Færsluflokkur: Dægurmál

Mikil mildi að ekki fór illa á Sæbraut

Slysið á Sæbraut Það var svo sannarlega mikil mildi að ekki fór illa á Sæbraut í morgun þegar að steypubifreið valt. Þetta slys er áminning þess að mjög illa getur farið þegar að keyrt er með mikið lestaða bíla um göturnar og snöggar beygjur og aðreinar geta orðið vettvangur vondra umferðarslysa af þessu tagi. Það má allavega teljast ótrúleg gæfa að ekki varð stórslys við þessar aðstæður.

Það vekur mikla athygli að nú þegar að árið er næstum hálfnað hafa aðeins tveir látið lífið í umferðinni. Á þessum tímapunkti fyrir ári höfðu sjö eða átta látist. Júlí varð reyndar mjög vondur mánuður í umferðinni á síðasta ári. Svo er jafnan og því erfitt um að segja hvort að við sleppum algjörlega við stórslys í sumar, en vonandi mun svo fara auðvitað.

mbl.is Umferðarslys á Sæbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg og tölvulaus blíðviðrishelgi

Aldeyjarfoss Það var alveg yndislegt veðrið í Aðaldalnum um helgina. Það var mjög notalegt að fara í bústaðinn og skilja tölvuna eftir og hugsa um eitthvað allt annað í rólegheitunum. Vilji maður virkilega fara í frí er það ekki fullkomnað nema skilja tölvu eftir og helst hafa sem mest slökkt á símanum. Sé það gert á maður sannkölluð notalegheit í vændum og hið besta upplifelsi, án truflunar. Það er ekki frí að mínu mati þar sem tölvan er á eftir manni.

Á laugardeginum var farið í Bárðardalinn og haldið upp á hálendið. Það var áð við Aldeyjarfoss. Þangað hafði ég aldrei farið áður merkilegt nokk, þrátt fyrir að hafa margoft farið í Bárðardalinn. Þessi viðbótargönguferð frá vegslóðanum var vel þess virði. Aldeyjarfoss hafði ég oft séð á ljósmyndum og sjónvarpsmyndum en það jafnast ekkert á við að sjá hann í návígi og virða hann fyrir sér. Gönguferðin að fossinum er ekkert svo rosalega löng en mjög hressandi og notaleg. Það var yndisleg gola þegar að ég var þar staddur og kyrrðin var engu lík.

Þess fyrir utan var unnið í allskonar lagfæringum við bústaðinn. Það stefnir í að stækka pallinn þar síðar í sumar, koma fyrir heitum potti væntanlega og fleiri verkefni blasa við. Það verður hressandi og gott. Á kvöldin var spilað og spjallað. Það er reyndar sjónvarp í bústaðnum og rafmagn, svo að hægt var að fylgjast með fréttum svosem og horfa á svona eins og eina til tvær bíómyndir. Í morgun var ansi notalegt að vakna snemma og hella sér upp á kaffi og lesa ritið Þjóðmál. Hafði ekki haft tíma til að lesa það áður og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Það er mjög vandað rit og skemmtilegt til lestrar. Mæli með því, eins og ávallt áður.

Horfði svo á útsendinguna frá hátíðarhöldunum á Austurvelli í morgun. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti, sem fyrr, góða og vandaða ræðu. Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, var líka með mjög innihaldsríka ræðu og sérstaklega er ég sammála áherslum hans þar varðandi mikilvægi þess að veita nýjum Íslendingum góðan stuðning í skólakerfi landsins. Það að kenna nýbúum íslensku er grunnatriði alls í þeirra aðlögun að okkar landi og er þeim sjálfur mikilvægur grunnur. Sólveig Arnarsdóttir stóð sig vel sem fjallkonan og á ekki langt að sækja vandaðan lestrarframburð, enda er faðir hennar Arnar Jónsson snillingur á því sviði.

Það var svolítið sérstakt að heyra fréttir af stöðunni á Akureyri. Það voru ekki gleðilegar fréttir og vekja okkur öll til umhugsunar. En helgin var annars góð og notaleg, það var virkilega notalegt að slappa af. Veðrið var yndislegur punktur yfir i-ið.

Vond helgi á Akureyri - aðgerða er þörf!

AkureyriÉg var að koma heim til Akureyrar eftir rólega helgi í bústað í Aðaldalnum. Það hefur verið undarlegt að fylgjast með fréttum að heiman um helgina. Þar er birt vond ásýnd á bæinn okkar góða. Það sem þar stendur upp úr er frásögn af fylleríi og slagsmálum. Það er mjög leiðinlegt þegar að fámennur hópur setur ljótan blett á heildina æ ofan í æ á hátíðarhöldum í góðu veðri. Það er þó reyndin og úr því verður að vinna. Það er alveg ljóst. Þessi vandi verður ekki umflúinn lengur.

Þetta er þó ekki nýr vandi. Fregnirnar hafa enda hljómað rétt eins og verið hefur á bæjarhátíðinni Einni með öllu um verslunarmannahelgar undanfarin ár. Það er ekki góður stimpill, það er alveg ljóst. Nú þegar að þessi helgi er liðin stöndum við frammi fyrir nokkuð áleitnum spurningum - við verðum að spyrja okkur hvað sé að gerast í raun og veru? Höfum við eitthvað sofnað á verðinum? Höfum við fengið á okkur sukkstimpilinn sem fylgdi Halló Akureyri forðum daga? Erum við að sigla í sömu átt og við reyndum að forðast áður?

Mér finnst fregnir af þessu sukki afleitar en mun meira svíður mér þó allt ofbeldið. Ofbeldið í samfélaginu er alltaf að aukast og við sjáum einhvern anga þeirrar skelfingar á þessari hátíð um helgina. Sérstaklega fór mjög í mig að heyra af því að starfsmenn tjaldsvæðisins á Hömrum hafi verið barðir. Þetta er algjörlega ólíðandi. Það að verði að hafa vakt lögreglumanna við tjaldsvæðin er napur veruleiki og leiðir til þess að setja verður hlutina í nýtt samhengi og leysa úr þeim flækjum sem því fylgir.

Það er alveg ljóst að fylleríið og ofbeldið í bænum náði vondum hápunkti þessa helgina. Það verður að hugsa vel um þau mál öll. Ég vil að Akureyri standi undir nafni sem fjölskyldubær en fái ekki á sig stimpil óreglu og sukks - en alltof mikið var af slíku hér um helgina og því miður það eina sem var fréttnæmt héðan. Þetta gengur ekki lengur!

mbl.is Kallaðir út úr fæðingar- og sumarorlofi til að sinna löggæslu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega þjóðhátíð!

ÍslandÉg óska lesendum gleðilegrar þjóðhátíðar. 17. júní er ávallt gleðidagur í huga okkar allra og hann er mesti hátíðisdagurinn í sögu landsins. Það eiga allir góðar minningar tengdar deginum, þó æði oft hafi regn sett mark sitt á hann, eftirminnilegast var það þó fyrir 63 árum er lýðveldi var stofnað á Þingvöllum.

Fallegasta ættjarðarljóðið að mínu mati er Hver á sér fegra föðurland eftir skáldkonuna Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind.

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.


Sumarsæla um helgina

Ég er að fara austur í Aðaldal í bústaðinn okkar í fjölskyldunni. Þar verður gott veður vonandi og skemmtilegt að vera. Þar þarf að dytta að eins og venjulega hvert sumar, nóg af framkvæmdum þar framundan. Svo verður auðvitað reynt að skemmta sér líka. Það er spáð fínni blíðu, þannig að vonandi verður þetta góð og notaleg helgi. Það er skollin á gúrka í pólitíkinni sýnist mér og sennilega munu flestir skella sér eitthvað um helgina til að hlaða batteríin. Það er bæði notalegt og gott.


Leitin að Madeleine McCann heldur áfram

Madeleine McCann og foreldrar hennar Ekki minnkar dulúðin yfir máli Madeleine McCann eftir 43 daga leit. Enn er sama óvissan og sömu spurningamerkin sem vofir yfir. Leitin í Portúgal skilaði engum árangri. Það er reyndar með ólíkindum að fyrst væri fjallað um leitarstaðinn í blöðum en þeim upplýsingum en ekki fyrst komið til lögreglu. Það er eðlilegt að McCann-hjónin gagnrýni það.

Þetta hlýtur að vera hrein skelfing fyrir foreldrana. Samviskubit þeirra yfir stöðunni hlýtur að vera gríðarlega mikið og varla minnkar það með degi hverjum. Þetta er að mörgu leyti athyglisvert mál. Það er mikilvægt að á það fáist einhver endir. Það verður skelfilegt fari það svo að Madeleine finnist aldrei og aldrei verði ljóst hvað gerðist fyrir 43 dögum.

Fjölmiðlar fjalla enn um málið með sama hætti og var fyrstu vikuna. Auðvitað vilja þeir fylgja eftir því sem gerðist og reyna að fá svör. Það vilja allir sem fylgjast með. Eftir því sem hver dagur líður aukast þó líkurnar á því að Madeleine sé látin. Vonin minnkar sífellt. Það er hin napra staðreynd allra mála af þessu tagi, líka þessu auðvitað.

mbl.is Portúgalska lögreglan lokar af svæði þar sem Madeleine er leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Madeleine McCann látin?

Madeleine McCann Hálfur annar mánuður, 42 dagar, eru liðnir frá því að Madeleine McCann hvarf sporlaust í bænum Praia de Luz á Algarve í Portúgal. Mikil dulúð hefur umlukið málið og foreldrarnir hafa leitt leitina að henni með áberandi hætti, t.d. með heimsókn til Benedikts XVI páfa. Nú berast böndin að ábendingum um að lík hennar sé grafið skammt frá staðnum þar sem hún hvarf.

Madeleine var numin á brott af hótelherbergi en foreldrar hennar höfðu skilið hana þar eftir á meðan þau fóru og fengu sér kvöldverð. Málið allt er hið undarlegasta og hefur það verið miðpunktur fjölmiðlaathygli af skiljanlegum ástæðum allt frá fyrsta degi. Ljóst er að portúgalska lögreglan vann málið allt of hægt í upphafi og klúðraði væntanlega rannsókninni á upphafsstigi. Sérstaklega var merkilegt að ekki var kannað betur er bútur úr barnsflík fannst í upphafi málsins skammt frá hótelinu.

McCann-hjónin hljóta að hafa upplifað hreint helvíti allt frá deginum sem dóttir þeirra hvarf. Þau munu eflaust alla tíð naga sig af samviskubiti sé það svo að Madeleine sé látin og ábendingarnar sem eru í fréttum nú séu réttar. Það sem hefur vakið mesta athygli mína er að þessi ábending og bréfið sem um er rætt er sláandi líkt því sem barst í belgísku morðmáli í fyrra þar sem bent var á staðinn þar sem lík tveggja stúlkna fundust.

Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næstu dagana. Þetta mál hefur verið í miðpunkti breskra fjölmiðla og víða um heim undanfarna daga. Það verður fylgst með því sem gerist í nágrenni Praia de Luz næstu dagana.

mbl.is Nýjar vísbendingar um hvar Madeleine er að finna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vond aðkoma að sumarbústöðum

Það er mjög merkilegt að lesa þessa lýsingu á aðkomunni að bústaðnum hjá VR, þar sem æla, smokkar og matarleifar blöstu við gestum. Ekki beint aðlaðandi. Það er nú alveg með ólíkindum að fólk gangi ekki betur um og hugsi um þau híbýli sem þeim er treyst fyrir með sama hætti og eigin heimili. Nema þá að fólk gangi svona um eigið heimili, sem ég reyndar efast stórlega um í raun. Allt fólk með sómatilfinningu hlýtur að vilja ganga vel um sínar vistarverur og það er ömurlegur þessi hugsunarháttur að fyrst að maður eigi ekki bústaðinn sjálfur sé allt í lagi að yfirgefa hann jafnvel algjörlega í ruslastandi.

Einu sinni tók ég bústað hjá verkalýðsfélagi og kom að honum svona frekar subbalegum, þó engan veginn í eins döpru ástandi og lýst er í þessari frétt. Þetta er frekar ömurlegt, enda á maður von á að fá hreinan og góðan bústað í hendurnar og vonast til að fólk sé jafnþrifið og maður sjálfur þegar að kemur að því taka við svona bústað. En þetta er auðvitað misjafnt. En það er greinilega að það er að aukast að fólk gangi svona og svona um bústaðina. Þetta er ekki góð þróun.

mbl.is Æla, notaðir smokkar og rotnandi matarleifar tóku á móti gestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má nauðga 14 ára stelpu?

Það vakti mikla athygli fyrir viku þegar að fjórir unglingspiltar voru sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru um hóp­nauðgun á fjórtán ára stelpu. Þeir viðurkenndu að hafa haft mök við stelpuna en sögðu hana hafa viljað það. Þeir voru sýknaðir á grundvelli ónógra sannana, eins og fram kom í dómsorði. Fréttir af þessu vöktu athygli mína. Þetta eru nokkuð sláandi fréttir og umhugsunarverðar. Það að sýknað sé í máli á borð við þetta vekur fleiri spurningar en dómsorðið svarar þykir mér.

Þetta er reyndar ekki eina málið þessarar tegundar á síðustu vikum. Annað mál til hið minnsta sem er áþekkt þessu sem fyrr er nefnt hefur átt sér stað og hefur endað með sama hætti. Sýknað er vegna ónógra sannana þó að fyrir liggi verknaður af þessu tagi. Í báðum málum er um að ræða unga menn sem gefa engar ástæður að baki nema þá sem fyrr er nefnd, þ.e.a.s. að samræði hafi átt sér stað með vitund og vilja beggja aðila, þó vitað sé að stelpan sé varla með rænu vegna áfengisástands.

Þetta er í sjálfu sér mjög alvarlegt mál. Það er umhugsunarefni að fylgjast með hliðum þess og að sýknað sé í svona tilfellum. Mér finnst það alvarlegt að það sé haldið fram í dómskerfinu að þessar stelpur hafi viljað þetta og því eigi við svo búið að vera, málinu lokið þar með. Þetta er allavega mál sem vert er að velta fyrir sér, með tilliti til þessara dóma.

Eygló Harðardóttir, varaþingmaður, hefur ritað grein um þessi mál á vef sinn. Það eru góð skrif og ég bendi fólki eindregið á að lesa þau. Er mjög sammála skrifum hennar.

Falleg sýn af Íslandi utan úr geimnum

Ísland í allri sinni dýrð Öll vitum við hvað Ísland er fallegt. Það jafnast ekkert við að fara um landið á fögru sumri, svona sumri eins og þetta stefnir í að verða. Það er þó alltaf fallegt að skoða gervitunglamyndir af landinu að sumri, þar sem vel sést yfir. Myndin sem tekin var í dag og hér er kynnt er einstaklega falleg.

Man annars alltaf vel eftir því hér í denn tid þegar að veðurfréttamenn hjá Sjónvarpinu sýndu svarthvítar gervitunglamyndir. Þetta var á þeim tímum þegar að veðurkortin voru sýnd á hreyfiskjá, sem var ekkert annað en standur þar sem kortin voru límd á og var svo snúið. Þetta voru myndir sem voru nær svartar í gegn og mótaði fyrir útlínum.

Þetta er skemmtilegt í minningunni, rétt eins og gamla formið á veðurfréttunum. Þetta var á þeim tíma þegar að veðurfréttirnar snerust aðeins um veðrið og löngu áður en veðurfréttirnar urðu jafn mikið show og nú er. Ætli að Siggi stormur og Trausti Jónsson séu ekki bestu andstæðurnar í bransa þess sem var í den tid og þess sem gerist nú í showinu.

Annars var þetta yndislegur dagur. Sól og blíða hér á Akureyri. Þetta var einmitt dagur til að fá sér Brynjuís - sem er annars langbesti ís sem hægt er að fá sér, sérstaklega á svona funheitum og björtum unaðsdegi.

mbl.is Ísland séð utan úr geimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband