Færsluflokkur: Dægurmál

Spennandi viðureign - MR sigrar í bráðabana

Sigurlið MR í Gettu betur MR tókst að tryggja sér sigur í Gettu betur í bráðabana annað árið í röð nú í kvöld. Þetta var æsispennandi viðureign og mátti heyra saumnál detta þegar að haldið var í bráðabanann eftir að MA hafði tekist að vinna upp sjö stiga forskot MR undir lok keppninnar. MR var reyndara í bráðabana og sást það greinilega af taktíkinni.

MA má þrátt fyrir tapið mjög vel við una í sjálfu sér, þó það sé skelfilega vont og sárt að tapa að sjálfsögðu. Það var eiginlega afrek í stöðunni 26-19 fyrir MA að snúa við töpuðu spili í það að jafna og eiga raunhæfa möguleika á að sigra í bráðabana. Konni var bjargvætturinn þegar að honum tókst að svara spurningunni um Sovétleiðtogana og það hefur eflaust verið öskrað mikið í heimahúsum hér á Akureyri þegar að það tókst.

Að sama skapi voru það gríðarleg vonbrigði, gígantísk satt best að segja, þegar að Konna mistókst að giska á rétta hljómsveit í bráðabana, leggja allt undir Black Sabbath en bíða aðeins sekúndubrot og komast þá auðvitað að því að spurt var um Duran Duran. En það er þannig þegar að komið er á þennan stað í keppnina er keppt um að vera fyrstur á bjölluna. Stundum skilar áhættan sér en stundum er hún afleit. Þannig fór það fyrir MA í kvöld. En þau Konni, Svala og Arna mega þó vera stolt af sínu, sérstaklega að koma skólanum í bráðabanann.

Þetta er í fjórtánda skipti sem MR sigrar í Gettu betur frá því að keppnin hófst árið 1986. Skólinn sigraði fyrst árið 1987, en síðan vann skólinn keppnina í heil ellefu ár í röð, á árunum 1993-2003, og svo aftur í fyrra. Langa sigurtímabilið var ótrúleg sigurganga, sem andstæðingum þeirra á þessu langa tímabili gramdist mjög í geði vissulega en gerði þá sigursælasta lið í sögu keppninnar. Þeir festa það enn í sessi á þessu kvöldi. Óska MR innilega til hamingju.

MR og MA voru með bestu liðin í ár, bæði sterk og satt best að segja fannst mér erfitt að spá um sigur fyrir kvöldið, þó auðvitað vonaði ég að MA tæki þetta. Nema hvað. MA stóð sig mjög vel í gegnum allt ferlið og eru varla síðri sigurvegarar í kvöld í raun. Þetta var svo tæpt að þetta gat í raun fallið á hvorn veginn sem var. En tvö glæsileg lið sem stóðu sig firnavel. En sárindi MA-inga hljóta að vera mikil, en þeir geta verið stoltir með sitt þó.

Það var reyndar andskoti súrt í broti að keppnin skyldi ekki fara fram hér nyrðra, enda áttu MA-ingar klárlega inni keppni frá því að blása varð af norðlenska keppni fyrst í sjónvarpshlutanum. Það væri gott ef að það yrði hugsað betur um þetta að ári. Finn til með Konna í kvöld, enda var það skrambi sárt að giska á vitlaust band eftir að hafa tekist að komast þó þetta langt. Eiginlega grátlegt klúður, en þetta er allt í hita leiksins og allt getur gerst.

En svona er þetta, spenna og fjör - svoleiðis á það að vera. MR sigrar í bráðabana annað árið í röð og MA þarf að sjá á eftir sigurmöguleika eftir magnaða endurkomu í tapaðri viðureign. Allavega; klárlega með skemmtilegri úrslitaviðureignum í Gettu betur-sögunni.

mbl.is MR vann eftir bráðabana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Shannon Matthews finnst eftir 24 daga leit

Shannon Matthews Það er ánægjulegt að níu ára stelpan breska, Shannon Matthews, sé fundin heil á húfi í York-skíri. Það hafði verið fjallað mikið um hvarf hennar á bresku fréttastöðvunum og hafði ég séð fjölda viðtala þar, meðal annars við foreldra hennar og vini. Þrátt fyrir mikla fjölmiðlaumfjöllun varð þetta mál mun minna rætt en t.d. hvarf Madeleine McCann, sem var mjög umdeilt síðustu daga.

Eftir þriggja vikna leit voru margir orðnir vondaufir en foreldrarnir héldu alltaf í vonina. Það er greinilegt að henni var rænt. Það er skelfilegt að fullorðið fólk geti verið svo kaldrifjað að ræna börnum og fara illa með þau og skilja þau við foreldra sína, vini og ættingja. Það eru mörg málin síðustu árin þar sem börnum er rænt.

Rúmt ár er liðið síðan að stelpan Natascha Kampusch fannst í Austurríki. Hún hafði verið týnd í átta ár og verið talin af. Henni var haldið á heimili vitfirrts manns og lifði mjög hrörlegu lífi. Fréttamyndirnar af vistarverum hennar í kjallara hússins sem henni var haldið fanginni í fóru um allan heim og voru sláandi. Fréttaviðtalið við Kampusch var alheimsviðburður og með ólíkindum þótti af hversu mikilli stillingu hún gat talað um lífsreynslu sína, sem var ógnvekjandi og sorgleg í senn. 

Mikið er talað um kynferðislega misnotkun. Það á vissulega eftir að fá úr því skorið hvað þessi 39 ára gamli maður gerði við níu ára gamalt barn, en kynferðisleg misnotkun er því miður algengt í tilfellum sem þessum.

mbl.is Shannon Matthews fannst á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegur dómur

Dómur Það er mjög merkilegt að móðir nemenda hafi verið dæmd til að greiða kennara tíu milljónir króna vegna þess að kennarinn hafi slasast af völdum nemandans. Man ekki eftir svona máli satt best að segja áður - þetta eru viss tímamót og einstakt mál. Telja má öruggt að þetta fari fyrir Hæstarétt.

Hef heyrt af dæmum þess að nemendur takist eitthvað á og einhver ólga sé vegna þess, en það eru allavega fá dæmi þess að kennari kæri forráðamann nemenda og skólann sem hún kennir í og krefjist svo hárra skaðabóta. Þetta er allavega sögulegt, og um leið sérstakt fordæmi, sem sett er með þessu.

Persónulega finnst mér þessar bótagreiðslur frekar háar og finnst þetta mál reyndar allt mjög sérstakt. Erfitt að finna einhverja sögu þar sem nemandi skaðar kennara og þeir sem að henni standi þurfi að greiða miklar bætur. Í heildina er þetta mál sem vekur umræður og eflaust hneykslan.

Þetta mál hljómar sem óraunveruleikasaga og eðlilegt að Hæstiréttur felli sitt mat á því. Verði þessi dómur staðfestur þar að mestu leyti er allavega komið merkilegt fordæmi ef kennarar telji sig verða fyrir einhverjum skaða af hálfu nemenda.

mbl.is Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar í Reykjanesbæ - sérsveitin á salernið

Byssumaðurinn í Reykjanesbæ Það er ekki nema von að margar spurningar vakni um hvað hafi gengið á í heimahúsi í Reykjanesbæ sem leiddi til þess að maður lokar sig inni á salerni með haglabyssu og það þurfi að yfirbuga hann í kjölfarið. Þetta er eitt þessara mála sem eiga sér sína forsögu en fer svo í fjölmiðla og hver og einn veltir fyrir sér hvað hafi gerst.

Þetta atvik minnir mjög vel á það, hversu brýnt er að lögreglan sé undir það búin að takast á við verkefni af ýmsu tagi, stór sem smá. Fyrir nokkrum árum þótti ekki öllum sem sitja á Alþingi mikilvægt að breyta skipulagi á yfirstjórn sérsveitar lögreglunnar til að sveitin væri ávallt til taks og sveigjanlegri en áður hefði verið. Því síður virtist skilningur á því hjá fjölda fólks þá að nauðsynlegt væri að efla sérsveitina og fjölga í henni.

Þessi staða sýnir vel hversu rétta stefnu sérsveitin hefur tekið og að hún sé vel búin fyrir ástand sem getur komið úr óvæntustu átt, rétt eins og þessi heimiliskrísa á Suðurnesjum.


mbl.is Lokaði sig inni með haglabyssu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýn ekki lengur til - klénar breytingar hjá 365

Sýn Mér finnst það frekar slöpp ákvörðun hjá 365 að hætta að nota nafnið Sýn á íþróttastöðvar sínar og nota þess í stað Stöð 2 sem yfirheiti yfir þær og reyndar allar aðrar stöðvarnar í leiðinni. Sýn var mjög gott nafn, hafði verið notað til fjölda ára á afþreyingarstöðvar fyrirtækisins og hljómaði vel, enda stutt og þjált orð.

Sýn í þeirri mynd sem við þekkjum hana hefur verið til í um einn og hálfan áratug. Áður en íþróttaefni drottnaði algjörlega yfir henni voru þar bíómyndir og margir ágætisþættir. Sýn stóð sig vel og síðasta misserið hefur verið Sýn 2 sem hefur verið ágæt með, þeir sem eru mest hrifnir af íþróttaefni hafa getað treyst á hana til að miðla til sín frábæru efni. Það var í sjálfu sér engin þörf á að breyta til og þessi nafnabreyting er vandræðaleg og eiginlega óskiljanleg.

Fannst það klént og skrítið þegar að Bíórásin var gerð að Stöð 2 Bíó fyrir nokkrum árum, enda var Bíórásin mjög gott heiti á stöð sem sýnir aðeins bíómyndir. Nú á Sirkus að fá sömu örlög sem Stöð 2 Extra og Fjölvarpið fær Stöðvar 2 nafnið með. Skil allavega ekki hvers vegna þetta er gert. Held að það hefði verið betra að hafa þetta óbreytt og leyfa Stöð 2 að halda sér einni og sér og hinum stöðvunum óbreyttum í leiðinni. Þetta Stöðvar 2 lúkk yfir öllum stöðvunum hjá 365 er klént, svo ekki sé meira sagt.

Finnst t.d. skondið í meira lagi að Sýn 2 eigi nú að heita Stöð 2 Sport 2. Held að þetta verði ekki lengi svona, spurning hvort að það nái árinu. Ef það nær því er það bara vegna þess að menn vilja ekki viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. Sýn er því orðið að Stöð 2 Sport. Er eiginlega enn að bíða eftir að einhver segi að þetta sé brandari og þeir hjá markaðsdeild 365 hafi tekið hversdagslegt flipp yfir áhorfstölunum sem sýna fréttir Stöðvar 2 fallið af topp 20 í áhorfi.


Eitt enn; Stöð 2 Bíó er skelfilegt nafn á stöð sem ætti að heita Bíórásin. Enn verra er hversu lélegar bíómyndir eru sýndar þar. Kannski ein til tvær, í mesta lagi, myndir á sólarhring sem varið er í. Það er furðulegt metnaðarleysi hjá þessum fjölmiðlarisa að hafa ekki meiri metnað en svo að sýna nýlegt rusl á bíómyndastöð en fókuserar ekki á gamlar eðalmyndir kvikmyndasögunnar, til þess að gera þetta að stöð fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk.

Bara varð að koma þessu á framfæri eftir skrifin um Stöð 2 Sport 2 og hvað þetta flipp allt annars heitir.

mbl.is Nafnabreytingar á sjónvarpsstöðvum 365 miðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn og myndbirtingar á bílslysum

Það bregst ekki að þegar að fjallað er um umferðarslys að þá birtist nær alltaf myndir af vettvangi hjá Netmogganum, sama hversu sorglegar aðstæður eru í slysunum. Hef alltaf talið að myndbirtingar af vettvangi umferðarslyss þjóni mjög litlum tilgangi, hef aldrei talið það skipta miklu máli að sýna bílflökin.

Kannski er það ábending til annarra að svona geti farið í umferðinni, en fyrir þá sem tengjast þeim sem slasast eða láta lífið í umferðarslysi er þetta særandi myndræn umgjörð um mikinn harmleik. Veit ekki hvort það er einhver algild regla hjá fjölmiðlum í þessum efnum. Sumir fjölmiðlar eru þó meira áberandi í þessu.

Það er alltaf þörf á að velta því fyrir sér hvað sé eðlilegt og hvað ekki í fjölmiðlun. Mér finnst svona myndbirtingar bæði óþarfar og óskiljanlegar í sjálfu sér.


mbl.is Umferðarslys í Kömbunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hannes dæmdur til að greiða Auði fébætur

Hannes Hólmsteinn Það kom mér að óvörum að Hæstiréttur myndi dæma Hannes Hólmstein til að greiða Auði Laxness yfir eina og hálfa milljón króna í miskabætur. Mér finnst þessi dómur vekja margar spurningar, enda tel ég þetta háar bótagreiðslur sem dæmdar eru í málinu og eiginlega hærri en í mörgum umdeildum málum á síðustu árum.

Mér finnst þessi dómur mjög harkalegur og ganga í sjálfu sér mjög langt. Fer ekki leynt með þá skoðun mína. Í raun má segja að dómurinn tjái það mat sitt að yfir 200 blaðsíður af fyrsta bindi ævisögunnar hafi brotið gegn rétti nóbelskáldsins og er greinilegt á dómsorði að rétturinn telur fyrsta bindið meingallað og ganga gegn fjölskyldu skáldsins.

Það er alveg ljóst að ævisaga Hannesar um Halldór Kiljan Laxness hefur verið umdeild frá því að áður en Hannes hóf ritun hennar og deilurnar stóðu mun lengur en frá þeirri stund er fyrsta bindið varð opinbert. Það hefur verið mitt mat að þessi þriggja binda ævisaga Laxness eftir Hannes hafi verið vönduð og vel úr garði gerð, sérstaklega annað bindið.

Hvað varðar hið umdeilda fyrsta bindi má vissulega velta því fyrir sér hvort að þar hafi verið rétt að verki staðið. Hinsvegar finnst mér þessar bætur út úr öllu korti og eiginlega setja bótakröfur á svolítið hærra plan, þar sem þolendum alvarlegra glæpa eru stundum dæmdar aðeins brot af þessari upphæð sem HHG þarf að greiða Laxness-fjölskyldunni.

Það er margfræg sú þjóðsaga að Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfirráð yfir Hæstarétti og vinir hans ráði þar för og þeir sem þeim tengist fái þar auðvelda og góða meðferð. Sú þjóðsaga vissra aðila í samfélaginu á sennilega ekki vel við á þessum degi.

mbl.is Bótaskyldur vegna ævisögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annþór í afplánun - áralöng fangavist tekur við

Annþór Það er gott að lögreglan hefur úrskurðað Annþór Karlsson til þess að klára afplánun á fyrri brotum sínum. Flótti Annþórs í síðasta mánuði var vandræðalegt klúður fyrir lögregluna. Þar voru verklagsreglur brotnar og mjög illa staðið að málum á meðan að hann var í varðhaldi á Hverfisgötu og á þeim bænum hafa menn vonandi lært sína lexíu vel.

Það var auðvitað afleitt að margdæmdur ofbeldismaður, grunaður um alvarleg afbrot og átti að sæta einangrun, gat leikið lausum hala á lögreglustöðinni, komist í síma, fundið reipi og síðast en ekki síst stokkið út um glugga án þess að nokkur tæki eftir því. Ofan á allt annað að þá liðu að minnsta kosti tveir tímar frá flóttanum þar til löggan áttaði sig loks á honum.

Ef marka má stöðu málsins á Annþór væna refsingu framundan og hefur brotið talsvert meira af sér en það sem hann situr inni fyrir nú. Það er ágætt að hann fái tíma til að hugleiða sín mál og lögreglan líka, sem leit af Annþóri eitt augnablik og lærði vonandi sitt af því klúðri.

mbl.is Annþór sendur í afplánun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný og spennandi tækifæri á Miðnesheiði

Einu og hálfu ári eftir að bandaríski herinn yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði hefur samfélagið þar öðlast nýtt hlutverk. Þar sem áður voru vistarverur bandarískra hermanna í Íslandsdvöl eru nú stúdentaíbúðir námsmanna hjá Keili og á höfuðborgarsvæðinu sem keyra til náms í borgina. Á einhverjum tímapunkti hefði þetta þótt saga til næsta bæjar en það er svo sannarlega áhugavert að sjá þessa umbreytingu á svæðinu á Miðnesheiði sem orðið hefur. Það er ánægjulegt að fylgjast með þeim krafti sem hefur einkennt uppbygginguna á svæðinu að undanförnu, þar sem horft er til nýrra verkefna. Og svæðið hefur öðlast nýtt líf.

Ég fór sumarið 2006 á herstöðvarsvæðið. Þetta var nokkrum mánuðum áður en síðustu hermennirnir fóru. Var þetta í eina skiptið sem ég kom þangað. Fannst mér vissulega leitt að koma svo seint til að sjá svæðið, en þá minnti íbúðahverfið einna helst á draugabæ. Sárafáir voru á ferð þar um og húsin voru að mestu yfirgefin og mannlaus. Þetta var ógleymanleg sjón og skemmtileg heimsókn að mjög mörgu leyti. Það sem kom mér mest á óvart við að fara þarna var að sjá hversu umfangsmikið svæðið var í raun og veru. Þarna blöstu tækifærin við er kom að breyttum aðstæðum og þau tækifæri voru svo sannarlega nýtt.

Hef ég heyrt um fólk, og þekki suma þeirra líka, sem stundar nám í Reykjavík sem hefur ákveðið að búa á þessu svæði. Það hlýtur að vera sérstök tilfinning að búa þarna. Þetta er skemmtilegt tækifæri og eðlilegt að ungt fólk sækist eftir því að vera þarna. Þeir hjá Keili hafa byggt menntastofnun þar upp á skömmum tíma og tækifærin blómstra.

Vona að þeir sem hafa flutt í samfélagið á Miðnesheiði líði vel þar og fagna því að þetta svæði hafi fengið nýtt hlutverk.

mbl.is Draugabær að blómlegu þorpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins fáum við gömlu leikverkin á skjáinn

Ríkisútvarpið Það er löngu orðið tímabært að gerður sé samningur sem felur í sér endursýningu á leiknu íslensku efni frá fyrstu árum Ríkissjónvarpsins. Það er mikið af eðalefni í safni Sjónvarpsins sem hefur í mesta lagi verið sýnt einu sinni eða tvisvar áratugum saman og kominn tími til að við fáum að njóta þessa efnis og yngri kynslóðir sjái góð og vönduð leikverk.

Þegar að Sjónvarpið varð 30 ára, árið 1996, voru gerðir þættir um sögu þess og sýnt brot úr myndasafninu, kaflaskiptir þættir eftir efni. Þorfinnur Ómarsson tók saman góðan og vandaðan þátt með broti af leiknu efni. Þar var margt mjög áhugavert klippt saman og hrein veisla að sjá viss brot og eiginlega viss eftirsjá að hafa aldrei séð þessi verk í Sjónvarpinu. Sum leikverkin voru vissulega ekkert spes en það eru miklar perlur þarna inn á milli sem væri gaman að sjá.

Leikna efnið í Sjónvarpinu hefur verið að minnka á síðustu tíu til fimmtán árum. Mér fannst meiri metnaður í þessum efnum í dagskrárstjóratíð Hrafns Gunnlaugssonar og Sveins Einarssonar, en síðan hefur verið þó að Sigurður G. Valgeirsson hafi staðið sig ágætlega með Sunnudagsleikhúsið einhvern veturinn fyrir rúmum áratug. Þá voru nokkur verk endursýnd og leikverkið Þrek og tár var í beinni útsendingu úr Þjóðleikhúsinu. Ríkisrisinn hefur gjörsamlega sofið á verðinum síðasta áratuginn og ekki staðið sig að einu eða neinu leyti og hrein hræsni að tala um að það standi vörð um menningarlegt hlutverk.

Þórhallur og hans fólk í Sjónvarpinu er greinilega að laga til þarna og ætlar að taka sig á. Um páskana sjáum við leikið verk, Mannaveiðar, byggt á sögu Sveinbjörns Baldvinssonar, og eflaust er það aðeins fyrsta verkefnið. Ekki er langt síðan að Björgólfur Guðmundsson ákvað að leggja fé til innlendrar dagskrárgerðar í formi leikins efnis.

Og nú opnast safn gamalla verka og vonandi fáum við vænan skerf af því á dagskrá. Enda er full þörf á að við kynnumst aftur hinu gamla og góða sem gert var á árdögum íslensks sjónvarps.


PS: Fyrst og fremst vildi ég fá að sjá þáttaröðina Undir sama þaki. Hef heyrt margar sögur um þessa þætti og hversu góðir þeir voru. Væri gaman að fá að sjá þá!

mbl.is RÚV semur við félög leikara og tónlistarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband