Færsluflokkur: Dægurmál
8.6.2007 | 00:46
Paris losnar úr hinu mjúka svartholi

Paris Hilton er sennilega frægust af þeim uppagellum sem hafa flaskað á frægðinni og runnið til á göngunni á rauðu rósum glamúrlífsins. Það voru tíðindi þegar að hún rann til á svellinu og fékk dóminn um að afplána refsingu sína. Hún valdi á milli einhverra fangelsa, en ekki var nú fallið meira en svo að hún var höfð á sérdeild sem hæfir fólki sem hefur ekki séð það verra en að dælda örlítið bílinn sinn, eða jafnvel geta ekki keypt sér flottustu flíkina í tískubúðinni.
Það er ekkert gefið upp af hverju hún fái að fara heim og afplána restina með rafmagnsbandið á sér. Það mun þó varla líða á löngu þar til eitthvað slúðurblaðið hefur greint frá því. Það var tekið sérstaklega fram að hún gæti ekkert partýast á næstunni vegna þess að hún væri undir eftirliti. Þetta eiga greinilega eftir að verða erfiðir tímar fyrir glamúrgelluna á næstunni.
![]() |
París Hilton laus úr prísundinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2007 | 23:20
Yndislegt sumarfrí á Austfjörðum
Það hefur verið virkilega notalegt síðustu dagana að dvelja austur á fjörðum. Veðrið hefur verið eins best og hægt verður á kosið, fyrir utan laugardaginn reyndar. En þessir dagar voru nýttir vel og farið um öll svæði, hitt vini og kunningja og notið rólegra daga. Sérstaklega fannst mér gaman að kúpla mig algjörlega frá tölvunni, ég tók fartölvuna mína einfaldlega ekki með en leit örsjaldan á ferðinni í tölvu hjá vinum og fór aðeins í póstinn og leit örlítið hér inn á vefinn, sem fór í frí, að mestu, rétt eins og ég.
Það sem mér fannst skemmtilegast í ferðinni var hiklaust að fara á þá staði sem ekki hefur verið gefinn nógu góður tími á síðustu árum. Ég þræddi hægt og rólega firðina milli Reyðarfjarðar og Hornafjarðar. Það voru orðin þrettán ár liðin frá því að ég færi til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Djúpavogs, meira en svo að spana í gegn á hraðferð. Þannig að nú var notaður vel tíminn í að fara á öll söfnin á svæðinu og rölta aðeins um staðina smástund. Það var virkilega áhugavert að líta á safnið í Löngubúð á Djúpavogi. Þar eru vegleg söfn til minningar um Ríkharð Jónsson og Eystein Jónsson, fyrrum ráðherra og pólitískan héraðshöfðingja fyrir austan.
Á Stöðvarfirði fór ég í fyrsta skipti í yfir áratug í Steinasafn Petru Sveinsdóttur. Það er einstök upplifun, að því er segja má, að fara í það safn. Þetta safn ber vitni þeirri hugsjón Petru að varðveita steina og hlúa að þeim. Garðurinn hennar og heimilið að Fjarðarbraut á Stöðvarfirði er svo sannarlega einstakt að öllu leyti. Þar er allt fullt af steinum úr öllum áttum og safnið er minnisvarði um ævistarf Petru, sem ber vitni krafti hennar. Þar er öllu raðað upp með nostursamlegum hætti. Það eru annars fá góð orð til að lýsa safninu. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Ég hvet alla þá sem fara þarna um að líta við. Petru nýtur ekki lengur við, en dóttir hennar var á safninu er ég átti leið um og var áhugavert að ræða við hana um þetta merkilega safn, sem er hlúð vel að af börnum Petru.
Það var gaman að fara í Sjóminjasafnið á Eskifirði. Þar var Diddi frændi minn safnvörður er ég leit við og það var því um margt að tala á safninu. Það var áhugavert að labba þar um og skoða fallega safngripi og kynnast merkilegri innsýn í söguna á Eskifirði. Það er ekki svo langt síðan að ég leit í Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði, svo að ég staldraði þar ekki við, en það er ennfremur mjög gott safn, svo og öll önnur þarna. Það er mjög áhugavert að fara þar um, og gefa sér tíma til að kynna sér það sem þar er. Heilt yfir var svo litið til fjölda ættingja, þá vantar mig ekki á svæðinu. Það fór drjúgur tími í þær heimsóknir og alltaf gaman að líta við og spjalla, oftast langt fram á kvöldin.
Sérstaklega fannst mér áhugavert á ferðinni austur að fara þó í Skriðuklaustur í Fljótsdal. Það er rúmur áratugur, merkilegt nokk, síðan að ég hef farið þar inn og svo sannarlega kominn tími til að bæta úr því. Þegar að ég fór þangað á mánudag var mjög rólegt og gott andrúmsloft yfir. Fékk ég mjög góða leiðsögn um safnið af starfsmanni sem þar var. Það er góður andi í Skriðuklaustri. Sýningin þar á verkum og ævi Gunnars Gunnarssonar er mjög skemmtilega sett upp og notalegt fyrir ferðamanninn að koma þar við og fræðast um húsið og skáldið sem reisti þennan hallargarð í sveitinni sinni. Þar var líka falleg myndlistasýning á verkum Hrafnhildar Ingu Sigurðardóttur.
Það hefur eflaust verið merkileg tilfinning fyrir kotbændur í dalnum þegar að Gunnar Gunnarsson kom í dalinn og reisti sér þessa höll, sinn hallargarð í fögrum dal. Enn í dag, sjö áratugum síðar, er þetta höll og fallegast húsa á svæðinu. Svo mun lengi vera. Þegar að ég kom í Skriðuklaustur angaði þar yndisleg kleinulykt, enda verið að baka í kaffistofunni í kjallaranum. Það var veglegt kaffihlaðborð þar og ómögulegt annað en láta freistast af því góðmeti sem þar var. Þar var hlaðborð á gamla móðinn, yndislegt brauð og ekta heitt súkkulaði með. Þetta var yndisleg stund og við skemmtum okkur vel þarna.
Á sjómannadag var hið fínasta veður en hin vænsta gjóla. Þar var áhugavert að fara og taka þátt í þeim hátíðarhöldum sem þar voru. Það voru veglegri hátíðarhöld þar en hér í mínum heimabæ, þar sem glansinn er farinn af þeim, sem er okkur öllum hér til skammar. Það fór svo að ég fór í tvær messur á þessum sjómannadegi í Fjarðabyggð. Fyrir hádegið var messa í Eskifjarðarkirkju. Þar messaði sr. Davíð Baldursson, prófastur. Davíð og ég erum systrasynir. Hann hefur þjónað þar frá árinu 1977. Á Norðfirði eftir hádegið fór ég í messu, enda er Ágúst Ármann, frændi minn, þar organisti. Björg Þórhallsdóttir söng þar fallega - bróðir hennar, Höskuldur þingmaður, var þar staddur líka. Guðmundur Bjarnason, fyrrum bæjarstjóri, flutti þar öflugt og gott erindi um sjávarútveginn.
Ennfremur fór ég svo auðvitað í Borgarfjörð eystri og Seyðisfjörð. Það stóð til að fara upp að Kárahnjúkum, en það varð ekki af því í þessari ferð í Fljótsdalinn, einfaldlega vegna þess að það var ekki tími þann daginn. Það verður farið þangað síðar í sumar, þegar að maður fer styttri ferð, væntanlega yfir helgi. En það er mikilvægt að fara þangað. Það var sól og blíða þessa daga, eins og best verður á kosið. Það er alltaf gaman að fara austur, þar er mikið að sjá staldri maður við og njóti kyrrðarinnar og fari yfir möguleikana þar, skoði söfnin og menningarsetrin á svæðinu. Svo er auðvitað yndislegt bara að finna kyrrðina.
Á Hornafirði er alltaf gott að vera, virkilega notalegt að líta þangað. Það var fínasta veður er ég dvaldi þar yfir nótt. Þar fékk ég mér góðan göngutúr að kvöldlagi sem var hressandi mjög. Það er magnað að fara austur þessar vikurnar og hefur verið um langt skeið auðvitað. Krafturinn í framkvæmdum í Fjarðabyggð er enn mikill og gaman að sjá álverið vera orðið að veruleika. Þar verða til mörg tækifæri fyrir þetta samfélag, það sést vel á öllu sem þar hefur gerst undanfarin tvö til þrjú ár. Það eru spennandi tímar framundan.
Það er samt alltaf best að koma heim eftir langferð. Það var afskaplega notalegt að koma aftur heim í fjörðinn fagra síðdegis. Það er alltaf gott að fara í ferðalag, en samt er alltaf best að koma heim að því loknu. En þetta var yndisleg ferð og mjög notalegir dagar sem ég átti á ferðinni.
Dægurmál | Breytt 8.6.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2007 | 18:53
Egill Helgason orðinn Moggabloggari
Það hefur gengið á ýmsu síðustu dagana á milli Egils Helgasonar og 365, eftir að Egill yfirgaf fjölmiðlaveldið. Vefnum hans á vísisvefnum var lokað með dramatískum hætti. Nú er Egill kominn í besta félagsskapinn af þeim öllum á Netinu; hingað á Moggabloggið. Það er mjög gott að fá hann í hinn fjölmenna hóp sem hér skrifum.
Ég var að koma heim til Akureyrar eftir vikuferð um Austurlandið. Þar spilaði tölva litla rullu. Ég fór ekki með fartölvuna í ferðina, ákvað að hvíla hana heima og hafa þetta notalegt og rólegt. Enda er lítið frí þar sem tölvan er á eftir manni daginn út og inn. Ég las þó blöðin eftir því sem þar var við komið. Fannst áhugavert að lesa um dramatíkina á milli Egils og 365. Er að sjá meira af þessum hasar nú þegar að heim er komið og farið er yfir bloggskrif og pælingar um þennan hasar. Skil ekki beint í 365 að ætla að reyna að binda Egil með fógetavaldi á sinn kláf. Það gengur aldrei upp. Ímyndarlega er þetta mál einn dísaster fyrir veldið.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst. Um daginn þegar að ég komst í tölvu hjá Ólöfu vinkonu minni austur á Egilsstöðum á laugardagskvöldið páraði ég aðeins um vistaskipti Egils. Líst vel á þau og enn betur á að hann sé kominn hingað í bloggsamfélagið. Hann er öflug viðbót í hópinn svo sannarlega.
![]() |
Egill Helgason byrjaður að blogga á mbl.is |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2007 | 22:31
Ástu Lovísu minnst
Það er mjög áhugavert að fara yfir þá hugulsemi sem lesendur vefsins sýna fjölskyldu Ástu Lovísu á þessum erfiðu tímamótum hjá þeim. Þar sést vel hversu mjög Ásta Lovísa snart þjóðina í hetjulegri baráttu sinni við meinið erfiða, sem að lokum felldi hana að velli. Samt lít ég á hana sem sigurvegara. Marga hef ég þekkt sem hafa fallið fyrir þessu kalda og erfiða meini. Samt eru það sigurvegarar í huganum. Það er enginn vafi á því að Ásta Lovísa var mikill sigurvegari þrátt fyrir þessi sorglegu örlög sem hún hlaut.
Barátta hennar er ógleymanleg og verður lengi í minnum höfð. Það sést vel af vefskrifunum á heimasíðu Ástu Lovísu. Það er í sjálfu sér mjög einfalt mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.6.2007 | 23:56
Skynsamleg ákvörðun Egils um vistaskipti
Mér líst mjög vel á þá ákvörðun Egils Helgasonar að færa sig um set. Tilfærsla hans er rétt skref. Það eru mörg tækifæri fyrir Egil fólgin í vistaskiptum. Það hefur lengi verið mitt mat að Egill sé fremsti stjórnmálaskýrandi landsins og það sannaðist vel, tel ég, í kosningabaráttunni í vor. Það er mikið áfall fyrir Stöð 2 að missa hann og þar gengisfellur stjórnmálaumfjöllun stöðvarinnar verulega.
Hlakka til að sjá Silfur Egils hjá RÚV næsta vetur og ennfremur bókmenntaþáttinn sem virðist vera með í dæminu hjá Agli. Það vantar alvöru bókaumfjöllun í innlent sjónvarp og úr því þarf að bæta. Bókaumfjöllun Egils í Silfrinu hefur verið mjög fín, þó hliðararmur pólitíska spjallsins hafi verið vissulega í þættinum. En það verður vonandi spennandi sjónvarpsvetur hjá RÚV nú og fróðlegt að sjá Silfur Egils á nýjum vettvangi í vetur.
![]() |
Egill: Aðstaðan á RÚV betri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.6.2007 | 15:42
Skiptist á skin og skúrir fyrir austan
Í dag er ekta rigning bara upp á breskan móð. Ekkert svosem að því. Vona þó að betri verði tíðin næstu dagana. Það stefnir flest í að ég verði hér fram á föstudaginn. Stefnir flest í það. Í gærkvöldi fékk ég vinafólk í heimsókn í bústaðinn og við grilluðum góðan mat og spjölluðum vel áður en haldið var niður á firði. Í dag er fínn túr tekinn um svæðið. Stefni á að fara til Hornafjarðar á mánudaginn. Afi minn er jarðaður á Hornafirði og þangað verð ég að leggja leið mína. Margt planað og pælt allavega þessa kyrrlátu daga.
Það er alltaf gaman að fara austur... svo sannarlega.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2007 | 08:49
Skelfilegt umferðarslys á Suðurlandsvegi
Það er svo sannarlega mikilvægt að bæta úr samgöngum á þessari miklu hraðbraut. Þessi slys öll segja sína sögu vel.
![]() |
Alvarlega slösuð á gjörgæsludeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2007 | 22:54
Haldið austur
Þetta hefur verið mjög líflegur vetur í pólitíkinni. Gaman að skrifa um málin, en nú fer að styttast, held ég allavega, í að þar róist mjög og fólk slappi af eftir annasaman vetur. Það hefur verið gaman að skrifa um pólitíkina í vetur og ég held að hér hafi bara birst ágætis pælingar og umfjöllun um það sem hefur verið að gerast.
Það verður notalegt að pása sig aðeins þessa daga fyrir austan, þó að eflaust geti vel verið að maður pári eina og eina línu þegar að svo liggur við og vel stendur á að láta í sér heyra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2007 | 17:59
Hrafnkell A. Jónsson látinn

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, vann áratugum saman í Verkalýðsfélaginu Árvakri á Eskifirði og var trúnaðarkona þar um langt skeið. Hrafnkell tók við félaginu skömmu áður en hún yfirgaf Eskifjörð og hélt norður. Hún var kjarnakona í starfinu, sönn verkakona og öflug sínum grunni og þekkti vel félagið fyrir austan. Hún talaði mjög oft um framlag Hrafnkels í verkalýðsstarfinu fyrir austan og virti það mikils. Þar var ekkert hik og þar kom fram hennar afgerandi skoðun hversu vel hann hélt á málefnum verkafólks á Eskifirði. Ég tel hennar dóm hafa verið réttan. Enda leiddi Hrafnkell félagið um mjög langt skeið.
Hrafnkell var öflugur í bæjarmálunum á Eskifirði um árabil. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn þar um langt skeið og var trúnaðarmaður hans í starfinu og var forystumaður á vettvangi sveitarfélagsins. Þar heyrði ég í raun fyrst af pólitísku starfi hans og bar alla tíð mikla virðingu fyrir því framlagi hans. Eftir að hann hélt upp á Egilsstaði til verka fyrir Héraðsskjalasafnið hélt hann áfram sínum pólitísku verkum á nýjum slóðum og var þar allt í öllu meðan að heilsa og kraftar entust. Hann var formaður fulltrúaráðsins þar um nokkuð skeið og það var í gegnum þau verk sem ég kynntist honum best hin síðari ár, vegna verka minna á vegum kjördæmastarfs flokksins og í ungliðamálunum. Hrafnkell var mjög áberandi í kjördæmastarfinu allt þar til yfir lauk.
Sérstaklega er mér minnisstæð ferð mín og Guðmundar Skarphéðinssonar, formanns kjördæmisráðsins, austur í janúar 2005 á fundaferðalag af hálfu flokksins með Halldóri Blöndal. Við áttum ógleymanlega stund á Egilsstöðum á köldum janúardegi þar sem Hrafnkell lóðsaði okkur um svæðin í fylgd með Halldóri. Við fórum í fyrirtæki á Egilsstöðum og vinnustaði, litum á helstu málin á svæðinu. Það var skemmtileg stund og mjög notalegt að hlusta á Hrafnkel tala um stöðu mála fyrir austan, atvinnu- og samgöngumál - í raun allt á milli himins og jarðar. Sérstaklega var gaman að fara í heimsókn til Þráins í Lagarfellið og hlusta á þá þrjá félagana, Halldór og austfirsku kappana tala um stöðu mála.
Hrafnkell var mjög áberandi í sínu flokksstarfi. Hann hafði skoðanir á öllum málum og hikaði aldrei við að tjá sig. Hann lét sínar skoðanir vaða og af öllum krafti, sama þó að þær væru ekki alltaf í flokksfarvegi né væru sléttar og felldar eftir meðalmennskunni. Hann var trúr sínu. Undir lokin var Hrafnkell farinn að blogga. Hann naut sín mjög vel á þeim vettvangi. Það var gaman að fylgjast með honum tjá sig þar og sem fyrr lét hann allt vaða. Þannig var hann enda bestur. Hrafnkell var þannig maður að hann varð að vera frjáls í sinni tjáningu og það var bara hans eðli. Það er sorglegt hversu stutt krafta hans naut við á bloggvettvanginum.
Það eru aðeins nokkrir mánuðir síðan að Hrafnkell fékk dóminn mikla, veikindin urðu ljós og þau ágerðust stig af stigi meira, þó viss vonarglæta kæmi inn á milli. Framan af háði Hrafnkell baráttu sína á netinu. Börnin hans, Tjörvi og Fjóla, hlúðu vel að honum á þeim vettvangi og færðu okkur fréttir af honum lengst af. Smám saman minnkaði vonin og baráttan tók á sig ójafna mynd, en Hrafnkell barðist af krafti þó allt til enda. Það var eðli hans að berjast og hann gerði það svo sannarlega meðan að stætt var í ójöfnum og erfiðleikum leik við máttarvöld sem við ráðum ekki við.
Að Hrafnkeli er mikill sjónarsviptir fyrir okkur sjálfstæðismenn. Hann var öflugur leiðtogi flokkstarfsins fyrir austan og sinnti því af samviskusemi og alúð. Síðustu samskipti mín við hann á flokksvettvangi voru fyrir nákvæmlega ári. Þá vann ég í kosningabaráttunni hér á Akureyri og hann leiddi kosningavinnuna, sem alltaf fyrr, austur á fjörðum. Við áttum í nær daglegum samskiptum, ræddum stöðu mála og komum skilaboðum um utankjörfundaratkvæði áleiðis, þau atkvæði sem oft gera kraftaverk í jafnri baráttu. Það voru mjög skemmtileg samskipti og eftirminnileg.
Ég vil að leiðarlokum þakka Hrafnkeli allt gamalt og gott í flokksstarfinu, sérstaklega í kjördæmastarfinu eftir sameiningu kjördæmaheildanna eftir aldamótin. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína.
Guð blessi minningu baráttumannsins Hrafnkels.
![]() |
Hrafnkell A. Jónsson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2007 | 03:34
Í minningu Ástu Lovísu

Ég heyrði fyrst sögu Ástu Lovísu í Kastljósinu í fyrra, þar sem að hún ræddi við Sigmar. Það var tilfinningaþrungin saga og hún sagði hana af svo leiftrandi og sönnum krafti að allir voru snortnir sem sáu. Síðan hef ég verið daglegur lesandi vefsins hennar og fylgst með sorgum og sigrum á erfiðri vegferð. Ég þekki það sjálfur sem ættingi einstaklings sem greinist með krabbamein og missir stig af stigi tök á baráttunni en heldur í baráttukraftinn engu að síður hversu sorglegt það er að fylgjast með henni.
Ásta Lovísa öðlaðist fyrst og fremst sess í huga okkar því að hún gerði baráttu sína opinbera, hún hikaði ekki við að deila hugsunum sínum; allt í senn vonbrigðum, vonum, væntingum, eldmóð, bakslögum og baráttuþreki með okkur. Við urðum áhorfendum að baráttu hennar. Það er ekki auðvelt að lifa svona baráttu svo opinbert og halda reisn sinni og glæsileik allt til enda. Það tókst Ástu Lovísu. Öll vonuðum við að hún næði að sigrast á meininu og þrátt fyrir bakslögin undanfarnar vikur sem fram komu á blogginu var andlátsfregn hennar sláandi og er mikið áfall. Þó að ég hafi aldrei hitt Ástu Lovísu leið mér nær alveg eins og vinur væri fallinn frá.
Þetta er í raun máttur netsins. Með því að lesa skrif einstaklings sér maður hlið á honum og getur í raun lesið karakter hans og persónugerð. Það opinberast allt í því sem fram kemur á vefnum. Þetta er vettvangur hugsana; í senn pælinga og hugleiðinga um lífið og tilveruna. Sumir skrifa um lífið sitt, aðrir skrifa um áhugamálin sín og aðrir taka fyrir hluti sem fáir skrifa um og jafnvel þarna mitt á milli. Það þarf hugrekki til að opna líf sitt upp á gátt og lifa baráttu fyrir heilsu sinni með opinberum hætti. Með því opnast allar þær dyr sem margir vilja hafa lokaðar. Ásta Lovísa hikaði aldrei á vegferð sinni.
Ég las áðan síðustu bloggfærsluna sem Ásta Lovísa skrifaði, það var aðeins tíu dögum áður en hún dó. Þar er engin neikvæðni og ekkert hik eða ótti einstaklings sem horfist í augu við örlög sín, án þess að vita hvernig þau verða. Þar er þó bjart yfir - þar skrifar einstaklingur sem berst af krafti og vill sjá bjartari daga en þá sem áður hafa orðið á vegferðinni. Það var merkilegt að lesa þessi skrif áðan vitandi um hver staða mála er orðin. Þarna birtist ljóslifandi sú Ásta Lovísa sem við öll viljum minnast. Þetta var kjarninn í hennar karakter.
Ég hef allt frá fyrsta degi er ég las vef Ástu Lovísu talið hana til vina minna, þó ég hafi aldrei þekkt hana í eigin persónu. Það er vissulega merkileg tilfinning, en ég tel hana einn sterkasta bloggara sem hefur ritað hérlendis. Hún var sönn og kraftmikil í sinni baráttu. Þannig verður hennar minnst.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)