Færsluflokkur: Dægurmál

Hefur verið byggt of mikið á Akureyri?

Guðmundur Ómar Guðmundsson Í hádegisfréttum Stöðvar 2 var athyglisvert viðtal við föðurbróður minn, Guðmund Ómar Guðmundsson, formann Félags byggingarmanna í Eyjafirði og fyrrum bæjarfulltrúa á Akureyri, þar sem hann segir þá skoðun sína að meira hafi verið byggt af húsum á Akureyri upp á síðkastið en svari í raun eftirspurninni. Telur hann t.d. að bærinn hafi ekki brugðist nógu hratt við breyttri samkeppni.

Eins og sagt hefur verið frá víða í fréttum að undanförnu hefur að undanförnu verið mikið fall í sölu fasteigna á Akureyri, eiginlega sögulega lítil sé litið á síðustu tíu árin eða lengur. Er það greinileg skoðun Mugga að of mikið hafi verið byggt á meðan að fasteignasalar telja skiljanlega, miðað við stöðu sína, að ástæðan sé að hægt hafi á fjölgun bæjarbúa. Er sjónarhorn Félags byggingarmanna mjög merkilegt að mínu mati og tek ég undir þær skýringar að of mikið hafi verið byggt en eftirspurn var fyrir.

Sjálfur hef ég heyrt af fólki sem þarf að leigja fyrri fasteign til að geta komið sér inn í þá sem nýrri er. Gott dæmi um þetta er eldra fólk sem hefur keypt sér íbúð í fjölbýli en getur illa losnað við fyrri fasteign, sem almennt er einbýlishús af stærri sortinni. Það sé neyðarúrræði í raun að leigja húsið til að komast áfram. Þetta er vont neyðarbrauð fyrir t.d. gamalt fólk. Svo má í raun benda á hvort að lítið framboð af einbýlishúsalóðum hér í bænum sé hluti af stöðu mála, en t.d. hafa hús sprottið upp með miklum hraða fram í firði og í Vaðlaheiðinni.

Staða mála á fasteignamarkaði hér nú er nokkuð ný af nálinni og þar standa nú eftir spurningar sem verður að svara. Velta má fyrir sér hvort að bærinn hefði mátt bregðast betur við þessari nýju stöðu sem upp er komin. Í raun er þetta mál sem um verður rætt hér. Staða mála eins og hún er núna skilur eftir fjölda spurninga, enda erum við að vakna upp hér við nýja og umhugsunarverða þróun að mínu mati.

Skelfilegt ástand í háloftunum

Flugvélin Það hlýtur að vera skelfileg tilfinning að vera um borð í flugvél þar sem eitthvað fer úrskeiðis. Það er eitt mesta öryggisleysið við veru um borð í flugvél í háloftunum að fari eitthvað úrskeiðis getur orðið fátt sem getur orðið til batnaðar ástandinu í raun. Öryggistilfinningin breytist hratt þar fari eitthvað úrskeiðis. Sem betur fer ekkert alvarlegt um að ræða í þessu tilfelli.

Fyrir nokkrum vikum var einn vinur minn í flugi á milli Parísar og Keflavíkur. Vélin tók mikla dýfu í fluginu, alveg ógnvænlega. Hef heyrt margar lýsingar á þeirri ferð, enda hlýtur það að hafa verið ógnvænleg upplifun í þeirri stöðu. Þar köstuðust hlutir til og skelfing farþega auðvitað mikil. Það hlýtur að vera að farþegar fái kvíðakast í slíku tilfelli, en sem betur fór vel í því tilfelli.

Það er oftast nær öryggistilfinning yfir því að fljúga - stutt á milli og góður ferðamáti. En það þarf ekki mikið að fara úrskeiðis í fluginu til að versni yfir, enda má lítið þannig séð út af bera.

mbl.is Neyðarástand um borð í flugvél Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegt ástand

Vörubíllinn Það er óhætt að segja að betur hafi farið en á horfðist þegar að vörubíl var ekið á ofsahraða um borgina í gærkvöldi. Mildi að ekki varð slys á fólki. Þetta fær fólk til að hugsa æ betur um hættuna af slíkum bílum sé keyrt á þeim með ofsahraða.

Í þessu tilviki mun hafa verið vanheill maður við stýri og þetta mál virðist allt frekar dapurt. Sorglegt bara. Þessi ofsaakstur er varla einstakur, en hann fær fólk vonandi til að hugsa málið vel, sé fólk við stýri sem kann ekki að stýra bíl af þessu tagi og hefur ekki þekkingu til þess.

mbl.is Vörubíll stöðvaður eftir ofsaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

...að vera næstum því étinn af hákarli

Hákarl Hann var heldur betur heppinn þessi Ástrali, hann slapp naumlega við gin hákarlsins. Það eru ekki allir svona heppnir því miður. Hvíthákarl er nú með því ófrýnilegasta, svo að þessi frétt er með algjörum ólíkindum, vægast sagt.

Hvíthákarlinn varð sennilega frægastur í víðfrægri kvikmynd meistara Stevens Spielbergs fyrir rúmum þrem áratugum, Jaws. Þar sjáum við hvernig ógnin af hvíthákarli vofir yfir íbúum strandbæjar sem stendur og fellur með ferðamannaparadis við sjóinn. Ógnin af hákarlinum eykst stig af stigi alla myndina.

Það er sennilega rétt að horfa á Jaws í kvöld.... og rifja upp stemmninguna. Held að það muni líða á löngu þar til að ástralski kafarinn setur Jaws í DVD-spilarann sinn.

mbl.is Telja að hákarlinum hafi þótt kafarinn vondur á bragðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjafmildi og heimsfrægur afmælisgestur

Sir Elton John Er nokkuð annað hægt en að bera virðingu fyrir þeim manni sem getur á sama deginum stofnað velgerðarsjóð með milljarð sem stofnframlag og fengið Sir Elton John til að syngja í afmælinu sínu? Eða hvað? Er þetta framtíðin í hinu íslenska hvunndagslífi? Ég verð að viðurkenna að það er hálf óraunverulegt að íslenskur athafnamaður fái mann af kalíber Eltons sem tónlistarmanns til að syngja í afmælinu sínu hér heima á Fróni.

Sumir láta sér duga að fá Bó Hall eða Ragga Bjarna, en ónei hér er hringt bara í aðlaða margverðlauna og múltífrægan söngvara. Merkileg tímamót í umræðunni. Mér fannst það flott hjá Ólafi og frú að stofna þennan sjóð en tíðindin af komu Eltons voru svona súrrealísk viðbót á sama deginum. Ég er ekki einn þeirra sem hokraðist á Laugardalsvelli á tónleikunum hans Eltons fyrir nokkrum árum og voru hundóánægð með umgjörð tónleikanna. Það væri fróðlegt að vita hvað fólkið sem þar var statt hugsar nú.

Sumum dreymir eflaust alla ævi eftir því að fara á tónleika með átrúnaðargoðinu sínu. Aðrir hringja bara í umboðsmennina þeirra og panta þá í afmælið sitt. Þetta er nýr skali í þessu hérna heima. Þetta er reyndar ekki á færi allra. Heldur einhver að Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, myndi geta fengið Rolling Stones í næsta stórafmæli sitt? Veit ekki svosem, en efast allverulega um það. Efast líka allnokkuð um það að ég gæti fengið minn uppáhaldstónlistarmann til að mæta í afmælið mitt í desember. Nema maður slái sér bara lán, eða hvað?

Ólafur Samskipsmógúll er hiklaust maður dagsins. Þarf engan rökstuðning á þann pakkann.

mbl.is Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei takk við kristilegu Byrgis-BDSMklámi

Ég er einn þeirra sem hef fengið sendan link á klámmyndbandið með Guðmundi í Byrginu sem virðist vera það vinsælasta á netinu þessa dagana. Thanks, but no thanks - hef ekki áhuga á að kynna mér afbrigðilegt kynlíf manns sem leikur sig einhvern vitring á kristilegu meðferðarheimili sem sukkar á ríkisfé og býður upp á stóðlíferni. Þvílíkt myndefni og þvílík umræða. Það virðist sífellt verða meira svæsið þetta mál.

Sjálfskaparvíti ByrgisGuðmundar er algjört. Hann getur þó algjörlega sjálfum sér um kennt. Það besta fyrir hann nú væri einfaldlega að fara að tala af viti og segja söguna eins og hún er frá a-ö. Það getur varla vont batnað fyrir honum. Nú ætlar Guðmundur að reyna að telja fólki trú um að honum hafi verið nauðgað af gellunni sem hann sagði fyrir nokkrum vikum að hann hefði aldrei sofið hjá. Þvílíkt og annað eins. Hann þvertók fyrir jól fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi. Dæmi hver sem vill.

Annars ætla ég ekki að dæma BDSM-hugsanir Guðmundar eða afbrigðilegt kynlíf hans þó að það sé við einstaklinga sem hann er með í meðferð. Það dæmir sig algjörlega sjálft. Það er sjúkt. Hitt sem er verra er að misfarið var með ríkisfé af honum í Byrginu í þónokkurn tíma. Það er alvarlegt mál. Það er kjarni þessa máls. Ekki það hvort að hann reið einni konu eða fleirum.


mbl.is Mun klámið ráða úrslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stockholm syndrome

Shawn Hornbeck Ein stærsta spurningin vestanhafs þessa dagana snýst um hvernig að hinum 41 árs gamla Michael Devlin tókst að halda hinum 15 ára Shawn Hornbeck í haldi sínu í fimm ár. Svarið að flestra mati er Stockholm syndrome. Það virðist vera kaldhæðnislega rétt. Eftir því sem leyndarhjúpurinn í kringum málið minnkar hægt og rólega virðist koma sífellt betur í ljós að unglingurinn hafði fjöldamörg tækifæri til að sleppa úr haldi Devlins og fór jafnvel út í hjóltúra einn síns liðs og var jafnvel í tölvusambandi á þessum tíma.

Margar spurningar hafa vaknað um málið vegna framkomu Shawns. Svo virðist sem mannræninginn hafi kynnt strákinn sem son sinn og hafi verið skráður sem slíkur sem íbúi í leiguíbúð hans undir nafninu Shawn Devlin. Naprasta staðreyndin er þó sú að einhver undir nafninu Shawn Devlin hafi heimsótt vefsíðu Akers-hjónanna (móður og stjúpföður Shawn) um hvarf stráksins og skrifað innlegg með spurningu um af hverju foreldrarnir ætli eiginlega að leita að honum. Síðar skrifaði hann aftur og baðst afsökunar á fyrri skrifum og birti ljóð með.

Nágrannar Devlins í fjölbýlishúsinu í Kirkwood í Missouri hafa ennfremur komið með fjöldann allan af sögum um strákinn og það sem gerðist þar. Ef marka má þær sögur var frjálsræði hans þó nokkuð mikið og greinilegt að hann hefur verið algjörlega undir ægivaldi mannsins og heilaþveginn af honum. Sumar sögurnar eru fróðlegri en aðrar. Þeim er gerð ítarleg grein á fréttavef CNN. Í einu orði sagt kemur aðeins eitt upp í hugann þegar að lýsingarnar eru lesnar og litið yfir þær sögur sem að ganga. Það er Stockholm syndrome. Þau einkenni bera öll merki þess sem virðist vera tilfellið í þessu máli.

Fyrir þá sem ekki vita á nafngiftin fyrirmynd sína í bankaráninu í Kreditbanken í Stokkhólmi í ágúst 1973. Þar héldu bankaræningjar fjölda fólks sem gíslum sínum í fimm daga. Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi. Það má svo sannarlega fullyrða að fyrst að hægt sé að heilaþvo fólk í gíslingu eftir fimm daga yfirráð sé staðan enn verri þegar að fimm ár eru liðin. Það er alveg greinilegt að Michael Devlin hélt unglingnum rígföstum í greipum sínum.

Í fyrra slapp unglingsstelpan Natascha Kampusch úr haldi manns sem hafði haft hana sem gísl sinn í heil átta ár. Hún var svo þungt haldin af Stokkhólms heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og Shawn Hornbeck í langan tíma. Hún var undir stjórn viðkomandi og heilaþvegin af drottnun hans. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar. Drottnun af þessu tagi er skelfileg og umhugsunarverð að öllu leyti.

Eitt frægasta fórnarlamb Stokkhólms heilkennisins er auðjöfraerfinginn Patty Hearst. Henni var rænt og haldið sem gísl í þónokkurn tíma. Hún varð svo heilaþvegin að hún gekk til liðs við þá sem rændu henni og var þátttakandi í ráni með þeim. Sorgleg örlög. Eftir því sem púslin koma betur heim og saman í tilfelli unglingsins Shawn Hornbeck kemur sífellt betur í ljós einkenni Stokkhólms heilkennisins sorglega. Vond örlög það. Eflaust eiga fleiri sögur og atburðir enn eftir að fylla upp í þá mynd.

mbl.is Týndur piltur setti hugsanlega inn skilaboð á heimasíðu foreldra sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frú Dorrit á forsetavakt segir sína sögu

Dorrit Moussaieff Viðtal Evu Maríu Jónsdóttur við Dorrit Moussaieff, forsetafrú, í Kastljósi í gærkvöldi var mjög áhugavert. Þar kynntust landsmenn enn betur annarri hlið á Dorrit og fengu að fræðast um bernsku hennar og bakgrunn, áður en hún giftist Ólafi Ragnari Grímssyni. Þetta var því áhugaverð stund og forsetafrúin fór yfir margt sem lítið hefur verið rætt um áður. Var ennfremur rætt við tvær vinkonur hennar, önnur þeirra er gift leikaranum Michael Caine.

Mikla athygli mína í viðtalinu vakti að þar var frekar athyglisverð kynning á álverinu í Straumsvík, sem er eins og flestir vita ekki svo fjarri Bessastöðum. Talaði Dorrit fallega um fyrirtækið og forstjórann Rannveigu Rist. Var þar meira að segja viðtal við Rannveigu og sýndar myndir frá heimsókn forsetafrúarinnar í álverið. Þetta var fróðlegt innlegg í þáttinn, en nú er ekki langt þar til að greiða á atkvæði um hvort stækka eigi álverið. Þetta er því merkileg tímasetning þessa innleggs í viðtal við forsetafrúna að mínu mati. Þetta var mjög áberandi allavega.

Dorrit Moussaieff hefur í tæpan áratug verið áberandi fulltrúi íslenska forsetaembættisins. Hún kom þar til sögunnar eftir andlát Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, forsetafrúar, fyrri eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lést úr hvítblæði í október 1998. Hún var stór hluti forsetaembættisins er hún féll frá, enda ekki verið minna áberandi í forsetakosningunum 1996 en Ólafur Ragnar. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Dorrit að koma þar til sögunnar, svo skömmu eftir lát Guðrúnar Katrínar og raun bar vitni, en henni hefur tekist að verða fulltrúi á vegum forsetaembættisins með sínum hætti og hefur ekki reynt að fara í fótspor ástsællar forsetafrúar, sem Guðrún Katrín var.

Mér fannst að heyra á þessu viðtali að Dorrit telji Ólaf Ragnar Grímsson eigi margt eftir í embætti forseta Íslands, þó hann hafi setið á Bessastöðum í tæp ellefu ár. Það má kannski marka af þessum orðum að Ólafur Ragnar stefni á fjórða kjörtímabilið, eins og Ásgeir Ásgeirsson og Vigdís Finnbogadóttir en láti ekki tólf ár duga eins og dr. Kristján Eldjárn. Mér fannst ummæli hennar um framtíðina athyglisverð. Þau mátti merkja á báða vegu en mér fannst þau þó skýrari merki í þá átt að hún telji Ólaf Ragnar eiga enn nokkuð eftir á forsetastóli.

Dorrit hefur verið í kastljósi fjölmiðla allt frá sögufrægum útreiðartúr þar sem forsetinn axlarbrotnaði og hún birtist við hlið hans í samlitum fötum við útgang Landsspítalans. Þar var hún hin framandi kona sem fáir þekktu en allir vissu að hafði fangað hug og hjarta þjóðhöfðingja sem var að jafna sig eftir erfiðan ástvinamissi. Áratug síðar er hún enn framandi og segir enn sögu sem við þekkjum ekki. En eitt er víst; ævi Dorritar á forsetavakt er athyglisverð.

Er Herbalife hættulegt?

Herbalife Það eru sláandi fréttir sem berast af afleiðingum neyslu á Herbalife-fæðubótarefninu. Þetta er stóralvarlegt mál. Margir hafa leitað á náðir Herbalife með að grenna sig og telja það einhverja töfralausn á vanda sínum. Það er eiginlega með ólíkindum, enda er eina töfralausnin í þeim efnum að fara einfaldlega út og hreyfa sig, taka góða göngutúra og skipta um matarræði heilt yfir; t.d. hætta að borða sykur.

Frænka mín ein hefur sérhæft sig í að selja Herbalife og hefur eflaust haft eitthvað út úr því, þó ég hafi ekki og vilji ekki kynna mér það. Í þessu hefur verið einhver svakalegur bissness eflaust. Þetta er eitthvað sem er allt með ólíkindum, enda eru ótrúlega margir sem taka þetta sem eitthvað fullkomið töfradæmi að lausn á sínum málum. Finnst það vera fjarri lagi. Fyrir nokkru tók ég mitt líf í gegn; minnkaði að borða sykur og fór að hugsa um hvað ég borðaði, og ég fór einfaldlega að hreyfa mig. Mér finnst það grunnatriði að labba helst tíu kílómetra á viku.

Leið vel með það og taldi það töfralausn. Þetta Herbalife er eitthvað jukk sem enginn veit hvað samanstendur af í raun og hvað felst í því að hrúga því í sig. Þessar fréttir fá vonandi einhverja til að hugsa sitt ráð um þetta.

mbl.is Sex lifrarbólgutilfelli eftir neyslu á Herbalife
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað mun Ágúst Einarsson gera?

Ágúst Einarsson Það eru nokkuð merkileg tíðindi að Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands, fái ekki launalaust leyfi frá HÍ til að halda til starfa sem rektor Háskólans á Bifröst, en hann á að taka við embættinu formlega á morgun. Hvað mun Ágúst gera? Ágúst virtist vera svo sleginn í gær að hann gat ekki sagt hvorn kostinn hann muni velja, enda liggur augljóslega fyrir að hann verður mjög fljótlega annaðhvort að halda á Bifröst og segja upp störfum við HÍ eða halda við fyrri stöðu og afþakka Bifröst. Afarkostir það.

Skipan Ágústs í rektorsstöðu á Bifröst gerðist innan við tveim árum eftir að hann tapaði fyrir Kristínu Ingólfsdóttur í rektorskjöri í Háskóla Íslands. Kaldhæðnislegt var annars að heyra í Kristínu um málefni Ágústs í fréttatímum í gær. Barátta þessara tveggja var mjög harkaleg og einbeitt, eiginlega fyrsta fjölmiðla- og netbaráttan um rektorsstöðuna. Flestir muna enda eflaust eftir því að Ágúst var sérstaklega með öfluga baráttu á sínum tíma og opnaði vefsíðu þar sem hann kynnti áherslur sínar og verk með áberandi hætti. Tap Ágústs í kjörinu var honum eflaust mikið áfall.

Ágúst hefur verið prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans frá árinu 2000. Hann var virkur stjórnmálamaður til fjölda ára áður en hann hélt til starfa í Háskólanum. Hann var tvívegis alþingismaður; 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn og 1995-1999 fyrir Þjóðvaka, flokk Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann gaf kost á sér fyrir Samfylkinguna í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 en náði ekki öruggu þingsæti í prófkjöri og féll af þingi í kosningunum. Ágúst var fyrsti formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 1999-2001 en hætti sem slíkur til að helga sig verkum í Háskólanum. Ágúst er faðir Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar.

Hann situr nú í stjórn Landsvirkjunar fyrir Samfylkinguna og var eitt sinn formaður bankastjórnar Seðlabankans, en sagði af sér sem slíkur árið 1994 í kjölfar þess að flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, þáv. viðskiptaráðherra, skipaði Steingrím Hermannsson þáv. formann Framsóknarflokksins og fyrrum forsætisráðherra, sem seðlabankastjóra. Var hann á móti pólitískri skipan í embætti bankastjóra. Ennfremur var Ágúst um tíma formaður samninganefndar ríkisins, af hálfu Alþýðuflokksins, sem hann vann fyrir þar til hann gekk til liðs við Jóhönnu.

Ágúst Einarsson mun að mér skilst taka við rektorsstarfinu á Bifröst á morgun en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, hefur verið starfandi rektor skólans frá því að Runólfur Ágústsson hætti störfum þann 1. desember sl. Bryndís og Ágúst kannast vel hvort við annað. Þau sátu saman á Alþingi kjörtímabilið 1995-1999 og voru saman í fyrsta þingflokki Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna 1999. Bryndís sat á þingi í áratug, 1995-2005, og var þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004. Það má því segja að reynsluboltar frá Samfylkingunni stýri skólanum til verka. Þau þekkjast allavega mjög vel.

Mér finnst líklegra en ekki að Ágúst fari í Bifröst og segi skilið við HÍ. Eða hvað? Erfitt svosem um að segja. Þetta er væntanlega mikið val fyrir Ágúst. Það verður fróðlegt hvort hann velur rektorsstöðu í Borgarfirðinum eða prófessorsstöðu í höfuðstaðnum.

mbl.is Fær ekki launalaust leyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband