5.1.2007 | 23:11
Andríki og Andri Snær hljóta frelsisverðlaun SUS

Andríki hefur með mikilli elju og áberandi dugnaði haldið úti þessari einni öflugustu og bestu pólitísku vefsíðu landsins. Hún hefur verið öflugur málsvari frelsisins og táknmynd þess sem við hægrimenn metum mest í raun. Það er svo sannarlega viðeigandi að útgáfufélag síðunnar sé heiðrað fyrir sitt framlag í þetta fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt. Persónulega hef ég lesið síðuna allt frá fyrsta degi og met mjög mikils það sem þar hefur verið birt og tel hana eina af allra bestu vefsíðum hægrimanna í dag, og alla tíð frá netvæðingunni fyrir rúmum áratug.
Andri Snær Magnason, rithöfundur, hefur vakið athygli fyrir tjáningu sína í umhverfismálum, sérstaklega með bók sinni, Draumalandinu, sem varð metsölubók á síðasta ári og er nú tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sjálfur er ég hlynntur virkjunarframkvæmdum á Austurlandi og tel að þar hafi réttar ákvarðanir verið teknar. Þrátt fyrir það vil ég kynna mér skoðanir annarra, enda er það lykilgrunnur frelsisins að allir geti tjáð skoðanir sínar og jafnvel andstöðu við mál. Andri Snær hefur gert það með sínum hætti. Hann flutti fyrirlestur á málefnaþingi SUS í október, er helgað var umhverfismálum, sem mér fannst frumlegur og góður.
Ég tel það mikið gleðiefni að við í stjórn SUS höfum stofnað þessi verðlaun og hér eftir verða þau árlegur viðburður. Það er mikilvægt að heiðra sérstaklega framlag Kjartans Gunnarssonar í nafni flokksins, en fáir hafa verið öflugri við að vinna fyrir flokkinn og vinna honum ómetanlegt gagn í áratugi, og minna á það sem vel hefur verið gert og með athyglisverðum hætti í gegnum tíðina. Þessi verðlaun eru mikilvæg í því skyni og ég fagna því hversu mikla athygli þau hafa hlotið síðustu dagana, frá opinberri tilkynningu okkar í ritstjórn og stjórn SUS um málið.
Ég hef sem ritstjóri heimasíðu SUS fengið fjölda tölvupósta um málið nú á fyrstu dögum ársins og fagna því að með verkum okkar ungliðanna sé fylgst jafnvel og raun ber vitni. Þessi verðlaun munu verða öflugur hluti starfs okkar vonandi á næstu árum og athyglisverður vettvangur þess að við minnum vel á stöðu frelsisins.
![]() |
Andríki og Andri Snær Magnason hlutu frelsisverðlaun SUS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.1.2007 | 17:08
Er að molna undan Ingibjörgu Sólrúnu?

Ingibjörg Sólrún varð formaður fyrir tæpum tveim árum undir merkjum þess að flokkurinn væri ekki búinn að ná hæstu hæðum - hún væri sú hin eina rétta til að snúa við stöðu mála. Eftir að Össuri var hnikað til fyrir svilkonu sína hefur hinsvegar saga flokksins orðið hrakfallabálkasaga hin mesta og ekkert gengið upp. Ingibjörg Sólrún hefur fengið á sig táknmynd hins sigraða, þvert á það sem var á níu ára borgarstjóraferli hennar í Reykjavík. Hún virðist ekki fúnkera vel við þær aðstæður með blæ lúsersins á brá.
Það er merkilegt að sjá suma holla krata innan Samfylkingarinnar vera með skoðanakannanir á bloggsíðum sínum um það hver eigi að vera næsti formaður flokksins og það fjórum mánuðum fyrir alþingiskosningar. Það sýnir bara óánægju með stöðu mála og leiðtogann - ekki er hægt að undrast þá stöðu eins og kannanir eru að þróast fyrir Samfylkinguna þessar vikurnar. Mörg nöfn virðast vera nefnd og hjá Hrafni bloggvini mínum leiðir þessa stundina kosninguna sjálfur Lúðvík Geirsson, héraðshöfðingi í Alcanbæ... nei ég meina Hafnarfirði. Það verður fróðlegt hvernig að ný umhverfisstefna Samfylkingarinnar fúnkerar þar.
Hinn sjálfskipaði femínisti Steingrímur J. Sigfússon virðist ekki hugsa mikið um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur þessa dagana, frekar en Margréti Frímannsdóttur forðum daga innan karlaveldisins í Alþýðubandalaginu. Á gamlársdag var lítill sýnilegur áhugi hjá honum á því að prómótera Ingibjörgu Sólrúnu sem andlit kaffibandalagsins í Kryddsíld. Það er kalt kaffið á stjórnarandstöðubænum og enginn vill heimsækja húsfreyjuna á veglegasta sveitabænum. Það vill enginn neitt með hana hafa. Kannski varla furða, eins og staðan er innan Samfylkingarinnar sjálfrar.
5.1.2007 | 16:11
Verður Toblerone-Mona eftirmaður Perssons?

Dauði Önnu Lindh fyrir tæpum fjórum árum er enn stingandi fyrir flokkinn. Eftir að hún var myrt með sorglegum hætti í september 2003 hefur enginn afgerandi eftirmaður Perssons blasað við. Enn eru kratarnir að jafna sig á dauða hennar, en þá dó krónprinsessa flokksins og augljós eftirmaður eftir valdadaga Perssons. Sænsku spekingarnir töldu lengi vel Margot Wallström, kommissar hjá ESB og fyrrum ráðherra, vænlegasta en hún hefur fyrir löngu gefið það út að hún hafi engan áhuga á að leiða kratana í stjórnarandstöðu næstu þrjú árin.
Enn og aftur heyrist nafn Monu Sahlin. Hún var talin líklegasti eftirmaður Ingvars Carlssons lengi vel, en hann var leiðtogi kratanna 1986-1996 og forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Svo fór að vegna kreditkortahneykslis sem jafnan hefur verið kennt við Toblerone (er varð er Sahlin keypti m.a. Toblerone súkkulaði út á ráðherrakort sitt) varð Sahlin að segja af sér árið 1995 og hnossið féll fjármálaráðherranum Persson í skaut. Sahlin hefur verið umdeild og skandalarnir hafa elt hana uppi lengi. Það er varla við því að búast að hún sé vinsæl og margir hugsa með hryllingi til þess að hún verði sú sem stjórni innra starfi flokkins á uppbyggingarárum stjórnarandstöðutilveru.
Mér finnst það reyndar kostulega dramatískt að heyra nafn Sahlin sem líklegasta leiðtogaefnisins hjá sænskum krötum, en hún er orðin frekar slitin sem stjórnmálamaður eftir sína skandala. Reyndar fannst mér það alveg kostulegt þegar að Sahlin var valin í bakgrunni allra auglýsinga Perssons í baráttunni í september og eiginlega til marks um hvað yfirgangur Perssons í flokknum hefur leitt til þess að leiðtogafátækt einkennir flokkinn nú þegar að hann hrökklast frá völdum. Þar eru fáir kostir eftir vænlegir ef kratarnir þarna líta á Sahlin sem rétta aðilann sem eigi að leiða þá aftur til vegs og virðingar eftir þennan ósigur í haust.
![]() |
Mona Sahlin hugsanlegur eftirmaður Perssons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2007 | 13:28
Blæs ekki byrlega fyrir Valgerði Sverrisdóttur

Eins og staðan er núna er Framsókn orðin minnst fjórflokkana í kjördæminu, en hér varð Framsókn stærst í kosningunum 2003 og hlaut fjögur þingsæti. Þeir gullnu dagar virðast vera liðnir. Það er spurning hvort það veikir flokkinn að hafa ekki einn afgerandi Austfirðing ofarlega. Brotthvarf Dagnýjar Jónsdóttur hlýtur að veikja flokkinn hér. Hún varð aðalstjarna flokksins hér síðast og falin mikil ábyrgð. Segja má að Framsókn hafi veggfóðrað kjördæmið með kosningamyndum af henni og hún verið meira áberandi en Valgerður og Jón Kristjánsson.
Það verður fróðlegt að sjá stöðu Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi að vori. Landsbyggðarþingmaður hefur ekki verið utanríkisráðherra frá því að Halldór Ásgrímsson sat á þeim stóli. Það munaði litlu að hann fengi skell í Austurlandskjördæmi hinu forna í kosningabaráttunni 1999 og hann fór um firðina á Cherokee-jeppanum sínum síðustu vikuna til að bjarga því sem bjargað yrði. Honum tókst það naumlega, en þá keyrði skelkaður landsfaðir um firðina austan heiða til að reyna að bjarga því sem bjarga yrði.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort að fjarvera Valgerðar veiki Framsóknarflokkinn hér líkt og var fyrir austan í tilfelli Halldórs áður. Fer Valgerður í sama björgunarleiðanginn kortéri fyrir kosningar og Halldór fyrir austan fyrir tæpum áratug?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007 | 12:36
Nýársheit - góð eða slæm?

Síðasta ár var reyndar svolítið merkilegt. Ég hætti að mjög miklu leyti flokksstarfi með verulega virkum hætti hér í bænum á árinu, en ég var formaður flokksfélags, sem var nokkuð krefjandi verkefni sem var fullt af fundum og allskonar önnum. Ég var orðinn þreyttur á því og vildi losna út úr því. Líður mjög vel á eftir. Tel að það hafi verið rétt ákvörðun og farsæl fyrir mig, enda nóg annað hægt að gera í staðinn. Til dæmis skrifa ég miklu meira nú en ég gerði áður og hef meiri tíma til þess, eðalgott það.
Ég heyri ýmislegt um nýársheit hjá fólki. Þau eru mjög ólík og spennandi. Sumir eru hátíðlegir á því en flaska svo á öllu draslinu er yfir lýkur. En hvað með ykkur? Einhverjir sem strengdu nýársheit?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007 | 12:07
Kjördæmisþing 20. janúar - listinn brátt til

Kristján Þór Júlíusson, nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, lætur af embætti bæjarstjóra á Akureyri á þriðjudag og mun þá halda alfarið til verka í kosningabaráttunni. Hann mun þó verða forseti bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar í stað Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, verðandi bæjarstjóra. Mikil uppstokkun verður reyndar í bæjarmálunum á bæjarstjórnarfundi á þriðjudag, en utan bæjarstjóraskipta og breytinga á forsetaembætti bæjarstjórnar verður uppstokkun í nefndum, enda hættir Sigrún Björk í bæjarráði, framkvæmdaráði og stjórn Akureyrarstofu.
Það er ekki hægt að segja annað en að listi okkar sjálfstæðismanna sé vel skipaður hvað efstu sætin viðvíkur eftir þetta prófkjör, sem fyrr er nefnt. Þrjár konur urðu í fimm efstu sætunum, þar af tvær í þrem efstu sætum. Það stefnir ekki í að aðrir flokkar hér muni skipa betur málum hvað varðar jafnréttismálin en við sjálfstæðismenn. Við Akureyringar eigum tvo fulltrúa í fjórum efstu sætum og Austfirðingar eiga tvo fulltrúa í sömu sætum, þar af tvö nokkuð örugg þingsæti, ef marka má skoðanakannanir. Eins og kannanir hafa verið að spilast að undanförnu höfum við þrjú örugg þingsæti og getum á góðum degi vel verið að hljóta fjögur sæti. Að því er að sjálfsögðu stefnt.
Nýjasta könnunin sýnir slæma stöðu Framsóknarflokksins, sem mælist aðeins inni með leiðtoga framboðslistans, Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Samfylkingin og VG eru þarna bæði með þrjú þingsæti, þar af er Samfylkingin með jöfnunarsætið. Ég á ekki von á að úrslitin verði með þessum hætti, en þessi mæling er mjög athyglisverð. Sérstaklega er hrikaleg útreið framsóknarmanna, sem hér hafa nú fjögur þingsæti, athyglisverð. Hrun er væntanlega eina almennilega orðið yfir það allt. Samfylkingin virðist svosem ekki beint vera að blómstra, enda missir flokkurinn talsvert fylgi frá síðustu kosningum.
En ég held að þetta verði spennandi kosningabarátta hér næstu mánuðina. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni hér koma sterkur til leiks með sinn framboðslista. Í sex efstu sætum eru aðeins þrjú sem voru á sömu slóðum síðast; Arnbjörg Sveinsdóttir, Þorvaldur Ingvarsson og Sigríður Ingvarsdóttir. Ég tel að innkoma Ólafar Nordal verði okkur heilladrjúg, en ég hef fundið vel að hún hefur góðan stuðning til verka og kemur með ferskan blæ í stjórnmálin hér. Ég vænti mikils af hennar verkum í þessari kosningabaráttu og á þingi eftir 12. maí.
Þetta verður lifandi barátta og áhugaverð, tel ég. Fari kosningar á borð við þá könnun sem fyrr er nefnd stefnir í verulega uppstokkun hér á stöðu mála og sigur Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, sem yrði sögulegt og gott. Markmið okkar hér hlýtur enda að tryggja góðan sigur og fjóra menn - og ráðherrastól í vor.
5.1.2007 | 10:39
Jón Baldvin sætir opinberri rannsókn

Mér fannst það frekar djarft hjá Jóni Baldvin í viðtali í haust að nefna Sigurjón "lögreglustjórann alræmda". Þetta var að mig minnir á sama deginum og mál hans varð fyrst í umræðunni. Börn lögreglustjórans, sem látinn er fyrir nokkrum árum, una skiljanlega ekki þessu orðalagi um föður sinn og vilja leita réttar síns fyrir hans hönd væntanlega fyrir dómi. Sú túlkun hefur verið áberandi að opinberir starfsmenn eigi að þola meira starfa sinna vegna. Það eru því nokkur þáttaskil í þessu efnum með úrskurði þessum.
Það verður athyglisvert að sjá hver niðurstaða þessa máls verði er á hólminn kemur. Jón Baldvin kom ekki vel út úr þessu hlerunarmáli sem rætt var í haust, enda stóð varla steinn yfir steini að því loknu. Vitnið fræga sem hann benti þar á og átti að skipta svo miklu máli var hætt störfum á því tímabili sem Jón Baldvin taldi sig hleraðan og hann vildi ekki bakka frásögn hans upp. Ofan á það var ekkert eftir sem staðfesti frásögnina. Þetta varð eins vandræðalegt eins og frekast mátti.
Fróðlegt verður nú að sjá þessa rimmu Jóns Baldvins við börn lögreglustjórans fyrrnefnda, sem standa vörð um heiður látins föður síns í réttarbaráttu við Jón Baldvin. Ofan á það verður svo auðvitað athyglisvert að sjá hvað kemur út úr þessari væntanlegu rannsókn.
5.1.2007 | 08:46
Hví er kostnaður við skaupið trúnaðarmál?
Fréttablaðið hefur nú kært þessa neitun Ríkisútvarpsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það er mjög undarlegt að ekki megi liggja fyrir hvað þetta skaup hafi kostað. Það sjá reyndar allir að þetta skaup var nokkuð dýr, miklu var til kostað og útkoman er ekki óumdeild, eins og allir hafa séð sem heyrt hafa álit almennings á skaupinu á netinu og í allskonar þáttum þar sem óvísindalegar mælingar hafa farið fram.
Ég hef margoft sagt hér að það sé erfitt að gera skemmtiefni sem allir séu hoppandi glaðir yfir. Þetta er ekki fyrsta skaupið sem er umdeilt. En í ljósi alls tel ég ekki óviðeigandi að kostnaður við það sé gefinn upp. Sé tal um að það hafi kostað um eða yfir 40 milljónir er það vissulega mikið umhugsunarefni hvort þeim peningum hafi verið vel varið.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2007 | 08:26
Fallegt lag

Lagið er eitt af fjórum á plötu sem gefin hefur verið út til minningar um Svandísi Þulu og styrktar fjölskyldu hennar á þessum sorgartímum, en bróðir hennar liggur alvarlega slasaður á sjúkrahúsi eftir slysið.
Ég ætla mér að kaupa þessa plötu og hvet alla lesendur til að gera slíkt hið sama.
![]() |
Leggur sitt af mörkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)