Færsluflokkur: Dægurmál

Í minningu Sigurbjörns biskups

Dr. Sigurbjörn Einarsson Útför dr. Sigurbjörns Einarssonar var látlaus en hátíðleg. Minningarorð séra Jóns Dalbú Hróbjartssonar voru virkilega falleg og innihaldsrík. Þar var þó í mjög fáum orðum talað um þann mæta mann sem var verið að kveðja, en mun frekar talað um kristna trú og vangaveltur um lífið sjálft að ósk Sigurbjörns sjálfs.

Dr. Sigurbjörn Einarsson var biskup allrar þjóðarinnar. Allir landsmenn hlustuðu þegar hann talaði um kristna trú og hann var sterkara sameiningartákn trúar og kærleika en nokkur forystumaður þjóðkirkjunnar á síðari tímum. Mér þótti vænst um hversu vel honum tókst að tala kjarnríkt íslenskt mál til þjóðarinnar. Hann var íhugull og ljáði orðum sínum meiri kraft en nokkur íslenskur trúarleiðtogi á síðustu öldum. Áhrif hans voru líka mikil.

Allt frá því ég man eftir mér var hann til staðar, hann var áttaviti þjóðarinnar ekki aðeins í trúmálum heldur í öllu hinu smáa og mannlega í dagsins önn. Ræður hans voru afgerandi og traustar, hann talaði til þjóðarinnar en ekki niður til hennar. Hann var alla tíð forystumaður sem landsmenn allir treystu og virtu. Ég leit alltaf á hann sem afa minn. Er viss um að hið sama gildir um ótalmarga Íslendinga. Mér fannst notalegt að hlusta á hann og þegar að mér fannst illa ára í samfélaginu talaði hann kraft og kjark í okkur öll. Hann var leiðarljós okkar allra.

Allt frá því ég var smábarn sótti ég styrk til hans. Hann var þannig maður að okkur fannst allt vera rétt sem hann sagði. Hann var boðberi hins rétta, var mannlegur og kærleikurinn í tali hans var leiðarstef í hugleiðingum okkar um lífið og allar hliðar þess. Þannig mun ég minnast hans og mun áfram sækja styrk í það sem hann kenndi mér um lífið og tilveruna. Hann er og verður í huga mér alla tíð. Mér þótti vænt um hann og verk hans og passa upp á orðin hans, arfleifð hans til mín og okkar allra.

Fáir hafa þá náðargáfu að tala af visku og kærleika svo fólk hlustar - það sé bæði einlægt og traust. Sigurbjörn biskup talaði fumlaust og af visku og það var þjóðinni ómetanlegt að eiga hann að í blíðu og stríðu í stormasamri sögu þjóðarinnar. Ásýnd íslensku þjóðkirkjunnar verður öðruvísi án Sigurbjörns biskups. En hann lifir með okkur. Svo lengi sem við munum það sem hann kenndi okkur og við virðum það lifa hin mannlegu gildi sem hann kenndi okkur.

Dr. Sigurbjörn Einarsson - In Memoriam

mbl.is „Allir hlustuðu þegar hann talaði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin kveður máttarstólpa mannúðar og kærleika

sigurbjorn biskupÉg er að horfa á útför dr. Sigurbjörns Einarssonar, biskups. Þetta er mjög falleg athöfn, fer öll fram eftir ákvörðunum trúarleiðtogans og ber vitni styrkleika hans og traustri forystu fyrir íslensku þjóðkirkjuna. Þetta er kveðjustund eins af mætustu mönnum í sögu íslensku þjóðarinnar. Öll munum við sakna hans.

Þjóðin öll kveður mikinn og öflugan leiðtoga. Hann var máttarstólpi mannúðar og kærleika. Alla mína ævi hef ég alist upp við orð hans, leiðsögn og forystu. Hún hefur verið leiðarstef þjóðarinnar áratugum saman. Dr. Sigurbjörn var ekki aðeins traustur leiðtogi trúar sinnar heldur og mannlegra áherslna. Hann náði til ólíkra kynslóða og sameinaði okkur öll.

Skarð hans er mikið fyrir íslensku þjóðina. En orð hans, boðskapur og trúarleg forysta mun lifa með þjóðinni.

mbl.is Sigurbjörn Einarsson jarðsunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannleg grimmd - frelsissvipting og ofbeldi

Æ oftar afhjúpast að það er mikil grimmd í þessum heimi. Ofbeldi, bæði líkamlegt og sálrænt, er orðið of ráðandi þáttur og margar mjög ógeðslegt kemur upp. Nýjasta dæmið er að þessi sænska kona, sem haldin er MS-sjúkdómnum, hafi verið lokuð af gegn vilja sínum í heilan áratug. Eitt og sér er slík frelsissvipting svo alvarlegt mál að engar málsbætur geta nokkru sinni varið það. Ekkert er verra en nokkru sinni þegar fólk er svipt frelsi sínu og lokað af gegn vilja þess.

Að þetta gerist á þessum tæknivæddu nútímalegu tímum sem við lifum á - þeim tímum sem við stærum okkur af að allt sé svo fullkomið; tæknin og velsældin aldrei meiri. En það er því miður svo að skemmd epli finnast alltaf í stórum körfum. Sannast af þessari frétt og það er alltaf stingandi að sjá svona heim bakvið tjöldin; heim ofbeldis og kúgunar.

Sálrænt ofbeldi er engu skárra en líkamlegt ofbeldi. Oft vill það leggjast þyngra á sálina. Vissulega er hægt að bæla fólk með ýmsum hætti og slíkt ofbeldi er og verður jafnt því þegar að fólk er jafnvel barið sundur og saman.

mbl.is Sænsk kona innilokuð í 9 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðsögnin Marilyn

Marilyn Monroe Marilyn Monroe varð goðsögn í lifanda lífi á litríkum ferli sínum - eilífðarljóskan mikla. Áhrif hennar náðu út fyrir gröf og dauða. Hún setti mikið mark á samtíð sína og framtíð alla, ekki aðeins sem leikkona, söngkona og hjákona Kennedys forseta, heldur sem kynbomban mikla. 45 árum eftir dauða þessarar litríku stjörnu geislar hún sem aldrei fyrr, myndir hennar eru mjög vinsælar enn og áhrif hennar eru mikil um víða veröld. Og enn eru boðnar himinháar upphæðir í nektarmyndir af henni.

Held að allir kvikmyndaáhugamenn, þeir sem dýrka eitthvað stjörnuglysið, séu innst inni skotnir í Marilyn. Hún var ekki aðeins þokkadís sjötta áratugarins, heldur 20. aldarinnar í raun. Engin kona skein skærar með kynþokkanum einum og enn í dag eru sögur sagðar af lífi hennar, bæði sorgum og sigrum. Líf hennar var hálfgerð sorgarsaga undir öllu glysinu og glamúrnum. Glassúrhúðin yfir þessari viðkvæmu konu, sem varð stjarna sumpart fyrir tilviljun og breytti sér frá a-ö bara fyrir að meika það í Hollywood, virkaði merkilega sönn.



Fyrir ekki svo löngu horfði ég á hina ógleymanlegu stórmynd Billy Wilder, The Seven Year Itch - sennilega í vel yfir hundraðasta skiptið. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferils hennar. Nafnlausa ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var auðvitað goðumlík leikkona, ekki endilega fyrir leiktúlkunina eina heldur fyrir karakterinn og þann sjarma sem hún hafði. Hún var sjarmatröll aldarinnar.

Marilyn fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best. Þar er eftirminnilegasta atriðið með Marilyn á ferlinum - er kjóll hennar lyftist örlítið upp í vindinum við lestarstöðina. Á auglýsingaskiltum var það reyndar ýkt allverulega, enda er það mun hófstilltara í myndinni sjálfri. Þeir kunnu að auglýsa myndir í Hollywood þá.



Marilyn hefði víst orðið 82 ára á þessu ári, hefði hún lifað. Það sér enginn eilífðarljóskuna miklu fyrir sér sem gamla konu. Sá þó fyrir nokkrum árum tölvugerða mynd þar sem sérfræðingar ímynduðu sér hvernig Marilyn liti út sem gömul kona. Var glettilega vel gerð mynd, kannski fullýkt en allavega ein tilraunin til að ímynda sér hvernig lífið hefði farið með þessa stórstjörnu hefði hún lifað af mótlæti lífsins.

Hún dó á tindi síns ferils, var sett í dýrlingatölu meðal kvikmyndaáhugamanna og hefur goðsagnarsess. Það var napurt á tindi frægðarinnar og hún varð fórnarlamb glyssins. Sagan hennar markast af sorg og glamúr í senn. Merkileg saga, eiginlega of ótrúleg að vera sönn. En allt getur gerst í Bandaríkjunum, ekki satt?

mbl.is Áður óséðar myndir af Marilyn Monroe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjörugir útlendir öldungar á Seyðisfirði

Þeir eru aldeilis iðnir gamlingjarnir sem koma til Seyðisfjarðar. Í annað skiptið á skömmum tíma er maður á sjötugsaldri tekinn fyrir að smygla dópi til landsins. Ekki eru bara unglömb valin sem burðardýr til landsins með dóp. Varla hefur þessi ferðalangur verið einn að verki. Mjög lítið heyrst um það þó. Efast um að maðurinn hafi ætlað að koma þessu ofurmagni í sölu á eigin vegum.

Væntanlega er það visst krydd í tilveruna fyrir Austfirðinga að verða miðpunktur umræðunnar enn og aftur í dópmálunum. Vantar ekki fjörið þar.

mbl.is Gæsluvarðhald vegna fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað barnalán - undarlegt orðalag

Óska foreldrum þríburanna til hamingju. Sannarlega áhugaverð frétt. En ekki vildi ég skrifa um blessað barnalán þessara hjóna heldur mun frekar orðalagið í fréttinni. Talað er um þrjú börn á einu bretti. Hefði ekki verið hægt að koma með betra orðalag í þessu samhengi? Ekki hægt annað en velta því fyrir sér.

mbl.is Fengu þrjú börn á einu bretti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþýðuhetju lagt lið - jákvæð málalok

Jafn leitt og það var að heyra af framkomunni við alþýðuhetjuna Ástþór á Melanesi var jákvætt og gott að heyra að Mjólka hefði komið honum til bjargar. Held að öllum hafi blöskrað hvernig var komið fram við manninn, lamaðan bónda, sem er að reyna að sinna sínum búverkum og störfum af veikum mætti með þó miklum styrk.

Og auðvitað er það fyrirtækinu Mjólku til sóma að leggja Ástþóri lið með þessum hætti. En þarna sést vel hvað skiptir miklu máli að fjalla um svona mál opinberlega.

mbl.is Fékk styrk til að leysa út vélarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóðalegar busavígslur

Busavígsla Þróast hefur upp í hefð að nýnemar í framhaldsskólum séu busaðir fyrstu námsvikuna og teknir með því inn í skólasamfélagið. Í mörgum tilfellum er um að ræða athöfn sem hefur ígildi þess að vera græskulaust gaman og fólk geti jafnvel hlegið saman að athöfninni. Þess eru þó dæmi á seinni árum um að farið sé óeðlilega langt í að niðurlægja nemendur og gera lítið úr þeim með þessari athöfn.

Busavígslurnar hafa á sér blæ þess að vera manndómsvígsla fyrir nýnema. Í því skyni finnst sumum allt í lagi að ganga mjög langt. Finnst að á þessu verði að vera eðlileg mörk, enda er jafnan stutt á milli þess að ganga of langt og vera með athöfn sem eigi að vera á mörkunum. Það er oft ekki gott að finna millistigið þegar að svona athöfn er skipulögð. Mér finnst busavígsla ekki þurfa að hljóma sem niðurlæging á nýnemum. Það er hægt að tóna alla hluti niður. En það er oft ekki þægilegt að finna mörkin sem þurfa að vera til staðar.

Auðvitað er ágætt að fá fram umræðu um þessar busavígslur. Kannski er þetta upphafið á því að fólk hugsi sig almennilega um. Jafnvel að það þurfi ekki að ausa nýnemum upp úr forarsvaði og eða rækjumjöl til að það verði hluti samfélagsins. Hvort að mildari og mannlegri leið sé ekki til staðar. Kominn er tími til þess að busavígslunum verði breytt, einkum til að nýnemar haldi virðingu sinni á eftir og þurfi ekki að ganga í gegnum ómannúðlega meðferð til að teljast verða einn af hópnum.

Man eftir samskonar umræðu í fyrra. Þá skrifaði ég um busavígslu á Ísafirði. Þessi mynd er þaðan held ég. Þá var ausið rækjumjöli og flórsykri yfir nemendur - voru skítug upp fyrir haus í for og ógeði. Velti þá fyrir mér hversvegna þyrfti slíka yfirhalningu og hreina niðurlægingu. Á þetta að vera lexía og niðurlæging?

mbl.is Varað við busavígslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FL Group - In Memoriam



Skammlíf saga FL Group var ævintýri líkust - fallið mikla varð þó dramatískt rétt eins og tímabundin velgengni Hannesar Smárasonar. Fyrir nokkrum árum vildu allir verða eins og Hannes - þetta var aðallínan í skaupinu 2006. Frægðarsól hans hneig til viðar og FL Group fuðraði upp.

Fjöldi sérfræðinga í viðskiptum hafa sagt söguna alla í mörgum orðum og í löngum skrifum, analíseraða í botn. Myndklippurnar um FL Group eru hinsvegar alveg frábærar og segja alla söguna á örfáum mínútum. Skylduáhorf, hvorki meira né minna!

Væri sagan af þessu kvikmynduð, með einkalífi aðalsöguhetjanna með, væri þetta örugglega eins og Dallas með Ewing-fjölskyldunni í forgrunni í miðju olíubraskinu og sukkinu.

Kannski væri tilvalið að Stöð 2 próduseri seríu um þetta yfirgengilega rugl með Jóni Ásgeiri sjálfum í gestahlutverki.

Seinni klippan er jafnvel betri en sú fyrri ef eitthvað er.



Hér er sú fyrri.

mbl.is Nýtt myndband um FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórriddaratreyjan boðin upp - gott málefni

Ólafur Stefánsson Ánægjulegt að heyra að milljón hafi fengist fyrir treyju stórriddarans Ólafs Stefánssonar í hið góða málefni til styrktar fátækum konum og börnum í Jemen. Má til með að hrósa þeim sem stóðu fyrir þessu uppboði og söfnuðu með því peningum fyrir málefnið. Alltaf gott að heyra að fólk taki sig til og geri góða hluti.

Ólafur Stefánsson er annars klárlega maður mánaðarins. Fyrirliðinn í handboltaævintýrinu mikla sem verið hefur einskonar himnasending fyrir þjóðina núna í þessum mánuði. Algjört ævintýri og mikið afrek. Strákarnir fengu svo yndislega heimkomu og þjóðin sýndi þeim í eitt skipti fyrir öll hvað við erum stoltir af þeim og öllum sem standa að liðinu.

Óli var samt maðurinn sem leiddi þetta áfram og var hinn sanni leiðtogi. Ræðan hans á Arnarhóli í vikunni var toppurinn á öllu í þessari viku; einlæg, traust og vel flutt - einhvern varð til á staðnum í þessu mikla augnabliki. Alveg magnað.

mbl.is Treyja Ólafs fór á milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband