Færsluflokkur: Dægurmál

Ábyrgðarleysi foreldra

Ekki er hægt annað en spyrja hvað sé að foreldrum sem taki nokkurra mánaða gamalt barnið sitt með sér í hasssöluferð. Ábyrgðarleysið er algjört. Hvar er annars ábyrgðarkenndin hjá fullorðnu fólki sem tekur slíkar ákvarðanir? Aðstæður hljóta að þurfa að vera mjög undarlegar til að fólk, viti borið allavega, gerir annað eins.

Reglulega heyrast sögur um að foreldrar reddi ólögráða börnum sínum áfengi og sígarettur áður en þau ná löglegum aldri til að kaupa það og ráða sér sjálf en mér finnst það hálfu verra þegar að foreldrar bregðast skyldu sinni í að ala upp börnin sín frá upphafi og fari í slíka hasssölutúra með kornabarn með sér.

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og það er ekki til að auka trúverðugleika foreldra þegar að svona nokkuð klúður gerist og allt undir eftirliti foreldranna.

mbl.is Tóku barn með í hasssöluferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg hagræðing hjá Spron

Spron og Kaupþing Ekki koma fjöldauppsagnirnar í Spron að óvörum í kjölfar sameiningarinnar við Kaupþing. Þessu hafði ég spáð í bloggfærslu hér er sameiningin varð opinber 1. júlí sl. og nefndi reyndar töluna 200, sem virðist ætla að verða raunin. Þó dapurlegar fregnir séu mátti búast við að þetta myndi gerast.

Væntanlega er uppstokkun mála hjá Spron aðeins fyrsti hlutinn af fyrirsjáanlegri hagræðingu á fjármálamarkaði almennt í þeirri stöðu sem við blasir nú og eiginlega enn meira spennandi að fylgjast með atburðarásinni í kjölfarið. Hvaða hagræðing er næst á dagskrá?

mbl.is Allt að 200 missa vinnu við samruna SPRON og Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ekki Bubbi hafa skoðanir á Björk?

BubbiFurðulegt er að fylgjast með umræðunni um ummæli Bubba Morthens um Björk. Sumir skrifa og tala eins og Bubbi megi ekki hafa skoðanir á henni, eins og hún sé alveg heilög. Auðvitað er bara jákvætt og gott að Bubbi tali þegar hann hafi skoðanir, sama hvort við séum svo öll sammála því sem hann segir. Það er allt annar hlutur í sjálfu sér. Við þurfum heldur ekkert að vera sammála honum, en eigum að virða það við hann að tjá sig.

Veit ekki hvort Bubbi er ósáttur við Björk eða var að dissa hana létt eða harkalega. Skiptir svosem ekki öllu máli. Fylgdarlið Bjarkar á tónleikaferðalagi hennar virðist ekki ánægð með að Bubbi vísi til Bjarkar og finni að því hún syngi frekar gegn stóriðju en fyrir bættum hag almennings, tali upp fátæka fólkið. Lætur harkaleg ummæli falla, sem gerir þá ekkert meira fólk en Bubba, hafi það annars átt að vera tilgangurinn að upphefja sig með því að tala niður Bubba.

Kannski er ráð að þau snúi bökum saman og taki lagið. Hafa þau annars nokkurn tímann tekið dúett eða gert einhverja tónlist saman. Hvernig væri nú það að þau tækju friðaróð saman og gæfu út - allt í nafni ástar og friðar, líka alþýðunnar.


mbl.is Bubbi liggur undir ámælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bubbi dissar Björk

Bubbi Bubbi Morthens hefur aldrei verið þekktur fyrir að tala tæpitungu. Nú er hann að dissa Björk fyrir að hugsa frekar um stóriðju en fátækt og efast í raun um fyrir hverju hún er að berast. Þarna virðast Árni Johnsen og Bubbi sameinast í undarlegu bandalagi. Sennilega er Bubbi að senda sneið til Sigur Rósar og fleiri tónlistarmanna sem hafa sungið gegn stóriðju um nokkuð skeið. Ekki veit ég betur en Bubbi hafi sjálfur sungið gegn stóriðju en minna farið fyrir fátæktarsöngvum, allavega síðustu árin.

Bubbi er oft ágætur, fer stundum einum of mikið fram úr sjálfum sér. Hef ekki alltaf verið sammála honum. En ég hef oft verið hrifinn af hinum pólitíska tóni í honum, yfirlýsingum um mann og annan. Það er hægt að taka því oft hæfilega alvarlega. Þetta er bara hans stíll. Enda væri stílbrot ef Bubbi færi að breyta sér á sextugsaldri fyrir einhverja besservissera úti í bæ.

En eflaust fær Bubbi yfir sig gusu af neikvæðni vegna þessara kommenta um Björk, sem geta ekki túlkast öðruvísi en sem nett diss. En, þetta er víst bara Bubbi, hann var fílaður svona í denn og varla þörf á að breyta því á 21. öld - sama hvort alþýðutaugarnar hans verði minna áberandi.

mbl.is Björk ætti frekar að syngja gegn fátækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu séra Birgis

Séra Birgir Snæbjörnsson Séra Birgir Snæbjörnsson, fyrrum prófastur og sóknarprestur hér í Akureyrarkirkju, er látinn, tæplega áttræður að aldri. Ég held að fullyrða megi að séra Birgir hafi verið mikils metinn í samfélagi okkar fyrir verk sín og trúarlega forystu. Til hans gat fólk leitað í erfiðum aðstæðum og hann var stoð og stytta fyrir fjölda fólks meðan hann var prestur okkar í Akureyrarsókn.

Fyrir það þakka allir Akureyringar og minnast hans með hlýhug. Ég vil votta fjölskyldu séra Birgis innilega samúð mína.

Guð blessi minningu hans.

mbl.is Andlát: Birgir Snæbjörnsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð....

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki vel til Jósafats Arngrímssonar. Hinsvegar varð ég svolítið hissa þegar ég las skrif þeirra sem höfðu tjáð sig vegna andláts hans. Fannst þar ráðist ómerkilega að honum og fannst það einum of langt gengið. Vel má vera að Jósafat hafi verið umdeildur maður, en ég held að fólk eigi að vanda orðaval sitt betur en raun ber vitni í þessu máli.

Aðgát skal höfð... eins og frægt var sagt.

mbl.is Jósafat Arngrímsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Synt yfir Ermarsundið - glæsilegt hjá Benedikt

Benedikt Hjartarson Ég vil óska Benedikt Hjartarsyni innilega til hamingju með hið mikla afrek sem sundið yfir Ermarsund er. Þetta er glæsilegur áfangi og ánægjulegt að loksins hafi íslenskum sundmanni tekist þetta ætlunarverk. Finnst reyndar alltaf merkilegt að heyra fréttir af svona afrekum, enda þarf mikið að leggja á sig og vera mjög einbeittur og agaður til að klára verkið.

Ég hef reyndar aldrei skilið fyllilega í því hvað það er sem keyrir fólk í að reyna að leggja svona afrek á sig. Sennilega er lykilatriðið að hafa kraft og kjark til að leggja í svona, hvort sem það er sund um heimsins höf, klifur á heimsins tinda, gönguferð á pólana eða hvaða annað afrek það er. Við sem lifum okkar hversdag og teljumst góð að komast í gegnum hann hljótum að dást að þeim sem leggja svona á sig.

Viss ævintýraþrá og löngun í að ná settu marki hlýtur að vera það sem ýtir fólki af stað í svona erfitt verkefni, sem tekur á og reynir á þrek og þor. En það er sætt að ná settu marki og því erum við öll stolt af Benedikt og hans afreki.

mbl.is Tókst að synda yfir Ermarsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfis jörðina á 80 lygasögum

Hún er allsvakaleg svikamyllan sem unga bandaríska parið spann til að ferðast um heiminn og lifa hátt, á annarra manna kostnað. Hvernig getur fólk svikið vini sína og nágranna með öðrum eins ómerkilegum hætti? Þarf að vera verulega ósvífið og ómerkilegt fólk sem gerir annað eins. Finnst samt stórmerkilegt hvað þetta gekk lengi hjá þeim. Hvernig er hægt að svíkja út fé endalaust án þess að nokkur verði þess var.

Sennilega hefur ferðalagið og ljúfa lífið verið skemmtilegt meðan á því stóð, en það hlýtur að vera að þetta par iðrist sáran núna, þegar þau eru á leið í vist sem er ansi mörgum þrepum neðar en heimsreisurnar.

 


mbl.is Fóru í heimsreisur á kostnað nágrannanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsisbeiðni morðingja Sharon Tate hafnað

Susan Atkins Susan Atkins, morðingja leikkonunnar Sharon Tate, eiginkonu óskarsverðlaunaleikstjórans Romans Polanski, var í kvöld hafnað um náðun og mun því deyja í fangelsi, en hún er langt leidd af krabbameini og á aðeins örfáa mánuði eftir ólifaða að mati lækna. Mikið hafði verið rætt í bandarísku samfélagi að undanförnu um hvort ætti að náða Atkins og hún gæti fengið að deyja sem frjáls kona.

Morðið á Tate og fjórum vinum hennar árið 1969 er með ógeðfelldustu morðum í bandarískri sögu - einkum vegna þess hversu kaldrifjað það var. Engin miskunn var sýnd, en Tate var komin átta og hálfan mánuð á leið með barn sitt og Polanski er hópurinn að baki morðunum slátraði henni. Susan veitti Sharon banastungurnar þrátt fyrir að hún grátbæði Susan um miskunn fyrir sig og son sinn.

Susan gekk reyndar það langt þegar að hún slátraði Sharon að hún skrifaði Pig utan á hurðina á húsi Polanski-hjónanna með blóði úr Sharon. Hún sýndi aldrei neina iðrun á morðunum þegar málið var fyrir dómi og hreykti sér meira að segja af því hvernig hún drap Sharon Tate.

Vissulega er það áleitin spurning hvort frelsið sé valkostur fyrir þá sem fremja svo alvarlega glæpi, hvort þeir eigi að fá tækifæri til að upplifa lífið án refsingarinnar sem markaði örlög þeirra. Í þessu tilfelli hefði fyrirgefning ekki verið rétt skilaboð, enda aldrei iðrun sýnd.

Mér finnst ekki hægt að horfa framhjá því sem Manson-hópurinn gerði á sínum tíma, með því að slátra ekki aðeins hinni 26 ára gömlu leikkonu, Sharon Tate, heldur öðru fólki á þeim tíma. Því er þessi niðurstaða bæði rétt og eðlileg.

Snobbið í laxveiðinni

Sennilega er það eitt besta dæmið um það hversu snobbuð þessi blessaða þjóð er orðin þegar fólk er farið í frí og útivistina með þyrlu. Kannski þarf þetta ekki að koma að óvörum en svona er þetta víst. Flestir þeir sem ég þekki eru að fara í laxveiði sér til heilsubótar og ánægju og eru ekki svo efnaðir að geta farið með þyrluflugi þangað.

Svolítið fyndið.


mbl.is Með þyrlum í laxveiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband