Færsluflokkur: Dægurmál

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað um helgina

Tjaldsvæðið við ÞórunnarstrætiSú ákvörðun hefur verið tekin þriðja árið í röð að hafa tjaldsvæðið við Þórunnarstræti, götunni sem ég bý við, lokað um þjóðhátíðarhelgina, dagana 14 -17. júní nk. Þetta er gleðileg ákvörðun. Verklagi við þetta tjaldsvæði var gjörbreytt fyrir nokkrum árum. Þar gerðist í kjölfar ástandsins þar í árafjöld, einkum um verslunarmannahelgar, sem margoft hefur verið í fréttum. Í ágúst 2004 var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór þá yfir öll mörk.

Draslið og sóðaskapurinn þá var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Við hér við Þórunnarstrætið og bæjarbúar almennt vorum búin að fá alveg nóg. Nú hefur verið tilkynnt að tjaldstæðið verði eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Svo hefur ennfremur verið frá árinu 2005. Samhliða þessu hefur gæsla verið stórefld og aðgengi breytt. Jafnframt hefur eftirlitið aukist til muna með tilkomu girðingu í kringum svæðið.

Ég hef annars alla tíð verið þeirrar skoðunar að tjaldsvæði á þessum stað sé barn síns tíma. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að það leggist af, enda ekki fólki bjóðandi í miðri íbúðabyggð að mínu mati. Það hefur þó verið gert ástandið á þessu svæði fólki hér meira boðlegt þrátt fyrir allt. Því fagna ég þessari ákvörðun þriðja árið í röð.

Það var ólíðandi að meginfrétt verslunarmannahelgarinnar æ ofan í æ hafi verið óregla og sukk á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar grasseraði ár eftir ár. Með þessu öllu hefur verið tekið fyrir það, en betur má ef duga skal. Ég tel að það eigi að huga að því að loka þessu tjaldsvæði innan nokkurra ára.

mbl.is Akureyri: Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti lokað dagana 14 -17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Ástu Lovísu

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir var jarðsungin í dag. Ásta Lovísa öðlaðist sess í huga okkar því að hún gerði baráttu sína opinbera í netskrifum sem halda nafni hennar lengi á lofti, hún hikaði ekki við að deila hugsunum sínum; allt í senn vonbrigðum, vonum, væntingum, eldmóð, bakslögum og baráttuþreki með okkur. Við urðum að áhorfendum að baráttu hennar.

Það er ekki auðvelt að lifa svona baráttu svo opinbert og halda reisn sinni og glæsileik allt til enda. Það tókst Ástu Lovísu. Öll vonuðum við að hún næði að sigrast á meininu og þrátt fyrir bakslögin undanfarnar vikur sem fram komu á blogginu var andlátsfregn hennar fyrir rúmlega tíu dögum sláandi og var mikið áfall. Slíkur varð krafturinn á bakvið baráttu hennar að hún virkaði aldrei vonlaus, þó erfið væri. Hún barðist enda allt til hinstu stundar.

Ég tel að við öll sem höfum bloggað í dagsins önn minnumst Ástu Lovísu sem eins af þeim fremstu í okkar bloggveröld. Hún þorði að skrifa frá hjartanu og opna hug sinn og hjarta þó á raunastundum væri. Hún talaði með bjartsýni að leiðarljósi hvort sem um sigra eða ósigra á vegferðinni var að ræða. Hún kenndi okkur öllum að lífið getur oft verið ein barátta út í gegn, en það skipti máli að berjast brosandi og vonast ávallt eftir bjartari tíð.

Ég votta fjölskyldu hennar samúð mína og vona að Guð styrki þau í þeirra miklu sorg.

Kajakræðarar finnast við Sjöundá

Það er gleðiefni að kajakfólkið fannst heilt á húfi. Uggur hafði verið í fólki yfir örlögum þeirra og hafði staðið yfir löng og erfið leit, sem framan af skilaði engum árangri. Það er eflaust metið kaldhæðnislegt að fólkið hafi fundist við Sjöundá á Rauðasandi á Barðaströnd. Það er eins og flestir vita mjög sögulega merkilegur staður, vegna þess sem þar gerðist fyrr á öldum.

En mestu skiptir að fólkið sé heilt á húfi. Það skiptir ekkert annað máli í raun við þessar aðstæður.

mbl.is Kajakræðarar fundnir heilir á húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verslar Jónína Ben í Bónus?

Jónína Ben Sumt verður frekar að fréttum en annað í gúrkutíð að sumri. Í gær sá ég á netinu umfjöllun eða öllu heldur orðróm um að Jónína Benediktsdóttir hefði sést í Bónusverslun að versla sér til matar. Kannski er ég ekki að sjá pointið í þessu, en mér finnst ekki óeðlilegt að Jónína versli í Bónus, þó að hún kannski gagnrýni eigendur matvælakeðjunnar.

Það má kannski vera að fólki finnist það skondið en ekki finnst mér það þó nein frétt. Það er þó eflaust stigsmunur á því í hugum einhverra ef marka má umræðuna.

Súrsætt fjölmiðladrama í Hollywood

Paris Hilton Það er ekki beint að sjá að hið súrsæta fjölmiðladrama um Paris Hilton sé að fara að linna. Það var kostulegt að sjá vísir.is sýna beint frá öllu dramanu þegar að hún var sótt í dómhúsið. Ég verð að viðurkenna að þá fannst mér þetta fara algjörlega út í móa. Leit þó aðeins á þetta í eina örskotsstund og sá bara lögreglubíl á fullri ferð keyrandi um eitthvað breiðstrætið og einhvern óskiljanlegan þul að kyrja í bakgrunni.

Það er kostulegt að fylgjast með of-umfjölluninni um þetta mál. Þetta að sýna þennan farsa í beinni var svona aðeins over the top. Það er reyndar stundum svolítið spes að fylgjast með umræðunni um líf stjarnanna í glysheimum. Áhugi pressunnar á lífi þeirra virðist æði oft ótakmarkaður. Gott dæmi um fórnarlömb glamúrsins sem verða margtuggnar er Paris Hilton einmitt, aðrir nefna eflaust þær Britney Spears og Anna Nicole Smith. Sú síðarnefnda dó í kastljósi fjölmiðlanna og fylgst var með örlögum líkamsleifa hennar meira að segja í fjölmiðlum.

Ég ætla að vona að við fáum öll hinn vænsta frið af Paris meðan að hún afplánar dóminn sinn, segi ekki annað. Efast þó stórlega um að sú verði raunin.

mbl.is Hilton send aftur í fangelsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hasar í Hnífsdal - mikilvægi sérsveitarinnar

Hasar í Hnífsdal

Það er napurt að heyra af því að sérsveit lögreglunnar hafi þurft að yfirbuga byssumann sem skaut að konu sinni í Hnífsdal. Þetta er sláandi hasar fyrir lítið byggðarlag. Þarna sannaðist þó vel mikilvægi sérsveitarinnar. Lögreglan brást vel og skipulega við þessari ógn að mínu mati - sérsveitin hefur þjálfun og getu til að bregðast við svona slæmu ástandi.

Þetta atvik minnir mjög vel á það, hversu brýnt er að lögreglan sé undir það búin að takast á við hættuleg verkefni, í takt við þetta. Fyrir nokkrum árum þótti ekki öllum sem sitja á Alþingi mikilvægt að breyta skipulagi á yfirstjórn sérsveitar lögreglunnar til að sveitin væri ávallt til taks og sveigjanlegri en áður hefði verið. Því síður virtist skilningur á því hjá fjölda fólks þá að nauðsynlegt væri að efla sérsveitina og fjölga í henni.

Þessi staða sýnir vel hversu rétta stefnu sérsveitin hefur tekið og að hún sé vel búin fyrir ástand sem getur komið úr óvæntustu átt, rétt eins og þetta heimilisofbeldi vestur á fjörðum.


mbl.is Byssumaður yfirbugaður í Hnífsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðisdagur í Fjarðabyggð - álverið opnar

Álver AlcoaÞað er mikil hátíð á Austurlandi í dag, þegar hið nýja álver Alcoa verður formlega opnað. Baráttan fyrir því að tryggja þessar framkvæmdir á Austurlandi hefur verið í senn löng og tekið á. Í mörg ár biðu Austfirðingar eftir því að þessi framkvæmd yrði að veruleika og það hefur sannast að Austfirðingar hafa stutt framkvæmdina með mjög áberandi hætti.

Átökin um framkvæmdirnar fyrir austan hafa þó mun frekar snúist að byggingu Kárahnjúkavirkjunar en því að reisa álverið sjálft í Reyðarfirði. Virkjunin var þó algjör forsenda þess að álver yrði að veruleika. Ég held að allir sem fari til Fjarðabyggðar og hafi kynnt sér aðstæður þar hafi sannfærst um það að þar hefur uppbyggingin, sem er á öllum sviðum og blasir við öllum sem líta yfir svæðið, verið markviss og hún hefur byggt svæðið upp sem lykilkjarna á Austfjörðum. Það leikur enginn vafi á því.

Ég held að allir sem fari í gegnum Reyðarfjörð á ferð sinni hafi séð hversu mjög framkvæmdir við byggingu þessa álvers og aðra þætti sem þeirri uppbyggingu hafi fylgt hafi gjörbreytt Austurlandi, og það til góðs. Áður var Reyðarfjörður hnignandi staður sem var vonum snauður, átti fá almenn tækifæri á vegferðinni og virtist að fjara út mjög markvisst. Síðan að ákvarðanir voru teknar um þessa uppbyggingu hefur Reyðarfjörður risið úr öskustónni. Þar hefur risið alþjóðlegur stórbær þar sem öll tækifæri eru til staðar. Það mun ekki líða á löngu þar til að Reyðarfjörður verður lykilstaður á Austfjörðum, ef hann er ekki hreinlega þegar orðinn það. Uppbygging þar á innan við fjórum árum er gríðarleg og fer ekki framhjá neinum sem þangað kemur.

Þessari uppbyggingu hafa fylgt markviss tækifæri. Þau hafa verið nýtt vel. Það var sérstaklega ánægjulegt að fara austur á síðustu dögum og kynna sér stöðuna. Ég er ættaður úr Fjarðabyggð að stórum hluta og hef unnað þeirri byggð allt mitt líf. Allt frá sumrinu 2004 hefur verið einstaklega gaman að leggja þangað leið sína og sjá markvissa uppbyggingu stig af stigi. Sérstaklega gleymist mér ekki ferðin þangað í janúar 2005, en þá var álverið sjálft tekið að rísa. Það var ógleymanleg sjón og þá fyrst varð umfang framkvæmdanna og upprisa Reyðarfjarðar sem lykilstaðar á Austfjörðum endanlega ljós í augsýn manns. Það var gleðistund.

Það er leitt að geta ekki verið fyrir austan á þessum gleðidegi. En ég vil senda góðar kveðjur til fólksins þar, fyrst og fremst óska þeim til hamingju með að hafa náð sínum markmiðum. Það er mikið gleðiefni, sem við öll sem unnum austfirskum byggðum hugsum stolt til að hafa tryggt með einum hætti eða öðrum. Sigur fólksins þar og krafturinn sem hefur einkennt þann mikla sigur á langri vegferð mun lengi verða í minnum hafður.


mbl.is Álverið á Reyðarfirði opnað í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var S&H-viðtalið við konu Kalla Bjarna skáldað?

Það hefur mikið verið rætt og ritað um fíkniefnasmygl söngvarans Kalla Bjarna. Viðtal Séð og heyrt við sambýliskonu hans hefur vakið mikla athygli eftir að hún fullyrti að blaðið hefði skáldað það upp. Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrir stundu svaraði Eiríkur Jónsson þeim ásökunum. Þar vakti athygli er hann sagði að viðtalið hefði farið fram og að því hefðu verið fjögur vitni. Það hefði þó ekki verið hljóðritað og vitnin hefðu aðeins séð að hann hringdi og spurði spurninga.

Þetta mál er allt hið undarlegasta. Þetta er ansi líkt málinu fyrir tveim árum er Eiríkur fjallaði um Bubba Morthens og einkalíf hans í áberandi forsíðuumfjöllun blaðsins Hér og nú, sem þótti hafi á sér frekar harkalegan blæ. Hörð umræða varð um vinnubrögð hans í viðtölum og málið endaði fyrir dómstólum. Að lokum fór það svo að blaðið tapaði málinu og fræg ummæli um að Bubbi væri fallinn voru dæmd dauð og ómerk en með fylgdu myndir af Bubba að reykja.

Vinnubrögð Eiríks Jónssonar hafa verið mjög umdeild vissulega lengur en það og er þetta mál með viðtalið í Séð og heyrt enn eitt merki þess. Ekki virðist þessi umfjöllun vera mjög til þess fallin að efla orðspor þessa umdeilda blaðamanns. Þetta virðist eitt annað málið sem dregur orðspor hans niður eða efasemdir vakna um það.

Hvað varðar þetta mál með Kalla Bjarna er það allt hið sorglegasta og leitt að sjá hversu harkalegt fall þar hefur átt sér stað. Eðlilega verður umfjöllun um það mál í ljósi frægðar söngvarans. Verst er þó ef deilt er um vinnubrögð fjölmiðla, eins og svo greinilega er gert í tilfelli Séð og heyrt nú.


Stjórnarformaður Íslands?

Jón Ásgeir Jóhannesson Það er ekki ósennilegt að Jón Ásgeir Jóhannesson muni hreppa titilinn stjórnarformaður Íslands eftir daginn í dag. Hann varð í dag stjórnarformaður í FL Group og tekur við formennskunni nú ennfremur í Baugi eftir að hafa látið af forstjórastöðunni. Þessi fræga nafngift varð til þegar að Halldór H. Jónsson var stjórnarformaður Eimskips og svo margra fyrirtækja að flestir misstu tölu á því.

Síðan hafa fjöldi manna verið með titilinn. Eftir að hin gamalkunna viðskiptablokk kennd við Kolkrabbann hvarf af sjónarsviðinu í því formi sem hún var þekktust fyrir hafa aðrir fyllt í skörðin og víst er að ekki eru eignir á fleiri höndum nú en var á þeim tíma, jafnvel enn færri aðila, ef eitthvað er. Staðan á markaðnum er ansi áberandi. Krosstengsl nokkurra aðila á víðum vettvangi er allavega ekki minna áberandi nú en fyrir einum áratug eða tveim.

Þrátt fyrir að margir hafi búist við uppstokkun innan Baugs með einum hætti eða öðrum koma tíðindi dagsins samt að óvörum á nákvæmlega þessum tímapunkti. Jón Ásgeir er að færa sig til með áberandi hætti en heldur control á sínu veldi með áberandi hætti með því að verða starfandi stjórnarformaður Baugs. Tilfærslan í FL Group vekur athygli á nákvæmlega sama degi.

En eitt er víst að titillinn stjórnarformaður Íslands er enn við lýði, þó viðskiptaheimurinn hérlendis hafi tekið margar sveiflur frá því að titillinn varð fyrst til.

mbl.is Jón Ásgeir hættir sem forstjóri Baugs Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir hættur sem forstjóri Baugs

Jón Ásgeir Jón Ásgeir Jóhannesson er hættur störfum sem forstjóri Baugs. Hann tekur þess í stað við stjórnarformennsku í fyrirtækinu af Hreini Loftssyni, sem tekur við ráðgjafastörfum þar í staðinn og verður nú aðeins óbreyttur í stjórn. Honum er því hliðrað til fyrir Jón Ásgeir í skipulagsbreytingum. Gunnar Sigurðsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, verður nú forstjóri Baugs.

Það er merkilegt að fylgjast með þessari uppstokkun hjá Baugi. Hún kemur áður en frægu dómsmáli kenndu við Baug lýkur formlega og áður en úrslit mála eru því endanlega ljós. Mesti hasarinn í því máli er fjarri því búinn, eftir úrskurð Hæstaréttar fyrir nokkrum dögum þar sem hluta málsins er aftur vísað heim í hérað.

Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðu mála hjá Baugi á næstunni. Það er merkilegt að Jón Ásgeir færi sig til og athyglisvert að sjá hann taka sæti Hreins Loftssonar sem stjórnarformanns eftir allt sem á undan er gengið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband