Króníkan öll - blaðamennirnir fara ekki á DV

Króníkan Það eru alltaf tíðindi þegar að fjölmiðill deyr, sérstaklega ef hann deyr langt um aldur fram. Króníkan dó í vikunni sem leið, aðeins sjö tölublöð komu út undir þeim merkjum. Háleitt markmið um öflugan fjölmiðil brást og eftir standa brostnar vonir og væntingar þeirra sem töldu þetta blað geta fyllt upp í blaðamarkaðinn. Það má reyndar hugsa sig um hvort að þessi markaður sé ekki orðinn mettur og muni jafnvel fara að sverfa að fleiri blöðum.

Er blaðamarkaðurinn enn í tísku? Er ekki netið að drepa blöðin hægt og rólega? Sérstaklega blað sem fókuserar á svona kreðsur eins og Krónikunni var ætlað að gera? Má vel vera. Ég persónulega er t.d. nær hættur að lesa blöð. Les reyndar alltaf Moggann og Fréttablaðið í bítið en þar með er það nær upptalið. Ég er ekki áskrifandi að neinum blöðum utan gamla góða Moggans, enda tel ég mig fá allan fróðleik dagsins meira og minna á Netinu. Það er sú upplýsingaveita sem er ferskust og áreiðanlegust á að uppfærast eftir nýjustu viðburðum. Á hana stóli ég fyrst og fremst.

Króníkan var metnaðarfullt blað. Ég keypti mér nokkur tölublöð af henni í lausasölu. Ég fer stundum á kvöldin í 10-11, er víst svona nútímamaður að því leyti að fara þangað þegar að vantar eitthvað. Fílaði sum blöðin, önnur ekki. Varð fyrir vissum vonbrigðum með fyrsta blaðið og fannst það ekki alveg nógu gott. Gaman að lesa, en heildarmyndin var þung. Sérstaklega fannst mér djarft útspil hjá þeim að veðja á Hannes Smárason, peningamaskínu og stórlax, sem forsíðu"stúlku". En það er oft gott að veðja miklu, held þó að þau hafi ekki veðjað þar á réttan hest.

Heillaðist meira af næstu blöðum og fannst tvö síðustu blöðin gríðarlega góð. Sérstaklega var gaman að lesa áhugavert viðtal við Bjarna Benediktsson, alþingismann, og vönduð skrif Örnu Schram klikkuðu ekki. Þetta blað dó áður en það gat sannað sig endanlega. En kannski var þetta vonlaust frá byrjun? Veit það ekki, allavega dó blaðið ungt. Það varð bensínlaust á viðkvæmasta hjallanum upp brekkuna og komst aldrei fyllilega alla leið upp. Ég sá t.d. blaðastabbann alltaf fullan af Króníku þegar að ég fór í 10-11 hverfisbúðina mína. Þar varð aldrei uppselt.

Sigríður Dögg, bloggvinkona og stjörnublaðamaður, ritstýrði blaðinu. Hún er nú farin yfir á DV. Þau sem með henni unnu ætla ekki að fylgja henni þangað. Enda sé ég ekki Aðalheiði Ingu, Kristján Torfa og Örnu Schram alveg fyrir mér þar undir ritstjórn Sigurjóns M. Egilssonar í sannleika sagt. En það er leiðinlegt að Króníkan dó. Held að þeim hafi mistekist sumt en gengið vel upp í öðru. Heildarmyndin var ekki að ganga og svo fór sem fór því miður.

En það er mikið verkefni að halda í svona bissness. Það er mikið sett undir og það er spilað djarft. Þetta gekk ekki upp. En kannski er þetta byrjun á hnignun í blaðabransanum? Hver veit. Það munu eflaust margir fylgjast með því hvort að DV gangi upp sem dagblað. Er þessi markaður ekki orðinn fullmettaður? Stórt er spurt vissulega - það fylgjast allir með hvort og þá hvaða fjölmiðill falli jafnvel næstur uppfyrir í hörðum bransa.

Survival of the Fittest, er kannski réttnefni á þennan bransa núna?

mbl.is Króníkufólk fer ekki á DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður álver Alcan stækkað þrátt fyrir allt?

Alcan Fram hefur nú komið í fréttum að Alcan geti hæglega stækkað álverið í Straumsvík upp í 350.000 tonn, miðað við gildandi deiliskipulag, þrátt fyrir að stækkun hafi verið felld í íbúakosningu í Hafnarfirði á laugardaginn. Þetta er ný og athyglisverð hlið sem þarna kemur fram, enda virðist þessi kosning í Hafnarfirði hafa verið marklaus í raun miðað við þetta.

Það er mjög athyglisvert að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði með skoðanalausan bæjarstjóra fremstan í flokki hafi ekki komið fram með þessa merkilegu staðreynd sem nú er að afhjúpast og var í raun fyrst tilkynnt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins. Enda gat Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, ekki útilokað stækkun af þessu tagi í viðtali í kvöldfréttum fyrir stundu.

Það verður kaldhæðnislegt verði álverið í Straumsvík stækkað þrátt fyrir allt, þrátt fyrir niðurstöðuna á laugardaginn. Það er mikil ábyrgð á herðum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Fyrst gátu þeir ekki tjáð skoðanir sínar í þessari kosningu og bæjarstjórinn þeirra og kjördæmaleiðtoginn litu út eins og Bakkabræður heldur var staðreynd á borð við þessa ekki borin fram í umræðuna, fyrir kjósendur að vinna úr.

Það verður fróðlegt hversu mikið álverið í Straumsvík muni stækka eftir allt saman, það er alveg klárt nú að stækkun þar er ekki út af borðinu þó að þessi versíón hennar sé það.

Tvö ár frá láti páfans - verður hann dýrlingur?

Jóhannes Páll II Í dag eru tvö ár liðin frá láti Jóhannesar Páls II páfa. Unnið er nú að því innan kaþólsku kirkjunnar að hann verði tekinn í dýrlingatölu og hefur Benedikt XVI páfi, eftirmaður Jóhannesar Páls II, talað fyrir því og í raun opnaði fyrstur allra á það tal, eftir að almenningur allt að því gerði kröfu um það dagana eftir lát hans í apríl 2005. Fræg voru áköllin um það frá mannfjöldanum sem kom til að votta honum virðingu sína er hann lá á virðingarbörum í Péturskirkjunni. Nýr páfi lét hefðir lönd og leið og hóf ferlið fyrr en almennt er gert ráð fyrir.

Jóhannes Páll II lést kl. 19:37 að íslenskum tíma að kvöldi 2. apríl 2005, eftir að hafa háð langt og erfitt veikindastríð. Hann ríkti á páfastóli í tæp 27 ár. Jóhannes Páll II var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og St. Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi.

Jóhannes Páll II páfi þótti litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Hann eyddi 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem var meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár.

Jóhannes Páll II var mikill boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipti sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu. Fyrir páfakjörið 1978 hafði hann verið ötull andstæðingur kommúnismans og kjör hans í embættið styrkti mjög baráttu stjórnarandstöðuaflanna í heimalandi hans. Forysta Jóhannesar Páls II á páfastóli hafði hiklaust áhrif við að berja kommúnismann niður í A-Evrópu allri að lokum.

Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hans verður sennilega helst minnst þannig.


Myndin með færslunni var tekin 30. mars 2005, þrem dögum fyrir lát páfans. Þá kom hann fram í hinsta skipti í glugga herbergis síns í Vatikaninu. Hann var orðinn það veikur undir lok ævi sinnar að hann gat ekki lengur talað. Á páskum, viku fyrir lát sitt, tjáði hann sig ekki en gerði krossmark með sama hætti og er við þetta tilefni, er hann kom síðast fram opinberlega.

mbl.is Fyrsta skrefið stigið í að gera Jóhannes Pál II að dýrlingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiðisumarið að hefjast

Veiði Mörgum finnst það toppurinn á tilverunni á hverju sumri að standa vígreifur úti í á eða árbakkanum með veiðistöng í hendi og reyna að veiða sér fisk. Það verður seint sagt að ég sé meðal þeirra. Hef ekki verið beint aflakló í gegnum árin. Fór þó fyrir nokkrum árum í veiðitúr með nokkrum félögum mínum, þar sem ég ætlaði að prófa þennan "spennandi" heim. Hafði ekki verið lengi með veiðistöngina í hendi og reynt við þetta verkefni er ég varð sannfærður um að þetta ætti ekki við mig.

Það þarf varla að taka fram að ég veiddi ekkert í þessum kostulega veiðitúr, þó vinir mínir sem eru vanir í þessum bransa náðu að fanga slatta af fiskum. Þetta var viss lærdómur og lexía, var ég vel meðvitaður um það eftir þetta að ég hef hvorki áhuga á þessu né vilja til aflabragða. Það er eflaust margt sem mér er betur gefið en að standa í slíku. Það var samt gaman að prófa þetta. Það verður því seint sagt að ég sé heltekinn af slíkum veiðiáhuga eða ætli að halda á þau mið í sumar.

Það er samt yndislegt að vera úti í náttúrunni, njóta góðs veðurs og fallegs landslags. Það ætla ég að gera í sumar, en get fullvissað lesendur um að það muni ég ekki gera með veiðistöng í hendi. Það er öðrum það betur gefið en nokkru sinni mér.

mbl.is Stangveiðisumarið hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaffibandalagið slegið af - frjálslyndir einangraðir

Stjórnarandstaðan Það er ekki hægt að sjá annað af viðbrögðum formanna Samfylkingarinnar og VG en að kaffibandalagið hafi verið slegið af vegna auglýsingaherferðar Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum. Auglýsingin, sem birtist í Fréttablaðinu í gær, vakti mikla athygli og stuðaði marga innan þessara tveggja flokka og víðar í flokkalitrófinu.

Virðist enginn vafi leika lengur á að Frjálslyndi flokkurinn sé orðinn einangraður í íslenskum stjórnmálum vegna afstöðu sinnar og talsmáta í þessum málaflokki. Þar er farið yfir öll mörk og fetað mjög lágkúrulega leið að flestra mati. Viðbrögð allra flokka og fólks víða í flokkalitrófinu segir meira en mörg orð um hvernig þessu útspili er almennt tekið. Því er hafnað með afgerandi hætti. Þetta virðist vera örvænting flokks sem er á mörkum þess að detta út.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessi áhersluskerpa frjálslyndra í innflytjendamálum hefur áhrif á kosningabaráttuna. Hún virðist hafa þau áhrif fyrst og fremst að flokkurinn stendur eftir algjörlega einangraður. Það sést vel á umræðunni eftir þessa auglýsingu. Gríman féll af frjálslyndum, þeir stigu skrefið mun lengra en áður og virðast um leið um hafa einangrast. Það er enginn flokkur sem hefur lengur opið á möguleikann á samstarfi við þá.

Þegar að stofnað var til kaffibandalagsins svonefnda af stjórnarandstöðuflokkunum í haust voru margir vantrúaðir á að það væri ekta, það væri líklegt til afreka. Það sást vel af því að flokkarnir neituðu að halda sem bandalag inn í kosningarnar. Það átti bara að bíða og sjá til, næðu flokkarnir meirihluta myndu þeir taka fyrst upp viðræður um myndun stjórnar.

Nú virðist það úr sögunni. Kaffið er orðið kalt og enginn vill lengur láta reyna á að hella upp á nýtt.

Bloggfærslur 2. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband