Stórundarlegur dómur

Ég verð að viðurkenna að ég varð nokkuð hissa þegar að ég sá fréttina um dóm héraðsdóms Norðurlands vestra í þessu myndsímamáli. Mjög athyglisvert. Það er eitthvað alveg nýtt að ákæruvald hafi þurft að sýna fram á kynferðislega örvað hugarástand til að fá menn dæmda fyrir brot á 209. grein hegningarlaganna. Það hefur hingað til þótt nóg að fyrir liggi að ákærðir fremdu tiltekna athöfn sem særði blygðunarkennd fólks.

Það getur varla annað verið en að þessum dómi verði áfrýjað og honum snúið við fyrir Hæstarétti Íslands. Fátt annað hægt að segja svosem um þetta.


mbl.is Sýknaður af ákæru fyrir að taka mynd af naktri konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spænskur sigur á Mallorca - vondar leikaðstæður

Úr leik Spánverja og Íslendinga Horfði áðan á leik Íslands og Spánar sem fram fór á Mallorca. Þetta var bara nokkuð skemmtilegur leikur miðað við markaþurrðina í bleytunni. Leikaðstæður voru vægast sagt vondar, en það hellirigndi allan tímann og mátti vart á milli sjá hvort þetta væri mýrarbolti eða fótbolti.

Spánverjar eru komnir með 9 stig eftir fimm leiki en Ísland er með þrjú stig eftir fimm leiki. Vonandi gengur betur í næstu leikjum.

Árni Gautur var maður leiksins - hann stóð sig virkilega vel. Alveg virkilega góður dagur hjá honum. Leitt að ekki tókst að skora.

mbl.is Spánverjar sigruðu Íslendinga 1:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn stærstir í NV - VG í mikilli sókn

Fylgi í Norðvesturkjördæmi Stöð 2 hóf kosningaumfjöllun sína fyrir stundu, 46 dögum fyrir alþingiskosningar, með kosningafundi í Stykkishólmi og skoðanakönnun í Norðvesturkjördæmi. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka en VG er í mikilli sókn og rúmlega tvöfaldar kjörfylgið á meðan að Samfylking, Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkur tapa fylgi en Íslandshreyfingin nær ekki miklu flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Samfylking mælast með tvö þingsæti í könnuninni en Framsókn og Frjálslyndir mælast með einn mann. Skv. því eru inni; Sturla Böðvarsson og Einar Kristinn Guðfinnsson (Sjálfstæðisflokki), Jón Bjarnason og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (VG), Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson (Samfylkingu), Magnús Stefánsson (Framsókn) og Guðjón Arnar Kristjánsson (Frjálslynda flokknum). Ekki var sagt hvaða framboð hefði jöfnunarsætið þó líklegast sé að það færi til Sjálfstæðisflokks í þessari mælingu.

Sjálfstæðisflokkurinn: 28,4% - fékk 29,6% í kosningunum 2003
VG: 23% - fékk 10,6% í kosningunum 2003
Samfylkingin: 20,6% - fékk 23,2% í kosningunum 2003
Framsóknarflokkurinn: 14,3% - fékk 21,7% í kosningunum 2003
Frjálslyndir: 9,7% - fékk 14,2% í kosningunum 2003
Íslandshreyfingin: 2,9%

Stöð 2 var með góða umfjöllun í kvöld frá Stykkishólmi. Góðar viðræður og farið vel yfir stutta sögu kjördæmisins og pólitíska fortíð svæðisins, þeirra þriggja gömlu kjördæma sem mynda Norðvesturkjördæmi. Egill Helgason var með athyglisverða umfjöllun og vandaða. Aðeins karlmenn leiða lista flokkanna fimm sem eiga þingsæti í kjördæminu. Enn er ekki vitað hver leiðir lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi, frekar en almennt um allt land. Íslandshreyfingin átti engan fulltrúa í þættinum, enda enginn listi þar kominn fram.

Í þættinum var að mestu rætt um atvinnu- og samgöngumál. Það er alveg ljóst að þetta verða stóru málefni kosningabaráttunnar á landsbyggðinni. Það er svosem engin furða, enda lykilmál þar algjörlega. Það skilja allir á svona víðfeðmu svæði, dreifbýlisbyggðunum, en sennilega eru mestar vegalengdir í Norðvesturkjördæmi af öllum kjördæmunum sex. Annars eru landsbyggðarkjördæmin þrjú mjög víðfeðm og erfið viðureignar. Það vita allir sem um þau hafa ferðast. Það er enda mikið verkefni að vera frambjóðandi þar og þurfa að sinna mjög ólíkum svæðum.

Áberandi var að sjá hversu innantómur Jón Bjarnason, leiðtogi VG, var í viðræðunum. Þar var tuggið mjög litlaust á gömlum klisjum og innantómu blaðri. Engin ný sýn eða ferskleiki. Það voru að mínu mati merkilegustu tíðindi umræðunnar hversu lítið kom frá honum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Jón heldur flugi í gegnum kosningabaráttuna með svona boðskap. Guðbjartur talaði af meiri viti og stóð sig mun betur. Guðjón talaði mikið um innflytjendamálin og greinilegt að frjálslyndir ætla að reyna að redda sér á því tali. Sturla stóð sig mjög vel.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Norðvesturkjördæmi eins og annarsstaðar. Þessi könnun sýnir vel bylgjuna til VG og ennfremur að Framsókn og Samfylking eru í varnarbaráttu. Annars er þetta besta mæling Samfylkingarinnar um nokkuð skeið á þessu svæði, en það er greinilegt að þeir bæta ekki við sig á kostnað VG, en lítill munur er á milli fylkinganna. Greinilegt er að Frjálslyndir styrkjast ekki á innkomu Kristins H. Gunnarssonar, Framsókn dalar mjög og Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu fylgi.

Stöð 2 á heiður skilið fyrir góða umfjöllun. Þeir sendu fréttir út líka frá Stykkishólmi. Vel gert hjá þeim og vandað. Þeir starta kosningaumfjölluninni með glans fyrst ljósvakamiðlanna. Sýna þeir vel að einkareknir fjölmiðlar geta sinnt því mjög vel að fjalla um stjórnmálin og málefni landsbyggðar. Kannski er það vegna þess að maður frá landsbyggðinni stýrir fréttastofunni þar, enda er Sigmundur Ernir Rúnarsson Akureyringur að uppruna. Þeir ætla ekki að vera með síðri umfjöllun en NFS sáluga í kosningunum fyrir ári.

Það verður fróðlegt að sjá mælingu flokkanna í Norðausturkjördæmi eftir viku, en þá verður útsending frá Akureyri og umræður leiðtoga flokkanna og birt könnun Félagsvísindastofnunar á fylgi framboðanna sex sem verða hér.

Íslendingar skotnir í Josh Groban

Josh Groban Það er greinilegt að Íslendingar eru skotnir í Josh Groban, ef marka má aðsóknina á tónleika hans í maí og áhugann á þeim. Þar varð uppselt í forsölu á einni mínútu. Það munu vera 700 miðar. Ótrúleg aðsókn hreint út sagt. Þetta er nú með því ótrúlegra held ég hreinlega. Það er greinilegt að þeir sem ætla að fá sér miða í almennri sölu á morgun verða að vera duglegir að berjast fyrir miðum.

Josh Groban er að mig minnir ekki nema 26 ára gamall. Er með ótrúlega góða lýríska baritónsöngrödd. Það eru svona fjögur til fimm ár síðan að hann sló í gegn. Minnir að fyrsta alvörulagið hans hafi verið To Where You Are, sem Óskar Pétursson söng í íslensku útgáfunni. Annars þekki ég feril hans svosem ekkert mikið meira, veit þó reyndar að mamma hans er ættuð að einhverju leyti frá Noregi, en faðir hans er af gyðingaættum. 

Eitt þekktasta lag Josh Groban, You Raise Me Up, er hér í spilaranum. Óskar Pétursson hefur líka sungið það í íslensku útgáfunni. Norðmaður samdi lagið. Margir vilja meina að það sé undir áhrifum að lagi Jóhanns Helgasonar, Söknuður, sem Villi Vill gerði ódauðlegt skömmu fyrir andlát sitt fyrir þrem áratugum. Þau eru sláandi lík þessi tvö lög allavega.

mbl.is 700 miðar seldust á innan við mínútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörð barátta í Norðaustri - sótt mjög að VG

SJSÞað blasir við eins og staðan er nú að að mikil barátta verði hjá öllum flokkum gegn VG í Norðausturkjördæmi - þar verði hjólað af fullum krafti gegn Steingrími J. Sigfússyni. Kosningabaráttan er að hefjast af krafti, kannanir sýna gríðarlega fylgisaukningu VG í kjördæminu í nýjustu könnun Gallups. Þar mælist VG með fjóra kjördæmakjörna menn af níu og 36% fylgi. Má öllum vera ljóst að spjótin munu standa gegn VG í þeirri stöðu og má eiga von á harkalegri kosningabaráttu.

Steingrímur J. Sigfússon er orðinn aldursforsetinn á svæðinu í framboðsmálum. Það blasir við að eftir þingkosningarnar í vor hefur aðeins Jóhanna Sigurðardóttir setið lengur á þingi. Steingrímur J. var fyrst kjörinn í þingkosningunum 1983, þá aðeins 27 ára gamall. Það voru t.d. aðrar kosningarnar hans Halldórs Blöndals á þingi, Valgerður Sverrisdóttir var ekki komin til sögunnar sem þingmaður en var varaþingmaður fyrsta tímabil Steingríms og Ingvar Gíslason leiddi framsóknarmenn. Stefán Valgeirsson var einn héraðshöfðingjanna og Lárus Jónsson leiddi þá sjálfstæðismenn. 

Aðrir sem voru þá framarlega í pólitík hafa fyrir lifandis löngu kvatt stjórnmálin og eru ekki í minni yngstu kjósendanna. Ár og dagar hafa liðið. Enda spyrja sig margir nú; verða þetta kosningarnar hans Steingríms J? Hann hefur verið lengi í stjórnmálum. Sem dæmi má nefna að hann hefur verið í stjórnarandstöðu í 21 ár af þeim 24 árum sem hann hefur setið á þingi. Honum hefur þó tekist að verða ráðherra, en hann var landbúnaðar- og samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Það voru semsagt tíu ár sem liðu frá því að Steingrímur J. varð ráðherra og þar til að Valgerði Sverrisdóttur tókst það. Hún er nú orðin þaulsetnasta konan í ríkisstjórn í sögu Stjórnarráðsins.

Kristján MöllerEins og mælingin lá síðast hjá Gallup var Samfylkingin í tómu tjóni; orðin minnst fjórflokkanna sem mann eiga nú í Norðausturkjördæmi og mældist aðeins með einn þingmann; leiðtoga sinn, Kristján L. Möller. Þar virðist Samfylkingin vera að veslast algjörlega upp og VG að græða mjög á fylgisaukningunni. Kunnugir velta mjög vöngum yfir því hvort að Samfylkingin á Akureyri sé að hrapa og missa mikið fylgi yfir til VG. Tapar Samfylkingin á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hér?

Flestum þykir fylgisaukning þeirra liggja altént mjög í Eyjafirði. Sé svo er erfið barátta framundan fyrir Samfylkinguna og hörð barátta milli vinstriaflanna um vinstrafylgið. Þar virðast átök þeirra liggja. Í síðustu kosningum fékk Samfylkingin tvo menn inn og var á mörkum þess að ná þeim þriðja. Í nýjustu mælingum er Einar Már fallinn og Lára Stefánsdóttir mjög fjarri því að ná inn. Það má því búast við að þau reyni að heilla hörðustu vinstrimennina aftur heim fyrir kosningar; með öðrum orðum, hjóla í Steingrím J. Einfalt það!

Kristján ÞórSíðustu mánuði hefur Kristján Þór Júlíusson, fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, verið að mælast sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og sjálfstæðismenn rokkað á milli þess að hafa þrjá eða fjóra þingmenn en ávallt með leiðandi stöðu frá prófkjörssigri Kristjáns Þórs í nóvember þar til nú. Hans markmið virðist skýrt; fyrsta þingmannssætið tryggt þeim og að ná í ofanálag 30% fylgi; semsagt bæta miklu við sig og negla þriðja mann inni og reyna við þann fjórða. 

Það hljóta að teljast gríðarleg vonbrigði fyrir Kristján Þór að sjá þessa mælingu Steingríms J. og VG nú, enda er öllum ljóst að það mun hafa mikil áhrif á stöðu Kristjáns Þórs sem ráðherraefnis hvort hann verði fyrsti þingmaður kjördæmisins eður ei. Fái flokkurinn ekki umtalsverða sveiflu frá síðustu kosningum sem voru flokknum mjög vondar eru ráðherradraumar hans algjörlega úti. Að því verður barist hjá sjálfstæðismönnum; tryggja forystu í kjördæminu og að leiðtoginn fái ráðherrastól. Í öllum könnunum eru sjálfstæðismenn að bæta við sig þónokkru og aðeins spurning um það hversu mikið fylgið aukist.

Valgerður SverrisdóttirFramsóknarflokkurinn hefur mælst að undanförnu með tvo menn á svæðinu, missir samt sem áður tvo þingmenn, sem verður þeim vissulega mjög mikið áfall. Framsóknarmenn gera sér vel grein fyrir því að fjórða þingsætið síðast var óvæntur happdrættisvinningur sem þeir geta ekki gert sér vonir um að hljóta aftur. Í síðustu kosningum var Dagný Jónsdóttir stjarna. Á þeim ljóma komst Birkir Jón líka inn á þing, mörgum að óvörum.

Nú leggur Framsókn allt kapp sitt á að tryggja Akureyringinn Höskuld Þórhallsson inn á þing úr þriðja sætinu. Það yrði túlkað sem mikill varnarsigur næðist það, enda virðist fyrsta þingmannssætið að öllum líkindum fallið Valgerði Sverrisdóttur nú úr greipum. Hún þarf eiginlega pólitískt kraftaverk, eins og síðast, til að verja það. Segja má að Valgerður spili vörn, enda verður fyrri árangur ekki toppaður. Því verði reynt að ná inn þriðja manni og varnarsigri eftir vondar mælingar. Eins og allir vita hér er vonlaust að útiloka að Framsókn eflist. Það segir sagan okkur mjög vel!

SÞSamkvæmt skoðanakönnunum eiga frjálslyndir erfiða baráttu framundan. Þeir hafa ekki mælst með mann inni og aldrei fengið þingmann á þessum slóðum. Sigurjón Þórðarson berst fyrir því að halda þingsæti sínu og virðist eiga langt í land skv. síðustu skoðanakönnunum. Hann komst síðast inn með Guðjóni Arnari en verður nú einn að leiða kosningabaráttu, berjast fyrir sætinu sínu á nýjum slóðum.

Ekki er enn vitað hver leiðir framboð Íslandshreyfingarinnar, en hún segist bjóða fram í öllum kjördæmum eins og flestir vita. Það verður fylgst vel með því hér um slóðir. Ekki hafa margar sögur heyrst, en þó hefur heyrst að Jakob Frímann Magnússon fari fram hér í fylkingarbrjósti. Ekki er þó hægt að fullyrða það svosem. Flokkurinn hefur ekki mælst hér - er hér óskrifað blað algjörlega.

Eins og staðan er nú er baráttan á milli VG annarsvegar og svo allra hinna aflanna í raun. Merkileg staða það. Hörð barátta. Staða VG er með þeim hætti að allir sækja að þeim. Þeir hafa enda bætt svo miklu við sig að þeir hafa verið sem ryksuga um allt við að safna fylgi úr öllum áttum, nema að því er virðist úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru því mjög stórir nú og allir flokkar, einkum Samfylkingin og Framsókn, sækja að því að taka fylgið frá þeim sem þeir hafa áður tekið úr þeirra átt.

Í síðustu kosningum voru Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur meginpólarnir. Kannanir lágu þannig óralengi að það væri staða mála hvort að Halldór Blöndal eða Kristján Möller yrði fyrsti þingmaður kjördæmisins. Átökin voru enda mikil milli flokkanna alla baráttuna. Framsókn fékk með því nokkuð fríspil og tókst með því að skjótast verulega framúr það sem flestir töldu stærstu flokkana; sótti mikið fylgi á lokasprettinum.

Framsókn náði því að skáka báðum þessum flokkum og hlaut um tíu prósentustigum meira en þeir; urðu sigurvegarar kosninganna. Það gerist varla núna. En aðeins munaði 41 atkvæðum þó á Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu er á hólminn kom. Sjálfstæðisflokkurinn rétt marði því stöðu sem næststærsti flokkurinn og Halldór Blöndal varð annar þingmaður kjördæmisins. VG var þá fjarri öllum slíkum markmiðum. Staða þeirra nú er því mjög athyglisverð - allt önnur vissulega.

Að VG verður mjög sótt. Það sést vel á byrjun kosningabaráttunnar. En það eru enn tæpar sjö vikur til kosninga og allt getur gerst. Það vitum við sem unnum í baráttunni síðast. Engum, nema kannski framsóknarmönnum, hefði órað fyrir á sama tíma fyrir kosningarnar 2003 að þeir hlytu svo sterka stöðu og fjóra þingmenn. Það er ekkert öruggt í þessum bransa.

Þetta verða spennandi kosningar - mikil barátta og beitt átök. Svo mikið er allavega víst.


Björgunarþyrlu til Akureyrar - lausn í sjónmáli?

Kristján Þór JúlíussonEins og flestum er kunnugt hefur verið uppi sterk krafa héðan frá Akureyri um að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar skuli vera staðsett hér á Akureyri. Kristján Þór Júlíusson, forseti bæjarstjórnar og fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, ítrekaði þessa skoðun sína og bæjaryfirvalda á Akureyri, allra bæjarfulltrúa og umfram allt skoðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í sjónvarpsviðtali í vikunni.

Það er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er.

Það er algjör grunnkrafa við þau þáttaskil sem blöstu við eftir brotthvarf varnarliðsins og ljóst væri að fjölga yrði björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjört glapræði að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er nýja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar.

BjörgunarþyrlaÞað verður að dreifa kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum sem fylgir brotthvarfi Varnarliðsins rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla.

Skoðun Kristjáns Þórs Júlíussonar og afgerandi tal hans skiptir máli. Þó að kosningabarátta sé hér á fullu hafin er þetta mál sem er ekki flokkspólitískt. Það er skoðun allra hér, enginn vafi á því. Það að kjördæmaleiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og lykilmaður í sveitarstjórnarmálum hér á Akureyri í áratug tali svo afgerandi mun vonandi verða til þess að höfuðborgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vakni til lífsins í þessu máli!

Fróðlegur fundur með Valgerði Sverrisdóttur

Valgerður Sverrisdóttir Ég var í kvöld á fundi með Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra og fyrsta þingmanni Norðausturkjördæmis, sem við aðstandendur bæjarmálavefritsins Pollsins héldum með henni í kvöld. Er hún þriðja í röð leiðtoga flokkanna í kjördæminu við komandi kosningar sem mætir til slíkra funda, en öllum þeim sem leiðir hér lista er boðið til slíkra funda. Eftir eiga því að koma eftir páskana þeir Kristján Þór Júlíusson, Sigurjón Þórðarson og leiðtogi Íslandshreyfingar í kjördæminu, sem ekki er enn vitað hver verður.

Flutti Valgerður stutta kynningu í upphafi, en síðan var orðið einfaldlega gefið laust og gripu flestir tækifærið til að rabba um pólitíkina frá víðum grunni. Var þetta líflegt og gott spjall, svona algjörlega mér að skapi. Naut þessa mjög vel allavega. Stærstu umræðuefnin sem skipta máli að okkar mati eru að sjálfsögðu málefni Akureyrar og Eyjafjarðar. Valgerður hefur verið þingmaður þessa svæðis í tvo áratugi og verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2003, er auk þess þungavigtarmanneskja í pólitísku starfi almennt sem lykilráðherra í ríkisstjórn landsins. Það var því gaman að skanna málefni svæðisins og landsmálanna heilt yfir með henni.

Við erum fjarri því sammála um alla hluti, en það er virkilega gaman að taka svona spjall engu að síður. Sýn okkar á þessum vef eru skiljanlega málefni Akureyrar og nærsvæðis. Það er og mun vera upplegg allra fundanna. Verst var bara að við fengum ekki nægilega góðan tíma, en hún þurfti að fara suður með síðustu vél og sat því aðeins með okkur í klukkutíma. En það voru lífleg skoðanaskipti á fundinum og gott spjall. Hefði verið gott að hafa lengri tíma, stúdera í stöðuna í stjórnmálunum og ræða málefni utanríkisráðuneytisins en það bíður betri tíma.

Ef marka má nýjustu kannanir Gallups á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi stefnir í að kosningabaráttan hér næstu vikurnar verði erfið fyrir Valgerði. Framsókn mælist þar jafnan með tvo þingmenn, myndu missa tvo frá sigrinum mikla sem þau hlutu hér í kosningunum 2003. Þá vann Framsóknarflokkurinn afgerandi sigur; hlaut fjóra þingmenn og yfir 30% fylgi. Nú stefnir í mun minna fylgi, spurningin virðist aðeins vera hversu mikið fylgi Framsókn og Valgerður muni missa. Það hlýtur að valda Valgerði vonbrigðum.

Valgerður mun án vafa veikjast mjög í sessi fái flokkurinn skell af því tagi sem kannanir sýna nú og hún myndi missa sess sinn sem fyrsti þingmaður kjördæmisins. Margir virðast hér ganga að því sem gefnu að þetta sé síðasta kosningabarátta Valgerðar og hún leggi nú allt í sölurnar fyrir gott gengi. Miklar breytingar blasa við með brotthvarfi beggja þingmanna flokksins frá Austjörðum og innkomu nýrra frambjóðenda ofarlega á listann. Enginn Austfirðingur er í fjórum efstu sætum og því viss þáttaskil fyrir flokkinn hér.

Valgerður er fyrsta konan á ráðherrastóli í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Sérstaklega varð sögulegt þegar að hún varð utanríkisráðherra, enda með því valdamesta konan til þessa í sögu Stjórnarráðs Íslands. Valgerður er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Valgerður hefur verið þingmaður okkar hér í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt kom hún alltaf fram sem sigurvegari.

Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Hún vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með yfirburðum í baráttu við Jón Kristjánsson árið 2003.

Valgerður hefur því vissulega alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára. Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Aðeins Valgerður hlaut kjör í NE og í fyrsta skipti missti Framsókn fyrsta þingsæti kjördæmisins, missti hann til Sjálfstæðisflokks.

Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Hefur barátta hennar og flokksins verið mikil varnarbarátta og verður það að óbreyttu í kosningunum eftir tæpar sjö vikur. Það verður fróðlegt að sjá hvort að sögulegur sess hennar sem fyrsta kvenkyns utanríkisráðherrans styrkir hana.

Valgerður Sverrisdóttir er eins og fyrr sagði mikil kjarnakona að mínu mati. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins.

En þetta var góður fundur í kvöld og ég þakka Valgerði kærlega fyrir komuna. Það var ánægjulegt að ræða málefni kjördæmisins við hana á þessari kvöldstund.

Bloggfærslur 28. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband