir Magnússyni, fyrrum forstjóra ESSO. Þeir voru forstjórar olíufélaganna á tímum samráðsins fræga og hafa verið umdeildir vegna þess í huga þjóðarinnar. Ákæra á hendur þeim persónulega, en ekki olíufélögunum sem slíkum, voru stórtíðindi í málinu.
Gögn í málinu virtust mjög ljós í þá átt að olíufélögin þrjú hafi haft með sér mikið samráð á tímabilinu 1993-2001, eða þar til Samkeppnisstofnun hóf formlega rannsókn sína með því að fara inn í fyrirtækin og afla sér gagna um málið. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu málið taki nú.
![]() |
Máli gegn olíuforstjórum vísað frá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.2.2007 | 12:51
Ríkisstjórnin bregst við í Breiðavíkurmálinu
Það er mikilvægt að ríkisstjórnin taki við sér með þessum hætti í þessu skelfilega Breiðavíkurmáli, án hiks og tafs. Það þarf ekki að fara fram einhver rannsókn þegar að allir vita niðurstöður þess. Það vita allir hvað gerðist þarna - staða mála liggur nokkuð ljós fyrir.
Þetta er allt mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Nú þarf ríkið að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda. Stjórnvöld verða að afgreiða þetta mál, með opinberri afsökunarbeiðni og þeirri aðstoð, faglegri sem peningalegri ef á þarf að halda.
Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því og það er gott að forsætisráðherra hefur sagt það með afgerandi hætti.
![]() |
Geir H. Haarde: ríkisstjórn mun bregðast við í málefnum Breiðavíkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2007 | 08:02
Röskva sigrar Vöku með 20 atkvæða mun

Þetta eru nokkuð athyglisverð úrslit. Röskva hafði hreinan meirihluta í Stúdentaráði samfleytt í 12 ár, 1990-2002, en Vaka hafði hreinan meirihluta árin 2002-2005. Hreinn meirihluti Vöku féll í kosningunum í febrúar 2005 en Vaka hefur verið í samstarfi um meirihluta eða forystu í ráðinu síðustu tvö árin. Það er því vinstrisigur í Háskólanum að þessu sinni, í fyrsta skipti í fimm ár.
Úrslitin sýna vel að tvær jafnstórar fylkingar eru í háskólapólitíkinni og munar aðeins sjónarmun á hvor sigrar. Það vekur athygli hversu dræma kosningu H-listinn fær nú. En já, það verður fróðlegt að sjá til verka Röskvu í forystu háskólastjórnmálanna næsta árið.
![]() |
Röskva hlaut flest atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2007 | 23:00
Anna Nicole Smith látin - litríkri ævi lýkur
Litríkri ævi bandarísku leikkonunnar og fyrirsætunnar Önnu Nicole Smith lauk mjög snögglega í hótelherbergi í Flórída síðdegis í dag. Reynt var árangurslaust að blása lífi í hana en án árangurs. Hún var formlega úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Hollywood í Flórída. Hún var aðeins 39 ára gömul.
Anna Nicole Smith hefur verið áberandi á blöðum slúðurtímarita og í sjónvarpi með einum eða öðrum hætti í einn og hálfan áratug. Anna, sem var skírð Vicki Lynn Hogan, varð fyrst fræg sem fyrirsæta í Playboy og nektardansmær. Frægar nektarmyndir af henni í Playboy mörkuðu frægð hennar og það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi rólegheit og lognmolla einkennt líf hennar.
Hún komst endanlega í frægðarbækurnar og varð heimsfræg er hún giftist olíuauðjöfrinum, J. Howard Marshall, fyrir þrettán árum, árið 1994. Hjónabandið varð fjölmiðlamatur um allan heim, enda var Marshall þá orðin 89 ára en Smith var aðeins 26 ára gömul. Hjónabandið varð skammlíft, enda lést Marshall árið 1995. Allt frá dauða hans til snögglegs dauða Önnu Nicole sjálfrar, nú tólf árum síðar, voru erfðamálin óleyst og hörð átök á milli ekkjunnar og barna olíuauðjöfursins.
Málarekstur milli barna J. Howard Marshall og Önnu Nicole Smith telst hiklaust eitt mest áberandi mála í bandarísku slúðurumræðu fræga fólksins. Anna Nicole gaf ekki eftir og flest stefndi í að hún hefði fullnaðarsigur. Sonur Marshalls lést nýlega og hún vann þýðingarmikinn sigur í hæstarétti Bandaríkjanna fyrir tæpu ári. Dauði Önnu Nicole Smith markar án nokkurs vafa enda þessa litríka máls sem hefur verið fréttamatur vestan hafs í þessi tólf ár á milli dauða Marshalls og Önnu Nicole.
Anna Nicole Smith varð fyrir þungu persónulegu áfalli undir lok síðasta árs er elsta barn hennar, Daniel, lést á Bahamaeyjum, þar sem hann var kominn til að hitta móður sína, en hún eignaðist stúlku þar. Margar litríkar sögur hafa borist síðustu vikur um faðerni stelpunnar og var fyrirsjáanleg deila um það hver ætti stelpuna. Ofan á dauða sonarins hefur því ekki verið nein sæla yfir Önnu Nicole.
Dauði þessarar litríku konu sem setti svip á bandarískt samfélag markar nokkuð sorgleg lok á sviptingasamri ævi. Það er greinilegt á bandarískum slúðurvefsíðum og fréttavefum að dauði hennar kemur mjög að óvörum. Þetta er táknrænn endir á ævi konu sem lifði á forsíðum fjölmiðla og dauði hennar verður áberandi á síðum blaða og sem fyrsta frétt á fréttastöðvunum.
Ævi og örlög Önnu Nicole Smith er að segja má áberandi táknmynd þess að frægðin getur verið bitur og harkalega nístandi. Það er ekki tekið út með sældinni að lifa sínu lífi í skugga slúðurblaða og sviðsljóss fjölmiðla.
![]() |
Anna Nicole Smith látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2007 | 19:33
Björgólfur Thor eignast ættaróðalið
Björgólfur Thor Björgólfsson, athafnamaður, hefur nú keypt ættaróðal fjölskyldu sinnar, Thors-ættarinnar, hið veglega og glæsilega hús að Fríkirkjuvegi 11, sem er eitt af svipmestu húsunum í höfuðborginni. Langafi Björgólfs Thors, hinn landsþekkti athafnamaður, Thor Jensen, reisti húsið og var það glæsilegur vitnisburður um veldi Thors og ríkidæmi hans.
Það er að mínu mati gleðiefni að Björgólfur Thor kaupi húsið. Hann á tengingar til uppruna hússins og kemur engum að óvörum að hann vilji eignast það. Kaupverðið mun vera 600 milljónir króna, en það gæti hækkað um 200 milljónir króna, vegna óska kaupandans er lúta að framkvæmdum á lóð. Skv. ummælum Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs, var tilboð Björgólfs Thors það langbesta í húsið og því auðvitað hið eina rétta að taka því.
Fyrir stundu horfði ég á Ísland í dag þar sem Inga Lind Karlsdóttir ræddi við Guðmund Magnússon, sagnfræðing, þar sem þau löbbuðu um þetta merka hús og fóru yfir sögu þess í stuttu en góðu spjalli. Guðmundur þekkir betur en flestir sögu Thorsaranna en hann skrifaði eftirminnilega og mjög vandaða bók um sögu Thors-ættarinnar sem var áberandi í íslensku mannlífi í marga áratugi og er enn mjög áberandi auðvitað.
Eftir því sem fram hefur komið í dag mun Fríkirkjuvegi 11 verða breytt í safn til minningar um athafnamanninn Thor Jensen. Það er svo sannarlega viðeigandi hlutskipti fyrir húsið og rétt að fagna því sérstaklega að merku framlagi Thors í íslensku samfélagi verði minnst með þeim hætti. Það verður gaman að fara í Thors-safnið þegar að því kemur að það opni.
![]() |
Borgarráð samþykkti að taka tilboði Novators í Fríkirkjuveg 11 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2007 | 13:07
Barátta Lúðvíks fyrir sönnun á faðerni Hermanns

Steingrímur hefur ekki viljað viðurkenna að Lúðvík sé bróðir hans og hefur neitað að afhenda DNA-sýni úr sér til rannsóknar. Lúðvík er skráður sonur Gizurar Bergsteinssonar, fyrrum forseta Hæstaréttar, en móðir Lúðvíks var lengi ritari Hermanns Jónassonar og með þeim var vinskapur. Vill Lúðvík nú reyna á að fá sannað í eitt skipti fyrir öll sannleikann í málinu.

Það vakti athygli í sumar þegar að Lúðvík sendi út frá sér fréttatilkynningu um framboð til formennsku í Framsóknarflokknum. Það var greinilega fyrst og fremst grín af hálfu Lúðvíks að gefa upp þann möguleika og reyna með því að feta í fótspor feðganna Hermanns og Steingríms. Væntanlega var Steingrími ekki hlátur í huga yfir þessu öllu saman.
En þetta er vissulega fróðlegt mál og athyglisvert að sjá hvernig því muni ljúka, en nú fer það aftur fyrir Hæstarétt væntanlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)