Færsluflokkur: Dægurmál
23.4.2008 | 10:14
Hvíldartími bílstjóra á háannatíma í umferðinni
Bílstjórarnir tóku sér pásu að ég tel meðvitað áður, enda sködduðust þeir frekar en styrktust á orðavali talsmannsins og aksturslagi við mótmæli, auk þess að gera ökumenn í umferðina reiða. Orðrómur hefur verið uppi um að bílstjórar stefni jafnvel að stóra stoppinu umtalaða á næstunni. Ætli sér að lama höfuðborgarsvæðið með mótmælum, leggja bílum sínum og skilja þá eftir á aðalumferðaræðum borgarinnar.
Stóra stoppið mun verða mjög umdeilt, verði af því. Það eru einfaldlega það stór mótmæli að það myndi aðeins kalla á hörð viðbrögð almennings og reiðiöldu, frekar en stuðning. Finnst staðan vera mjög afgerandi í þessa átt, að bílstjórar standi einir og almenningur hafi ekki lengur samúð með aðferðum þeirra og málstað. Þeir hafi klúðrað þessu.
Þeir höfðu mikinn stuðning almennings fyrst en hann hefur dvínað mjög að undanförnu, að mestu vegna taktískra mistaka í mótmælunum.
![]() |
Bílstjórar taka hvíldartíma" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2008 | 18:02
Umdeild ábyrgð á skrifum á Moggablogginu
Sitt sýnist hverjum um lokun vefsíðu Skúla Skúlasonar hér á Moggablogginu. Svolítið sérstakt er að tekið sé frekar á skrifum nafngreinds manns en þeirra sem blogga ómerkilega undir nafnleynd. Vekur það margar spurningar um ritstjórn á kerfinu og hver standardinn er vegna bloggskrifa. Greinilegt er þó að stjórnendur eru ófeimnir við að sýna klærnar og loka án hiks mislíki þeim.
Eitthvað hefur þó staðið á því að mörkuð hafi verið afgerandi stefna vegna bloggskrifa þeirra sem eru nafnlausir. Nafnlausir hafa oft látið mun hvassari ummæli frá sér fara en Skúli þessi. Hann var þó sá maður að standa við skrifin með nafni og var ekki að skrifa um menn og málefni úr launsátri, eins og sumir gera án þess að taka ábyrgð á einu né neinu. En kannski telur Moggabloggið sig geta sótt þá úr fylgsni sínu burtséð frá því.
Þetta mál opnar margar spurningar um Moggabloggið. Það er gott að Mogginn svarar þeim sjálfur með því að sýna að þar er tekið af skarið ef vandamál verða og sýna að þar er virk yfirstjórn. Ég kvarta svosem ekki yfir því. En spurt er um ábyrgð. Meðan að bloggin eru nafnlausin hlýtur ábyrgð þeirra að færast annað. Nafnlaus skrif eru enda dauð og ómerk, sama hversu ómerkileg þau eru. Ef fólk stendur ekki við skoðanir sínar með því grunnatriði að gefa upp hver skrifar eru skoðanirnar harla marklausar og spurt hver vilji bera ábyrgð á þeim.
![]() |
Óánægja með lokun umdeilds bloggs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2008 | 00:38
Á að henda nafnleysingjunum af Moggablogginu?

Ómerkilegu skrifin um sóknarprestinn minn, séra Svavar Alfreð Jónsson, sem mikið hefur verið fjallað um í þessu samhengi dæma sig alveg sjálf. En ekki er hægt að horfa þegjandi á þetta rugl mikið lengur. Hér á Moggablogginu skrifa margir mjög góðir einstaklingar vandað og vel, fjalla um mjög ólík mál. Sumir þeirra eru nafnlausir. Fjarri er að allir nafnleysingjar bloggi ómerkilega, sumir þeirra vanda sig mjög vel og geta notað nafnleyndina heiðarlega og vega ekki að öðrum úr launsátri. En þeir sem það gera eyðileggja fyrir öllum hinum með ómerkilegum skrifum sínum.
Nokkuð er um liðið síðan að ég sá vel að ég gæti ekki verið með galopið kommentakerfi hér. Sumir sem skrifuðu hér á vefinn gengu langt í skítkasti gegn mér persónulega og fóru yfir öll mörk. Eftir nokkurn tíma hér tók ég því þá ákvörðun að loka á alla nema skráða notendur. Það dugði frekar skammt. Eftir að Moggabloggið leyfði að hafa síu yfir kommentakerfinu með því að samþykkja þurfi kommentin tók ég upp það kerfi. Hafði fengið nóg af því að hafa þetta galopið. Eftir að fyrra kerfi hafði verið misnotað of lengi tók ég af skarið og setti á ritstjórn yfir kommentum.
Meginþorri þeirra sem stunduðu ómerkileg skrif og almenn leiðindi voru nafnleysingjar, bæði sem skráðir bloggarar og eins þeir sem ætluðu að spila sig stóra án þess að hafa nokkra innistæðu fyrir því, enda þorðu ekki einu sinni að segja hverjir þeir væru. Sé ég ekki eftir því að setja þessa síu á. Þeir sem geta skrifað af ábyrgð, sýnt allavega lágmarks virðingu, þó oft séu ekki allir sammála um grunnatriði lífsins, fá sín komment hér birt. Skítkast og nafnlaus óþverri fæst ekki birt hér. Hef þó leyft sumum nafnlausum að kommenta hér þrátt fyrir það - þeir sem tala af viti.
Fyrir löngu er kominn tími til að Moggabloggið hendi út nafnleysingjunum ómerkilegu, sem hafa skemmt fyrir þeim hinum sem hafa skrifað nafnlaust en þó ekki misnotað sitt svigrúm með því. En þeim fer fækkandi sem geta gert þetta almennilega.
Ótækt er að fólki undir nafni sé hent út frekar en nafnlausu leiðindaliði sem getur ekkert gert nema skemmt fyrir þessu bloggsamfélagi og skrifar ómerkilega um annað fólk. Þetta þurfa þeir sem stjórna svæðinu hér að gera sér grein fyrir.
21.4.2008 | 15:23
Natascha og Stockholm syndrome

Fyrir þá sem ekki vita á nafngiftin fyrirmynd sína í bankaráninu í Kreditbanken í Stokkhólmi í ágúst 1973. Þar héldu bankaræningjar fjölda fólks sem gíslum sínum í fimm daga. Að bankaráninu loknu snerust gíslarnir til varnar fyrir þá sem héldu þeim föngnum og höfðu gjörsamlega verið heilaþvegnir. Alla tíð síðan hefur nafngiftin yfir tilfelli af þessum toga verið kennd við ránið athyglisverða í Stokkhólmi.
Natascha Kampusch var svo þungt haldin af Stokkhólms-heilkenninu að hún syrgði manninn sem hélt henni í tæpan áratug sem gísl sínum er hún vissi að hann hefði fyrirfarið sér. Hún reyndar stakk hann af en hún hafði greinilega lifað sama lífi og svo margir sem falla í faðm þess sem hafa eyðilagt líf þess. Hún var undir stjórn og heilaþvegin af drottnun. Þetta eru skelfileg örlög og sennilega eitt frægasta umhugsunarefni sálfræðinnar.
![]() |
Uppnám vegna nýrra upplýsinga um Kampusch |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2008 | 10:12
Bloggfrí
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2008 | 00:13
Að lifa með krabbameini
Það er áfall fyrir alla sem upplifa þegar að ástvinur veikist svo alvarlega. Þetta er erfið barátta sem tekur á, ekki bara fyrir þann sem greinist, heldur alla sem nærri honum stendur. Þetta er sameiginlegt verkefni heillar fjölskyldu.
![]() |
Cynthia Nixon með brjóstakrabbamein |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.4.2008 | 19:49
Ferðaglaðir Íslendingar - allir að fara út í heim?

Um páskana flykktust Íslendingar í sólarlandaferðir og voru allar ferðir vel ásetnar. Ætli veturinn hafi ekki bara farið svona í fólk? Sjálfur hef ég verið að velta fyrir mér að fara út í sumar og spái í góða sumarferð. En ekki lagði ég þó til í púkkið við að leggja síma- og tölvukerfið hjá Icelandair.
Ætli að utanlandsferðirnar verði ekki málið í sumar. Varla hljómar tilfinnanlega spennandi að fylla tankinn og keyra hringinn. Bensínið hækkaði í dag enn og aftur - hvað ætli sé hægt að komast langt frá Akureyri á fimmþúsund kalli. Athugun Stöðvar 2 um daginn sýndi að hægt var að keyra frá Reykjavík í Öxnadal þá á þeim pening.
![]() |
Gríðarleg ásókn í flugmiðatilboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2008 | 11:52
Brot eða ekki brot
Eðlilega beinist fókusinn að því nú hvað sautján ára stelpa var yfir höfuð að gera á þessum skemmtistað. Það er ekki ný saga að einstaklingar undir lögaldri reyni að fara á skemmtistaði, en þetta mál verður mjög sérstakt vegna einmitt aldurs stelpunnar.
![]() |
Ekki var brotið á stúlkunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 00:39
Rassinn á Vilhjálmi prins afhjúpaður í The Sun

Lýsingarnar á steggjapartýinu eru ansi svæsnar og áhugaverðar. Þar vekur sérstaka athygli að konur í partýinu voru manaðar, af prinsunum, í að raða geisladiskum á geirvörturnar á sér. Sú sem vann það gat komið alls átta geisladiskum á. Auk þess eru sögur um að kærasti frænku prinsins hafi verið nakinn í rúmi með tveim stelpum og svona mætti lengi telja. Þvílík upptalning allavega. Enn einn áhugaverði skandallinn fyrir bresku konungsfjölskylduna.
Þegar að loksins var tekið að róast yfir konungsfjölskyldunni, vegna drykkjuláta Harrys prins, kemur þetta sem köld vatnsgusa yfir hirðina, og er einkum niðurlægjandi fyrir drottninguna og Karl Bretaprins væntanlega. Flestum er í fersku minni er Harry var myndaður með hakakrossinn á djamminu en það tók hirðina nokkurn tíma að reka það slyðruorð af Harry, sem honum tókst reyndar að bæta fyrir með mannúðarstarfi og förinni á vígvöllinn.
Skandalar hafa löngum þjakað konungsfjölskylduna. Nú er næsta kynslóð tekin við þeim pakka og greinilegt að verðandi konungur Englands hefur skaðað stöðu sína með þessu að einhverju leyti hið minnsta. Allavega hefur hann afhjúpað sig fyrir þjóð sinni með þeim hætti sem helst verður munað eftir, ekki vegna drykkjunnar sennilega heldur vegna þess að missa niðrum sig á almannafæri og fá mynd af sér í The Sun berrössuðum.
En ég bendi annars öllum á að lesa umfjöllunina um þetta villta steggjarpartý.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.4.2008 | 12:46
Goðsögnin Marilyn

Held að allir kvikmyndaáhugamenn, þeir sem dýrka eitthvað stjörnuglysið, séu innst inni skotnir í Marilyn. Hún var ekki aðeins þokkadís sjötta áratugarins, heldur 20. aldarinnar í raun. Engin kona skein skærar með kynþokkanum einum og enn í dag eru sögur sagðar af lífi hennar, bæði sorgum og sigrum. Líf hennar var hálfgerð sorgarsaga undir öllu glysinu og glamúrnum. Glassúrhúðin yfir þessari viðkvæmu konu, sem varð stjarna sumpart fyrir tilviljun og breytti sér frá a-ö bara fyrir að meika það í Hollywood, virkaði merkilega sönn.
Fyrir ekki svo löngu horfði ég á hina ógleymanlegu stórmynd Billy Wilder, The Seven Year Itch - sennilega í vel yfir hundraðasta skiptið. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferils hennar. Nafnlausa ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var auðvitað goðumlík leikkona, ekki endilega fyrir leiktúlkunina eina heldur fyrir karakterinn og þann sjarma sem hún hafði. Hún var sjarmatröll aldarinnar.
Marilyn fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best. Þar er eftirminnilegasta atriðið með Marilyn á ferlinum - er kjóll hennar lyftist örlítið upp í vindinum við lestarstöðina. Á auglýsingaskiltum var það reyndar ýkt allverulega, enda er það mun hófstilltara í myndinni sjálfri. Þeir kunnu að auglýsa myndir í Hollywood þá.
Marilyn hefði víst orðið 82 ára á þessu ári, hefði hún lifað. Það sér enginn eilífðarljóskuna miklu fyrir sér sem gamla konu. Sá þó fyrir nokkrum árum tölvugerða mynd þar sem sérfræðingar ímynduðu sér hvernig Marilyn liti út sem gömul kona. Var glettilega vel gerð mynd, kannski fullýkt en allavega ein tilraunin til að ímynda sér hvernig lífið hefði farið með þessa stórstjörnu hefði hún lifað af mótlæti lífsins.
Hún dó á tindi síns ferils, var sett í dýrlingatölu meðal kvikmyndaáhugamanna og hefur goðsagnarsess. Það var napurt á tindi frægðarinnar og hún varð fórnarlamb glyssins. Sagan hennar markast af sorg og glamúr í senn. Merkileg saga, eiginlega of ótrúleg að vera sönn. En allt getur gerst í Bandaríkjunum, ekki satt?
![]() |
Kynlífsmyndband með Monroe |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)