Færsluflokkur: Dægurmál

Skandall á skandal ofan í Byrginu

Byrgið Það hrannast sífellt upp beinagrindurnar í skápum Byrgisins. Þvílíkur skandall sem þar hefur viðgengist ár eftir ár. Það er nær ófyrirgefanlegt hverslags klúður þar hefur verið æ ofan í æ. Það hefði átt að vera búið að grípa í taumana fyrir einhverjum árum. Því verður vart neitað að um alvarlegt hneykslismál hefur verið að ræða.

Ekki aðeins er um að ræða fjárhagslegt hneykslismál heldur hefur þarna þrifist í skjóli ríkisstyrkja skelfilegt kynlífshneyksli. Bæði er mjög alvarlegt mál. Á því verður tekið væntanlega með þeim hætti sem fær er. Það verður fróðlegt að sjá kemur út úr málinu hjá ríkissaksóknara. Heldur verður að teljast líklegt að ákærur verði gefnar út og málið fái á sig þann blæ. Deilt er um hver beri hina pólitísku ábyrgð á klúðrinu þar. Öllum er ljóst að ábyrgðin er félagsmálaráðherra á árunum 2001-2006. Einfalt mál.

Vonandi læra menn eitthvað á þessum skandal. Það verður að taka á öllu verklagi hjá ríkinu, enda er þetta mál allt áfellisdómur þess. Vonandi munu þeir sem héldu á málefnum Byrgisins og þeir sem dældu þar peningum í afvötnunarstöð skandalanna fá að gjalda þess. Á þessu verður að taka með þeim eina hætti sem fær er.

Vonandi fær þetta allt þann endi að það verði lexía fyrir þá sem nærri hafa þessu stórfellda fjármála- og kynlífshneyksli komið með einum eða öðrum hætti.

mbl.is Segir barnsfæðingar af völdum kynferðismisnotkunar í Byrginu orðnar tíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notalegt ferðalag á framandi slóðir

Ómar Ragnarsson Í gærkvöldi átti ég góða stund við sjónvarpið. Ég horfði þá á tvo gamla og góða Stikluþætti Ómars Ragnarssonar, en ég hef nýlega eignast allt safn þeirra merku þátta þar sem farið er um fjöll og firnindi landsins okkar. Í þessum þáttum var farið í Fjörður og Flateyjardal. Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef á hvorugan staðinn farið, þó mjög nálægir séu mér hér á Akureyri.

Mér fannst notalegt að fara í þetta skemmtilega ferðalag og fara um slóðir með þessum hætti. Ég man ekki til þess að hafa séð akkúrat þessa þætti fyrr. Ég hef þó einsett mér að ég ætla mér að fara á báða staðina í sumar. Þeir eru mjög fjarlægir þó nálægir séu. Það þarf mjög góðan fjallabíl til að halda á þessar slóðir en þar ríkir mikil náttúrufegurð, kyrrð og notalegheit. Þetta er ferðalag sem ég hef lengi viljað halda í og nú verður það gert í sumar.

Ég hef reyndar komið í sjálfa Flatey á Skjálfanda. Það var í skemmtilegri ferð okkar sjálfstæðismanna í júlí 2004 með Geir og Ingu Jónu sem heiðursgesti. Það var yndisleg bátsferð sem við áttum á leið út í eyju og mikil skemmtun í eyjunni. Þar á Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrum alþingismaður, sumarbústað með fjölskyldu sinni, sem bjó í eyjunni fyrir nokkrum áratugum. Þar var slegið upp góðri grillveislu og eyjan skartaði sínu fegursta. Það sem mér kom mest á óvart við Flatey var hversu mörg hús eru þar, en hún fór í eyði sem heilsársbyggð á sjöunda áratugnum en margir sumarbústaðir eru þar. Flatey er paradís í huga ferðamannsins.

Ég hef lengi metið mikils þessa ferðaþætti Ómars, einkum Stiklur. Það er engu líkt að halda í stutt og gott ferðalag með þessum hætti. Þar er miðlað mikilli þekkingu á staðarháttum og náttúrunni. Um daginn sá ég einmitt Stikluþátt Ómars þar sem Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrum menntamálaráðherra, er heimsóttur í Mjóafjörð og hann kynnir áhorfandanum sögu Mjóafjarðar og farið er í Dalatanga. Það er virkilega fínn þáttur og svo gleymist ekki þátturinn þar sem farið er um byggðir Vestfjarða og Gísli á Uppsölum heimsóttur - það var eftirminnilegasta viðtal íslenskrar sjónvarpssögu.

Það er oft sagt að mesta fegurðin sé í sem mestri nálægð við hversdagstilveru manns. Það er svo sannarlega ekki erfitt að samþykkja þá afstöðu þegar litið er á fegurð í Fjörðum og Flateyjardal.... staði sem eru svo fjarri en þó svo nærri manni.

Elísabet II drottning á valdastóli í 55 ár

Elísabet II EnglandsdrottningÍ dag eru 55 ár liðin frá því að Georg VI Englandskonungur lést og dóttir hans, hin 25 ára gamla, Elísabet, varð drottning Englands. Elísabet II hefur verið áberandi persóna í sögu bresku konungsfjölskyldunnar og sett mikið mark á samfélag þjóðar sinnar og leitt konungsveldið á umbreytingatímum í sögu þess. Það segir sig sjálft að þjóðhöfðingi sem hefur setið vel á sjötta áratug hefur haft áhrif, mótað þjóðina og sögu hennar.

Elísabet II hefur í ljósi margs verið eftirminnilegur þjóðhöfðingi og niðjar hennar hafa ekki verið síður áberandi. Þegar að hún fæddis í desember 1926 hefði fáum órað fyrir að hún yrði æðsti valdhafi bresku krúnunnar. Hún fæddist enda ekki sem erfðaprinsessa. Örlög Elísabetar mótuðust í desember 1936 þegar að föðurbróðir hennar, Edward VIII, sagði af sér konungdómi til að giftast unnustu sinni, hinni tvífráskildu og bandarísku, Wallis Warfield Simpson. Með því dæmdi hann sig í ævilanga útlegð frá fjölskyldu sinni.

Með afsögn Edward VIII var Elísabet orðin erfðaprinsessa krúnunnar. Föður hennar var alla tíð illa við þau örlög að taka við þjóðhöfðingjahlutverkinu. Elísabet, eiginkona hans, leit alltaf á konungdóm hans sem bölvun yfir honum og fjölskyldunni. Hann var stamandi og órólegur og leit á verkefnið sem tröllvaxið sem það varð. Leiðarljós hans í gegnum verkefnin voru eiginkonan og dæturnar, Elísabet og Margrét. Staða krúnunnar þótti veik eftir skammarlega afsögn bróður konungsins, sem var konungur í ellefu mánuði, og þeir voru ólíkir sem dagur og nótt. Georg og Elísabet drottning, móðir Elísabetar II, unnu hug og hjörtu Breta í seinni heimsstyrjöldinni með vaskri framgöngu sinni.

Georg VI greindist með krabbamein síðla árs 1951 og heilsu hans fór ört hrakandi í raun síðustu árin vegna ýmissa kvilla. Veikindum hans var haldið leyndum fyrir þegnum landsins. Dauði hans kom þó óvænt. Hann lést einsamall í herbergi sínu í Sandringham House í Norfolk að morgni 6. febrúar 1952. Hann er eini handhafi bresku krúnunnar sem dó einn og án þess að nokkur væri dánarbeðið. Elísabet var stödd ásamt Filippusi, hertoga af Edinborg, í opinberri heimsókn í Kenýa er faðir hennar lést. Hún var stödd á afskekktu gistiheimili í sveitahéruðum Kenýa er henni voru færðar fregnirnar um dauða föður síns, fregnir sem mótuðu líf hennar fyrr en hún hafði átt von á.

Hún hélt til Englands þegar í stað og sneri aftur sem drottning heimsveldis, stórs heimsveldis. Hún var kona sinnar kynslóðar, mótuð af stríðsátökunum sem mörkuðu valdaferil föður hennar. Hún einsetti sér frá fyrsta degi að gera eins og foreldrar hennar, sem höfðu endurreist veg og virðingu krúnunnar eftir skammarlega brottför Edward VIII. Verkefnið hlýtur að hafa verið tröllvaxið 25 ára gamalli konu. En hún tók við og gerði krúnuna að sinni og tók upp sína siði og sitt verklag með áberandi hætti. Sér við hlið hafði hún ráðgjafann sem hún ráðfærði sig mest við; móður sína sem 52 ára gömul stóð eftir án hlutverks. Elísabet bjó móður sinni opinberan titil drottningamóður.

Elísabet II er sennilega áhrifamesta kona í sögu 20. aldarinnar, sú mest myndaðasta og mest áberandi. Hún hefur verið andlit heimsveldis, vissulega hnignandi heimsveldis, en þó enn áberandi og áhrifamikils heimsveldis, í yfir hálfa öld. Hún eignaðist fjögur börn með eiginmanni sínum, Filippusi; Karl, Önnu, Andrés og Játvarð. Öll hafa þau sett ekki síðra mark á breskt samfélag. Það þótti skandall fyrir ættina þegar að Margrét, systir drottningar, skildi við Snowdon lávarð, mann sinn, á áttunda áratugnum og hún átti í opinberum ástarsamböndum í kastljósi fjölmiðla sem systur hennar og móður mislíkuðu mjög. Það varð þó ekki toppur skilnaðanna í ættinni.

Meiri athygli vakti einkalíf barna drottningar. Er árið 1992 rann í aldanna skaut höfðu þrjú hin elstu öll skilið. Mesta athygli vakti án vafa skilnaður Karls, prins af Wales, og eiginkonu hans, Díönu, prinsessu af Wales. Díana og Karl deildu er á hólminn kom hart á hvort annað. Lögskilnaður þeirra í desember 1992 markaði ekki endalok þess. Bæði veittu fræg sjónvarpsviðtöl þar sem þau sögðu sína hlið skilnaðarins og ellefu ára hjónabands þeirra. Elísabet drottning fékk nóg af stöðunni og skipaði þeim að ganga frá skilnaði. Það tók fjögur að landa skilnaði. Í ágúst 1996 tók hann formlega gildi. Elísabet og Filippus töldu sig þar með hafa heyrt hið síðasta frá Díönu. Svo fór þó ekki.

Díana lést í bílslysi í París þann 31. ágúst 1997. Snögglegur dauði hennar varð sem þruma úr heiðskíru lofti. Breskur almenningur syrgði prinsessuna mjög. Þegar að komið var með kistu hennar til London síðla daginn sem hún dó varð öllum ljós að stórviðburður væri framundan. Hún dó í kastljósi fjölmiðla og var kvödd með sama hætti. Útför hennar og sorgarviðbrögðin voru atburður tíunda áratugarins í bresku samfélagi og um raun um allan heim. Drottningin og hefðarmenn hallarinnar vildu kyrrláta jarðarför án viðhafnar og sem minnst vita af stöðu mála. Að því kom að sorg landsmanna varð ekki beisluð. Drottningin gaf eftir og heimilaði viðhafnarútför í London.

Andlát Díönu, prinsessu af Wales, og eftirmáli þess haustið 1997 markar erfiðasta tímann á 55 ára valdaferli drottningarinnar. Hún stóð varnarlaus eftir gegn landsmönnum sem misbauð hversu litla sorg drottningin sýndi opinberlega. Ákvörðun hennar um að fara ekki til London og ávarpa þjóð í sorg, en halda þess í stað kyrru fyrir í Balmoral-höll í Skotlandi ærði almenning. Hún var sökuð um að vanvirða minningu prinsessunnar og virða ekki óskir landsmanna. Pressan og landsmenn sýndu óánægju með verk og forystu drottningar í fyrsta skipti á valdaferlinum. Hún var komin í vonda aðstöðu, aðstöðu sem hún hafði aldrei áður kynnst. Hún var varnarlaus gegn fjöldanum.

Þegar að sýnt var að staðan var að fara úr böndunum tveim dögum fyrir jarðarför prinsessunnar í London sneri drottningin af leið. Hún var allt að því neydd af Tony Blair, forsætisráðherra, sem tekið hafði við völdum nokkrum vikum áður á bylgju velvildar og mestu vinsælda í breskri stjórnmálasögu, til að viðurkenna sess prinsessunnar og votta henni virðingu opinberlega. Drottningin mætti sorgmæddum lýðnum á götum Lundúna, blandaði geði við þá, tók við blómum sem þöktu strætin utan við Buckingham-höll og vottaði prinsessunni hinstu (og mestu virðinguna) í ógleymanlegu sjónvarpsávarpi kl. 17.00 síðdegis þann 5. september 1997.

Það var í annað skiptið sem drottningin ávarpaði landa sína utan hefðbundins jólaávarps. Hið fyrra var upphaf Persaflóastríðsins. Ávarpið var sögulegt að öllu leyti. Þar sýndi drottningin tilfinningar og hugljúfheit, það sem landsmenn höfðu óskað eftir. Hún bjargaði sess sínum og konungdæminu sem tekið var að riðla til falls. Landsmenn tóku drottninguna í sátt og hún ávann sér að nýju þann sess sem hún hafði fyrir lát Díönu. Í minningu um prinsessuna var fánanum á Buckingham-höll, ríkisfánanum margfræga, flaggað í hálfa stöng. Það hafði aldrei gerst áður, ekki einu sinni er faðir hennar var jarðaður í febrúar 1952. Dauði Díönu breytti konungveldinu að eilífu.

Áratug eftir lát Díönu situr drottningin á friðarstóli, mælist vinsælust allra í fjölskyldunni. Margir hafa sagt að móðir hennar hafi verið sú sem að lokum ráðlagði drottningunni að fara til London og mæta fjöldanum - lækna sárin og laga stöðuna. Drottningamóðirin dó árið 2002, en hún var táknmynd fjölskyldunnar í átta áratugi og virtust þeirra allra. Hún varð 101 árs. Það virðist sem að drottningin hafi erft langlífi hennar og góða heilsu. Ef drottningin ríkir enn eftir níu ár slær hún frægt met Viktoríu, ömmu sinnar, er ríkti í 64 ár.

Hver veit nema það gerist.


Sorglegt mál úr fortíðinni

BreiðavíkÉg hef sjaldan eða aldrei orðið eins orðlaus og var í gærkvöldi. Ég sat þrumu lostinn yfir Kastljósinu eins og sennilega langflestir landsmenn. Það að hlusta á lýsingar af því sem gerðist á drengjaheimilinu í Breiðavík fyrir áratugum var sláandi; það var sorglegt og nísti í hjartastað.

Það að lýsingar á kynferðisofbeldinu og líkamlegum barsmíðum sem börn þurftu að þola komist fyrst í umræðuna fyrir alvöru nú er að mínu mati stóralvarlegt mál. Hversvegna var þetta mál í þagnarhjúpi öll þessi ár? Hvar var eftirlitið á þessum tíma eiginlega og hvar voru þeir sem báru ábyrgð á málaflokknum? Það þarf að afhjúpa allt þetta mál og sýna með afgerandi hvar brotalömin var í kerfinu á þessum tíma.

Þetta er mjög stórt hneykslismál að mínu mati - mikill áfellisdómur yfir þeim sem héldu á málum á þessum tíma. Það var sláandi að sjá harðfullorðna menn, meira að segja Lalla Johns sem þarna var vistaður sem barn, brotna saman við tilhugsunina eina um þennan stað, þessi örlög að vera þar neyddur til vistar, allt ofbeldið og ógeðið. Þetta var stingandi stund að sjá þessi viðtöl og skynja það sem hefur þarna gerst. Það er skylda þeirra sem leiða málaflokkinn í dag að taka á því.

Það er ekki til of mikils mælst að stjórnvöld dagsins í dag biðji þessa menn opinberlega afsökunar á því að hafa verið neyddir til vistar á þessum vítisstað sem þetta heimili hefur verið.


mbl.is Byrjað að undirbúa úttekt á Breiðavíkurmáli í félagsmálaráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð nafnleysingjanna

Reiður tölvunotandiÞað hafa verið lífleg viðbrögð við skrifum Jónínu Benediktsdóttur um spjallvefi á vef hennar. Hún hefur ákveðnar skoðanir á spjallvefunum og tjáir þær óhikað. Það er gleðiefni. Sjálfur hef ég notað spjallvefi aðeins, var reyndar mun virkari í þeim bransa hér í denn en lít þar regulega og set stundum smáskrif þar inn. Ég er þó einn þeirra sem skrifa þar undir nafni, fyrst undir kenninafni mínu í áraraðir, stebbifr, og síðar undir fullu nafni. Það hefur verið gaman að fylgjast með skrifunum, en skrifin þar eru eins ólík og fólkið er margt sem skrifar.

Stór hluti blómalegrar risu Netsins í hversdagssamfélaginu er fjöldi bloggsíðna. Sumir skrifa á spjallvefunum; þeir hafa orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja. Síðustu tvö til þrjú árin hafa spjallvefirnir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu.

Margir á þessum vefum skrifa undir nafnleynd og gefa ekki upp hverjir standa að baki. Það getur verið skiljanlegt ef fólk vill ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt. Oft vill þó nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem á ekki að þekkjast á opinberum vettvangi; alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika.

Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum og ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans. Hef ég fylgst með spjallvefum í sjö til átta ár; sem lesandi og notandi. Þar hef ég kynnst fólki sem bæði vill tjá sig málefnalega undir nafnleynd og þeim sem misnota hana gróflega.

Hef ég verið málefnalegur og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á slíkt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi að gengið sé of langt í skítkasti undir nafnleynd.

Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu.

Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.

Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.


Dimmustu heimar netsamfélagsins

devilcomputer Ég fylltist eiginlega óhug við að lesa þessa frétt. Þvílíkt og annað eins ógeð sem víða fyrirfinnst á netinu. Sá þessa frétt á vef BBC í kvöld sem moggafréttir vitna í og fannst hún eiginlega enn meira afgerandi. Þetta er harður heimur og netheimarnir er engin undantekning. Ógeðið og lágkúran sem víða finnast þar virðast fá sem engin takmörk eiga.

Það eru aðeins nokkrar vikur síðan að Stöð 2 afhjúpaði harða heima netsins og það sem getur gerst á einkamálasíðum og flétti hulunni af sjúkum sálum sem virðast þar þrífast. Kompás og umsjónarmenn þess þáttar eiga hrós skilið fyrir vandaða umfjöllun, þetta er heimur sem varð að afhjúpa og fjalla um - þessi umfjöllun var allavega mikilvæg. Það verður seint sagt að það sé ánægulegt að horfa á svona efni, en það var nauðsynlegt að afhjúpa það sem greinilega gerist á netinu.

Það má spyrja sig að því í hvaða átt heimurinn er að snúa. Kompás sýndi okkur hvernig sjúkar sálir ráðast inn í huga ómótaðra barna og enn annan daginn heyrast fréttir um að lögregla sé kvödd að heimilum fólks til að grípa inn í heimilisátök þar sem foreldrarnir reyna að hafa stjórn á netnotkun barna sinna og missa stjórn á stöðunni - lögreglan verður aðilinn sem aðeins getur lægt öldur. Það er margt mjög hart í gangi. Það eru svo sannarlega bæði ljósir og dökkir heimar til í samfélaginu.

mbl.is „Tálbeita" fundin sek um að leggja á ráðin um nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn Bjarnason á sjúkrahúsi

Björn Bjarnason Eins og fram kom í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fluttur á sjúkrahús í dag, en hægra lunga hans féll saman.

Ég vil senda Birni mínar bestu kveðjur og óska honum góðs bata.

Much ado about nothing....

Jo Ég hef aldrei botnað í breska raunveruleikaþættinum Big Brother og mun sennilega seint gera. Kostulegt sjónvarpsefni, hef annars aldrei fílað þessar gerðir þátta, nema kannski Amazing Race. Var að horfa áðan á kostulegt viðtal á Sky við konu að nafni Jo sem tók þátt í síðasta umgangi af þáttaröðinni. Það var mjög hádramatískt viðtal, mikið grátið og allur pakkinn.

Big Brother hefur gengið í einhver ár og bæði verið gerðar þáttaraðir með óþekktu fólki og þekktu. Í fyrra vakti mikla athygli að George Galloway, þingmaður Respect-sérframboðsins í Bethnal Green and Bow-hverfinu í London og fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins, var þar og þótti gera sig að hálfgerðu erkiflóni þar sem hann lék kött og var í eldrauðum djöflabúningi með hala og alles. Alveg kostulegt. Kannski er hægt að gera svona þáttaröð hér heima og klæða Steingrím J. í svona múnderingu.

En þetta viðtal á Sky áðan var alveg kostulegt. Það sem fólk lifir sig inn í svona feik-drama.... Ég segi bara eins og meistari Shakespeare; Much ado about nothing....

mbl.is Þátttakendur í Stóra bróður enn niðurbrotnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ryan O´Neal í mjög vondum málum

Ryan O´Neal Það er ekki hægt að segja annað en að Ryan O´Neal hafi náð botninum. Nú hefur hann verið handtekinn fyrir að hafa lent í átökum við son sinn og hleypt af skotvopni. Bókunarmyndin af honum á lögreglustöðinni hefur farið um allan heim og hann bíður þess að verða ákærður formlega. Það er ekki beint mikill stjörnuljómi yfir áru hans nú miðað við í denn sem leikara og stjörnu í áratugi á vettvangi kvikmyndanna.

Margir muna eftir Ryan O´Neal úr hinni rómantísku vasaklútamynd Love Story árið 1970. Þar fór hann á kostum í hlutverki ferilsins sem Oliver Barrett, sem fellur fyrir Jennifer Cavalleri en missir hana með sorglegum hætti langt fyrir aldur fram. Það er svo sannarlega súrsæt ástarsaga. Það er ekki hægt að segja annað en að sú mynd hafi verið toppur leikferla bæði O´Neal og Ali MacGraw. Myndin varð ein sterkasta mynd ársins 1970, þó sennilega sé hún einum of væmin á að horfa nú var það mynd tilfinninga og krafts.

Persónulega fannst mér O´Neal bestur í hinni sígildu og ómótstæðilegu Paper Moon frá árinu 1973. Þar lék hann á móti dóttur sinni, Tatum. Mjög sterk mynd og leika feðginin mjög útsmogin feðgin sem leggja saman í púkkið til að hafa í sig og á; hann selur biblíur til grandalausra ekkna í sorg og hún leikur með. Fyndinn pakki. Tatum fékk óskarsverðlaunin, yngst allra leikara í sögu Óskarsverðlaunanna, fyrir túlkun sína á Addie en pabbinn varð ekki síðri. Myndin hefur frá fyrsta degi verið klassasmíð. Nefna mætti fleiri myndir með O´Neal, en í seinni tíð hefur ferill hans verið mjög lágstemmdur. Það síðasta sem ég man eftir með honum er hlutverk Jerrys Fox í Miss Match og Rodney Scavo í Desperate Housewifes.

En Ryan er heldur betur í klúðri, vægast sagt. Verður fróðlegt að sjá hvernig að þessu máli muni ljúka.

mbl.is Ryan O'Neal handtekinn eftir átök við son sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...að vera rukkaður án þess að vilja það

Setið við tölvuÞað getur varla verið þægilegt að vakna upp við það að vera rukkaður um eitthvað sem maður hefur hvorki óskað eftir að fá eða kannast ekki við að hafa pantað beint. Þetta virðist gerast í auknum mæli. Las athyglisverða umfjöllun um þessi mál í Sunnudagsmogganum sem segir sína sögu vel. Þar er rætt við Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, sem fjallar um þessi mál með fróðlegum hætti.

Ég veit af einum fjölskyldumeðlimi mínum sem vaknaði upp í þessari stöðu, en það var ekki nein rosaleg upphæð.... en þetta er nóg samt. Þetta er slæmt mál og hlýtur að vekja fólk til umhugsunar. Ekki vildi ég allavega fá kvittun í gegnum heimabankann fyrir eitthvað sem ég kannaðist ekki við.

Það þarf að standa betur að þessum málum. Það getur aldrei talist eðlilegt að svona geti gerst.


mbl.is Greiðsluseðlar sendir í heimabankann án þess að vara sé pöntuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband