Framsókn hækkar - vinstriflokkarnir jafnstórir

Könnun (27. apríl 2007) Skv. nýjustu könnun Gallups hækkar fylgi Framsóknarflokksins um rúm tvö prósentustig og vinstriflokkarnir mælast jafnstórir, með 14 þingsæti og 21,2% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 39,1% fylgi. Frjálslyndir hækka og mælast með 5,7% en Íslandshreyfingin lækkar sífellt, missir eitt prósentustig og mælist aðeins með 2,3%.

Skv. þessu er Sjálfstæðisflokkurinn með 26 þingsæti, bætir við sig fjórum frá kosningunum 2003, Samfylkingin og VG hafa eins og fyrr segir 14 þingsæti. Samfylkingin myndi skv. því tapa sex þingsætum en VG bæta við sig níu þingsætum. Framsókn mælist sem fyrr með 6 þingmenn en kemst í fyrsta skipti í 10% í könnunum Gallups frá í febrúar. Frjálslyndir hafa 3 þingsæti, missa eitt frá síðustu kosningum.

Það eru 15 dagar til kosninga. Þessi könnun er vissulega mjög athyglisverð. Sjálfstæðisflokkurinn gnæfir yfir alla flokka, eins og hann hefur gert í öllum skoðanakönnunum það sem af er kosningabaráttunnar. Samfylkingin missir fylgi eftir að hafa hækkað í síðustu vikukönnun í kjölfar landsfundar síns fyrir hálfum mánuði. VG bætir við sig fylgi, en hæst komst flokkurinn í tæp 28% en hefur verið að dala undanfarnar vikur og fór fyrir viku t.d. undir 20% markið í fyrsta skiptið um þónokkuð skeið. Framsókn virðist eins og fyrr segir vera að bæta við sig, en er þó enn verulega undir kjörfylginu 2003. Frjálslyndir hækka nokkuð milli vikna en Íslandshreyfingunni er ekki að takast að ná hljómgrunni.

Það er athyglisvert að sjá mælinguna hvað varðar stöðu Samfylkingarinnar, sem þarna mælist 10% undir kjörfylginu 2003. Samfylkingin er því með öðrum orðum að missa mest kjörfylgi frá kosningunum 2003 samkvæmt mælingunni. Trendið er því enn til staðar um að Framsókn og Samfylking tapi á meðan að Sjálfstæðisflokkur og VG bæti við sig. Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta þónokkru fylgi við sig frá kosningunum 2003. Ríkisstjórnin héldi velli í könnuninni, en með minnsta mögulega meirihluta, 32 þingsætum.

Það stefnir í spennandi lokasprett í kosningabaráttunni. Kannanir sýna mikið flökt á fylgi og erfitt að spá um hvað gerist. Staða ríkisstjórnarinnar er mjög ótrygg skv. könnunum og mismiklar fylgissviptingar í gangi hjá flokkunum. Þessi staða gefur allavega fyrirheit um spennandi lokapunkt baráttunnar. Það eru margir margir óákveðnir líka - þar liggja örlögin í vor.

mbl.is Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband