Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrirsögn dagsins

24 stundir er á skömmum tíma orðið ferskasta og besta dagblað landsins. Les það fyrst á morgnana. Ein snilldin hjá þeim eru góðar fyrirsagnir í fréttum. Þessi fyrirsögn í fréttinni um karlakvöld Hestamannafélagsins Harðar er algjörlega brilljant og fangar athyglina um leið. Fær alla til að lesa fréttina allavega.

Það er mikils virði að vera með góðar fyrirsagnir í blöðum til að vekja athygli. Þeim hjá 24 stundum tekst það alveg klárlega.

mbl.is Harðir á strippinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju kærir stúlkan ekki?

Nauðgun er alvarlegur glæpur, gróf árás og kynferðislegt ofbeldi. Eftir umfjöllun um nauðgun í Reykjanesbæ um helgina vekur athygli að stúlkan ætlar ekki að kæra, þó hún hafi tilkynnti lögreglu um árásina á sig og rætt hafi verið um það í fjölmiðlum. Það er ekki nema von að spurt sé, af hverju kærir hún ekki. Finnst það stór og áleitin spurning. Hvað hefur breyst sem gerir það að verkum að hún ætlar ekki að leita réttar síns?

Sérkennileg skilaboð eru í þeirri staðreynd að stúlka fari til lögreglu og leiti þar réttar síns, tilkynni um nauðgun og geri eitthvað í málunum en láti svo málið niður falla. Finnst þetta aðallega dapurlegt, en það er einhver saga þarna á bakvið sem greinilegt er að veldur því að stúlkan fer ekki með málið lengra. Eftir fyrri umfjöllun vekur þessi staðreynd upp margar spurningar.

mbl.is Stúlkan ætlar ekki að kæra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugnaður í Svíþjóð - morðið er engin tilviljun

Síðasta myndin af Englu Juncosa-Höglund Morðið á sænsku stelpunni Englu vekur óhug. Skýringar morðingjans á því að þetta hafi aðeins verið morð fyrir tilviljun hljóma ósannfærandi og falskar. Það eru engar málsbætur til þegar að fullorðið fólk drepur börn og engin þörf á að sýna þessum manni neina samúð. Hann drap barn með köldu blóðig og á að gjalda fyrir það.

Auk þess á þessi sami maður önnur morð á samviskunni og virðist aðeins með veiklulegum útskýringum sínum reyna að laga stöðu sína vegna almenningsálitsins. Ef marka má sænsku pressuna er grunur uppi um að hann hafi myrt fleiri og greinilegt að hann á sér mjög dökka sögu. Burtséð frá því öllu er ekki hægt að hafa samúð með neinum sem drepur börn.

Finnst þetta minna mig á hið óhugnanlega morð í breska smábænum Soham er húsvörður í skóla drap tvær stelpur með köldu blóði og losaði sig svo við líkin. Þær áttu aldrei að finnast og reynt var að hylja slóðina. Hið sama gerði Eklund. Þetta er mikil sorgarsaga, en það er varla nokkur maður sem tekur mark á þessum skýringum barnamorðingja.

mbl.is Myrti stúlkuna fyrir tilviljun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir í bænum um helgina

Akureyri Miðað við mikinn fjölda ferðamanna í bænum um helgina má segja að helgin hafi í heildina komið vel út hér á Akureyri. Hundruð framhaldsskólanema voru hér vegna söngkeppni framhaldsskólanna, sem fór vel fram í íþróttahöllinni í gærkvöldi og auk þess var snjóbrettamót í Hlíðarfjalli, auk fjölda annarra viðburða.

Það má alltaf búast við einhverju skralli þar sem mikill fjöldi kemur saman, er bara hluti af dæminu og ég held að allir sem komu hingað hafi skemmt sér vel að mestu leyti. Söngkeppni framhaldsskólanna er að verða fastur viðburður á Akureyri og það er mjög ánægjulegt að fá allan þennan hóp hingað og sérstaklega gott fyrir skólana hér að vera með keppnina á heimavelli.

Þannig að ég tel að allir geti verið vel sáttir eftir helgina. Hingað komu mjög margir og vonandi hafa allir fundið eitthvað skemmtilegt við sitt hæfi.

mbl.is Erill hjá lögreglunni á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlegur dómur

Mér finnst dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra í nauðgunarmálinu í dag alveg fáránlegur. Skilaboðin sem felast í honum eru allavega mjög alvarlegs eðlis þykir mér. Þetta hlýtur að verða umdeildur sýknudómur, einkum vegna þess að ekkert mark er tekið á frásögn konunnar. Í raun virðist felast undir niðri það mat að ölvunarástandið hafi ekki skipt máli og í raun virðist gefið sér að þrátt fyrir ölvunina sé þetta allt í lagi.

Enn vakna spurningar um hversu mikið vægi frásögn þeirra sem verða fyrir kynferðisafbroti hefur í raun. Það er því miður orðin alkunn staðreynd að dómar fyrir kynferðisafbrotamál hér heima eru til skammar, bæði eru þeir alltof vægir og með þeim er ekki staðfest hversu alvarlegur glæpur felst í verknaðinum. Kynferðisafbrot eru að mínu mati stóralvarlegur glæpur. Sálrænt áfall þeirra sem fyrir því verður gróa aldrei að fullu.

Það hefur verið rætt vel og lengi um dóma í þessum málum. Það er greinilegt á þessum dómi að þeirri umræðu er ekki enn lokið.

mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir nauðgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgönguyfirvöld vakna til lífsins

Frá Reykjanesbraut Mikið er nú gott að heyra að samgönguyfirvöld hafi vaknað til lífsins og gert eitthvað til að bæta stöðu mála á hinum umdeilda kafla Reykjanesbrautar þar sem fjöldi slysa hefur orðið að undanförnu. Var löngu kominn tími til. En það þurfti enn eitt slysið til og samgönguyfirvöld urðu að finna fyrir reiði almennings til að eitthvað yrði gert.

Svona sleifarlag má ekki gerast aftur. Við eigum að eiga betra skilið en svo að horfa upp á svona aðgerðarleysi langtímum saman án þess að nokkur valdsins maður hafi frumkvæði til að gera eitthvað. Það á að vera skylda Vegagerðar og samgönguráðuneytisins að tekið sé á málum í stöðu sem þessari og ekki þurfi að bíða eftir slysum til að mál séu leyst.

Held að þetta mál með Reykjanesbrautina sé skólabókardæmi um hvernig eigi alls ekki að gera hlutina. Vona að þeir sem ráða för hafi lært eitthvað á þessu. Það er alveg ólíðandi að ekki sé gripið til heimilda í lögum til að hefja framkvæmdir að nýju. Það er stóri skandall þessa máls og mesti áfellisdómurinn yfir þeim sem ráða för. Þrátt fyrir öllu fögru fyrirheitin eftir slysið í gær stendur það stórklúður algjörlega eftir og verður að sjálfsögðu að gera upp.

Þetta er auðvitað embættisafglöp hjá þeim sem ráða för. Viðkomandi aðilar eiga sér ekki málsbætur. Þeir læra þó vonandi sína lexíu á þessu.

mbl.is Úrbætur á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivextir hækka - þjóðarnauðsyn eður ei?

Davíð OddssonDavíð Oddsson hefur rétt fyrir sér hvað það varðar að það er þjóðarnauðsyn að hemja verðbólguna. Fátt er mikilvægara. En enn frekari hækkun stýrivaxtanna vekur þó aðallega spurningar um hvert við stefnum. Í þeim efnum dugar fátt meira en traust forysta í landinu, þar sem tekið er á þeim vanda sem blasir við með einbeittum aðgerðum.

Það má deila um hvort stjórnvöld hafi verið að standa sig í stykkinu með ákvörðunum sínum. Seðlabankinn viðurkenndi að stefna sín meginpart vetrar hefði beðið skipbrot þegar að þeir methækkuðu stýrivextina fyrir nokkrum vikum. Frekari aðgerðir blasa við en ég held að flestir spyrji sig að því hvað ríkisstjórnin ætli sér að gera í þessari stöðu. Þrátt fyrir að hún sé voldug í þingmannatölu finnst mér hún hafa verið einum of vandræðaleg í aðgerðaleysi sínu.

Við lifum á krísutímum. Fólk af minni kynslóð og yngri hafa blessunarlega ekki þurft að lenda í mikilli peningalegri krísu, en hinsvegar heyrt margar goðsagnakenndar sögur af metverðbólgu og krísutíð frá foreldrum okkar og jafnvel öfum og ömmum. Nú virðumst við á þeirri vegferð að lenda í ólgusjó. Vonandi mun takast að afstýra því. Það er eins gott að Seðlabankinn viti allavega hvert þeir stefni í slíku árferði.


mbl.is Þjóðarnauðsyn að hemja verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Turnbruni í Kópavogi - Towering Inferno

Turnbruni í Kópavogi Það fyrsta sem mér datt í hug þegar að ég heyrði af brunanum í turninum í Kópavogi í kvöld var stórslysamyndin mikla The Towering Inferno - þar sem smálogi kviknar í miklum og veglegum turni, Glass Tower, 138 hæða, á vígsludegi, sem endar með því að turninn skíðlogar.

Góð ráð verða dýr fyrir veislugestina á efstu hæðunum - gleði og glaumur breytist í mikla lífsbaráttu. Ein af þessum ógleymanlegu stórslysamyndum áttunda áratugarins sem skörtuðu stórstjörnum í hverju hlutverki og allt varð svo stórt og mikið - auðvitað voru hetjurnar í bruna-aksjóninu goðumlíkar stjörnur; Steve McQueen og Paul Newman.

Sem betur fer varð þetta ekki mikið eldhaf í turninum í Kópavogi og tókst að ráða niðurlögum hans tiltölulega fljótlega þegar að þeirri spurningu hafði verið svarað hvar eldurinn var, en það tók sinn tíma að átta sig á því. Góðar eldvarnir hafa skipt þarna einhverju máli vonandi og því að eldurinn náði ekki að breiðast mjög mikið út. Þetta hefði getað farið mun verr.

Það er reyndar svolítið sérstakt að þetta komi upp svo skömmu eftir að turninn, sem nú gnæfir yfir höfuðborgarsvæðinu, var tekinn í notkun. Það fer kannski svo einhvern tímann að það reyni á hvort að svipuð stemmning myndist hér heima og í þessari gamalkunnu bandarísku stórmynd. Vonandi ekki. Komment við færsluna fær mig allavega til að hugsa um þetta.

En já, það er kannski spurning að líta bráðlega á Towering Inferno? Eða hvað? Eðalmynd reyndar, hiklaust besta stórslysamyndin sem gerð var á áttunda áratugnum - þá var aðalsportið að gera svona myndir.

Sjáum smá klippu úr þessari eðalstórslysaræmu.



Set hér líka inn klippu með hinu löngu gleymda óskarsverðlaunalagi úr myndinni, We May Never Love Like This Again, með stórslysamyndasöngkonunni frægu Maureen McGovern. Hún söng nefnilega líka titillagið í stórslysamyndinni, The Poseidon Adventure, tveim árum áður - hið mun þekktara The Morning After. Það vann líka óskarinn. Það var síðar gert gott grín að því í stórslysaþætti hjá Simpson-fjölskyldunni undir heitinu I Think We´re Heading For a Disaster.



Bendi líka á upphafsklippu myndarinnar - flugferðinni í turninn mikla í San Francisco - þess má reyndar geta að hann var sjónhverfing ein, vel gerður af tæknibrellumeisturum þess tíma.



mbl.is Ráða niðurlögum eldsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílslysið við Borgarbraut

Það var ekki fögur aðkoman að bílslysinu við Borgarbraut í hádeginu. Ég átti leið þarna um skömmu eftir að slysið átti sér stað og óraði ekki fyrir öðru en fólkið í bílnum hefði slasast mikið. Vona að þeim heilsist vel eftir slysið og nái sér að fullu. Enn og aftur verð ég þó að minnast á þessar myndbirtingar á bílslysunum. Það er varla liðinn hálftími til klukkutími frá umferðarslysi þar til að myndir eru komnar á vefinn af öllum aðstæðum, bílflökum og öllu sem við kemur alvarlegu slysi.

Finnst þetta vera algjörlega óþarfar myndbirtingar og undrast þær enn og aftur. Það virðist vera sem að fjölmiðlar telji það helst þurfa að sýna bílinn í nærmynd til að geta sagt fréttir af slysum af þessu tagi. Eitt er að segja fréttir af slysum, annað er að sýna bílflökin og allt sem tengist slysinu beint. Allavega þetta er eitt af því í fjölmiðlun sem stingur mig svolítið og mér finnst vera mjög óviðeigandi.

Það er greinilegt á viðbrögðum við skrifum hér og pósti til mín, þar sem ég hef heyrt mjög margar sögur frá fólki sem hafa fyrst frétt af andláti náins ástvins og ættingja með myndbirtingu af vettvangi slyssins á netinu, og ýmsar aðrar sögur af slysum þar sem fólk þekkir bílflökin og veit hver lenti í slysinu, að fólki finnst þetta mjög óviðeigandi og tekur undir skrif mín.

mbl.is Þrjú flutt á sjúkrahús eftir umferðarslys á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla kærður - munu mótmælin halda áfram?

Sturla Jónsson Eftir atburðarás síðustu daga þarf ekki að koma að óvörum að Sturla Jónsson hafi verið ákærður vegna mótmæla atvinnubílstjóra. Lögregluyfirvöld hafa orðið sífellt óþolinmóðari í garð mótmælanna eftir því sem frá hefur liðið og greinilegt um skeið að eitthvað myndi brátt gerast. Það sem verður þó áhugaverðast að sjá í kjölfarið hvernig atvinnubílstjórar svari kærunni, hvernig mótmæli verði næstu dagana.

Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að síendurtekin mótmæli á aðalumferðaræðum borgarinnar bættu ekki málstað bílstjóranna. Þetta voru sterk skilaboð fyrstu vikuna eða svo, en síðan fór boðskapurinn svolítið að verða útvatnaður og umdeildari - fólk sem hafði samúð með bílstjórunum fóru að verða óánægð og það fór að lokum svo eins og ég sagði í pistli eftir fyrstu mótmælin að síendurtekin mótmæli, alveg eins, myndu ekkert gera nema veikja málstað bílstjóranna og gera það að verkum að samúð almennings myndi dvína. Margir studdu málstaðinn en ekki verklagið við að vekja athygli á honum.

Mótmæli bílstjóranna við fjármálaráðuneytið og samgönguráðuneytið, sem blokkeraði formenn stjórnarflokkanna í Hafnarhúsinu, svo þau urðu að fara fótgangandi frá, vakti t.d. að ég tel mun meiri athygli og einhverja samúð en hitt. Það er alltaf svo að þegar byrjað er að mótmæla getur málstaðurinn veikst ef ekki er haldið skynsamlega á málum. Það er enginn vafi á því að það var farið svolítið langt í þessum mótmælum og þau voru byggð upp spontant og ekki skipulega að ég tel. Það er enda erfitt að halda dampi í svona mótmælum mjög lengi með sömu aðferðum.

Ekki vantaði samstöðuna, en ég tel að bílstjórar hér nyrðra t.d. hafi gert þetta mun skynsamlegra en félagar þeirra fyrir sunnan, með því að lama ekki umferðina alveg, heldur hægja á henni og senda skilaboð með því. Mótmæli bílstjóranna hér voru auk þess ekki upp á hvern dag og þeir komu sínu vel á framfæri. Held að margir styðji enda málstað bílstjóranna en það hafi misst tiltrú á aðferðunum sem slíkum í mótmælunum.

En stóra spurningin er auðvitað nú hvernig bílstjórarnir muni bregðast við ákærunni á hendur Sturlu. Munu þeir berjast áfram og loka af umferðaræðar? Þeir létu greinilega af því verklagi í byrjun vikunnar og vöktu athygli með mótmælum á mánudag, en fróðlegt verður að sjá hvaða stefnu þeir taka núna.

mbl.is Bílstjórar: „Við höldum áfram"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband