Færsluflokkur: Dægurmál

Ásthildur Cesil biðst afsökunar á skrifum sínum

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður spjallvefsins málefnin.com, hefur beðið mig opinberlega afsökunar á því að hafa komið á spjallvefinn með kjaftasögu þess efnis að ég hefði átt að hafa gengið í Frjálslynda flokkinn til að styðja Margréti Sverrisdóttur í nýlegu varaformannskjöri flokksins. Það var með ólíkindum að Ásthildur Cesil skyldi birta þessi lágkúrulegu skrif. Þau gengisfelldu mjög þennan spjallvef, sem frekar lágreistur var orðinn fyrir. Nafnleysingjar segja eflaust eitt og annað en manneskja í þessari stöðu lækkar risið á vefnum með svona tiktúruskrifum.

Ásthildur Cesil segist í kommenti á málefnavefnum hafa talað sérstaklega við Magnús Reyni Guðmundsson, bæjarfulltrúa á Ísafirði og framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins, í gær og kannað hvort að ég hefði nokkurntíma verið þar skráður innanborðs, fyrir landsþing og á meðan á því stóð. Svo var auðvitað ekki. Er mjög merkilegt að manneskja sem er komin til vits og ára og hlýtur að teljast vel sigld í lífinu hafi ekki fyrr kannað þetta mál, hafi hún talið þörf á því, áður en kjaftasagan var birt opinberlega með þessum hætti. Þetta verklag vekur vissulega fleiri nokkra athygli.

Ég gagnrýndi Ásthildi Cesil harkalega í skrifum hér og á sjálfum spjallvefnum í gær. Það var mjög eðlilegt. Mér finnst það ekki beint geðslegt að vera allt að því borinn þeim sökum að hafa gengið í stjórnmálaflokk til þess eins að upphefja einhverja manneskju, sem ég þekki ekki neitt, í leðjuslag. Svona orðrómur finnst mér ekki geðslegur og ég gat ekki annað en svarað fyrir mig og sýnt í leiðinni mitt skap. Ég er kominn af miklu skapfólki sem hefur sterka réttlætiskennd og bregst harkalega við sé að því vegið.

En þetta er svona bara, ég hef sagt það sem ég hef að segja og komið mínu vel til skila. Eftir stendur að þetta var sorglegt mál sem hefur því miður gengisfellt þennan vef stórlega. Auðvitað átti vefstjórinn fyrst að kanna sitt mál áður en þessi kjaftasaga var birt á opnum spjallvef. Þetta er ótrúleg framkoma af vefstjóra spjallvefs að vera. Ég fer ekki ofan af því og stend við gagnrýni mína. Hinsvegar fagna ég því að vefstjórinn hafi séð að sér og tel hana manneskju að meiri með þessu.


Stjarna er fædd - yndisleg kvikmynd

hudson Ég fór nýlega í bíó og sá kvikmyndina Dreamgirls - hreint út sagt stórfengleg mynd með flottum söngvaatriðum og gríðarlega vel leikin. Senuþjófur myndarinnar er hiklaust Jennifer Hudson. Það er ekki ofsögum sagt að stjarna sé fædd. Hún hefur farið sigurför um allan heim og er orðin stórstjarna, í senn bæði sem leikkona og söngkona. Hún hefur unnið öll helstu kvikmyndaverðlaunin síðustu vikurnar og flest stefnir í að hún hljóti óskarsverðlaunin eftir hálfan mánuð. Hún á það enda skilið fyrir meistaralega túlkun á Effie White.

Fyrir þrem árum varð Jennifer Hudson fyrst fræg; þá sem þátttakandi í American Idol. Hún var eftirlæti dómaranna og þótti mjög sigurstrangleg. Flest stefndi í að hún kæmist mjög langt og einn dómaranna, Simon Cowell, átti varla nógu sterk lýsingarorð til að lýsa hæfileikum hennar og vandaðri sviðsframkomu. Mörgum að óvörum féll Hudson úr keppni um mitt keppnistímabilið, þegar að fimm til sex voru enn aðrir eftir í keppninni. Dómararnir hörmuðu brotthvarf hennar úr þáttunum. Svo fór síðar að Fantasia Barrino vann keppnina. Jennifer Hudson er nú orðin margfalt meiri stjarna en Fantasia og vann meira að segja samkeppni við hana um hlutverkið í myndinni.

Það má fullyrða að Jennifer Hudson verði ein helsta stjarna Óskarsverðlaunanna nú að þessu sinni. Flestir virðast gera ráð fyrir sigri hennar í aukaleikkvennaflokknum en það yrði mjög sögulegt fengi leikkona án nokkurs leikferils í raun sjálfan óskarinn, leikkona sem í raun er söngkona. Þetta er því svo sannarlega "breakthrough"-móment fyrir Hudson. Hvernig sem fer hefur hún allavega stimplað sig rækilega inn í kvikmynda- og tónlistarheiminn og kvikmyndagagnrýnendur tala um einhverja eftirminnilegustu innkomu nýstirnis í bransann í áratugi. Hún er talin stærsti plús glæsilegrar myndar.

Hvernig sem fer mun Hudson syngja lag úr myndinni við óskarsverðlaunaafhendinguna; hún mun víst syngja lagið Love You I Do. Það eru heil þrjú lög af þeim fimm tilnefndu að þessu sinni sem koma úr Dreamgirls. Segir allt um gæði tónlistarinnar. Það vakti athygli að meira að segja Bretar verðlaunuðu Hudson fyrir leikinn í Dreamgirls á Bafta-kvikmyndahátíðinni um helgina. Það eru merk tíðindi að Bretar verðlauni konu sem aldrei hefur fyrr leikið burðarhlutverk í kvikmynd. Mjög sterk frammistaða.

Það er því varla furða að Jennifer Hudson prýði forsíðu Vogue, fyrst þeldökkra söngkvenna. Þetta er umfram allt til marks um stöðu hennar í dag. Hún er ein heitasta nýstjarna tónlistar og kvikmynda þessar vikurnar. Hvet annars alla til að sjá Dreamgirls - algjör eðalmynd. Með algjörum ólíkindum er þó að myndin hafi fengið flestar Óskarstilnefningar en ekki fyrir bestu mynd ársins, get ekki annað sagt.

mbl.is Jennifer Hudson brýtur blað í sögu Vogue
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna Nicole og fjölmiðlakapphlaupið

Anna Nicole Smith Það er að verða vika síðan að Anna Nicole Smith dó, rétt eins og hún lifði, í kastljósi fjölmiðla. Kapphlaup fjölmiðla við að kortleggja síðustu stundir og augnablik stjörnunnar þekja forsíður fjölmiðla og dekka umfjöllun fréttastöðvanna um allan heim. Um fátt meira er talað. Framboðstilkynning Barack Obama um helgina varð eiginlega í skugganum um umræðunni um ævi og örlög Önnu Nicole Smith, eins kostulegt og það hljómar.

Fréttir ganga nú um hvað hefur orðið stjörnunni að bana, ef ekki ofnotkun lyfja, og kjaftasögurnar grassera og fyllt er hiklaust í þær lausu eyður sem við blasa. Málið blæs jafnhratt út eins og 17. júní -helíumblaðra.... sem kannski flýgur út í buskann álíka hratt. Hver veit. Þetta er allt einn lærdómur um það hversu frægðin er grimmur kaleikur að öllu leyti. Það verður allavega seint sagt að frægðin hafi verið hamingjusöm í ævi þessarar ógæfusömu stjörnu.

Fréttin um að hún hefði átt í ástarsambandi við innflytjendamálaráðherrann á Bahama-eyjum og myndir af þeim dekka stórblöðin vestanhafs á þessum degi. Mikil frétt það og boðar varla gott fyrir pólitískan feril þess ráðherra og ráðandi öfl á eyjunum. Svo er barist um húsið hennar Önnu Nicole.... faðerni barnsins hennar var í vafa og allavega þrír menn, hvur veit nema þeir verði fleiri sem vilji bita af vænni köku, sem vilja kannast við barnið.

Þvílíkt mál.... hljómar alveg eins og ein af þessum dramatísku Hollywood-myndum sem sjá má í bíóhúsunum. En þetta er víst algjör alvara... með þeim allra svæsnustu líka.

mbl.is Anna Nicole í faðmlögum við ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatík í réttarsal

Jón Gerald og Jón Ásgeir Það hefur heldur betur gengið á ýmsu í réttarsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Mikil dramatík - Jóni Gerald vísað úr salnum af dómaranum, Arngrími Ísberg, á þeim forsendum að ákærðir væru ekki viðstaddir vitnaleiðslu yfir öðrum sakborningum. Jón Gerald mun eiga að koma fyrir dóminn eftir um tíu daga, en hann varð sjálfur sakborningur málsins á seinni stigum en hefur verið í miðpunkti þess frá upphafi.

Held að það sé rétt hjá mér að Baugsmálið sé fimm ára á þessu ári, þetta er orðið langvinnt mál; löng rannsókn og það hefur farið sem jójó á milli Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur, sem eru til húsa nærri á sömu torfunni í höfuðstaðnum. Flestir fylgjast með hvernig málinu lýkur. Þessi hluti málsins stefnir í að vera harður og fróðlegt að sjá hvernig umræðan verður á meðan.

Jón Ásgeir og Ingibjörg Pálmadóttir brugðu á leik í gær og mættu til dómshúss með Bónus- og Hagkaups-innkaupapoka upp á arminn - vissulega nokkuð snjallt PR. Þó að þetta mál sé orðið langdregið í huga margra Íslendinga og mjög teygt er fylgst vel með því svo sannarlega.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Héraðsdómi og síðar fyrir Hæstarétti enda fer málið væntanlega þangað er á hólminn kemur.... og hvernig sem fer.

mbl.is Jóni Gerald vísað úr réttarsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menningarhúsið á Akureyri mun fá heitið Hof

Kaka í lagi MenningarhússinsStjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að Menningarhúsið við Strandgötu hér á Akureyri, sem nú rís, muni hljóta heitið Hof. Það voru Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Heimir Kristinsson sem skiluðu inn tillögu að nafninu og hafa hlotið verðlaun í tilefni þess. Þetta er virkilega fallegt og viðeigandi heiti og mjög notalegt að loks sé komið nafn við nýju menningarmiðstöðina okkar hér - sem loksins rís og löngu var orðið tímabært að kæmi til sögunnar.

Menningarhúsið verður í hjarta Akureyrarbæjar við Strandgötuna og mun verða eitt af kennileitum Akureyrar í framtíðinni. Það mun ekki fara framhjá neinum sem til bæjarins koma. Tilkoma menningarhúss verður mikill lyftistöng fyrir alla menningarstarfsemi hér á svæðinu. Markmiðið með því er auðvitað að efla til mikilla muna alla menningarstarfsemi hér. Í húsinu er ráðgert að hvers konar tónlistarflutningur verði í öndvegi en þar verði jafnframt aðstaða til annarrar fjölþættrar starfsemi svo sem fyrir ráðstefnuhald, fundi, listdans, dans, leiklist, sýningarhald og margt fleira.

Gunnur Ringsted, eiginkona Heimis Kristinssonar, annars þeirra sem áttu tillögu að nafninu Hof orti í tilefni nafngiftarinnar fallegt ljóð sem vert er að benda á hér;

Hof
Að heiman ég horfi
á húsið rísa.
Eigum þar auðgun
andans vísa,
ólgar þar eldhugans
öflug bylgja.
Hof skal það heita,
heill því fylgja.


mbl.is Menningarhús á Akureyri mun heita Hof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásthildur Cesil fjarlægir kjaftasöguþráðinn sinn

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður spjallvefsins málefnin.com, hefur nú eytt kjaftasögu- og ósannindaþræði sínum þar sem hún gaf í skyn þau ósannindi að ég hefði gengið í Frjálslynda flokkinn til að vinna í haginn fyrir Margréti Sverrisdóttur. Með þessu verklagi sínu braut vefstjórinn eigin málverjaboðorð, boðorð sem virðast ekki vera fimmeyringsins virði. Það er kostulegt að fylgjast með þessu öllu saman.

Reyndar hefur viðkomandi vefstjóri ekki enn sýnt sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessu klúðri sínu - væri hún merkilegri en þessi ómynd sem hún sýndi af sér í gærkvöldi með þessu kjaftasögublaðri myndi hún gera það. En lengi má manneskjuna reyna. Þvílík ómerkilegheit og ógeð sem tíðkast á þessum guðsvolaða spjallvef.

Ómerkileg umræða vefstjórans á málefnum

Í gærkvöldi bendi athugull lesandi mér í tölvupósti á það að í gangi væri umræða á spjallvefnum málefnin.com þar sem Ásthildur Cesil Þórðardóttir, vefstjóri og ábyrgðarmaður vefsins, kemur með kjaftasögu þess efnis að ég hefði átt að hafa gengið í Frjálslynda flokkinn til að styðja Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri flokksins. Þessi saga er uppspuni með rótum, enda hef ég aldrei hitt Margréti eða talað við hana. Einu kynni mín af henni fyrir utan það að heyra af henni í fjölmiðlum er að hún er bloggvinur minn hér á þessu bloggkerfi og er ekki ein um það.

Ég verð að viðurkenna að mér misbauð þessi skrif Ásthildar Cesil og svaraði þeim á vefnum. Hefði ég væntanlega ekki kært mig um það hefði einn nafnleysingjanna komið með þessa ómerkilegu kjaftasögu. Það að vefstjórinn sjálfur komi þar inn með hvaða kjaftasögur sem er olli mér vonbrigðum. Það er greinilegt að þar hefur verið farið fram með meiri kappi en nokkru sinni forsjá. Þessi vefur er reyndar fyrir löngu orðinn brandari. Nægir þar að benda á góð skrif bloggvinkonu minnar, Jónínu Benediktsdóttur, sem hefur staðið sig mjög vel í að skrifa um þennan spjallvef.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir er landsfræg stuðningskona Frjálslyndra, hefur verið varabæjarfulltrúi þeirra á Ísafirði og er skólasystir Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins og mikil vinkona hans. Það verður seint sagt að hún sé óháð og virðist stjórn hennar á þessum spjallvef sem hefur fyrir löngu farið úr öskunni í eldinn ráðast mest eftir hennar behag. Svona ósannar kjaftasögur sem breiddar eru út af vefstjóra þessa vefs eru með ólíkindum og gengisfella bæði vefinn sem slíkan og vefstjórann.

Það er ekkert leyndarmál að mér er mjög illa við Frjálslynda flokkinn og hef gagnrýnt hann í áranna rás allnokkuð. Þrjú ár eru liðin síðan að varaformaður flokksins sagðist í ölæði sínu vilja sprengja mig til helvítis í umræðu á þessum spjallvef. Það er allavega öllum ljóst sem mig þekkja að ég myndi aldrei sjálfviljugur ganga í þennan flokk. Hafi hinsvegar einhver skráð mig í flokkinn og kosið þar í sirkusnum sem var þar um daginn vildi ég gjarnan vita það.

Annars er til annar Stefán Friðrik Stefánsson á öllu landinu, maður sem ég þekki ekki en hef vitað af vegna þess að við berum sama nafn og nokkrum sinnum hef ég fengið símtöl og tölvupóst sem ekki er mér ætlaður heldur honum. Hvort hann hafi skráð sig til liðs við Frjálslynda veit ég ekki og vil ekki vita. Það sem mér finnst verra er að Ásthildur Cesil hefur ekki enn beðist afsökunar á þessum skrifum og eiginlega er ég að bíða eftir því umfram allt annað.

Mér finnst hún hafa sett mjög niður við þetta sem persóna, enda hef ég fram til þessa ekki þekkt hana af neinu vafasömu eða lágkúrulegu. En þessi umræða sannar í eitt skipti fyrir öll að þessi málefnaspjallvefur er orðinn algjör brandari og ekki er vefstjórinn að bæta fyrir virðingu vefsins með skrifum sínum, svo mikið er víst.


Slitinn brandari

Silvía Nótt Jæja, þá er víst Silvía Nótt að snúa aftur, eða allavega reyna að eiga kombakk.... og hún er farin að heimsækja bloggara. Ég botna engan veginn orðið í þessum karakter og þessu öllu. Þetta er orðin hálfgerð óraunveruleikasaga. Þessi brandari byrjaði sem öflugur, náði hámarki sínu með Eurovision-sigri Silvíu fyrir nákvæmlega ári... en eftir keppnina í Grikklandi hefur þetta verið lágstemmt frekar.

Fannst skondið að lesa sögur um heimsóknir Silvíu til bloggara.... maður veit eiginlega ekki hvað segja skal. Þetta er einum of langt gengið myndi ég segja og ég botna engan veginn í þessum vinnubrögðum. Á þetta kannski að vera listrænn gjörningur? Er nema von að spurt sé. Þetta er allavega á mjög undarlega lítinn hátt tengt tónlist allavega. Þetta meikar lítinn sens myndi maður allavega segja.

Fróðlegt verður að sjá hvort að Silvía Nótt eigi sér séns til endurkomu. Ég yrði ekki hissa þó flestir landsmenn væru búnir að fá alveg nóg af karakternum. Frábær leikkona eins og Ágústa Eva sem hefur ráðandi eignarhlut í Silvíu Nótt er fjölhæf leikkona sem sannaði sig í Mýrinni - hún er svo sannarlega betur komin í öðru... þessar nýjustu tiktúrur hennar til samskipta við bloggara landsins er svona einum of.

mbl.is Silvía Nótt herjar á bloggara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg grimmd í sinni verstu mynd

Misnotkun Það hefur því miður afhjúpast æ ofan í æ í gegnum árin að það er mikil grimmd í þessum heimi. Ofbeldi, bæði líkamlegt og sálrænt, er orðið of ráðandi þáttur samfélagsins og það er orðið svo margt ógeðslegt sem kemur upp. Gott dæmi um það hérna heima eru alvarleg mál kennd við Breiðuvík og Byrgið, sem mikið hafa verið í umræðunni. Það allra versta er þó þegar að foreldrar leggja hendur á börnin sín eða hefta frelsi þeirra.

Fannst frekar sorglegt að lesa þessa Moggafrétt. Það er skelfilegt að til séu foreldrar sem loki börnin sín af jafnvel svo árum skiptir og það á þessum tæknivæddu nútímalegu tímum sem við lifum á - þeim tímum sem við stærum okkur af að allt sé svo fullkomið; tæknin og velsældin aldrei meiri. En það er því miður svo að skemmd epli finnast alltaf í stórum körfum. Það sannast af þessari frétt og það er alltaf stingandi að sjá svona heim bakvið tjöldin; heim ofbeldis og kúgunar. Það er aldrei eðlilegt að horfa upp á slíkt.

Sálrænt ofbeldi er engu skárra en líkamlegt ofbeldi. Það vill oft leggjast þyngra á sálina. Það er vissulega hægt að bæla fólk með ýmsum hætti og slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman. En það er alltaf ömurlegt að lesa svona fréttir.... því miður er hún ekkert einsdæmi.

mbl.is Einangraði þrjár dætur sínar frá umheiminum í sjö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul dagblöð öðlast nýtt líf á netinu

Sigrún Klara og Sigrún BjörkSigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, og Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, undirrituðu í morgun samstarfssamning sem felur í sér fulla stafræna endurgerð á prentuðu efni nokkurra dagblaða og færslu þess yfir á veraldarvefinn. Um er að ræða stafræna endurgerð Dags, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins og birtingu þess á Netinu. Verður verkefnið allt unnið hér nyrðra.

Nú þegar hefur verið unnið að því að setja Morgunblaðið allt á stafrænt form og hægt er að lesa það með auðveldum hætti allt aftur til stofnárs, árið 1913. Eins og fram kemur í fréttatilkynningu vegna þessa verkefnis er auk Morgunblaðsins búið að mynda Lögberg-Heimskringlu svo og öll íslensk tímarit og dagblöð sem eru eldri en frá árinu 1920 - mun síðufjöldi stafrænna gagna sem er nú að fullu aðgengilegur á netinu kominn nokkuð á aðra milljón.

Það er mikilvægt að standa vörð um gömul dagblöð, tímarit og rit sem hafa verið áberandi í samfélaginu. Sum þeirra eru ekki lengur gefin út og hafa því sagt sitt síðasta. Það er mikilvægt verkefni að gera þetta aðgengilegt með auðveldum hætti og að hægt sé að kynna sér gömul blöð á netinu og lesa gamlar fréttir og gömul viðtöl. Þetta er arfur sem færa þarf framtíðarkynslóðum og það verður aðeins gert með öflugu átaki til fullrar varðveislu þeirra.

Það er sérstakt gleðiefni að standa eigi vörð um öll blöð dagblaðsins Dags, sem gefinn var út hér á Akureyri í tæp áttatíu ár. Það blað skipar stóran sess í norðlenskri sögu. Að því blaði er að mínu mati mikil eftirsjá og mér hefur fundist sess þess ekki hafa verið fyllt hér, þó vissulega komi Vikudagur út og hafi gert í tæpan áratug. Það hvernig fór fyrir Degi var leiðindasaga, ég er einn þeirra sem enn sakna þess að lesa það að morgni. Veit ég að fleiri eru sama sinnis.

Nú hefur verið hafið sérstakt átak að standa vörð um þessi gömlu blöð og færa þau landsmönnum með auðveldum hætti. Undirritun þessa samnings er því sérstakt gleðiefni. Sérstaklega hljótum við hér fyrir norðan að gleðjast yfir því að öll eintök Dags verði sett á netið og sú merka saga sem það blað skipar í huga okkar hér verði aðgengileg með einföldum tölvusmelli.

Stefnt er að því að efnið verði allt aðgengilegt í gegnum slóðina tímarit.is.


mbl.is Dagur, Tíminn, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn á netið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband