Færsluflokkur: Dægurmál

Hundurinn Lúkas á lífi

Ljóst er nú að hundurinn Lúkas sem leitað var að í síðasta mánuði, og talinn var hafa verið drepinn um þjóðhátíðarhelgina, er á lífi. Það gekk mikið á í þeim mikla fjölmiðlastormi sem fylgdi því öllu. Nafn ungs manns var gefið upp á vefsíðu og hann sakaður um að hafa ráðið hundinum bana. Í kjölfarið var honum hótað lífláti með mjög ógeðfelldum hætti og ráðist var ekki aðeins að viðkomandi manni, heldur og í senn fjölskyldu hans. Það varð mjög lágkúrulegt og dapurlegt mál, enda leysti engin vandamál að hóta viðkomandi manni alls ills.

Það er vissulega mjög gleðilegt að hundurinn sé lifandi og þessu máli ljúki vel og ánægjulega að því leyti til. Eftir standa þó auðvitað þær hótanir og lágkúra sem beint var gegn manninum sem sakaður var um að hafa drepið hundinn, sakaður með mjög harkalegum hætti um verknað sem aldrei fór fram. Í því ljósi væri auðvitað eðlilegast að viðkomandi aðilar bæðu þennan mann afsökunar, enda hlýtur honum að hafa liðið skelfilega meðan á þessu gekk.

mbl.is Hundurinn Lúkas á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostuleg trúðslæti mótmælenda í Reykjavík

Mótmæli í Reykjavík Það er alveg kostulegt að fylgjast með þessum undarlegu mótmælum í Reykjavík. Sýnist þetta vera hrein og klár trúðslæti fólks sem er tilbúið til að setja umferð og mannlíf úr skorðum bara til að geta komið með statement af sínu tagi. Það voru auðvitað engin leyfi fengin fyrir mótmælum af þessu tagi, að stöðva umferð um Snorrabraut, sem er ein af fjölförnustu götum Reykjavíkur.

Það eru engin svör til um af hverju þetta sé gert. Helst er að sagt sé að þetta sé bara statement um skoðanir og ég veit ekki hvað. Mér finnst þetta fullkomlega ábyrgðarlaus mótmæli og þau dæma sig verulega sjálf. Þetta er sami hópurinn og mætti í Kringluna um daginn og lét þar hreinlega eins og trúðar og var úthýst þaðan. Það var lítið vit í þeim mótmælum og mátti öllum vera ljóst eftir það sem þar gekk á að ekki yrðu þessi mótmæli öðruvísi.

Mér finnst svona mótmæli mjög tilgangslaus. Það er hægt að segja skoðanir sínar með svo miklu betri hætti en fara fram með svona hætti; stöðva umferð og blokkera lykilgötur borgarinnar. Það hefur sannast áður af verklagi mótmælenda að þeim er varla neitt heilagt í að tjá sig og jafnan reynt að tjá sig með því að hefta frelsi annarra eða fara almennt yfir strikið. Það muna sjálfsagt allir eftir því þegar að mótmælendur fyrir austan ruddust inn í Hönnun á Reyðarfirði og klifruðu upp í byggingakrana á Alcoa-svæðinu.

Mér finnst sjálfsagt að fólk segi skoðanir sínar og geti mótmælt hafi það skoðun. En það að fara fram með svona hætti og gera hlutina án þess að leita samráðs eða samþykkis mótmæla er fyrir neðan allar hellur og rýrir bara málstað þeirra og gerir hann óábyrgan að verulegu leyti.

mbl.is Mótmælendur Saving Iceland loka Snorrabraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng viðbrögð á örlagastundu?

Það er skelfilegt að heyra um stöðuna á manninum sem brenndist í gassprengingunni austur í Fljótsdal. Það er auðvitað hið versta ef svo er að röng viðbrögð hafa leitt til þess hversu illa komið er. Læknir mun ekki hafa verið kallaður á svæðið og var viðkomandi keyrður til Norðfjarðar á sjúkrahús af vini sínum. Það hefði eflaust getað farið enn verr hefði það ekki verið gert, en staðan virðist sama líta verulega illa út. Þegar að hann var loks fluttur suður var staðan orðin mjög slæm og virðist lítið skána.

Mér finnst það eiginlega með ólíkindum að ekki sé kallað til lækni strax þegar að staðan er með þeim hætti að alvarleg brunasár eru til staðar. Mér finnst þetta eiginlega alveg rosalegt mál í heildina. Vona að það muni fara vel hjá viðkomandi, en þetta mál hlýtur að leiða til mikillar umhugsunar um viðbrögð í tilfellum af þessu tagi.

mbl.is Lífhættulega brenndur eftir gassprengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baldvin Halldórsson látinn

Baldvin Halldórsson Baldvin Halldórsson, leikari, er látinn, 84 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn ástsælasti leikari og leikstjóri þjóðarinnar á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf í áratugi og var áberandi auk leiks á sviði í útvarps- og sjónvarpsverkum og kvikmyndum á löngum leikferli sínum. Baldvin fæddist 23. mars 1923. Hann nam leiklist í upphafi í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar en síðan fór hann í framhaldsnám í sviðsleik til Royal Academy of Dramatic Art í London, rétt eins og Gunnar Eyjólfsson, sem var þar á svipuðum tíma en hóf nám sitt ári áður en Baldvin.

Baldvin helgaði Þjóðleikhúsinu ævistarf sitt á sviði og fór þar með fjöldamörg ógleymanleg hlutverk. Hann var ekki í hópi fyrstu fastráðinna leikara Þjóðleikhússins en var samofinn sögu þess þó frá fyrsta degi, enda lék hann í fyrstu sýningunum; Nýársnótt, eftir Indriða Einarsson, og Íslandsklukkunni, eftir Halldór Kiljan Laxness. Hann var fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið frá árinu 1953 og var þar nær samofið á sviði fram á tíunda áratuginn. Lék hann rétt um tvö hundruð hlutverk á glæsilegum ferli þar. Þótti hann mjög sterkur dramatískur leikari, en var jafnvígur á húmoríska undirtóna.

Nægir þar að nefna hlutverk hans í leikritum á borð við: Jón Arason biskup, Óvænt heimsókn, Sem yður þóknast, Carvallo, Tyrkja Gudda, Skugga Sveinn, Valtýr á grænni treyju, Góði dátinn Svejk, Sumar í Týról, Dagbók Önnu Frank, Kirsuberjagarðurinn, Blóðbrullaup, Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi, Edward sonur minn, Horfðu reiður um öxl, Andorra, Gísl, Mutter Courage, Lukkuriddarinn, Marat/Sade, Lukkuriddarinn, Deliríum Búbonis, Mörður Valgarðsson, Eftirlitsmaðurinn, Fást, Svartfugl, Höfuðsmaðurinn frá Köpernick, Óþelló, Kabarett, Lýsistrata, María Stúart, 7 stelpur, Brúðuheimili, Oliver Twist, Hús skáldsins, Hótel Paradís og Uppreisn á Ísafirði.

Baldvin leikstýrði mörgum stórum leikverkum á leikstjóraferli sínum og var einn af helstu leikstjórum Þjóðleikhússins í áratugi. Meðal þeirra verka sem hann leikstýrði voru: Við kertaljós, Antígóna, Ætlar konan að deyja?, Djúpið blátt, Dagbók Önnu Frank, Horfðu reiður um öxl, Í Skálholti, Beðið eftir Godot, Tvö á saltinu, Engill horfðu heim, Biedermann og brennuvargarnir, Sautjánda brúðan, Læðurnar, Hver er hræddur við Virginíu Woolf?, Járnhausinn, Síðasta segulband Krapps, Prjónastofan Sólin, Á rúmsjó, Uppstigning, Íslandsklukkan, Bangsímon, Allt í garðinum, Þjóðníðingur, Don Juan í helvíti, Mæður og synir, og Máttarstólpar þjóðfélagsins. Baldvin leikstýrði tvisvar hjá Leikfélagi Akureyrar; Vakið og syngið, á sjötta áratugnum, og Sjálfstætt fólk, um 1980.

Baldvin var ennfremur mjög ötull við að leikstýra verkum í útvarpi og leika á þeim vettvangi. Hann lék í nokkrum kvikmyndum og er sérstaklega eftirminnilegur fyrir túlkun sína á séra Jóni Prímusi í kvikmyndaútfærslu Guðnýjar Halldórsdóttur við Kristnihald undir jökli, verki föður hennar, Halldórs Kiljans Laxness, árið 1989. Hann þótti ná vel bæði dramatískum og kómískum hliðum Jóns. Hann lék skólastjórann mjög vel í kvikmyndinni Punktur, punktur, komma, strik, (sem því miður hefur fallið í einum of mikla gleymsku) við sögu Péturs Gunnarssonar árið 1981. Varðstjórinn í Börnum náttúrunnar er ógleymanlegur í túlkun Baldvins Halldórssonar. Friðrik Þór Friðriksson valdi Baldvin aftur í hlutverk varðstjóra í Englum alheimsins tæpum áratug síðar.

Hlutverk Baldvins í sjónvarpsmyndum urðu fjöldamargar. Persónulega fannst mér hann alveg magnaður í hlutverki móttökustjórans á hótelinu í sjónvarpsmyndinni Róbert Elíasson kemur heim frá útlöndum, eftir Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra, árið 1977. Húmor móttökustjórans er algjörlega magnaður og það er hrein unun að horfa á þetta leikverk. Húmorískir taktar höfundar komast vel til skila og Baldvin var hárrétti leikarinn til að ná þeim svipbrigðum alvöru og hárbeittu kómíkar sem einkenna móttökustjórann. Auk þess er hann mér eftirminnilegur í sjónvarpsmyndinni Emil og Skundi á níunda áratugnum, en þar fór hann mjög vel með hlutverk smiðsins Jósa.

Baldvin Halldórsson hlaut silfurlampann, leiklistarverðlaun veitt árlega af félagi leikdómara, fyrir túlkun sína á Schultz í Kabarett og gæslumanninnum í 7 stelpum í Þjóðleikhúsinu. Verðlaunin voru afhend eftir sýningu á Kabarett. Eins og flestum er kunnugt afþakkaði Baldvin verðlaunin, en hann var sá sextándi til að hljóta lampann (þrjár konur hlutu silfurlampann). Við svo búið voru verðlaunin lögð niður og voru eiginleg leiklistarverðlaun ekki til staðar í þrjá áratugi, eða þar til að Grímuverðlaunin komu til sögunnar.

Fólk af minni kynslóð og þeirri næstu á undan, og eflaust þeim næstu á eftir minni, minnast hans sennilega einna helst fyrir að hafa túlkað Martein skógarmús í Dýrunum í Hálsaskógi á frægri plötu með verkinu og í sýningu Þjóðleikhússins og sömuleiðis fyrir að túlka Jesper í Kardemommubænum með sama hætti. Þessar túlkanir Baldvins og allra annarra sem voru í þessum leikgerðum munu lifa með þjóðinni alla tíð.

Við leiðarlok er Baldvin Halldórsson kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og leikstjóri sem vann af krafti í íslensku leikhúsi, framkallaði oft sanna töfra í verkum sínum.

mbl.is Baldvin Halldórsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur slasast illa vegna sveppanotkunar

Amsterdam Það var frekar sláandi að heyra af því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að nítján ára strákur hefði farið illa í Amsterdam vegna ofskynjunar í kjölfar sveppaneyslu. Hann ristar- og hælbrotnaði á báðum fótum. Lýsingarnar á þessu í fréttunum voru miður fagrar. Fólk fer auðvitað í annan heim og missir allt skynbragð með neyslu sveppa og þeir geta valdið slysum af þessu tagi. Enda voru nokkur dæmi nefnd um svipuð tilfelli á síðustu mánuðum, bara í Amsterdam.

Það eru ein stærstu tíðindin í kjölfarið að erfitt er að koma stráknum heim til landsins, enda dekka tryggingar auðvitað ekki svona slysfarir að neinu leyti. Þær núllast hreinlega bara út. Það er vonandi að það gangi vel að koma honum heim, þó eflaust taki það einhverja daga. Ég skil vel að aðstandendur vilji koma stráknum heim, enda er heilbrigðisþjónusta hér mun betri en erlendis. Framundan eru væntanlega stórar og erfiðar aðgerðir og reyndar óvíst um hversu vel hann nái sér af svo slæmu broti. Það er betra að upplifa slíkt ferli hér heima en í Hollandi býst ég við.

Það er skiljanlegt að ungt fólk á ferðalagi vilji upplifa skemmtun. Það er fastur partur af góðri utanlandsferð að fá sér í glas og skemmta sér vel. Það er þó mjög mikil skammtímasæla að neyta slíkra efna. Það getur illa farið. Það sannast í þessu tilfelli.

mbl.is Stökk út um hótelglugga vegna ofskynjana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt fjölmiðlafár á eftir David Beckham

BeckhamÞað er eiginlega með ólíkindum að fylgjast með fjölmiðlafárinu á eftir David Beckham í Los Angeles, en í dag var hann kynntur formlega til leiks með LA Galaxy. Beckham upplifir þar sömu stjörnustælana og voru til staðar þau fjögur ár sem hann spilaði með Real Madrid og í stjörnuliði Manchester United í rúman áratug. Svo mikill er meira að segja fjölmiðlahasarinn að vísir.is sýndi beint frá kynningunni á Beckham í Los Angeles áðan og fetar hann þar í flokk með París Hilton sem var live hjá vefnum á sínum tíma.

Það verður aldrei af þeim skafið þeim David og Victoriu að þau eru sannkallaðir snillingar að ná fjölmiðlaathygli og beina henni rétt að sér. Þau hafa ótrúlega góð sambönd við að ná réttum blaðaviðtölum og hljóta góð ljósvakaviðtöl sem kemur þeim í kjarna allrar umfjöllunar. Þetta tókst þeim áður og ekki bregst þeim bogalistin í Bandaríkjunum. Reyndar ef frá er skilin athyglin tengd Rebeccu Loos og ég fjallaði um hér fyrr í dag. Það er þeim ekki jákvæð athygli, en Loos hangir utan í sviðsljósi þeirra eflaust þeim til mikillar skapraunar.

Beckham var hylltur eins og kóngur á rauðum dregli í Los Angeles. Það verður fróðlegt að sjá hversu lengi þessi fjölmiðlaglampi helst. Kannski hafa þau áður metið það þannig að flutningur til Bandaríkjanna væri sá fjölmiðlavænasti. Jafnan hefur manni fundist þau hjónin helst meta tækifærin í fjölmiðlamínútum, hversu lengi glampinn haldist. Það er allavega freistandi að halda það, hafandi fylgst með þeim fyrr og nú, sérstaklega á þessum heita sólskinsdegi í borg englanna.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Beckham muni standa sig í Herbalife-treyjunni á næstu leiktíð. Ætlar hann að enda ferilinn í Bandaríkjunum eða mun hann enda ferilinn heima í Bretlandi. Þetta eru stórar spurningar. Eflaust ræðst það allt af því hvernig honum gangi á næstunni.


mbl.is Beckham er kominn til Los Angeles
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Eyjan flopp eða síðbúinn sumarsmellur?

Það er að verða mánuður frá því að Eyjan opnaði með pompi og prakt, með fjölda bloggara á sínum vegum og stefndi hátt. Það hefur þrátt fyrir allt orðið mun minni sigling á þeirri vefslóð en stefnt var að. Ég heyri á ansi mörgum að þeir líti mun ekki oft á hverjum degi á vefinn og hafi ekki meiri áhuga á honum en öðrum fréttasíðum. Þangað fari fólk kannski daglega en hann hafi ekki sama aðdráttaraflið og stóru fréttavefsíðurnar hjá Morgunblaðinu og 365, sem fólk les mjög oft í gegnum daginn og fréttaflæðið er mjög mikið.

Það hefur líka verið mat margra sem ég hef talað við að slaknað hafi mjög á sumum bloggurum þar og Egill Helgason hafi svolítið gleymst, verið falinn á bakvið massann. Vefurinn hefur ekki átt mörg risastór skúbb og verið ekki sá risastóri smellur sem að var stefnt. Reyndar opnaði vefurinn í miðri sumargúrkunni og hefur lifað í gegnum hana þennan tíma. Það hefur eflaust skipt einhverju máli. Reyndar var ég mjög hissa á þeim sem störtuðu vefnum, þar sem sumir hafa mikla fjölmiðlareynslu, að opna vefinn í miðri sumargúrkunni.

Ekki virðist opnun Eyjunnar hafa haft nokkur sýnileg áhrif á Moggabloggið. Þar hættu vissulega nokkrir að blogga, en sumir skrifa jöfnum höndum á Eyjusíðu og Moggablogginu. Sumir hafa ekki algjörlega fært sig yfir. Persónulega þegar að ég tók þá ákvörðun að hætta á blogspot.com fyrir tæpu ári ákvað ég að hætta. Mér fannst það ekki freistandi að blogga á tveim stöðum. Vissulega hafði ég eitt sinn stóra vefsíðu sem pistlavettvang en ég ákvað að hætta með hana líka samhliða flutningi hingað. Hér enda hef ég nóg um að skrifa og finnst alveg nóg verk að halda úti einni bloggsíðu.

Það reynir kannski lítið í sjálfu sér á Eyjuna fyrr en í haust. Þangað til getum við velt því fyrir okkur hvort að Eyjan verði flopp eða síðbúinn sumarsmellur.

Andar liðins tíma fylgja Beckham til Bandaríkjanna

Rebecca LoosÞað kemur ekki að óvörum að Rebecca Loos reyni að glampa í sama fjölmiðlageislanum sem umlykur David og Victoriu Beckham við komuna til Bandaríkjanna. Hún hefur fylgt þeim sem vofa í þrjú ár, eftir frægt hneykslismál, þar sem hún sagðist hafa verið hjákona fótboltastjörnunnar, og mun gera það mjög lengi enn, tel ég. Hún veit sem er að þar sem áhugi verður á Beckham getur hún nýtt sér hann ennfremur.

Það er reyndar með ólíkindum hversu mikið fjölmiðlafár fylgir Beckham-hjónunum eftir til Bandaríkjanna. Þetta virðist vera engu síðri glampi athyglinnar en Beckham fékk er hann fór til Spánar fyrir fjórum árum frá Manchester United, eftir litríkan feril þar. Rebecca Loos varð heldur betur örlagavaldur þeirra á fyrri hluta Spánaráranna og litlu munaði eflaust að Beckham-hjónin skildu á árinu 2004. Því varð þó afstýrt og hafði þar eflaust mikið að segja fyrrnefndur fjölmiðlaglampinn, sem varð öllu yfirsterkari að lokum.

Það er skiljanlegt að Rebecca Loos vilji fylgja eftir glampanum. Það getur hún með réttri markaðssetningu. Það hefur hún gert enn og aftur nú. Hún kemur með rétta boðskapinn enn og aftur og hittir réttu nóturnar í sömu markaðssetningu og Beckham-hjónin ein ætluðu að fljúga á til Bandaríkjanna. Það er ekki nóg með að Beckham-hjónin fari í forsíðu- og aðaluppsláttarviðtöl við blöð og ljósvakamiðla, heldur sitja þau nærri nakin fyrir í þekktu bandarísku tímariti.

Allt átti semsagt að vera bundið þeim. Fjölmiðlaglansinn átti að vera þeirra í gegn. Þau gleymdu hinsvegar að gera ráð fyrir Rebeccu Loos. Já, það er oft erfitt að hafa anda liðinna tíma á eftir sér.

Tengdar greinar SFS
Sannar tilfinningar hinna þekktu í glamúrheimi


mbl.is Loos segir Beckhamhjónin standa í þakkarskuld við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygilega góð hitabylgja

Hitabylgja? Það hefur verið alveg yndislegt veður víðsvegar um landið síðustu dagana. Sönn og góð hitabylgja t.d. í gær, notalegt hérna á Akureyri allavega. Það er samt lygilega hressandi að heyra af því að 68 stiga hiti hafi verið í Reykjavík. Það hlýtur að vera vænlegt hitamet. En það er ekki allt sem sýnist. Mælirinn ruglaðist eitthvað, enda hefðu flestir kvartað frekar en notið hefði sú orðið raunin.

Þetta sumar hefur verið ótrúlega gott í heildina. Ég man ekki eftir svona þurru sumri í áraraðir. Þetta er að stefna í sögulegt sumar hvað það varðar. Rigningardagarnir hér á Akureyri síðustu vikurnar eru allavega léttilega teljandi. Það var mörgum kærkomið þegar að fór að rigna um daginn, enda gras hreinlega farið að gulna og flestir búnir að vökva lóðina sína mjög vel.

Það verður spennandi hvernig veðrið næstu dagana. Þó að öll vonumst við eftir góðu vetri er ekki kræsilegt að við endum í 68 stiga hita eins og mælist við Kringluna.

mbl.is Lygamælir slær met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannar tilfinningar hinna þekktu í glamúrheimi

Victoria og David Beckham Ég verð að viðurkenna að ég hef stundum horft á glamúrinn í kringum Victoriu og David Beckham með svolitlum undrunarsvip. Þau hafa stundum farið yfir strikið í glamúrnum. En vissulega hafa þau bæði öðlast mikla frægð. Victoria var þekkt tónlistarkona og David hefur verið einn af mest áberandi knattspyrnumönnum heims. Þessari frægð fylgir athygli almennings. Það er misjafnt hvernig fólk úr henni og eða höndlar hana hreinlega. Það er ekki öllum gefið.

Það er oft efast um hvort að mestu glamúr-stjörnur heimsins hafi tilfinningar, hvort að þeim geti sárnað og fundið til eins og okkur meðaljónum þessa heims. Það efast margir um það að eitthvað misjafnt eða hversdagslegt gerist í lífi þessa fólks sem gengur á rauðum rósum á yfirborði frægðarinnar. En ég held, og hef alltaf haldið satt best að segja, að það fylgi ógæfa of mikilli frægð. Það hlýtur að vera ömurlegt að vera með ljósmyndara og blaðasnápa á eftir sér dag eftir dag. Það hlýtur að verða leiðigjarnt að eiga sér varla einkalíf og sömu hversdagslegu tækifærin sem ég og þú viljum eiga fyrir okkur.

Sumir njóta þessa glamúrs vissulega og nota hann sér í hag með mjög áberandi hætti. David og Victoria hafa aldrei hikað sér við að nota athyglina, að mörgu leyti með jákvæðum hætti, sumu leyti með sérkennilegum hætti. Ég sá fyrir nokkrum árum þátt með þeim sem sýndi líf þeirra, myndavélin fangaði heimilislíf þeirra og samskipti. Mér fannst það afskaplega uppstrílað líf, satt best að segja, og fannst svolítið spes að fólk virkilega lifði daginn sinn með svo strembnum hætti, allt að því upphækkuðum fjölmiðlahætti. En kannski er þetta tilveran sem þetta fólk vill velja sér og hefur gert að sinni. Vel má vera svosem, en varla er það freistandi líf.

Eflaust mun athyglin á þeim varla minnka, nú þegar að þau flytja til Bandaríkjanna og verða hluti af glamúrnum í Los Angeles. Það ætti að henta þeim vel að mörgu leyti. Það er deilt um það hvort að David Beckham sé búinn að vera sem knattspyrnumaður, hafi kannski verið slappur árum saman. Það verður fróðlegt að sjá hann fóta sig.

Það sem mér fannst þó merkilegast við þessa frétt er að sjá einlæga sönnun þess að fólkið í þessum heimi hafi tilfinningar. Það er greinilegt af orðum Victoriu Beckham í þessari frétt. En kannski er þetta bara ein leiðin til haldast enn í sviðsljósinu, hver veit.

mbl.is Victoria segir frá ástarsorg sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband