15.2.2007 | 22:24
Skýrslutaka stöðvuð - hvað er að gerast?

Maður á varla nokkuð orð til um þetta. Getur verið að dómarinn sé ekki hlutlaus í þessu máli? Allt sem gerst hefur síðustu dagana fær mann hreinlega til að halda að svo sé. Þetta er sorglega ömurlegt hvernig dómarinn kemur allavega fram og þetta nýjasta athæfi hans er með ólíkindum. Það að stöðva saksóknara í miðri setningu er fyrir neðan allt að mínu mati. Hví sýnir hann saksóknara slíka vanvirðu, allt að því fyrirlitningu og dónaskap? Því mátti ekki klára spurningarnar? Lá eitthvað á?
Ég sagði um daginn að þetta Baugsmál væri með ólíkindum orðið þegar að Jóni Gerald var vísað á dyr. Þetta kórónar það gjörsamlega. Það hljóta æði margir að vera hugsi yfir málinu. Ég get allavega varla orða bundist. Það er greinilega ekki allt enn búið í þessu máli. Þetta er allavega dagur stórra tíðinda, svo mikið er víst.
![]() |
Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2007 | 18:40
Horfum fram á veginn í málefnum Akureyrarvallar
Eitt af hitamálunum hér á Akureyri undanfarin ár er framtíð Akureyrarvallar. Eftir því sem árin hafa liðið hefur þó sú skoðun orðið æ meira ofan á að hans saga sé öll og horft skuli í aðrar áttir með nýtingu vallarsvæðisins sem er áberandi í miðbæjarmynd Akureyrar. Við öllum blasir að völlurinn er úreltur orðinn og vafamál verið hvort byggja eigi þar upp. Það hefur lengi verið mín skoðun að rétt sé að binda enda á núverandi nýtingu þessa svæðis í hjarta bæjarins og stokka það algjörlega upp.
Fyrir tæpu ári tók þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks af skarið með framtíð vallarins. Þá var ákveðið að taka svæðið undir útivistarsvæði, verslun og þjónustu ásamt íbúðabyggð. Með þessu náðist það fram að tengja saman núverandi miðbæ og verslunarsvæði á Gleráreyrum, kennt við Glerártorg. Þá stóð Framsóknarflokkur að fullu samkomulagi í þessum efnum, enda kynntu bæði Kristján Þór Júlíusson og Jakob Björnsson þessar tillögur. Síðan þá hefur Framsókn tekið u-beygju, reyndar í minnihluta.
Málefni vallarins voru rædd í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári. Þar var augljóst að vilji meirihluta bæjarbúa er að horfa í aðrar áttir með svæðið og leggja völlinn af. Þar var engin bylgja í þá átt að horfa til þess að endurbyggja völlinn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur tekið á málinu með afgerandi hætti og öllum ljóst að vilji hans er að nýta svæðið með svipuðum hætti og tillögur fyrri bæjarstjórnarmeirihluta fólu í sér. Allar lykilákvarðanir hafa verið teknar í þeim efnum.
Það kemur því frekar spánskt fyrir sjónir að nú þegar að allar meginákvarðanir málsins hafa verið teknar og rétt er að grípa til framkvæmda við að endurhanna svæðið og þoka málum áfram dúkki einhver hópur fólks undir heitinu Vinir Akureyrarvallar. Virðist vera vilji þeirra og baráttuþema að byggja völlinn upp og halda honum óbreyttum í raun. Það er furðulegt að þessi hópur hafi ekki orðið áberandi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra þegar í raun átti að fara fram þessi umræða um þetta.
Fyrir hópnum fer m.a. Hjörleifur Hallgríms, fyrrum ritstjóri og þekktur frambjóðandi í forvali framsóknarmanna hér í kjördæminu fyrir nokkrum vikum. Hann tjáði þá skoðun í viðtali við N4 í vikunni að það sé einhver fjöldastuðningur, sífellt stækkandi að hans sögn, í þessu máli við það að hætt verði við fyrri ákvarðanir og horft til þess að byggja völlinn upp. Ég leyfi mér að efast stórlega um að svo sé. Á víst að fara fram borgarafundur í Sjallanum í kvöld undir verkstjórn þessa hóps. Verður fróðlegt að sjá hversu margir mæti þar til leiks.
Ég tel þetta mál komið á það stig að ekki verði horft í baksýnisspegilinn. Það hefur verið tekin þessi ákvörðun að mínu mati og það hefur verið áberandi vilji bæjarbúa að þessi verði raunin. Enda er ekkert eftir nema að hefja framkvæmdir við uppstokkun mála. Það á að mínu mati að byggja upp aðstöðu hjá félagssvæðum KA og Þórs og horfa í þá átt að þar verði aðalleikvellir og aðstaða sem máli skiptir. Það gengur ekki að mínu mati að þessi stóri blettur í miðju bæjarins verði festur undir þennan völl og rétt að stokka upp.
Stefnt er að því að frjálsíþróttaaðstaða verði nú byggð upp á íþróttasvæði Þórs við Hamar í tengslum við Bogann og muni verða tilbúin fyrir Landsmót UMFÍ 2009. Þannig á það að vera og menn eiga að drífa það af að ganga frá öllum lausum endum þess. Í þessu máli skal horft fram á veg en ekki aftur. Einfalt mál það!
Grein áður birt á bæjarmálavefritinu Pollinum, 15. febrúar 2007.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.2.2007 | 18:26
Nafnlausum athugasemdum eytt
15.2.2007 | 16:43
Sigurjón leiðir frjálslynda í Norðausturkjördæmi

Sigurjón verður væntanlega eini leiðtogi framboðslista hér í kjördæminu sem býr ekki í kjördæminu, en hann býr að mig minnir á Sauðárkróki. Norðausturkjördæmi og bæði Norðurlandskjördæmi eystra og Austurlandskjördæmi hefur verið hálfgert vandræðakjördæmi fyrir frjálslynda en flokkurinn hefur aldrei hlotið þingsæti á þessu svæði. Í síðustu kosningum mistókst Brynjari Sigurðssyni frá Siglufirði að komast hér á þing, en ekki hefur mikið heyrst af honum í pólitík hér síðan.
Tilfærsla Sigurjóns hingað hefur eiginlega blasað við, enda hefur hann ritað greinar reglulega á akureyri.net og verið sýnilegur hér um slóðir svo að þetta er eitthvað sem búist var við. Með þessu losnar annað sætið á lista flokksins í Norðvestri. Væntanlega er verið að rýma þar til fyrir Kristni H. Gunnarssyni, nýjasta flokksmanninum. Hvort Guðjón Arnar fari fram í Reykjavík er mikið í umræðunni nú, en væntanlega munu listar þessa flokks liggja allsstaðar brátt fyrir.
15.2.2007 | 15:45
Heimdallur 80 ára

Afmæli félagsins verður fagnað í Valhöll nú síðdegis, kl. 17:00. Ég kemst því miður ekki að afmælinu. Þar á að heiðra tvo fyrrum Heimdellinga með gullmerki félagsins, skv. hefð á stórafmælum, og opna nýja heimasíðu félagsins á slóðinni frelsi.is.
Ég vil senda Heimdalli, félagsmönnum þess og formanni félagsins, Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, sem er önnur konan á formannsstóli í sögu félagsins, innilegar hamingjuóskir með þetta merka afmæli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2007 | 14:50
Kvennafans í borgarmálum Samfylkingarinnar

Steinunn Valdís fær því aftur, þó tímabundið sé, aftur leiðtogahlutverk í borgarmálunum. Hún var í því erfiða hlutskipti fyrir ári að vera borgarstjóri alla kosningabaráttuna vitandi að hún yrði ekki á þeim stóli áfram. Hafði aðeins Egill Skúli Ingibergsson, embættismaður á borgarstjórastóli í vinstristjórninni 1978-1982, lent í því hlutskipti, en hann var auðvitað aldrei stjórnmálamaður og því fékk embættið á sig talsvert annan blæ þegar að Davíð Oddsson tók við af honum.
Það hlýtur að hafa verið sárt fyrir Steinunni Valdísi að hafa ekki fengið tækifæri til að leiða flokkinn í fyrra og hafa tapað leiðtogaslagnum fyrir Degi þó sennilega hafi áfall Stefáns Jóns orðið meira, en hann er nú staddur í Namibíu í þróunarverkefni til tveggja ára. Það vakti athygli mína þegar að Steinunn Valdís var sýnd í Kastljósviðtali í júní í fyrra á síðustu dögum sínum á borgarstjórastóli að pakka niður á borgarstjóraskrifstofunni að hún sagðist aðspurð án þess að blikna hefði náð betri úrslitum í kosningunum en Dagur.
Nú fær hún kastljós fjölmiðlanna á sig aftur sem leiðtogi Samfylkingarinnar tímabundið í borgarstjórn. Hún er reyndar í þingframboði og skipar fjórða sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. Ef marka má nýjustu kannanir Gallups kemst hún ekki á þing og er fjarri því, enda mældist Samfylkingin aðeins með fjögur þingsæti í báðum borgarkjördæmunum síðast, tvö í hvoru. Það yrði varla metið sem góður árangur.
![]() |
Fjórar konur í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2007 | 11:59
Frjálslyndir verða sér að athlægi á Alþingi

Ég lít svo á að Frjálslyndi flokkurinn sé holdsveikur í komandi alþingiskosningum. Hann er óstarfhæfur með öllu og sýnt mikið ábyrgðarleysi á pólitískum vettvangi. Ég fagna því mjög að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hafi tekið af skarið um að Sjálfstæðisflokkurinn muni að óbreyttu ekki vinna með þessum flokki. Ég gæti ekki verið áfram í Sjálfstæðisflokknum yrði önnur afstaða tekin. Ég á ekki lengur pólitíska samleið með forystu Sjálfstæðisflokksins lyfti hún þessum holdsveika flokki til stjórnarsetu og eða pólitískra áhrifa. Því fagna ég svo innilega afstöðu Geirs í þessu.
Valdimar Leó Friðriksson talaði með frekar lágkúrulegum hætti til Sæunnar Stefánsdóttur í umræðum um daginn. Það er með ólíkindum að hann hafi ekki beðið hana afsökunar á ummælum sínum. Það er honum til mikillar minnkunar og þessi flokkur heldur aðeins áfram að sökkva lengra niður til botns í þessari innflytjendaumræðu. Þessi skilgreining á hryðjuverkamönnum er allavega eitthvað sem fráleitt telst.
Það verður fróðlegt að sjá Kristinn H. Gunnarsson tala fyrir þessum áherslum í vor. Hann virðist vera nýjasta málpípa þessa hlægilega flokks. Hann er nú farinn að mæra Guðjón Arnar og Magnús Þór sem mest hann má í Moggagreinum og viðtölum. Kostuleg teljast nú örlög Sleggjunnar.
![]() |
Tekist á um hryðjuverkamenn á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2007 | 10:24
Nauðaómerkilegar spjallsíður nafnleysis
Ég hef áður vikið að þeirri umræðu sem þar var í gangi. Þar vildi ég fá fram afsökunarbeiðni frá vefstjóranum fyrir að breiða út kjaftasögu sem átti við engin rök að styðjast. Seint og um síðir bað vefstjórinn, Ásthildur Cesil, mig afsökunar og það virði ég við hana. Hinsvegar stendur eftir hversu ómerkilegt var af henni að hefja þessa umræðu. Hún varð sem olía á eld gegn mér þarna. Nafnlaust lágmenningarlið hversdagsins kom þar fram og leyfði sér svo til að segja hvað sem er ógeðfellt um mig og vega að mér og minni persónu. Það var vægast sagt lítilfjörlegt.
Ég hef skoðað þennan vef frá fyrsta degi og stundum komið með innlegg þar inn. Þeir dagar eru að baki. Ég tók þá ákvörðun um leið og vefstjórinn kom með þessar ósönnu kjaftasögur og braut eigin málverjaboðorð að þar vildi ég ekki skrifa lengur. Oft hef ég tekið mér pásur og ákveðið að horfa á úr fjarlægð en oft komið þar aftur með komment. Ég ber ekki traust til þessa spjallvefs og þeirra sem stjórna honum og tel því ekki viðeigandi að ég noti hann sjálfur. Hinsvegar vildi ég svara fyrir mig í því ógeði sem beint var að mér. Annað var ekki hægt.
Þetta er stjórnlaus spjallvettvangur fjölda nafnleysingja sem fá útrás út úr því að tala illa um náungann og vega að öðru fólki. Því miður er það svo að þeir eru mest áberandi sem svo láta. Inn á milli er sómakært fólk sem kemur þar aðeins til að tjá skoðanir sínar og er mjög málefnalegt, þrátt fyrir nafnleynd. Það fólk sekkur í ósómanum sem þar svífur oft yfir. Það er mjög leitt. En því verður varla breytt. Lágkúra sumra hefur því miður stimplað þennan vef sem nauðaómerkilegan í huga mér. Við það situr.
15.2.2007 | 09:25
Glæsilegt hjá Háskólanum í Reykjavík

Þetta er hvetjandi og gott fyrirkomulag - hvetur nemendur til dáða og markar innri samkeppni um að gera betur en næsti maður. Þetta byggir upp liðsanda og kraft, tryggir líf í stofnunina. Þetta gerir það líka óhjákvæmilega að verkum að orðspor skólans sé gott og þangað fari fólk til að efla sig og skólann sem farsæla menntastofnun.
Guðfinna S. Bjarnadóttir lét nýlega af embætti rektors Háskólans í Reykjavík, en hún mun taka sæti á Alþingi eftir tæpa 90 daga sem alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Guðfinna byggði þennan skóla upp með glæsilegri forystu, sýndi kraft og kjark og á stóran þátt í velgengninni. Hún var farsæl og öflug leiðtogaímynd og byggði upp skólann sem það sem hann telst í dag.
Það er enda öllum ljóst að Háskólinn í Reykjavík hefur á sér góða ímynd og öflugt orðspor. Þetta verklag að heiðra þá sem standa sig vel er sérstaklega vel heppnað og er vegsauki fyrir farsælan skóla. HR hefur verið í fararbroddi þeirra skóla sem komu til sögunnar eftir að farsæl háskólalög í menntamálaráðherratíð Björns Bjarnasonar tóku gildi fyrir áratug.
Það er gleðiefni að sjá kraftinn í skólanum - sem brátt verður 10 ára gamall.
![]() |
HR heiðrar bestu nemendur sína og fellir niður skólagjöld þeirra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.2.2007 | 00:38
Munu vinstri grænir halda uppsveiflunni til vors?

Það er enginn vafi á því í mínum huga að nái VG 13 þingsætum eða meiru er ríkisstjórnin sem nú situr við völd örugglega fallin. Mjög einfalt mál. Þá eru afgerandi líkur á að VG sé komið í oddastöðu í stjórnarmyndunarviðræðum. Hann gæti þá tekið sér þá stöðu á pólitíska litrófinu sem Framsóknarflokkurinn hefur haft í áratugi; að velja á milli samstarfsflokka og gera kröfur. Síðast gat Halldór Ásgrímsson gert kröfur um forsæti í ríkisstjórn Íslands út á tólf manna þingflokk. Hann og Framsókn voru í oddastöðu og réðu för enda þoldu Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki hvort annað.
VG er nú að mælast með svo til jafna stöðu til vinstri og Samfylkingin og birst hafa jafnvel kannanir sem sýna VG hafa forystu á vinstrivængnum. Það eru stórtíðindi. Samfylkingin gnæfði yfir VG í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum og hlaut mun stærri þingflokk þá; hlaut fimmtán þingsætum fleiri en VG. Allt frá stofnun hefur Samfylkingin litið á sig sem leiðandi flokk til vinstri. Það hlýtur að vera þeim áhyggjuefni að sjá vinstri græna sífellt naga á hæla sína. Þetta er merkileg staða. Þetta er altént ekki draumastaða þeirra sem studdu Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til formennsku í Samfylkingunni gegn svila sínum með þeim orðum að hún væri leiðtogi sem gæti gert Samfylkinguna að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.
Í þingkosningunum 2003 hlaut VG tvo þingmenn á höfuðborgarsvæðinu; Ögmund Jónasson og Kolbrúnu Halldórsdóttur, eða einn í hvoru borgarkjördæmanna en mistókst naumlega að ná inn þingmanni í Suðvesturkjördæmi. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist VG með átta þingmenn í þessum þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins; sex í Reykjavík og tvo í Kraganum. Var VG stærri en Samfylkingin þar í báðum kjördæmum höfuðborgarinnar. Voru meira að segja Paul Nikolov og Auður Lilja Erlingsdóttir, formaður UVG, inni á þingi í þeirri könnun. Það yrðu stórpólitísk tíðindi, ein þau stærstu í vor, fengi VG stuðning af þessu tagi. Toppi VG Samfylkinguna í Reykjavík, þó ekki væri nema annað kjördæmið, yrði það metið sem stórtíðindi.
Nú liggja listar VG í þrem kjördæmum höfuðborgarsvæðisins fyrir. Það virðist vera öflugir listar og greinilegt að VG mun bæta mjög við sig á þessu. Athygli vekur að fólk eins og Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, Einar Laxness, sagnfræðingur, Kristín Halldórsdóttir, fyrrum þingmaður, Benedikt Davíðsson, fyrrum forseti ASÍ, og Hjörleifur Guttormsson, fyrrum ráðherra, eru í heiðurssætum. Ég hélt t.d. að Benedikt og Einar Már fylgdu Samfylkingunni að málum, alltaf sér maður eitthvað nýtt. Spurningin er hversu mikið VG bætir við sig þarna. Það mun hafa stór áhrif á stöðu vinstri grænna að vori.
Það er svo sannarlega útlit fyrir spennandi alþingiskosningar. Ein stærsta spurning kosningabaráttunnar verður hvort að VG muni halda uppsveiflunni til vors. Þeir eru að keyra mun sterkari til þessara kosninga en þeirra fyrir fjórum árum. Hvort þeim tekst að haldast á þessu fylgi er svo annað stöðumat sem fróðlegt verður að fá úr skorið er líður nær vorinu. Það verður athyglisvert að sjá næstu kannanir, t.d. næsta þjóðarpúls Gallups eftir hálfan mánuð.
![]() |
Framboðslistar VG á höfuðborgarsvæðinu samþykktir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)