10.5.2007 | 23:45
Eiríkur kemst ekki áfram - vonbrigði í Helsinki

Eiríkur var greinilega hundfúll með stöðu mála í viðtali í tíufréttum í kvöld. Ég skil hann mjög vel. Það fer að verða umhugsunarefni um framtíð okkar í þessari keppni þykir mér. Staða mála er ekki góð og vakna spurningar um hvort við getum yfir höfuð komist lengra en þetta. Botninn er að verða harður fyrir okkur þarna.
Við í fjölskyldunni komum saman og áttum yndislega stund; grilluðum saman og nutum kvöldsins. Það var því gaman hjá okkur þó að það séu auðvitað gríðarleg vonbrigði að Eiríki hafi ekki tekist að komast áfram. En þannig er nú það bara. Heldur litlausara verður að fylgjast með úrslitakvöldinu á kjördag... án Eika rauða.
![]() |
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.5.2007 | 16:29
Össuri fipast flugið í netskrifunum

Það hefur lítið farið þó fyrir hjali Össurar í þessum efnum eftir að Heiðrún Lind Marteinsdóttir benti Össuri ofurljúflega á auglýsingu frá Samfylkingunni sem gengur í sömu átt og auglýsing Sjálfstæðisflokksins sem hann var svo argur og siðbótarlegur yfir. Það hefur ekkert heyrst nema þögnin mikla um þau mál frá laxadoktornum eftir það, enda getur hann varla gagnrýnt eigin flokk með sama hætti og hann gerði í tilfelli Sjálfstæðisflokksins.
Það er stundum sagt að það sé rétt að staldra við og hugsa örlítið áður en ýtt er á enter við bloggfærslurnar manns. Ég held að Össur sjái mjög eftir því að hafa enterað þessari bloggfærslu sinni inn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.5.2007 | 14:50
Reykjavík suður

Reykjavíkurkjördæmi suður er eitt fjölmennasta kjördæmi landsins. Það nær yfir sunnanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsveg. Reykjavík suður er helmingur höfuðborgarinnar, mjög fjölmennt kjördæmi, og er því að upplagi mynduð í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr Reykjavíkurkjördæmi. Eina breytingin var þó sú auðvitað að borginni var skipt upp í tvö kjördæmi til að jafna vægi atkvæða umtalsvert.
Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 11 talsins; níu kjördæmasæti og tvö jöfnunarsæti. Á því verður engin breyting í kosningunum þann 12. maí.
Umfjöllun um Reykjavíkurkjördæmi suður
10.5.2007 | 13:06
Framsókn heldur sveiflunni - vinstriflokkar hækka
Framsóknarflokkurinn heldur að mestu fylgissveiflu sinni í raðkönnun Gallups í gær í þeirri nýjustu sem birt var fyrir stundu. Vinstriflokkarnir hækka báðir og fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um 0,1%. Mikil fleygiferð virðist enn vera á fylgi stjórnmálaflokkanna. Stóru tíðindin eru þó að fólk virðist vera að taka loks ákvörðun um hvað skal kjósa eftir tvo sólarhringa, enda eru mun færri óákveðnir en áður hefur verið.
Í gær birtust tvær kannanir sem sýndu Framsóknarflokkinn í mjög ólíkri stöðu, í annarri mældist hann með 14,6% en í hinni var hann í 8,6%. Munurinn var þó sá að fyrri könnunin var gerð eftir helgina en sú fyrri dagana fyrir helgina og á mánudag. Það er því greinilegt samkvæmt því að Framsóknarflokkurinn sé í mikilli sókn miðað við síðustu mánuði og reyndar allt kjörtímabilið sem hefur verið hin mesta sorgarsaga fyrir flokk og formenn hans; Jón Sigurðsson og Halldór Ásgrímsson. Þessar tvær mælingar Gallups í gær og í dag er mesta fylgi hans á formannsferli Jóns.
Framsókn sneri tapaðri skák við á lokaspretti kosningabaráttunnar 2003 og bætti við sig nægilega miklu til að vinna eftirminnilegan varnarsigur og tryggði Halldóri Ásgrímssyni lykilstöðu við stjórnarmyndun. Í dag lækkar Framsókn reyndar örlítið en flokkurinn heldur þeirri sveiflu sem var í myndinni í gær, hann er enn vel yfir meðalfylgi síðustu mánaða og sveiflan er til staðar með augljósum hætti. Það verður vel fylgst með því allavega hvaða dóm Framsóknarflokkurinn fær eftir tvo daga. Annað sem vekur athygli er að báðir vinstriflokkarnir hækka. Samfylkingin mælist með 26,1% og 17 þingmenn og VG hefur 15,9% og 10 þingmenn.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 35,8% og mælist með 23 þingsæti, einu færra en í gær, en 24. maður Sjálfstæðisflokksins er næstur inn á kostnað 9. manns Framsóknarflokks. Þessi könnun og sú í gær er með lægri fylgiskönnunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í langan tíma. Þetta er auðvitað ekki viðunandi mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann verður að sækja sér meira fylgi til að halda forystu í ríkisstjórn með öruggum hætti. Það sem vekur auðvitað athygli er að ríkisstjórnin heldur með 32 þingsætum, naumara verður það ekki svo vel sé. Hinsvegar er alveg ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins er ekki nógu sterk til að öruggt sé að hann haldi sínu.
Fylgi Frjálslyndra flokksins rokkast enn til og frá. Það hefur verið að flökta á milli 5-6,5%. Í dag er það hið hæsta um langt skeið, 6,5% og fjórir þingmenn mælast inni í þeirri stöðu. Íslandshreyfingin er engu flugi að ná og missir aftur það fylgi sem hún hefur sótt sér frá mánudagskönnun Gallups. Flokkurinn er fallinn aftur í slétt 2% og því greinilegt að vonir flokksins á þingsætum eru að verða frekar daufar. Það er alveg ljóst að það yrði metið pólitískt kraftaverk myndi flokkurinn ná þingsætum eftir þær vondu mælingar sem hann hefur fengið dag eftir dag að undanförnu.
Þetta er næstsíðasta raðkönnun Gallups. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á morgun í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar. Það sem vekur mesta athygli er hversu tæpt allt stendur. Meirihluti stjórnarinnar var vel til staðar í gær, stjórnin hafði 33 þingsæti en missir eitt í dag og hefur því aðeins 32 alþingismenn og staðan því algjörlega í járnum. Óvissan um það hvað gerist á laugardag er því algjör og ljóst að stefnir í spennandi kosninganótt séu kannanir að mæla stöðuna rétt.
Mér finnst þessi könnun frekar sýna vinstrisveiflu en nokkuð annað. Það yrði klárlega vinstristjórn í pípunum í svona stöðu og það yrðu klárlega miklar breytingar. Fari þetta svona eða einhverjum viðlíka hætti er staðan brothætt og ljóst að núverandi stjórnarsamstarf er feigt í raun, enda verður því varla haldið áfram með einu þingsæti í meirihluta. Það er alveg ljóst að raunhæfar líkur eru á miklum breytingum og erfitt að segja nokkuð til um stöðuna, þó að ég telji eftir að hafa fylgst lengi með stjórnmálum að frekar yrði mynduð stjórn vinstri en hægri í svona stöðu.
Það eru aðeins tveir sólarhringar þar til kjörstaðir opna. Óvissan um það hvað gerist um helgina er orðin algjör. Það er mikil spenna yfir stöðunni. Enn er spurt hvort að uppsveifla Framsóknarflokksins haldi til enda. Sveiflan er staðfest í dag með þessari könnun þykir mér um leið og niðursveifla Sjálfstæðisflokksins staðfestist. Staða ríkisstjórnarinnar er allavega mjög óviss og upphækkun vinstriflokkanna er táknræn.
Við stefnum í örlagaríka pólitíska helgi fari úrslit kosninganna á laugardag í einhverja viðlíka átt. Það er næstsíðasti dagur kosningabaráttunnar og ljóst að barist verður af krafti fyrir hverju atkvæði, enda mun hvert atkvæði skipta máli þegar að staðan verður greind er á hólminn kemur.
![]() |
Samfylking og VG bæta við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 11:42
Tony Blair segir af sér - mun hætta 27. júní

Tony Blair hefur setið á þingi fyrir Sedgefield frá árinu 1983. Hann hafði fyrir löngu heitið því að þegar að endalokum stjórnmálaferils síns kæmi myndi hann tilkynna kjósendum sínum fyrstum allra um þær breytingar. Það gerði hann. Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem áætlun starfsloka var kynnt fór hann til Sedgefield.
Tony Blair hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins frá því í júlí 1994 og forsætisráðherra Bretlands frá 2. maí 1997. Hann hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður í pólitískri sögu Bretlands síðustu áratugina. Enginn leiðtogi Verkamannaflokksins hefur ríkt lengur sem forsætisráðherra og hann er sigursælasti forystumaður vinstrimanna í pólitískri sögu landsins.
Afsögn hans boðar þáttaskil fyrir stjórnmálalitrófið þar og umfram allt Verkamannaflokkinn. Nú hefst sjö vikna leiðtogaslagur innan flokksins. Enginn vafi leikur á því að Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, tekur við embættinu, en hann hefur þegar tryggt sér stuðning rúmlega helmings þingmanna flokksins.
![]() |
Blair mun segja af sér sem forsætisráðherra 27. júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 06:07
Fylgi flokkanna á fleygiferð - stjórnin fallin?
Á þessum sama miðvikudegi birtist fyrst könnun sem sýndi Framsóknarflokkinn í hæstu fylgishæðum árum saman, með 14,6% og níu þingsæti, í raðkönnun hjá Gallup, sem er langmesta fylgið í formannstíð Jóns Sigurðssonar og gaf byr undir báða vængi þeim sögusögnum að flokkurinn væri jafnvel að fara að endurtaka fylgisaukninguna á lokaspretti kosningabaráttunnar vorið 2003.
Síðan birtist fyrrnefnd könnun á undan leiðtogaumræðum á Stöð 2. Þar mældist Framsókn svo fallin niður á fyrri slóðir í vikubyrjun hjá Gallup; innan við 9% fylgi og aðeins fimm þingsæti í hendi. Munurinn milli þessa kannana er með ólíkindum. Reyndar er athyglisvert að líta á þrjár raðkannanir Gallups dag eftir dag. Á mánudag var fylgið 7,6%, á þriðjudag 9,8 og í gær var það eins og fyrr segir 14,6%. Hækkunin milli kannana þriðjudags og miðvikudags er reyndar svo ótrúlega mikil að langt er síðan hefur sést annað eins. Beðið er eftir næstu raðkönnun til að sjá hvort Framsókn helst á þessum lokasprettabónus í kosningabaráttunni hjá Gallup.
Í könnuninni á Stöð 2 stendur Samfylkingin mjög nærri kjörfylginu. Fylgið þarna er 29,1%, aðeins tveim prósentustigum undir kjörfylginu og flokkurinn með 19 þingsæti í hendi. Þetta er besta könnunin fyrir Samfylkinguna í óratíma og ekki undrunarefni að Ingibjörg Sólrún væri alsæl í leiðtogaumræðunum. Fyrr sama dag birtist hinsvegar raðkönnun Gallups sem sýndi Samfylkinguna fjórum prósentustigum neðar, með stöðuna í rétt rúmlega 25%. VG er í könnuninni á Stöð 2 með 16,2% og 11 þingsæti í hendi en Gallup-könnunin sýnir VG í frjálsu falli með 14% og aðeins níu sæti, sem er orðin óveruleg aukning fyrir VG frá vorinu 2003.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur horfst í augu við ótrúlegar sveiflur þessa vikuna. Í raðkönnun Gallups á mánudag var fylgið rúm 41% og flokksmenn brostu út í eitt og töldu glæsilegan sigur í sjónmáli. Á þriðjudag sljákkaði fylgið um þrjú prósentustig og sama gerðist í raðkönnun gærdagsins. Staðan var þá að flokkurinn var í rúmum 35%, aðeins tveim prósentustigum yfir kjörfylginu og væri að bæta litlu þannig séð við sig. Munurinn milli daganna þriggja er áminning til Sjálfstæðisflokksins um að ekkert er gefið í þessum kosningum og lokaspretturinn skiptir miklu. Enda er ekki furða að Geir Haarde brýni sitt fólk til dáða þessa síðustu sólarhringa.
Það er athyglisvert að fylgjast með frjálslyndum þessa dagana. Þeir virðast vera að rokka á milli 5 og 6,5% og á milli þess að vera með þrjá eða fjóra þingmenn. Þeir eru semsagt á svipuðu róli undir forystu Guðjóns Arnars og í kosningunum 2003. Athyglisverðustu tíðindi þessara kannana er að þær sýna Magnús Þór varaformann og Sleggjuna að vestan, Kristinn H. Gunnarsson, kolfallna. Það ætti að lækka eitthvað kjaftastuðullinn á þingi verði það ofan á. En að öllu gamni slepptu verður fróðlegt hvernig gengi frjálslyndra verður eftir tvo daga. Íslandshreyfingin er ekki að ná neinu alvöru flugi en rokkar hjá Gallup til og frá en vantar enn þónokkuð.
Þessar kannanir í gær, raðkönnunin hjá Gallup og Stöðvar 2 könnunin, eru í fljótu bragði kannski ólíkar að nokkru leyti og virðast í hrópandi ósamræmi hvor við aðra. En þær segja eitt. Sú skelfilega tilhugsun að til sögunnar komi vinstristjórn vaknar við að líta þessar kannanir augum. Þær sýna að staðan er að breytast á lokasprettinum og ekkert er gefið um eitt né neitt. Fylgið er á fleygiferð. Þeim fækkar sífellt sem ganga í flokk sextán og eru kristnaðir einum flokki alla sína tíð. Fólk er í auknum mæli að hugsa hlutina allt til enda og tekur ákvörðun seint og um síðir eftir mikinn þankagang, jafnvel í kjörklefanum eitt með sjálfu sér.
Kosningarnar eftir tvo daga eru mjög spennandi. Þær eru kannski steindauðar málefnalega séð, en kannanalega séð virðist allt vera opið. Staða Sjálfstæðisflokksins virðist góð á pappírnum en það er ekkert fast í hendi með eitt né neitt fyrr en talið hefur verið upp úr kössum. Þessar kannanir færa eflaust flokksfélögum mínum kraft til að vinna af krafti. Heilt yfir verður áhugavert að sjá síðustu 48 klukkutíma baráttunnar.
Það eru bara röskir 48 klukkutímar þar til kjörstaðir opna og örlagastundin er í sjónmáli, stundin þegar að tölurnar streyma inn, tölurnar sem skipta máli er á hólminn kemur. Þó að kannanir séu oft á tíðum óttalegur leikur að tölum og þingsætum eins og tindátum í spilamennsku eru þær fróðlegar og góðar. Sjálfum hefur mér alltaf þótt gaman af að stúdera þær og það hafa lesendur hér séð vel.
En þær hverfa allar í skuggann þegar að tölur koma úr kjördeildum, úrslitin fara að ráðast. Þá verða þær aðeins fjarlæg minning. Kannanir sýna nú hvað getur mögulega gerst síðustu dagana, en enn er 1/3 óákveðinn og þegar að hann tekur af skarið ráðast örlögin. Þá verður enn skemmtilegra að greina vindana sem ráða því sem gerist á næstu árum!
![]() |
Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 00:59
Snörp, vönduð og lífleg leiðtogaumræða á Stöð 2
Mér fannst Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bera af í þessum þætti. Geir er að taka kosningabaráttuna með traustu yfirbragði, spilar sig safe, enda getur hann gert það, hann hefur langan stjórnmálaferil að baki og hefur traust yfirbragð manns með mikla þekkingu á málum og hefur flokkinn sterkan að baki sér. Ingibjörgu Sólrúnu hafa verið mislagðar hendur víða eftir að hún missti fótanna í borgarstjórastólnum fyrir fjórum árum og komst ekki á þing en hún hefur verið að styrkjast eftir landsfund Samfylkingarinnar.
Áberandi verstir í kvöld miðað við hina voru Jón Sigurðsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. Er þá ekki þar með sagt að þeir hafi verið afleitir. Þeir voru einfaldlega ekki að glansa í gegnum kvöldið. Mér finnst Jón enn vera of embættismannalegur. Hann hefur reyndar lagast mikið í gegnum kosningabaráttuna. Það vantaði þó sóknarkraftinn, þorstann í að slá flugur til að ná því breakthrough-i sem flokkinn og hann vantar. Kannanir sýna misvísandi stöðu en enn vantar eitthvað hjá Jóni. Guðjón Arnar er eins og hann er, hann sló ekki margar flugur í jafnréttisumræðunni.
Umhverfispostularnir sjálfskipuðu Steingrímur J. og Ómar eru þá enn eftir. Mér finnst Steingrímur J. leiftrandi mælskur og skemmtilegur. Seint verð ég sammála sem hann segir en mér finnst hann mjög kraftmikill í sínum skoðunum og það er ekkert hik á honum. Hann er eins og Geir vintage-stjórnmálamaður; reyndur, traustur og ákveðinn. Hann hefur mikla reynslu fram að færa og það skilar sér. Ómar er nýr í bransanum en fullur eldmóðs, kannski á tíðum of miklum. Samt stundum gaman af honum. Við sem ólumst upp við barnaplötur hans eigum erfitt með að gagnrýna hann, en hann er samt ekki stjórnmálamaður í huga mér.
Það sem var mest áhugavert í þessum þætti var one-on-one spjallið milli leiðtoga og spyrils. Mjög flott hjá Stöð 2. Fimm mínútur gefnar - spurningaflóð sett á og leiðtoginn kominn under heat. Hef oft séð svona session erlendis, þetta er snarpt, flott og lifandi spjall. Þarna reynir á leiðtogann alla leið. Mér fannst leiðtogarnir flestir vera bestir í einmitt þessum hluta. Ómar kom mun betur út þarna en í spjallinu. Þessar fimm mínútur gáfu áhorfandanum næringarríkari og betri svör í þankann um hvað ætti að kjósa en fuglabjargstalið þar sem allir vilja tala ofan í næsta mann.
Semsagt; skemmtilegt kvöld á Stöð 2. Flottar umræður, sem skiluðu sér vel til áhorfandans. Mjög glæsilegt prógramm þarna á ferðinni. Stöð 2 getur verið stolt af umbúnaði sínum utan um kosningaumfjöllunina. Það stefnir flest í að Stöð 2 taki RÚV í grafíkinni. Gríðarlega flott og greinilega sett upp að breskri fyrirmynd. Þeir eru frábærir í þessum bransa tjallarnir, sást mjög vel t.d. um daginn á kosningavöku Sky og BBC vegna byggðakosninganna um daginn.
Það var áhugavert að fá enn eina könnun. Hún sýnir okkur enn einar vísbendingarnar í stöðuna. Les það helst út úr henni að möguleikinn á vinstristjórn hefur aukist. Það er samt allt opið í stöðunni og spennan að verða ansi óbærileg vegna helgarinnar. Þetta munu verða líflegar kosningar þar sem úrslit ráðast jafnvel ekki fyrr en undir morgun með lykilstöðu. Helst verður horft á hvort að stjórnin sé feig eður ei. Kannanir gefa misvísandi myndir af því sem er að gerast. Það verður spurt að leikslokum.
En enn og aftur hrós til Stöðvar 2. Líst vel á það sem þeir eru að gera og finnst umfjöllun þeirra utan um kosningarnar mjög vönduð og vel gerð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)