Innihaldslaust tilboð stjórnarandstöðunnar

Stjórnarandstaðan Það er nú orðið ljóst að tilboð stjórnarandstöðunnar í byrjun vikunnar til framsóknarmanna um að styðja auðlindaákvæði í stjórnarskrá var algjörlega innihaldslaust. Það var hreinn og klár leikaraskapur. Það kemur svosem ekki að óvörum að það sé staðfest vel með þessu verklagi. Það er enda ljóst að stjórnarandstaðan hafði aldrei í huga að standa að samkomulagi sem stjórnarflokkarnir hefðu náð um auðlindaákvæði.

Þetta voru í reynd aðeins orðin tóm og fylgdi ekki neinn hugur máli. Stjórnarandstaðan sem í vikubyrjun vildi auðlindaákvæði í stjórnarskrá hristir sig frá málinu og segir hið fornkveðna með gamla góða orðalaginu sínu, ekki svona - bara einhvernveginn öðruvísi. Þetta er frekar kostulegt á að horfa, en samt eitthvað svo fyrirsjáanlegt. Það var enda hugsun mín á mánudag að þetta væri hreinn leikaraskapur og í raun bara til að slá ryki í augu fólks. Andstaðan hafði greinilega enga trú á að Framsókn fengi ákvæðið í gegn með svo áberandi hætti og gæti staðið uppi sem einhver sigurvegari. Því eru vonbrigði stjórnarandstöðunnar vissulega skiljanleg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem nú er mætt heim sem kanarífuglinn úr sólarlandafríi í kjörtímabilslok, virkaði frekar undarleg í sjöfréttunum. Hún hefur sennilega ekki séð fyrir að hún yrði  utan við hita stjórnmálanna verandi á sólarlendum Kanaríeyja. Hún missti af mesta hita stjórnarsamstarfsins frá fjölmiðlamálinu og ennfremur blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar á mánudag sem þingflokksformaðurinn sat í fjarveru formanns og varaformanns. Það er að heyra á Össuri og Ingibjörgu að þetta séu óásættanlegar breytingar. Er þetta ekki það sem alla tíð var talað um? Er þetta ekki auðlindaákvæði byggt á tillögum auðlindanefndar.

Þetta gylliboð stjórnarandstöðunnar á mánudag var leiktjaldasýning af veglegustu sort. Þar bjó ekkert að baki. Það var ekki gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin gæti náð saman og því er haldið í fjallabaksleið til að reyna að afmerkja sáttina. Erum við að sjá fram á hörð átök um þessa stjórnarskrárbreytingu innan við 70 dögum fyrir kosningar? Verður þingið lengt og mun kosningabaráttan styttast? Allt í einu er óvissa komin yfir málið, enda hafa leiktjöld stjórnarandstöðunnar fallið og eftir stendur aðeins napur steinveggur.

Já, það er margt skondið í henni veröld, ekki satt?

mbl.is Össur: Stjórnarskráin pólitískt bitbein stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nýtt ákvæði um auðlindir í stjórnarskránni þarf að hafa einhverja ákveðna merkingu, þýðingu, og meirihluti þingsins þarf að vera sammála um þessa merkingu. Það er ekki að ástæðulausu að þetta er lagt fram sem þingmannafrumvarp þeirra félaga Geirs og Jóns en ekki stjórnarfrumvarp. Það er óvíst, og jafnvel ólíklegt, að allir þingmenn stjórnarinnar samþykki þetta ákvæði og jafnvel ekki einu sinni öll ríkisstjórnin. Og stjórnarflokkarnir hefðu að sjálfsögðu átt að eiga samstarf við stjórnarandstöðuna um þetta mál, því stjórnin fellur í vor og nýtt þing þarf að samþykkja stjórnarskrárbreytinguna ÓBREYTTA. Ef hún gerir það ekki fékk Framsókn ekkert út úr þessari unglingaveiki nema bólurnar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 21:27

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Stebbi. Þetta er rétt hjá þér. Talandi um sýndarleika, þá var þetta leikrit stjórnarandstöðunnar "flopp."...

Sveinn Hjörtur , 8.3.2007 kl. 22:32

3 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Lögfræðingur sagði mér um daginn að vandamálið við lög er að þau eru oftast skrifuð af lögfræðingum.

Steinn E. Sigurðarson, 8.3.2007 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband