Stjarna er fædd - yndisleg kvikmynd

hudson Ég fór nýlega í bíó og sá kvikmyndina Dreamgirls - hreint út sagt stórfengleg mynd með flottum söngvaatriðum og gríðarlega vel leikin. Senuþjófur myndarinnar er hiklaust Jennifer Hudson. Það er ekki ofsögum sagt að stjarna sé fædd. Hún hefur farið sigurför um allan heim og er orðin stórstjarna, í senn bæði sem leikkona og söngkona. Hún hefur unnið öll helstu kvikmyndaverðlaunin síðustu vikurnar og flest stefnir í að hún hljóti óskarsverðlaunin eftir hálfan mánuð. Hún á það enda skilið fyrir meistaralega túlkun á Effie White.

Fyrir þrem árum varð Jennifer Hudson fyrst fræg; þá sem þátttakandi í American Idol. Hún var eftirlæti dómaranna og þótti mjög sigurstrangleg. Flest stefndi í að hún kæmist mjög langt og einn dómaranna, Simon Cowell, átti varla nógu sterk lýsingarorð til að lýsa hæfileikum hennar og vandaðri sviðsframkomu. Mörgum að óvörum féll Hudson úr keppni um mitt keppnistímabilið, þegar að fimm til sex voru enn aðrir eftir í keppninni. Dómararnir hörmuðu brotthvarf hennar úr þáttunum. Svo fór síðar að Fantasia Barrino vann keppnina. Jennifer Hudson er nú orðin margfalt meiri stjarna en Fantasia og vann meira að segja samkeppni við hana um hlutverkið í myndinni.

Það má fullyrða að Jennifer Hudson verði ein helsta stjarna Óskarsverðlaunanna nú að þessu sinni. Flestir virðast gera ráð fyrir sigri hennar í aukaleikkvennaflokknum en það yrði mjög sögulegt fengi leikkona án nokkurs leikferils í raun sjálfan óskarinn, leikkona sem í raun er söngkona. Þetta er því svo sannarlega "breakthrough"-móment fyrir Hudson. Hvernig sem fer hefur hún allavega stimplað sig rækilega inn í kvikmynda- og tónlistarheiminn og kvikmyndagagnrýnendur tala um einhverja eftirminnilegustu innkomu nýstirnis í bransann í áratugi. Hún er talin stærsti plús glæsilegrar myndar.

Hvernig sem fer mun Hudson syngja lag úr myndinni við óskarsverðlaunaafhendinguna; hún mun víst syngja lagið Love You I Do. Það eru heil þrjú lög af þeim fimm tilnefndu að þessu sinni sem koma úr Dreamgirls. Segir allt um gæði tónlistarinnar. Það vakti athygli að meira að segja Bretar verðlaunuðu Hudson fyrir leikinn í Dreamgirls á Bafta-kvikmyndahátíðinni um helgina. Það eru merk tíðindi að Bretar verðlauni konu sem aldrei hefur fyrr leikið burðarhlutverk í kvikmynd. Mjög sterk frammistaða.

Það er því varla furða að Jennifer Hudson prýði forsíðu Vogue, fyrst þeldökkra söngkvenna. Þetta er umfram allt til marks um stöðu hennar í dag. Hún er ein heitasta nýstjarna tónlistar og kvikmynda þessar vikurnar. Hvet annars alla til að sjá Dreamgirls - algjör eðalmynd. Með algjörum ólíkindum er þó að myndin hafi fengið flestar Óskarstilnefningar en ekki fyrir bestu mynd ársins, get ekki annað sagt.

mbl.is Jennifer Hudson brýtur blað í sögu Vogue
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Takk fyrir þetta, þarf endilega að bregða mér í bíó.

Ester Sveinbjarnardóttir, 14.2.2007 kl. 07:29

2 Smámynd: Ólafur fannberg

er á leið í bíó

Ólafur fannberg, 14.2.2007 kl. 07:48

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, þið verðið endilega að sjá þessa. Algjör eðalmynd. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.2.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband