8.3.2007 | 20:33
Innihaldslaust tilboð stjórnarandstöðunnar
Þetta voru í reynd aðeins orðin tóm og fylgdi ekki neinn hugur máli. Stjórnarandstaðan sem í vikubyrjun vildi auðlindaákvæði í stjórnarskrá hristir sig frá málinu og segir hið fornkveðna með gamla góða orðalaginu sínu, ekki svona - bara einhvernveginn öðruvísi. Þetta er frekar kostulegt á að horfa, en samt eitthvað svo fyrirsjáanlegt. Það var enda hugsun mín á mánudag að þetta væri hreinn leikaraskapur og í raun bara til að slá ryki í augu fólks. Andstaðan hafði greinilega enga trú á að Framsókn fengi ákvæðið í gegn með svo áberandi hætti og gæti staðið uppi sem einhver sigurvegari. Því eru vonbrigði stjórnarandstöðunnar vissulega skiljanleg.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem nú er mætt heim sem kanarífuglinn úr sólarlandafríi í kjörtímabilslok, virkaði frekar undarleg í sjöfréttunum. Hún hefur sennilega ekki séð fyrir að hún yrði utan við hita stjórnmálanna verandi á sólarlendum Kanaríeyja. Hún missti af mesta hita stjórnarsamstarfsins frá fjölmiðlamálinu og ennfremur blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar á mánudag sem þingflokksformaðurinn sat í fjarveru formanns og varaformanns. Það er að heyra á Össuri og Ingibjörgu að þetta séu óásættanlegar breytingar. Er þetta ekki það sem alla tíð var talað um? Er þetta ekki auðlindaákvæði byggt á tillögum auðlindanefndar.
Þetta gylliboð stjórnarandstöðunnar á mánudag var leiktjaldasýning af veglegustu sort. Þar bjó ekkert að baki. Það var ekki gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin gæti náð saman og því er haldið í fjallabaksleið til að reyna að afmerkja sáttina. Erum við að sjá fram á hörð átök um þessa stjórnarskrárbreytingu innan við 70 dögum fyrir kosningar? Verður þingið lengt og mun kosningabaráttan styttast? Allt í einu er óvissa komin yfir málið, enda hafa leiktjöld stjórnarandstöðunnar fallið og eftir stendur aðeins napur steinveggur.
Já, það er margt skondið í henni veröld, ekki satt?
![]() |
Össur: Stjórnarskráin pólitískt bitbein stjórnarflokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2007 | 16:40
Auðlindaákvæði sett í stjórnarskrá - frumvarp lagt fram af formönnum stjórnarflokkanna á Alþingi
Samkomulag hefur náðst milli stjórnarflokkanna um að festa auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, kynntu á blaðamannafundi fyrir stundu frumvarp sem þeir leggja fram sameiginlega um stjórnarskrárbreytingarnar sem gera ráð fyrir að ákvæðið nái til allra náttúruauðlinda. Ef marka má ummæli fulltrúa stjórnarandstöðunnar á mánudag ætti að vera hægt að koma málinu í gegn hratt og örugglega.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá vorinu 2003 segir að setja skuli ákvæði í stjórnarskrá þess efnis að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Eins og flestir vita náðist ekki samkomulag um málið í stjórnarskrárnefnd sem hefur starfað undanfarin tvö ár og hafa formenn stjórnarflokkanna því tekið málið á sína arma í samvinnu við stjórnarþingmenn og keyrt í gegn samkomulag um að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá. Það virðist vera samstaða um málið meðal allra þingflokka og því verður þetta væntanlega afgreitt með hraði fyrir þinglok sem eru áætluð í næstu viku.
Það er ekki fjarri lagi að líta svo á að Framsóknarflokkurinn hafi haft sigur í þessu máli. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, og aðrir forystumenn flokksins hafa lagt mikla áherslu á þetta mál á meðan að hik hefur verið á sjálfstæðismönnum. Framsókn gerði mál úr þessu og öllum varð ljóst eftir blaðamannafund stjórnarandstöðunnar á mánudag að mögulega yrðu aðeins þingmenn Sjálfstæðisflokksins andsnúnir slíku. Taldi ég eftir það einsýnt að þetta ákvæði yrði sett inn í stjórnarskrá og um það myndaðist samstaða meðal stjórnarinnar í heild sinni. Svo fór.
Það hefur tekið tíma að ná þessu samkomulagi. Sitt sýnist eflaust hverjum um lyktir mála. Með þessu er efnd sameiginleg áhersla ríkisstjórnarinnar úr stjórnarsáttmála vorið 2003 í samningaviðræðum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Það verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni um þetta frumvarp og hvort að auðlindamálin verða yfir höfuð eitthvað rædd í kosningabaráttunni næstu tvo mánuðina.
![]() |
Formenn stjórnarflokka flytja frumvarp um stjórnarskrárbreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.3.2007 | 15:32
Klámummælin umdeildu fjarlægð
Það er gleðiefni að sjá að Guðbjörg Hildur Kolbeins hefur fjarlægt hvöss ummæli sín um forsíðu auglýsingablaðs Smáralindar, þar sem sagt var að hún væri klámfengin. Varð ég nokkuð hissa á þeim skrifum, eins og sjá mátti hér á vefnum. Það voru mun harðari orð en tilefni gaf til. Eflaust má hafa ólíkar skoðanir á þessu blaði og hversu vel forsíðan sé stíliseruð, en ummælin voru alltof hörð.
Það virðist vera almenn undrun á netinu á þessum ummælum, sem varla er furða. Það má vissulega velta því fyrir sér hvað sé klám og hvað ekki. Sárasaklaus auglýsingaforsíða sem gefur varla neitt klámfengið til kynna hefur allavega fengið umfjöllun og vel það. Það hefur mun meira verið rýnt í hana en ella hefði eflaust orðið.
Þetta hefur verið mál sem hefur verið rætt - flestir hafa á því skoðun. Guðbjörgu tókst allavega að komast í umfjöllun og vefurinn hennar hefur komist í miðpunkt athygli hér á moggablogginu. Það var rétt hjá henni að taka skrifin út og vonandi munu öldur lægja eftir það.
En eftir sem áður stendur að þetta voru of harkaleg orð og þessi auglýsingapési fékk einum of hvassa gusu á sig. Svo var þetta auðvitað frekar leitt fyrir fyrirsætuna að lenda í miðpunkti svona máls. En vonandi lýkur þessu í góðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.3.2007 | 13:58
Hver mun stjórna Akureyrarstofu?
33 umsóknir voru um stöðu framkvæmdastjóra Akureyrarstofu, markaðs-, menningar- og ferðamálaskrifstofu Akureyrarbæjar. Átök voru á milli meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn Akureyrar fyrir nokkrum vikum um það hvort auglýsa ætti starfið. Lagðist bæjarfulltrúi Samfylkingar, sem situr í stjórn Akureyrarstofu, gegn því mati formannsins í nefndinni að auglýsa stöðuna. Voru átök uppi milli fulltrúa flokkanna þar til þeir náðu loks samkomulagi eftir sérstakan sáttafund leiðtoga meirihlutaflokkanna með nefndarmönnunum.
Fjöldi umsækjenda segir allt sem segja þarf um það að mikill áhugi er fyrir verkefninu. Hjá Akureyrarstofu eru enda mörg spennandi tækifæri og eðlilegt að fjöldi fólks vilji eiga möguleika á að stýra slíku starfi. Það að ekki hafi verið samstaða í upphafi um að auglýsa starfið vakti athygli og umræðu stjórnmálaáhugamanna í bænum. Það á að sjálfsögðu að vera algjört grunnmál að svona stöður séu auglýstar lausar til umsóknar, sérstaklega við þessar aðstæður, enda er með því landslagið skannað og athugað hverjir hafi áhuga á stöðunni, sem er ný.
Fjöldi mjög hæfra einstaklinga sækir um þessa stöðu. Það ætti því ekki að vera vandamál að velja hæfan einstakling til verka við að stjórna Akureyrarstofu. Þarna eru bæði einstaklingar innan og utan bæjarkerfisins og verður fróðlegt að sjá hver fái hnossið. Ég er þess fullviss að Akureyrarstofa muni hlúa að þeim þáttum vel sem henni er ætlað og hún mun marka góðan grunn í menningar- og markaðsmálum hér í sveitarfélaginu.
Miklu máli skiptir hver muni halda á verkefninu. Fyrst og fremst gleðst ég yfir því að framkvæmdastjórastaðan var auglýst. Allt annað hefði verið óeðlilegt verklag og undraðist ég mjög að Samfylkingin hafi verið mótfallin því í fyrstu að leyfa fólki úr ólíkum áttum að sýna áhuga á að stjórna þessum verkefnum. En það er gleðiefni að Samfylkingin skipti um skoðun.
Nú verður fróðlegast að sjá hvern meirihlutinn velji úr fjölbreyttum umsækjendahópi til að halda utan um metnaðarfull verkefni í málaflokkunum sem marka Akureyrarstofu. Hvort leitað verði inn í bæjarkerfið eður ei.
Grein áður birt á bæjarmálavefritinu Pollinum, 7. mars 2007.
8.3.2007 | 13:20
Samkomulagi náð í auðlindamálinu
Stjórnarflokkarnir hafa nú náð samkomulagi í auðlindamálinu sem verður væntanlega kynnt síðar í dag af leiðtogum stjórnarflokkanna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Jóni Sigurðssyni, viðskiptaráðherra. Þetta hefur verið hitamál síðustu dagana og margir fundir verið í þingflokkum stjórnarflokkanna og milli formanna flokkanna.
Það verður fróðlegt að sjá hvert samkomulag flokkanna sé. Menn munu eflaust rýna í það hvor flokkurinn hafi gefið meira eftir eða hvort þeir mætist á miðri leið, eins og jafnan gerist í samsteypustjórn tveggja stjórnmálaflokka.
Það eru aðeins tveir mánuðir til kosninga og ljóst að þetta er síðasta áberandi krísa ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu, en starfstíma þingsins á kjörtímabilinu lýkur væntanlega í næstu viku.
![]() |
Samkomulag um auðlindamál sagt vera í sjónmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2007 | 12:19
Félagsmálaráðherra fær aðsvif í þingsalnum

Rúm sex ár eru liðin síðan að Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra, hneig niður í þinghúsinu í miðju sjónvarpsviðtali með Össuri Skarphéðinssyni, þáv. formanni Samfylkingarinnar. Ingibjörg dvaldist nokkurn tíma á sjúkrahúsi og tók sér hlé frá störfum. Halldór Ásgrímsson, þáv. utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sinnti á meðan störfum hennar. Ingibjörg þjáðist af ofþreytu og sló niður en hún hafði verið undir miklu álagi vegna umræðu daga og nætur um viðbrögð stjórnarflokkanna við öryrkjadómnum. Ingibjörg ákvað í kjölfarið að hætta þátttöku í stjórnmálum og hætti sem heilbrigðisráðherra um páskana 2001. Magnús varð þingmaður við afsögn Ingibjargar.
Það eru fá önnur dæmi um að ráðherrar og þingmenn veikist á vinnustað sínum en þetta er áminning til ráðherrans og eflaust allra annarra að fara vel með sig og láta stress og álag ekki hafa áhrif á hversdagslegt líf. Það er enda ljóst að ráðherrann hefur ekki hugsað nógu vel um heilsuna.
![]() |
Talið að sykurfall hafi orðið hjá Magnúsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2007 | 02:07
Klám í boði Smáralindar?
Sá loksins forsíðuna áðan. Varð eiginlega allnokkuð hissa við þá sýn, enda sá ég ekki "klámið" á forsíðunni. Kannski undarleg stelling og allt það, en ummælin eru varla eðlileg miðað við þetta. Frekar hörð orð. Skil þau eiginlega ekki. Er þessi mynd svo afleit að hún réttlæti þetta harða og grófa orðaval? Finnst það ekki. Það er orðið langt gengið ef flokka á þessa forsíðu sem klám.
Klám má flokka ansi vítt held ég ef það á að flokka þessa forsíðumynd undir það. Eru þetta ekki bara einhverjir öfgar? Hallast að því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.3.2007 | 00:25
Er VG alvara með netlögguhugmyndinni?
Frelsiselskandi fólk kipptist við fyrir skömmu þegar að Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, talaði fyrir einhvers konar netlögreglu með kínversku yfirbragði. Ekki voru ummæli Sóleyjar Tómasdóttur í Silfri Egils um síðustu helgi til að dempa niður umræðuna gegn þessum hugmyndum eða draga úr inntaki þess sem meint var. Sóley er ansi róttækt í femínistatali sínu og mörgum varð frekar brugðið við ummæli hennar, enda er Sóley sem ritari VG einn af forystumönnum þessa flokks.
Ekki get ég sagt að ég sé mjög hrifinn af þessum hugmyndum. Ég varð þó hissa á þessu innleggi í stjórnmálapælingarnar, enda taldi ég slíkar hugmyndir varla eiga sér nokkurn málsvara. En það kemur svosem fátt á óvart úr þessari átt. Steingrímur hefur jú verið forystumaður og þingmaður flokka sem predikað hafa í senn bæði forræðishyggju og frelsishatur í yfir tvo áratugi. Þessi ummæli vekja vonandi einhverja til umhugsunar um það hvernig samfélag Steingrímur J. og sumir fylgismenn hans vilja sjá. Þar er fetað mörg skref til fortíðar og ekki hikað við það í rauninni. Þetta er nakin forræðishyggja sem við sjáum þarna.
Sóley fannst mér ekki færa glæsilega sýn á þessa hugmynd. Hún gekk eiginlega lengra en formaðurinn. Þetta kalla ég eiginlega forræðishyggju. Vill fólk almennt fá svona netlöggu í formi ríkisins, stóra bróður okkar allra, yfir okkur öll á öxlinni þegar að við förum á netið? Viljum við forræðishyggju kraumandi í samfélaginu? Varla, svona í sannleika sagt. Sóley hlýtur að hafa fengið marga frelsissinna eða hugsandi fólk til að spá í fyrir hvað VG stendur almennt í stjórnmálum. Það er allavega ekki fyrir hugsjónir frelsisins. Það kom vel í ljós með þessum hugmyndum.
Það er vissulega eðlilegt að fólk tali málefnalega og heilsteypt á netinu og hagi sér almennilega. Þeim sem brjóta af sér á að refsa. En það á ekki að sía netið með þeim hætti sem þessar hugmyndir fela í sér. Viðbrögðin við netlöggunni hafa verið sterk og greinilega hugsar fólk sitt eftir þetta. Ekki get ég ímyndað mér að VG hafi grætt mikið á frammistöðu Sóleyjar í Silfri Egils. Eða hvað? Það verður fróðlegt að sjá næstu skoðanakönnun.