27.4.2007 | 20:23
Jónína Bjartmarz rífst við Helga í Kastljósinu

Jónína er greinilega mjög ósátt við umfjöllun Sjónvarpsins en á í erfiðleikum með að svara ýmsum spurningum málsins. Þetta er vissulega mjög vandræðalegt mál, sérstaklega fyrir ráðherra flokks sem heyr varnarbaráttu í tvísýnni kosningabaráttu hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar. Stórar spurningar eru áberandi í málinu og það er alveg ljóst að þetta mál vekur athygli fyrir umdeilt verklag og tengsl umsækjandans við ráðherra í ríkisstjórn eru mjög vandræðaleg, þó ekki sé fyrir neitt annað liggur við.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að þetta mál hefur einhver áhrif fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík á þessum tvísýna lokaspretti. Jónína er í erfiðri baráttu fyrir endurkjöri á þing og pólitískt staða hennar er mjög ótrygg. Þetta viðtal svaraði fáum spurningum. Rifrildi milli Jónínu og Helga er það sem helst stendur eftir. En þetta er vont mál fyrir ráðherrann, það blasir við öllum. Flestir hafa áhuga á að sjá þó hvaða áhrif málið hafi á stöðu ráðherrans og hvort að hún nær endurkjöri yfir höfuð á þing eftir 15 daga.
27.4.2007 | 19:57
Framsókn hækkar - vinstriflokkarnir jafnstórir

Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með 26 þingsæti, bætir við sig fjórum frá kosningunum 2003, Samfylkingin og VG hafa eins og fyrr segir 14 þingsæti. Samfylkingin myndi skv. því tapa sex þingsætum en VG bæta við sig níu þingsætum. Framsókn mælist sem fyrr með 6 þingmenn en kemst í fyrsta skipti í 10% í könnunum Gallups frá í febrúar. Frjálslyndir hafa 3 þingsæti, missa eitt frá síðustu kosningum.
Það eru 15 dagar til kosninga. Þessi könnun er vissulega mjög athyglisverð. Sjálfstæðisflokkurinn gnæfir yfir alla flokka, eins og hann hefur gert í öllum skoðanakönnunum það sem af er kosningabaráttunnar. Samfylkingin missir fylgi eftir að hafa hækkað í síðustu vikukönnun í kjölfar landsfundar síns fyrir hálfum mánuði. VG bætir við sig fylgi, en hæst komst flokkurinn í tæp 28% en hefur verið að dala undanfarnar vikur og fór fyrir viku t.d. undir 20% markið í fyrsta skiptið um þónokkuð skeið. Framsókn virðist eins og fyrr segir vera að bæta við sig, en er þó enn verulega undir kjörfylginu 2003. Frjálslyndir hækka nokkuð milli vikna en Íslandshreyfingunni er ekki að takast að ná hljómgrunni.
Það er athyglisvert að sjá mælinguna hvað varðar stöðu Samfylkingarinnar, sem þarna mælist 10% undir kjörfylginu 2003. Samfylkingin er því með öðrum orðum að missa mest kjörfylgi frá kosningunum 2003 samkvæmt mælingunni. Trendið er því enn til staðar um að Framsókn og Samfylking tapi á meðan að Sjálfstæðisflokkur og VG bæti við sig. Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta þónokkru fylgi við sig frá kosningunum 2003. Ríkisstjórnin héldi velli í könnuninni, en með minnsta mögulega meirihluta, 32 þingsætum.
Það stefnir í spennandi lokasprett í kosningabaráttunni. Kannanir sýna mikið flökt á fylgi og erfitt að spá um hvað gerist. Staða ríkisstjórnarinnar er mjög ótrygg skv. könnunum og mismiklar fylgissviptingar í gangi hjá flokkunum. Þessi staða gefur allavega fyrirheit um spennandi lokapunkt baráttunnar. Það eru margir margir óákveðnir líka - þar liggja örlögin í vor.
![]() |
Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.4.2007 | 16:48
Tony Blair segir af sér 9. maí - Brown krýndur?
Breskir fjölmiðlar eru farnir að fullyrða að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, muni segja af sér sem leiðtogi Verkamannaflokksins miðvikudaginn 9. maí og muni yfirgefa Downingstræti 10 eigi síðar en um miðjan júní eftir leiðtogakjör, þ.e.a.s. fari einhver fram af alvöru gegn Gordon Brown, fjármálaráðherra, sem verður æ ólíklegra. Það er viku eftir tíu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins og nokkrum dögum eftir héraðskosningar sem flest bendir til að verði flokknum erfiðar.
Áratugur er liðinn frá sögulegum kosningasigri Verkamannaflokksins á verkalýðsdaginn, 1. maí 1997. Sólarhring síðar kom Tony Blair sigri hrósandi í Downingstræti hafandi fengið umboð Elísabetar II til stjórnarmyndunar og sem leiðtogi nýrra tím, vonarneisti annarra tíma, annars flokks með aðrar og ferskari hugmyndir. Þar var hann hylltur sem sigurhetja og var maður fólksins. Hann naut fyrstu mánuðina og eiginlega fyrsta valdaárið sitt sögulega mikils stuðnings sem forsætisráðherra. Fyrsta kjörtímabilið var sem draumur fyrir hann og kratana. Síðan hefur syrt heldur betur í álinn.
Það verða pólitísk þáttaskil með brotthvarfi Tony Blair af hinu pólitíska sjónarsviði. Það leikur enginn vafi á því. Hann hefur verið þungavigtarmaður á þessum vettvangi og markað merkileg skref. Hann hefur verið umdeildur og hann hefur bæði verið vinsæll og óvinsæll. Ég mun aldrei gleyma þeirri bylgju stuðnings og krafts sem hann fetaði á til valda vorið 1997. Sigur hans var fyrirsjáanlegur. Blair tókst að leggja Íhaldsflokkinn þetta vor með ótrúlega afgerandi hætti.... og hann var þá vinsælasti forsætisráðherrann í breskri stjórnmálasögu.
Það er ekki óvarlegt að fullyrða að Blair sé nú aðeins svipur hjá sjón þess stjórnmálaleiðtoga sem klappað var fyrir er hann kom sem forsætisráðherra fyrsta sinni þann 2. maí 1997 í Downingstræti 10. Það var ótrúleg sigurstund. Verkamannaflokkurinn hafði verið í eyðimörk í tvo áratugi. Flokkurinn átti að baki ótrúlega ólánssögu og brostnar vonir flokksmanna eftir fjóra skaðlega ósigra fóru ekki framhjá neinum. Ég var um daginn að horfa á nokkrar ræður Blairs sem ég átti á spólu. Það voru ræðurnar sem hann flutti 1. maí 1997, vígreifur eftir kosningasigurinn mikla, og 31. ágúst 1997, sem forsætisráðherra fólksins við dauða Díönu, ræða sem hafði mikil áhrif.
Það hefði fáum órað fyrir þessa daga á miðhluta ársins 1997 að hann ætti eftir að enda sem óvinsæll og einangraður flokksleiðtogi, maður sem væri að fjara út. En það fór svo. Það eru engin tíðindi lengur að hann sé að fara. Innri ólga gerði það að verkum innan Verkamannaflokksins í september að hann gat ekki beðið með yfirlýsinguna miklu og hann var allt að því neyddur til að leggja niður skottið. Hann varð að gefa upp árstímaramma fyrir leiðarlokin. Það var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann að missa stjórn á þeirri atburðarás. Hann hefur veslast upp sífellt alla tíð síðan. En hann varð að gera þetta til að afstýra því að enda eins og Thatcher.
Mesti veikleiki öflugs leiðtoga er oft á tíðum að missa yfirsjón á því hvenær hann er orðin byrði. Thatcher klúðraði sínum pólitísku endalokum með eftirminnilegum hætti. Það hvernig valdaferli hennar lauk var áminning þess að hætta ber leik þá er hann hæst stendur. Blair festist í sama vandræðagangi að mínu mati. Sá var þó munurinn að hann gaf alltof snemma út þá yfirlýsingu að hann færi ekki í fjórðu kosningarnar. Það hvernig hann sveik margfrægt samkomulag við Gordon Brown um skiptingu valda eftir dauða John Smith hafði líka áhrif. Hann hefur veslast upp og fer skaddaður af stóli.
Tony Blair fór líka illa á Íraksmálinu. Það eyðilagði hann sem sterkan leiðtoga jafnaðarmanna í Evrópu. Hann var umdeildur og hann bognaði, varð ekki lengur afgerandi leiðarljós þeirra. Samt segist Blair ekki sjá eftir neinu. Ég sá um daginn viðtal með honum á Sky, þetta var svona eitt þeirra viðtala þar sem hann fetar skref fyrir skref út af sviðinu. Þessi spinnmennska hans er orðin yfirborðskennd og klén. Kannski fór spinnmennskan mikla með hann. Festist þessi sterki jafnaðarmannaleiðtogi ekki bara í eigin vef? Það er freistandi að telja svo vera.
En leiðarlokin eru framundan á næstu vikum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig eftirmaður hans verður valinn. Svo virðist vera að Skotinn Gordon Brown sé með þetta algjörlega í hendi sér. Hann hefur ekki enn fengið afgerandi keppinaut. Það voru stórtíðindi um síðustu helgi er umhverfisráðherrann David Miliband, vonarstjarna Blair-armsins, lýsti yfir stuðningi við Brown, eftir að hafa hlotið áskoranir víða að um að fara fram. Segja má að hann hafi verið sá eini sem átti möguleika í Brown. Það er talið mjög ólíklegt að hann fái alvöru keppni úr þessu.
Það sem mest vekur þó athygli núna eru héraðskosningarnar á Englandi á fimmtudag í næstu viku, sólarhring eftir áratugs valdaafmæli Blair og Verkamannaflokksins. Það stefnir allt í mikinn ósigur Verkamannaflokksins í Skotlandi. Það verður gríðarlega mikið áfall fyrir Blair að fara frá með það á bakinu og Brown yrði sneyptur tæki hann við eftir þau ósköp.
27.4.2007 | 14:59
Sverrir í heiðurssæti í Norðausturkjördæmi

Sverrir á því svo sannarlega merka pólitíska sögu í þessu kjördæmi. Hann sat um árabil á þingi með Helga Seljan, móðurbróður mínum, og margir fleiri kappar eru eftirminnilegir í stjórnmálasögu Austfjarða á 20. öld. Ég hafði alltaf gaman af að lesa skrif Regínu Thorarensen, frænku minnar og kjarnakonunnar sönnu og austfirsku, um Sverri. Hún var sjálfstæðiskona par excellance. Hún fór þó eigin leið og var ekki blind í sínum flokki. Hún var einstök. Það var gaman að rifja upp skrif hennar um Sverri í ævisögunni um hana, sem ég las aftur nýlega.
Sverrir sagði af sér þingmennsku á árinu 1988 og varð þá bankastjóri Landsbanka Íslands, sem umdeilt varð. Hann tók við af Jónasi Haralz. Bloggvinur minn, Kristinn Pétursson, tók sæti hans á þingi. Ég hef reyndar lengi vel á eftir hugsað um hvernig frambjóðandi og þingmaður fyrir Austfirði hann Sverrir var. Merkilegt var reyndar að einmitt þar skyldi hann ávallt vera í framboði meðan að hann vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þar hafi hans pólitíska vígi verið. Hann átti reyndar eftir að taka aftur sæti á Alþingi en hann leiddi Frjálslynda flokkinn í kosningunum 1999 og komst inn sem jöfnunarmaður í Reykjavík.
Það eru merkileg tíðindi að sjá þá gömlu flokksfélaga og vinnufélaga á Alþingi um árabil, Sverri og Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og þingforseta, skipa heiðurssæti á listum sínum í kjördæminu. Þeir eiga mjög mikla pólitíska sögu saman, þó svo sannarlega ekki á seinni árum. Báðir eru eftirminnilegir karakterar svo sannarlega. Þetta er reyndar athyglisverður listi. Frændi minn, Hákon Seljan, er t.d. þarna á lista og nokkrir sem ég kannast við. Ég þekki þó ekki leiðtogann og dreg stórlega í efa að hann eigi möguleika á þingsæti.
En það er gaman að sjá Sverri í framboði, þó í heiðurssæti sé aðeins auðvitað, á fornum pólitískum slóðum.
![]() |
Sverrir Hermannsson í heiðurssæti Íslandshreyfingarinnar í Norðausturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.4.2007 | 13:37
Baráttusamtökin aðeins fram í Norðausturkjördæmi
Þetta hefur verið mjög klaufalegt allt saman. Það hvernig að aldraðir og öryrkjar bundust andstæðingum flugvallar í Vatnsmýrinni var hálf kjánalegt og þeim ekki til mikils vegsauka. Enda greinilegt að það var bara framboð til að sameina krafta þó að þeir ættu nákvæmlega enga samleið. En svo fór sem fór. Engin eftirspurn var í raun semsagt eftir framboði aldraðra og öryrkja og þetta fær vænan floppstimpil við leiðarlok.
Það hefði verið meiri reisn yfir því hjá þeim hreinlega að bakka frá þessu. Það trúir enginn á local-framboð aldraðra og öryrkja á einum stað hafandi mistekist að ná að fara fram á landsvísu.
![]() |
Baráttusamtökin aðeins fram í einu kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2007 | 02:48
Vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn
Þetta var svo sannarlega mjög vondur dagur fyrir Framsóknarflokkinn. Hálfum mánuði fyrir alþingiskosningar virðist hvert klúðrið reka annað á viðkvæmum tímapunkti. Dramatísk ólga ríkir greinilega innan flokksins vegna klaufalegs verklags við formannsskipti í Landsvirkjun og umræðan um ríkisborgararétt kærustu sonar Jónínu Bjartmarz er flokknum vond á lokaspretti kosningabaráttu.
Það er nú ekki mikil áberandi reisn yfir þessum stjórnarformannsskiptum hjá Landsvirkjun. Það sjá allir að Jóhannes Geir fer algjörlega hundfúll af velli. Hann hefur talað frekar opinskátt miðað við aðstæður; sagt og gefið til kynna með afgerandi það sem allir sjá, að sparkað hafi verið í hann og það ansi fast á viðkvæman stað - margir spyrja sig af hverju það var gert. Skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, þess efnis að Jóhannes Geir hefði einfaldlega búinn að vera of lengi eru hjákátlegar í besta falli og eru einhver platástæða. Það sést langar leiðir.
Það er freistandi að halda að Jóhannesi Geir hafi verið sparkað vegna þess að hann hafi mögulega verið talsmaður þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi Landsvirkjunar og stokka stöðu mála upp. Það að honum hafi ekki verið leyft að taka eitt ár enn og fylgja Kárahnjúkavirkjun, einu allra stærsta verkefni formannsferils síns, allt til enda vekur altént mjög mikla athygli. En svo fór sem fór. Mér fannst allavega orðalag formanns Framsóknarflokksins í dag mjög undarlegt og skil satt best að segja ekki hver ástæðan er. Þetta með að Jóhannes Geir hafi verið búinn að vera of lengi hljómar mjög kostulega sem ástæða.
Svo sést langar leiðir að Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, er hundfúl með þessa breytingu og stöðuhækkun Páls Magnússonar, varaþingmanns hennar. Kergjan milli manna í Suðvesturkjördæmi á kjörtímabilinu er öllum í fersku minni og allir muna hvernig staðan var í Kópavogi. Það er eitthvað sem gleymist reyndar seint, t.d. þegar að annað framsóknarkvenfélag var stofnað í sveitarfélaginu og allt fór þar upp í hund og kött eftir að höfðinginn þeirra mikli, Sigurður Geirdal, féll snögglega frá. Í kvöld sást á Stöð 2 þar sem Siv strunsaði frá myndavél augljóslega fjarri því alsæl með tíðindin í Landsvirkjun.
Málið tengt Jónínu Bjartmarz er ekki mjög gott. Allar lýsingar eru frekar ófagrar, hvernig svo sem mögulega að var staðið. Þetta er mjög gruggugt mál. Ekki bætir það fyrir flokknum í Reykjavík altént. Þetta er ekki vænlegt mál fyrir neinn flokk á lokaspretti kosningabaráttu. Þarna berjast bæði Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz fyrir því að hljóta þingsæti. Kannanir hafa sýnt þau bæði utan þings um þónokkuð skeið. Það hefur ekki birst könnun sem sýnir þingmenn flokksins í Reykjavík, Guðjón Ólaf og Sæunni, inni. Það verður fróðlegt hvernig fer að lokum.
Framsóknarflokkurinn hefur verið þekktur fyrir að taka kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en 10 dögum, lokaspretturinn hefur verið þeim drjúgur. Á lokasprettinum í kosningabaráttunni 2003 sneri Framsóknarflokkurinn tapaðri skák við með undraverðum hætti, mjög eftirminnilegum. Fylgst verður vel með hvernig lokaspretturinn verður nú. Það verður mikill varnarsigur fari flokkurinn yfir 13% fylgi og fengi fleiri en átta þingmenn eins og komið er málum. Þá var Halldór Ásgrímsson í brúnni, reyndur og traustur leiðtogi. Jón Sigurðsson hefur ekki sömu vigt.
15 dagar eru ekki langur tími - en geta orðið heil eilífð í kosningabaráttu, sérstaklega fyrir flokk í mikilli varnarbaráttu. Það verður svo sannarlega áhugavert að greina þessa daga og örlög Framsóknarflokksins eftir það tímabil þegar að úrslit eru ljós. Þessi klúðurslegu mál eru vandræðaleg og þungbært veganesti inn á viðkvæman lokasprett.
Það má fullyrða með vissu að vel verði fylgst með pólitísku heilsufari Framsóknarflokksins næstu 15 dagana og því hver dómur þjóðarinnar verður á örlagadeginum 12. maí.