Færsluflokkur: Dægurmál

Myndbirtingar af umferðarslysum

Það er að mínu mati fátt sorglegra en að sjá myndir í fjölmiðlum af bílflökum eftir umferðarslys, jafnan bara örstuttu eftir að slysið hefur átt sér stað. Hef oft skrifað gegn því þegar að mér hefur eiginlega blöskrað það. Það er því jákvætt að sjá að engar myndir hafa birst hér á fréttavef Morgunblaðsins eða í öðrum fjölmiðlum af slysinu í Vestur Húnavatnssýslu. Ætla að vona að eina ástæða þess sé ekki fjarlægðin í slysstað frá fjölmiðlum í Reykjavík, heldur að fjölmiðlar séu farnir að hugleiða þessi mál upp á nýtt.

Það veitir ekki af því að tala um þetta, enda finnst mér að fjölmiðlar eigi að taka mark á því. Oftast nær þjónar þessi myndbirting engum tilgangi. Skil ekki fréttagildið í mynd af bílflaki. Myndbirting af þessu tagi skilur aðeins eftir sig sár hjá aðstandendum þeirra sem slasast eða láta lífið í bílslysum og mörg dæmi eru reyndar um að aðstandendur hafi þekkt bíla ættingja sinna í fréttamyndum á netinu áður en það fékk tilkynningu um slysið eða jafnvel lát viðkomandi ættingja síns. Finnst þetta mjög dapurlegt.

Það er því vonandi að fjölmiðlar taki sig á og hugsi þessi mál vel og innilega. Enda eigum við að hugsa um tilfinningar í þessum efnum ekki forsíðuppslátt á persónulegum harmleik.


mbl.is Ók í veg fyrir vörubíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir ungu fólki

Mér finnst það eiginlega orðið sláandi hversu algengt er orðið að auglýst sé eftir ungu fólki, flestu á aldrinum 14-18 ára. Eftir nokkra klukkutíma leit eða örfáa daga finnast krakkarnir eða koma sjálf heim oftast nær. Eflaust eru margar langar sögur á bakvið hvert tilfelli. En það er ekki hægt annað en hugsa aðeins þegar að það gerist að jafnvel fimm ungmenni hverfi á rúmlega vikutímabili og spyrja sig að því hvað sé eiginlega að gerast í samfélaginu, hvort að þau séu í einhverri ógæfu eða vilji hreinlega fara að heiman vissan tíma.

Það eru svosem engar nýjar fréttir að fólk hverfi. Stundum hefur eitthvað gerst, slys eða aðrar aðstæður, sem valda því að ungt fólk kemur ekki heim. Þegar að óregla eða ógæfa dynur yfir hefur það gerst að ungt fólk er komið í svo mikið öngstræti að það stingur af. Það er ekki nema von að spurningar um hvert tilfelli vakni. En mér finnst þetta farið að gerast svo oft, jafnvel að leitað sé dögum saman að ungu fólki.

Vonandi mun ganga vel að finna þennan strák. Það hlýtur að vera skelfilegt að vera í þeirri stöðu að eiga ættingja sem finnst ekki og ekki er hægt að ná sambandi við. Gildir þá einu hverjar aðstæðurnar eru, enda er mjög óþægilegt og dapurlegt að eiga ástvin sem finnst ekki og það hlýtur að vera skelfilegt að horfast í augu við.

mbl.is Lýst eftir 17 ára pilti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsafriðunarnefnd bjargar borgarmeirihlutanum

Hús á Laugavegi Jæja, þá er húsafriðunarnefnd búin að friða húsin á Laugavegi og sennilega um leið bjarga hinum bágstadda og ákvörðunarfælna vinstrimeirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Skil samt ekki af hverju er verið að friða þessi hús. Sérfræðingar hafa sagt að það sé fátt eftir þar sem minni á hina liðnu tíð sem eigi að friða og þetta séu algjörir hjallar í raun.

Það var til marks um hvað vinstrimeirihlutinn í Reykjavík er viðkvæmur að þetta mál ógnaði honum. Og við heyrðum hið minnsta þrjár ef ekki fjórar skoðanir frá leiðtogunum fjórum í meirihlutanum. Það fékk mann eiginlega til að hugsa um hvað þetta fólk hefði samið um málefnalega áður en það ákvað að mynda meirihlutann. Var bara samið um völdin? Freistandi að halda það.

Nú bendir allt til þess að þetta verði allt friðað og gömlu húsunum verði bjargað. Það verður gaman að sjá hvað húsafriðunarálitsgjafinn Egill Helgason bloggar um það frá Barbados.

mbl.is Ráðherra friði Laugavegshús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveikt í fjölbýlishúsi

Slökkvilið berst nú við eld sem kveiktur var af mannavöldum í fjölbýlishúsi í Breiðholtinu. Þetta er þriðji eldsvoðinn í fjölbýlishúsi í Reykjavík á þrem dögum og sá annar vegna íkveikju. Það er dapurlegra en orð fá lýst að kveikt sé í heimili fólks með þessum hætti og eiginlega ótrúleg mannvonska sem í því felst. Heimili fólks er þeirra helgasti staður og það er skelfilegt sé eldur kveiktur til að hreinlega drepa fólk eða vinna því skaða beinlínis.

Samkvæmt fréttum hefur þremur verið bjargað úr húsinu en enn eru sjö innandyra. Það er vonandi að það gangi vel að bjarga þeim. Það er á stundum sem þessum sem maður virkilega spyr sig um hvað sé að gerast í samfélaginu, þegar að eldur er kveiktur í húsi og greinilega gert hreint tilræði við fólk sem býr þar.

mbl.is Eldur í geymslu fjölbýlishúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnum samhug í verki

Frá vettvangi Hugur minn hefur verið í dag hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna eldsvoðans í Tunguseli síðastliðna nótt. Þrátt fyrir að ég þekki engan sem býr í þessari blokk er ekki hægt annað en verða sorgmæddur yfir harmleik af þessu tagi. Það eru miklar tilfinningar í sögunni um hetjudáð mannsins sem fórnaði lífi sínu við að bjarga unnustu sinni og sonum hennar.

Nú stendur þessi fjölskylda eftir allslaus, þurfa að byggja líf sitt svo að segja frá grunni. Það er erfitt að vera á slíkum krossgötum, eins og ég vék að í gær vegna annars eldsvoða í Reykjavík. Mikilvægt er að leggja þessari fjölskyldu lið, sérstaklega strákunum sem hafa misst aleigu sína. Það er mikilvægt að sýna samhug í verki og leggja þessari fjölskyldu lið á raunastundu.

Vil votta fjölskyldu og nánustu aðstandendum mannsins sem lést innilega samúð mína.

mbl.is Söfnun fyrir drengi sem björguðust úr eldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ógæfa fólgin í því að verða Idol-stjarna?

Kalli Bjarni Það er orðið margsannað að sigur í tónlistarkeppninni Idol fylgi skammlíf frægð sem oftast nær verður hrein bölvun er yfir lýkur. Nægir svosem að líta á íslensku sigurvegarana í Idol-keppninni. Flestir nutu frægðar í kringum keppnina og fyrst á eftir, en hafa annars gleymst að mestu. Fyrsta Idol-stjarnan, Kalli Bjarni, situr nú í fangelsi og afplánar langan dóm fyrir fíkniefnasmygl, önnur Idol-stjarnan Hildur Vala hefur reyndar náð lengst að margra mati en hefur pásað sig. Þriðja stjarnan, Snorri Snorrason, naut vinsælda sumarið 2006 en lítið hefur heyrst í honum síðan.

Sigurvegarar Idol-keppninnar í Bandaríkjunum hafa oftar en ekki gleymst. Stærsta stjarnan í keppninni til þessa, fyrir utan fyrsta sigurvegarann Kelly Clarkson, hlýtur að teljast leikkonan og söngkonan Jennifer Hudson, sem sló í gegn í þættinum árið 2004. Hún komst þó ekki alla leið og féll að lokum úr leik um miðja keppni, mörgum að óvörum. Síðan hefur sól hennar risið mjög og hún sló endanlega í gegn í kvikmyndinni Dreamgirls árið 2006 og hlaut óskarsverðlaunin og gullhnöttinn fyrir túlkun sína á söngstjörnunni Effie White í myndinni. Hudson er orðin ein skærasta söngstjarna sinnar kynslóðar í kjölfarið og flestir hafa gleymt Fantasiu Barrino sem vann keppnina sama ár og hún.

Ruben Studdard vann Clay Aiken með sjónarmun í keppninni árið 2003. Studdard er flestum gleymdur og margir þóttust sjá stjörnu í Clay, sem var dálæti margra þá, en hann hefur fallið í sama skuggann líka. Nú er Taylor Hicks, sem var stjarna í Idol fyrir tveim árum, og þekktur fyrir að hafa grátt í vöngum meðfram söngnum, búinn að missa sjarmann að mati útgefendanna og misst samninginn sinn. Hann stendur einn. Eftir stendur því að aðeins einn Idol-sigurvegari hefur markað gull og það er Kelly Clarkson.

Annars er besta dæmið um það hvernig fór fyrir Idol hérna heima það að efnið var slegið af. Idol gekk í þrjú ár hérna heima en var svo slegið af. Svo var X-factor tekið upp og það entist bara í einn vetur. Nú er engin svona keppni hérna heima, ef undan er skilin Eurovision-keppnin langlífa í Laugardagslögunum, en sá bolti virðist ætla að ganga endalaust og í gegnum allan veturinn, mörgum til gremju.

Af hverju var ekki haldið áfram með X-factor? Var ekki mikið áhorf á þáttinn, ekki vantaði auglýsingarnar í hann og ekki var hægt að sjá annað en að þjóðin hefði gaman af að horfa á. Talað var um keppendur og allt dæmið fram og til baka á bloggi, spjallvefum og almennt í samfélaginu. Gekk sá pakki ekki upp eða hvað gerðist? Væri gaman að vita það.

Annars er þetta allt eflaust besta dæmið um að þessi módel endast ekki nema vissan tíma og þeir sem sigra hafa ekki úthald í frægðina nema á meðan að stjörnuglampi þáttanna skín. Þeir eru fáir sem lifa lengur í bransanum en sá glampi.

mbl.is Idol sigur ekki ávísun á farsæld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manndrápsakstur í umferðinni

Enn og aftur berast fregnir af ökumönnum sem keyra um á manndrápshraða, keyra langt yfir hraðamörk og jafnvel í vímuástandi. Akstur á þeim hraða og var t.d. í þessu tilfelli á Reykjanesbrautinni flokkast ekki undir neitt annað en hreinan háska, enda eru í senn bæði ökumaðurinn og þeir sem hann mætir í lífshættu vegna þess. Ætla að vona að við séum ekki komin í biðferli eftir banaslysi, þar sem ökumaður í dópvímu drepur jafnvel fjölda fólks með hugsunarleysi sínu og gerræðislegum ákvörðunum.

Það er auðvitað mikið áhyggjuefni hversu alvarleg staðan er í umferðarmálum með tilliti til mála af þessu tagi. Það er búið að tala vel og lengi um að úrbóta sé þörf - taka verði á þessum augljósa vanda. Það þarf að fara að gera eitthvað meira en bara tala. Það er auðvitað dapurlegt þegar að fólk tekur þá ákvörðun að geisast áfram á kolólöglegum hraða og jafnvel í vímu, ber ekki einu sinni meiri virðingu fyrir sjálfu sér en það og hvað þá þeim sem það mætir á leið sinni.

Þetta hefur gerst of oft á síðustu mánuðum. Þetta hlýtur að fara að leiða til þess að horft verði út fyrir orð okkar allra sem tölum fyrir því að fólk hugsi sitt ráð og fari ekki undir stýri í annarlegu ástandi. Akstur í vímu, annaðhvort að völdum áfengis eða eiturlyfja, er vaxandi vandamál sem kristallast æ meir með atvikum að undanförnu.

Í sjálfu sér tel ég þetta orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag. Það er engin trygging fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi. Þetta er mikið áhyggjuefni sem full þörf er á að tala um með mjög áberandi hætti.

mbl.is Tekinn á 139 km hraða á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólunum lokið - þrettándastemmningin

Flugeldar Jæja, þá er jólahátíðinni lokið. Þetta voru notaleg og góð jól, eins og oftast nær. Las margar góðar bækur og hafði virkilega gaman af. Að mínu mati eru engin jól án bóka. En nú dimmir aftur yfir, jólaljósin slökkna og skammdegið verður alls ráðandi það sem eftir er mánaðarins. Það er þó bót í máli að daginn lengir sífellt nú og bráðlega mun birtan lýsa upp myrkrið. Þannig að ekki verður myrkrið ráðandi lengi úr þessu.

Mér finnst í sannleika sagt leiðinlegasti tími ársins vera dagarnir eftir jólin, í janúar, þegar að jólaljósin slökkna. Sumir hafa reyndar tekið upp á því að hafa jólaljósin lengur og njóta þeirra fram eftir mánuðinum. Finnst það ekkert verra. Í minningunni hefur janúar verið leiðinlegasti mánuður ársins. Það er eitthvað við þann mánuð sem er átakanlega leiðinlegt, rétt eins og desember er ávallt toppur alls, þegar að gleðin og jákvæðnin eiga að lýsa upp mannlífið með jólaljósunum. Þannig hefur það allavega alltaf verið hjá mér.

Margir vilja kveðja jólin með flugeldaskothríð í takt við það sem var á gamlársdag. Það hefur mikið verið skotið upp hér á Akureyri í dag, greinilegt að margir telja þetta ekki síðri tíma fyrir flugelda en áramótin sjálf. Kannski er það ágætis hefð hjá fólki, hef ekki gert mikið af því sjálfur reyndar. Hinsvegar finnst mér fátt meira óþolandi en þegar að það er verið að skjóta upp flugeldum í tíma og ótíma utan þessara tveggja daga. Sumir hafa tekið upp á því að gera þetta um hánótt jafnvel á virkum degi milli áramóta og þrettándans við lítinn fögnuð flestra. Er ekki mjög hrifinn af flugeldunum utan þessa tíma.

Það er dapurlegt að heyra af því að fólk slasist við flugeldaskothríðina. Það er mikilvægt að fara varlega í þessum flugeldamálum. Það var gott mál þegar að varnargleraugun komu, enda voru mjög margir sem fengu vond meiðsli í andliti í flugeldaskothríðinni. Margt hefur breyst til hins betra og vonandi hafa flestir sloppið slysalaust í gegnum áramótin og þrettándann. Hafa allavega ekki verið margar fréttir um alvarleg meiðsl í flugeldaskothríðinni síðustu dagana, sem betur fer. Vonandi hafa allir farið varlega og sloppið vel frá þessu öllu.

mbl.is Óhapp við þrettándabrennu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var kveikt í íbúðinni á Neshaganum?

Sögusagnir herma að kveikt hafi verið í íbúðinni á Neshaganum í nótt. Íbúðin var mannlaus er eldurinn kom upp, en eigandinn er einstæð móðir, sem nú er í fríi erlendis. Það er mjög dapurlegt að kveikt sé í heimili fólks með þessum hætti og eiginlega ótrúleg mannvonska sem í því felst. Heimili fólks er þeirra helgasti staður og það er mikið persónulegt áfall að missa aleigu sína. Það áfall verður mun erfiðara við að eiga sé það í skugga þess að eldur hafi kviknað af mannavöldum.

Vorkenni þessari konu, enda er þetta eins og ég sagði fyrr í dag mikið persónulegt áfall. Þó að bæta megi jarðneska hluti er skaðinn alltaf mikill. Það er skelfileg mannvonska fólgin í því að valda öðrum slíkum skaða.

...að missa allt sitt

Það er alltaf dapurlegt að heyra fréttir af því að fólk missi aleigu sína í eldsvoða, þurfi að byrja upp á nýtt svo til með tvær hendur tómar. Það hlýtur að vera áfall að missa innbúið sitt, hluti sem hafa persónulegt gildi. Þó að það megi bæta húsgögn og þess konar hluti er gríðarlegt áfall að missa allt hið persónulega; ljósmyndir og þess háttar hluti. Heilt yfir er það þó svo að mannslífið eitt skiptir máli. Þegar að heyrist um eldsvoða er eðlilega fyrst spurt um hvort fólk hafi komist út heilt á húfi. Það hlýtur þó að taka á að þurfa að byggja upp heimilið sitt allt að því frá grunni.

Bróðir minn lenti í alvarlegum eldsvoða fyrir um áratug. Það mátti varla tæpara standa þá og hann mátti teljast stórheppinn að komast út. Hefði ekki verið reykskynjari í húsinu hefði þetta farið enn verr og hann bjargaði því að húsið fuðraði ekki upp. Þau misstu allt sitt. Það fór ansi nærri því að hver einasti hlutur í húsinu væri ónýtur, nær ekkert var eftir. Þá skipti hið eina máli að hann lifði af. Þó að áfallið við að missa innbúið hafi verið mikið er mannslífið ómetanlegt og það að fólk bjargist úr slíkum eldsvoða er mest um vert.

Hef oft hugleitt hversu erfitt það er að vera í þessum sporum. Eflaust er það eitt af því sem enginn skilur fyrr en hann kemst í. Vonandi gengur fjölskyldunni á Neshaga vel að byggja upp heimilið sitt aftur.

mbl.is Húsbruni á Neshaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband