Framsókn heldur sveiflunni - vinstriflokkar hækka

Könnun (10. maí 2007)Framsóknarflokkurinn heldur að mestu fylgissveiflu sinni í raðkönnun Gallups í gær í þeirri nýjustu sem birt var fyrir stundu. Vinstriflokkarnir hækka báðir og fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um 0,1%. Mikil fleygiferð virðist enn vera á fylgi stjórnmálaflokkanna. Stóru tíðindin eru þó að fólk virðist vera að taka loks ákvörðun um hvað skal kjósa eftir tvo sólarhringa, enda eru mun færri óákveðnir en áður hefur verið.

Í gær birtust tvær kannanir sem sýndu Framsóknarflokkinn í mjög ólíkri stöðu, í annarri mældist hann með 14,6% en í hinni var hann í 8,6%. Munurinn var þó sá að fyrri könnunin var gerð eftir helgina en sú fyrri dagana fyrir helgina og á mánudag. Það er því greinilegt samkvæmt því að Framsóknarflokkurinn sé í mikilli sókn miðað við síðustu mánuði og reyndar allt kjörtímabilið sem hefur verið hin mesta sorgarsaga fyrir flokk og formenn hans; Jón Sigurðsson og Halldór Ásgrímsson. Þessar tvær mælingar Gallups í gær og í dag er mesta fylgi hans á formannsferli Jóns.

Framsókn sneri tapaðri skák við á lokaspretti kosningabaráttunnar 2003 og bætti við sig nægilega miklu til að vinna eftirminnilegan varnarsigur og tryggði Halldóri Ásgrímssyni lykilstöðu við stjórnarmyndun. Í dag lækkar Framsókn reyndar örlítið en flokkurinn heldur þeirri sveiflu sem var í myndinni í gær, hann er enn vel yfir meðalfylgi síðustu mánaða og sveiflan er til staðar með augljósum hætti. Það verður vel fylgst með því allavega hvaða dóm Framsóknarflokkurinn fær eftir tvo daga. Annað sem vekur athygli er að báðir vinstriflokkarnir hækka. Samfylkingin mælist með 26,1% og 17 þingmenn og VG hefur 15,9% og 10 þingmenn.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 35,8% og mælist með 23 þingsæti, einu færra en í gær, en 24. maður Sjálfstæðisflokksins er næstur inn á kostnað 9. manns Framsóknarflokks. Þessi könnun og sú í gær er með lægri fylgiskönnunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í langan tíma. Þetta er auðvitað ekki viðunandi mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann verður að sækja sér meira fylgi til að halda forystu í ríkisstjórn með öruggum hætti. Það sem vekur auðvitað athygli er að ríkisstjórnin heldur með 32 þingsætum, naumara verður það ekki svo vel sé. Hinsvegar er alveg ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins er ekki nógu sterk til að öruggt sé að hann haldi sínu.

Fylgi Frjálslyndra flokksins rokkast enn til og frá. Það hefur verið að flökta á milli 5-6,5%. Í dag er það hið hæsta um langt skeið, 6,5% og fjórir þingmenn mælast inni í þeirri stöðu. Íslandshreyfingin er engu flugi að ná og missir aftur það fylgi sem hún hefur sótt sér frá mánudagskönnun Gallups. Flokkurinn er fallinn aftur í slétt 2% og því greinilegt að vonir flokksins á þingsætum eru að verða frekar daufar. Það er alveg ljóst að það yrði metið pólitískt kraftaverk myndi flokkurinn ná þingsætum eftir þær vondu mælingar sem hann hefur fengið dag eftir dag að undanförnu.

Þetta er næstsíðasta raðkönnun Gallups. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á morgun í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar. Það sem vekur mesta athygli er hversu tæpt allt stendur. Meirihluti stjórnarinnar var vel til staðar í gær, stjórnin hafði 33 þingsæti en missir eitt í dag og hefur því aðeins 32 alþingismenn og staðan því algjörlega í járnum. Óvissan um það hvað gerist á laugardag er því algjör og ljóst að stefnir í spennandi kosninganótt séu kannanir að mæla stöðuna rétt.

Mér finnst þessi könnun frekar sýna vinstrisveiflu en nokkuð annað. Það yrði klárlega vinstristjórn í pípunum í svona stöðu og það yrðu klárlega miklar breytingar. Fari þetta svona eða einhverjum viðlíka hætti er staðan brothætt og ljóst að núverandi stjórnarsamstarf er feigt í raun, enda verður því varla haldið áfram með einu þingsæti í meirihluta. Það er alveg ljóst að raunhæfar líkur eru á miklum breytingum og erfitt að segja nokkuð til um stöðuna, þó að ég telji eftir að hafa fylgst lengi með stjórnmálum að frekar yrði mynduð stjórn vinstri en hægri í svona stöðu.

Það eru aðeins tveir sólarhringar þar til kjörstaðir opna. Óvissan um það hvað gerist um helgina er orðin algjör. Það er mikil spenna yfir stöðunni. Enn er spurt hvort að uppsveifla Framsóknarflokksins haldi til enda. Sveiflan er staðfest í dag með þessari könnun þykir mér um leið og niðursveifla Sjálfstæðisflokksins staðfestist. Staða ríkisstjórnarinnar er allavega mjög óviss og upphækkun vinstriflokkanna er táknræn.

Við stefnum í örlagaríka pólitíska helgi fari úrslit kosninganna á laugardag í einhverja viðlíka átt. Það er næstsíðasti dagur kosningabaráttunnar og ljóst að barist verður af krafti fyrir hverju atkvæði, enda mun hvert atkvæði skipta máli þegar að staðan verður greind er á hólminn kemur.


mbl.is Samfylking og VG bæta við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað alltof miklu fylgi. Ég tel stöðuna mjög opna og hvet menn til að gá að því hvað þeir kjósi á laugardag. Það er svo sannarlega vinstristjórn í pípum í svona stöðu. Finnst það fjarri því ótrúlegur möguleiki. Finnst reyndar stjórnin mjög tæp og tel hana feiga hvernig sem fer. Það má vel vera að D og S reyni stjórnarsamstarf en falli stjórnin verður fyrst reynt að mynda stjórn til vinstri. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn á hættuslóðir að mínu mati, enda má alltaf búast við skekkjumörkum á stöðuna og í raun er hann kominn í kjörfylgi. Það er ekki gott mál, enda voru úrslitin 2003 næstverstu úrslit í sögu flokksins og hann hélt þá aðeins völdum með því að semja af sér forsætið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 10.5.2007 kl. 13:43

2 Smámynd: Kristján Pétursson

Það er oftast gott að lesa greinarnar þínar,þær eru skipulegar og rökrænar,gott að átta sig á stöðunni.Ég er nú farinn að halda að hvorug fylkingin nái nægum meirihluta,sem þarf að vera a.m.k.tveggja þingm.meirihluti.Mér sýnist Sjálfstæðisfl.vera með 32-33 % raunfylgi þ.e.2-4 % minna en skoðanakannanir sýna.Ég held að það sé rétt fyrir ykkur Sjálfstæðismenn að búa ykkur undir það,en framsókn verði með 14 - 15 %

Kristján Pétursson, 10.5.2007 kl. 15:39

3 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Fylgið í þessum könnunum er fengið út frá tveimur uppsöfnuðum dögum.

Framsókn er í dag að njóta þeirra rúmlegu 17% sem þeir virðast hafa fengið í mælingunni fyrir 8 maí, mæling 9 maí virðist ekki hafa fylgt þeim degi eftir. Vittu til þeir verða nær 10% í birtingunni á morgunn.

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 10.5.2007 kl. 16:14

4 Smámynd: Jóhann Rúnar Pálsson

Hvaða aðferðafræði notar Þórir til að finna þessi rúmlega 17%? E.t.v. sú sama og Vg hefur notið góðs af! Held að ekki sé um að villast að Framsókn er að sækja í sig veðrið og endi í 16% á landsvísu. Nú veltur á því hjá Akureyringum að kjósa sinn mann, Höskuld Þórhallsson, inn fyrir Framsókn. Leyni því ekki að ég vil endilega sjá hann inni á sunnudagsmorgun.

Jóhann Rúnar Pálsson, 10.5.2007 kl. 23:25

5 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Hérna,

ég geri ráð fyrir að Jóhann skilji hvernig þessi 2 daga uppsöfnunarkönnun sem Gallup sendir út virkar?

Einnig skil ég ekki þennan rant um VG.

Kveðjur :) 

Þórir Hrafn Gunnarsson, 11.5.2007 kl. 04:31

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir pælingarnar.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.5.2007 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband