Kosningablær á eldhúsdagskvöldi á Alþingi

Geir H. Haarde Það líður að lokum kjörtímabilsins og aðeins 58 dagar eru til þingkosninga. Þess sáust merki á Alþingi í kvöld, en þar var áberandi kosningablær á eldhúsdegi. Allir ræðumenn komu inn á kosningarnar og biðluðu greinilega til landsmanna. Vel sást í umræðunum að engin samstaða er um breytingar á stjórnarskránni og vandséð hvernig sætta megi deilur um málin fyrir helgina, fyrir áætluð þinglok á kjörtímabilinu. Mun væntanlega ráðast á morgun hvernig málinu ljúki en lítill er sáttatónninn.

Mér fannst besti ræðumaður kvöldsins vera Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra. Hún flutti öfluga og sköruglega ræðu. Þar var byggt á staðreyndum um það hvernig stjórnarandstaðan sat hjá í öllum lykilframfaramálum undanfarinna ára. Þar var mjög vel talið upp. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom vel inn á það í ræðu sinni að efnahagur landsins stæði mjög vel um þessar mundir. Sagði hann ekki sjálfgefið að lífskjör landsmanna héldu áfram að batna og varaði við hugmyndum VG og Samfylkingarinnar um frestun og eða stöðvun framkvæmda.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hét á stjórnarandstöðuna um samstarf í auðlindamálinu og sagði erindi Framsóknarflokksins aldrei hafa verið meira en nú. Greinilega verið að reyna að snúa vondri stöðu Framsóknar við. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sakaði stjórnarflokkanna um að hafa stjórnarskrána að leiksoppi og að svara réttlætiskröfu almennings um sameign auðlinda með sjónhverfingu í nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá og Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, gerði mikið úr stöðu VG gegn stóriðju og að þeir stefnufastur flokkur. Þannig að allir reyndu að tala vel fyrir sínu ágæti og tala til kjósenda.

Það var hiti í umræðunum, sem skiljanlegt er með þingkosningar innan tveggja mánaða. Alltaf áhugavert að fylgjast með þessu fyrir okkur stjórnmálaáhugamenn. Nú verður fróðlegast hvenær þingstörfum ljúki og hvort stjórnarskrárbreytingin nær fram að ganga. Það eru ýmis spurningamerki á þessu kvöldi og óljóst hvenær þinginu verður slitið, síðasta þingi fjölda þingmanna. Það er mikill fjöldi þingmanna sem er ekki í endurkjöri og mátti sjá þau andlit í salnum greinilega utanveltu yfir kosningaræðunum, enda er þetta fólk sem tekur ekki fullan þátt í baráttunni, t.d. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, sem brátt lætur af þingmennsku.

Þetta verða líflegir 60 dagar fram til kosninga. Það verður mesta fjörið í slagnum eftir páskana eflaust en tónninn var sleginn í kvöld um það hvernig baráttan verði háð. Nú eru greinilega Samfylking og Framsóknarflokkur með vonda stöðu í öllum könnunum á meðan að VG flýgur með himinskautum og Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir kjörfylginu eftir sextán ára stjórnarsetu. Það mátti enda sjá hvaða stjórnmálaleiðtogar eru að mælast vel og hverjir eiga undir högg að sækja. Gott dæmi um þetta var formaður Samfylkingarinnar, sem virðist pólitískt eiga mjög erfitt þessar vikur í aðdraganda kosninganna.

En nú er stóra spurningamerkið hvenær þingi lýkur og með hvaða hætti, t.d. hvort enn verði augljós átök um stjórnarskrárbreytingar eins og fram kom í kvöld. Við fáum væntanlega betri heildaryfirsýn yfir það með morgni.

mbl.is Geir: Hægt að framlengja framfaraskeiðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðtalspælingar - hugleiðingar um bloggheima

Hef fengið góð viðbrögð við viðtalinu á Rás 2 í morgun. Hefði aldrei órað fyrir því þegar að ég byrjaði að blogga í september 2002 að ég ætti eftir að enda í viðtali sem einhvers konar hugsuður og sérfræðingur í bloggmálum! En svona er þetta bara, lífið er ein stór gáta sem við leysum dag frá degi áfram þar til að við spinnumst einhverja leið sem ræðst stig af stigi. Ég fer ekkert leynt með það að ég er mjög ástfanginn af blogginu og því sem gerist þar. Hreifst af þessum vettvangi allt frá fyrsta degi og hef verið háður honum síðan.

Ég hef mikinn áhuga á að skrifa og segja mínar skoðanir, eins og þeir vita sem hafa fylgt mér frá fyrsta degi og gegnum árin fimm. Enda var spjallið í morgun mjög lifandi og hresst. Ég sagði mínar skoðanir á þessu. Margir, meðal annars Gestur Einar og Hrafnhildur, hafa alltaf spurt mig að því hvort að þetta sé ekki byrði í gegnum daginn, hvernig maður eiginlega nennir þessu. Svarið er alltaf það sama; þetta er ástríða í lífinu. Þetta er hlutur sem ég met mikils, þetta er lífsfylling fyrir mig. Þetta er mitt golf, segi ég oft glaður með minn hlut!

Bloggið er ferskt og nýtt. Ég blæs á allar úrtöluraddir andstæðinga bloggsins um að það sé loftbóla sem springi fyrr en síðar. Þetta er ferskur, opinn og lifandi vettvangur sem er kominn til að vera. Þetta gefur mér mikið og meðan að svo er læt ég móðann mása í gegnum dagsins önn. Þetta er mikilvægur hluti og þess vegna er ég svo stoltur af honum, er ekki feiminn við að tala fyrir honum. Ég tel að bloggið muni aðeins halda áfram að vaxa. Veit ekki hvort einhver hápunktur verði, en ég tel að þetta sé fastur punktur í lífsfléttu okkar bloggara.

Gott allavega að einhver hafði gaman af þessum pælingum í morgun. Vona bara að þeir sem eru í vafa um að blogga hafi sannfærst um að þetta sé rétt. Vona að vinur minn, Gestur Einar, og hún Hrafnhildur fari bara að blogga og einhverjir aðrir. Þetta er yndisleg iðja. :)


Sorglegt sjóslys

Það var mjög sorglegt að heyra í bítið í morgun fréttirnar af sjóslysinu fyrir vestan. Það er alltaf dapurlegt að heyra fréttir af svona slysum. Það nístir í bein fyrir okkur öll, enda er samfélagið fyrir vestan svo lítið og í raun samfélagið okkar allt. Öll munum við eftir samhug þjóðarinnar fyrir áratug er snjóflóðin féllu fyrir vestan. Þeim tíma gleymi ég allavega aldrei. Það voru svartir dagar fyrir okkur öll en sýndu vel hversu mjög við stöndum saman á raunastundu.

Ég votta Vestfirðingum öllum og sérstaklega fjölskyldum hinna látnu samúð mína.
 
mbl.is Sjóslys í Ísafjarðardjúpi: Flak trillunnar dregið að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....að vakna eftir áralangan dásvefn

Reversal of Fortune Það er mjög sjaldgæft að heyra af því að fólk vakni úr dái eftir fjöldamörg ár. Það er t.d. stórfrétt að kona vakni eftir sex ára svefn, en hún féll svo aftur í dá eftir nokkra daga. Fannst merkilegt að sjá fréttina um þetta, enda sá ég í gærkvöldi kvikmyndina Reversal of Fortune. Það er rosalega sterk og öflug mynd. Hún fjallar um eftirmála þess er greifynjan Sunny Von Bulow féll í dá árið 1980. Hún liggur enn í dái á sjúkrahúsi í New York, hefur sofið í tæpa þrjá áratugi, tja svefninum langa skulum við segja bara.

Enn er því haldið fram að eiginmaður hennar, Claus, hafi reynt að drepa Sunny en hann vann fræg réttarhöld, þar sem reynt var að negla hann. Deilt var um hvort að Sunny hefði reynt sjálfsvíg eða verið reynt að drepa hana. Hún var sprautuð með of stórum skammti af insúlini, en hún var sykursjúk. Enn er stóru spurningunni ósvarað hvers eðlis þetta allt var. Myndin varð mjög rómuð, sérstaklega fyrir flashback-atriðin þar sem sett eru bæði tilfellin á svið, hvort um morðtilraun eða sjálfsvígstilraun var að ræða. Virkilega vandað allt og myndin býður lesandanum fjölbreytt sjónarhorn á málið.

Það sem er einna merkilegast við myndina er hiklaust að Sunny, í gríðarlega góðri túlkun Glenn Close er sjálf sett sem sögumaður við upphaf og endi myndarinnar. Þar eru engir dómar felldir yfir því hvort sé rétt heldur málið allt sýnt og áhorfandinn dæmir sjálfur. Ég man þegar að ég sá myndina fyrst í bíó fyrir sextan árum, mikil upplifun. Keypti mér hana svo fyrir nokkrum árum og upplifði hana aftur. Sterk mynd í frásögn og túlkun aðalleikaranna. Jeremy Irons átti stórleik ferilsins í hlutverki hefðarmannsins Claus sem bæði er sýndur sem snobbaður aðalsmaður og kuldalegur eiginmaður, en það er vægt til orða tekið að sambúð þeirra var við frostmark þegar að Sunny féll í dáið. Irons hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Claus á sínum tíma, sem var mjög verðskuldað.

Ég gerði mér ferð áðan á Wikipedia til að sjá hver örlög Sunny hefðu orðið. Hún var í dái er myndin var gerð, áratug eftir að hún fannst meðvitundarlaus. Skv. alfræðivefnum yndislega er allt nákvæmlega óbreytt. Henni er enn haldið lifandi af börnum sínum, sem vilja ekki að Claus erfi hana, enda eru þau auðvitað enn gift, eins merkilegt og það hljómar eftir 27 ára dásvefn og það að hjónaband þeirra var komið rækilega á endastöð. Það var gaman að sjá myndina aftur. Leikurinn er hreinasta afbragð og myndin eldist vel. Þetta er merkilegt mál allavega.

En hvernig tilfinning ætli það sé að vakna jafnvel úr dái eftir áralangan dásvefn? Það hlýtur að vera athyglisvert, sérstaklega ef heimsmyndin manns er gjörbreytt. Mikil upplifun, en þetta er vissulega sjaldgæft. En í sjálfu sér athyglisvert að heyra af svona.

mbl.is Kona vaknar upp úr dái eftir sex ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notalegt morgunspjall hjá Gesti og Hrafnhildi

Það var mjög notalegt að fara til Gests Einars og Hrafnhildar í morgun á Rás 2 og rabba þar við þau um bloggheimana. Gaman að fá sér kaffi þar og fara í rólegheitunum yfir þessi mál með þeim. Þetta var gaman, enda fórum við yfir svo breitt svið, allt mögulegt og það var hlegið dátt og talað um allar áttir bloggheimanna; það sem er að gerast í umræðunni, pólitíkina og margt fleira. Þátturinn þeirra Gests Einars og Hrafnhildar er léttur og hress - það er því ekki hægt annað en njóta þess að mæta til þeirra og tala á mannlegu nótunum.

Það er vonandi að einhverjir hafi haft gaman af þessu. Naut þessa allavega mjög. Við Gestur Einar ræddum vel fyrir og eftir viðtalið og það var ánægjulegt að fá sér kaffibolla og tala vítt og breitt um þetta. Var einmitt að átta mig á því í miðju spjalli að ég á hálfs árs bloggafmæli hér í vikunni og það eru fimm ár á þessu ári frá því að ég byrjaði á þessu brasi. Fljótur að líða tíminn. Fannst mest gaman einmitt að tala við þau um léttu málin. Þau vildu mjög vita hvað ég skrifaði um þegar að ekkert er í fréttunum. Mikið hlegið þegar að ég sagði; veðrið á Akureyri. :)

Eftir viðtalið spilaði Gestur Einar lag með Óskari Péturssyni með texta eftir Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra. Gestur Einar veit vel að Davíð er og verður alla tíð uppáhaldsstjórnmálamaðurinn minn. Sennilega ekki verið nein tilviljun. Þetta er fallegt lag og Óskar gerir því frábær skil. Vona að Davíð muni eiga góða daga við að yrkja og skrifa bækur, helst ævisöguna, eftir bankastjóraferilinn.


Bloggspjallið við mig á Rás 2 - 14. mars 2007

Sverrir farinn - hvaða braut feta frjálslyndir í RVK?

Jón Magnússon og Magnús Þór Sverrir Hermannsson, fyrrum bankastjóri og ráðherra, sem stofnaði Frjálslynda flokkinn fyrir áratug, mun nú hafa sagt sig úr honum, ef marka má fréttir. Það eru mikil tíðindi vissulega, en æ minni í ljósi þess að Margrét, dóttir hans, og stuðningsmenn hennar hafa sagt skilið við hann ennfremur. Klofningur frjálslyndra hefur verið mikið í fréttum undanfarnar vikur, en nú stefnir í hægri grænt framboð m.a. þeirra sem hafa farið frá frjálslyndum.

Jæja, nú hafa frjálslyndir svo kynnt lista sína í höfuðborginni. Þar eru þeir félagar Magnús Þór og Jón Magnússon í fararbroddi. Það hefur blasað við síðan í haust að Jóni væri ætlaður þar leiðtogasess og undarlegar hafa þær verið tilraunir forystumanna flokksins við að neita því að þar ætti að byggja undir Jón og vonir hans um að komast á þing. Það er greinilegt að þar átti alla tíð að láta hann leiða lista. Flestir vita væntanlega hvaða braut á að feta í þeirri pólitík, eða er það ekki annars? Tel svo vera, það hefur blasað við lengi hvert eigi þar að stefna.

Magnús Þór er kominn í framboð í Reykjavík. Það verður fróðlegt hvernig baráttan verði með hann þar. Þessir tveir menn hafa verið þekktir fyrir það undanfarnar vikur að tala óvenju hvasst í innflytjendamálum. Það verður fróðlegt að sjá hvaða dóm kjósendur í Reykjavík fella yfir þeim og þeirra stefnu. Skv. síðustu könnun Gallups eru þessir menn báðir inni, en sem jöfnunarmenn báðir. Þeir eru því ekki eins öruggir nú og var t.d. fyrir nokkrum vikum. Það er vonandi að hvorugur þeirra komist inn á þing, segi ég bara.

mbl.is Magnús Þór og Jón Magnússon í fyrstu sætunum í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunspjall með Gesti Einari og Hrafnhildi

Ég mun fá mér morgunkaffi með Gesti Einari og Hrafnhildi í fyrramálið á Rás 2 laust eftir hálfníu. Við ætlum að ræða í bítið um bloggmenninguna og ýmislegt skemmtilegt tengt blogginu. Verður eflaust mjög skemmtilegt spjall og áhugavert. Virkilega gott að fá boð um að spjalla í svona góðum þætti, en ég hlusta alltaf á þáttinn þeirra og finnst hann bestur af þeim sem eru snemma á morgnana.

Bloggfærslur 14. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband