12.5.2007 | 22:59
Ríkisstjórnin fallin - mikil óvissa í stöðunni
Það blasir við að nú verður ný ríkisstjórn mynduð og óvissan yfir stöðunni er mikil. Það er mín skoðun miðað við stöðuna að þjóðin sé að kalla eftir stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það er sú stjórn sem ég vil helst sjá við fall þessarar sögufrægu stjórnar, sem hefur setið lengst allra í lýðveldissögunni.
Ég er staddur á kosningavöku á Hótel KEA og hér er gleði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sigrað kjördæmið og Kristján Þór Júlíusson verður fyrsti þingmaður kjördæmisins. Fyrir því skálum við öll sem eitt hér! Glæsilegur sigur það!!
![]() |
Geir: Allt mjög óljóst enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 19:03
Talning hafin - styttist í pólitíska örlagastund

Spurt er um stöðu flokka og frambjóðenda - óvissan er algjör. Það verður líka mjög athyglisvert að sjá hvort að Frjálslyndi flokkurinn nær að halda sér á þingi með sannfærandi hætti og hversu vel vinstriflokkarnir mælist. Síðan er stór spurning hversu mikið afhroð Framsóknarflokksins verði en það stefnir allt í að flokkurinn fái sögulega útreið í nótt. Staða Sjálfstæðisflokksins er ennfremur óljós þó flest bendir til að hann bæti við sig frá kosningunum 2003.
Svör við öllum stóru spurningunum eru framundan. Ef þið hafið spá endilega komið með hana. Ég er að fara á Hótel KEA, en þar ætlum við sjálfstæðismenn að horfa á Eurovision og kosningavökuna til morguns. Það má búast við líflegri kosningavöku og spennandi nótt svo sannarlega þar sem örlögin ráðast. Það verður því lítið uppfært en ég kannski kemst í tölvu þar og skrifa eftir því sem hægt er. Ég mun fjalla ítarlega um úrslitin allavega þegar að myndin er orðin ljós og skrifa vel um þetta með morgni.
Endilega komið með spá og pælingar hér - svona á meðan að örlögin eru ekki ráðin.
Góða skemmtun í nótt!
![]() |
Nærri helmingur búinn að kjósa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 18:26
Kveðja til Halldórs
Stjórnmálaferli Halldórs Blöndals lýkur í dag. Umboð Halldórs sem kjördæmaleiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og alþingismanns rennur út á miðnætti og brátt verður ljóst hversu marga alþingismenn Sjálfstæðisflokkurinn í kjördæminu hlýtur. Það eru auðvitað mikil þáttaskil fyrir okkur sjálfstæðismenn hér að Halldór hætti pólitískum störfum fyrir flokkinn á svæðinu, enda hefur hann verið þingmaður okkar í tæpa þrjá áratugi, eða allt frá desemberkosningunum 1979 og var varaþingmaður 1971-1979.
Hér á Akureyri hóf Halldór Blöndal þátttöku í stjórnmálum á námsárum sínum í MA og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér á svæðinu. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð 7 af 8 formönnum flokksins. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995, samgönguráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.
Halldór vann væntanlega sinn sætasta pólitíska sigur í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í NE Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt sem ósigrandi risar yfir kjördæminu og verið alltaf langstærstir. Þetta var ógleymanlegur sigur fyrir okkur hér. Segja má reyndar að Halldór og Tómas Ingi Olrich hafi verið sterkt forystutvíeyki fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á þessu svæði um árabil. Þeir voru mjög ólíkir stjórnmálamenn en unnu saman vel fyrir flokkinn. Þeir unnu saman í landsmálunum í um tvo áratugi.
Í prófkjörinu í NE árið 1987 sigraði Halldór og Tómas Ingi varð þá í þriðja sæti. Árið 1991 voru þeir efstir á listanum. Sama var í kosningunum 1995 og 1999, í síðarnefndu kosningunum varð Tómas Ingi kjördæmakjörinn. Í kosningunum 2003 voru þeir saman í forystu flokksins í Norðaustrinu. Það voru þeirra síðustu kosningar í forystu hér. Hér blasa nú við mikil þáttaskil, enda báðir okkar efstu menn hættir í stjórnmálaforystu og það hefur orðið mikil uppstokkun innan Sjálfstæðisflokksins og nýjir tímar svo sannarlega framundan þar undir forystu nýs leiðtoga, Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Það hefur allt frá fyrsta degi verið mér sannur lærdómur að vinna í flokksstarfinu hér undir forystu Halldórs. Hann er svo sannarlega mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu, en hann er alveg hafsjór af fróðleik.
Halldór er mikill öðlingur, með hjarta úr gulli sem fer þó sínar leiðir. En er á hólminn kemur er enginn traustari og öflugri en hann. Ég gæti eflaust skrifað mun lengri grein um Halldór og farið yfir allt sem ég tel merkilegt við þau þáttaskil að hann stígur af hinu pólitíska sviði. Ég tel hinsvegar að verk hans tali í raun sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann hefur unnið fyrir umbjóðendur sína. Þar hefur verið lögð sál og hjarta í hvert verkefni.
Það hefur alltaf verið barist af krafti. Aldrei hefur hann gefist upp fyrr en tryggt sé að barist hafi verið til sigurs eða áherslurnar hafi allavega náð á leiðarenda. Það varð oft þung og erfið barátta, stundum frekar auðveld. Það er eins og gengur. Ég segi eins og forveri Halldórs á leiðtogastóli hér fyrir norðan, Lárus Jónsson, að stjórnmálin verða aldrei neinn hægindastóll. Þar eru alltaf verkefni til staðar.
Það hefur best sést á Halldóri sem hefur unnið sitt verk af dugnaði og alúð. Hvort sem við erum fyrir norðan eða austan getum við verið sátt við hans verk, enda hefur hann verið baráttumaður. Við minnumst hans þannig. Ég vil við pólitísk leiðarlok þakka Halldóri fyrir farsæla forystu og gott verk að kvöldi langs dags við verkin og færi honum og Rúnu bestu kveðjur um góða og farsæla framtíð.
12.5.2007 | 17:53
Góð kjörsókn í Norðausturkjördæmi
Það var gaman að halda til að kjósa. Það gekk mjög auðveldlega fyrir sig. Gaman að hitta fólk í kjördeildum og á kjörstað og ræða saman. Það er frekar svalt á Akureyri í dag, en þó ekki það leiðindaveður sem spáð var. Mér skilst þó að út með firði sé snjókoma og enn kaldara. Það er kuldagjóla allavega. Það hefur þó engin áhrif á kjördaginn og flutning kjörgagna en öll atkvæði í kosningunum í Norðausturkjördæmi verða talin í KA-heimilinu og hefst talning nú kl. 18:00.
Það verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur eftir fjóra tíma. Það er mikil spenna í loftinu hér á Akureyri allavega og eflaust um allt land.
![]() |
Þokkaleg kjörsókn í Norðaustur-, Norðvestur- og Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 13:34
Jóhannes í Bónus styður Kristján Þór í dag
Þessi auglýsing verður enn undarlegri í ljósi þess að viðkomandi maður hefur ekki lögheimili í því kjördæmi sem um ræðir. Hinsvegar er þessi auglýsing ekki beint hatur á öllu sem tengist Sjálfstæðisflokknum. Það blasir enda við að Sjálfstæðisflokkurinn hér í kjördæminu fær atkvæði hans í dag. Það er spennandi umhugsunarefni hvort hann sé að hvetja fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn heilt yfir. Það lítur þannig út allavega, fljótt á litið.
Einn fjölmiðlarýnir sagði í gær að þetta hefði verið meira grande ef Jóhannes hefði einfaldlega skrifað grein með beittum hætti en birta þessa auglýsingu. Það er erfitt að spá um hvaða áhrif þetta er. Auglýsingin verður enn merkilegri auðvitað í ljósi þess að viðkomandi maður segist vera sjálfstæðismaður að fornu fari og muni styðja flokkinn í dag. Andúð Jóhannesar á Birni leynir sér ekki. Veit ekki hvernig fólk dæmir svona, en ég held þó að greinaskrif hefði fallið betur í kramið en þessi auglýsingakaup. En það vekur vissulega enn meiri athygli en ella.
Það er þó ágætt að vita að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi fær atkvæði Jóhannesar. Það er greinilegt að hann styður Akureyringa á þing. Enginn flokkur á meiri von á fleiri en einum þingmanni frá Akureyri en einmitt Sjálfstæðisflokkurinn. Stuðningur Jóhannesar með svo áberandi hætti skiptir vissulega máli, þó að þetta sé varla jákvæð auglýsing að öllu leyti.
![]() |
Geir: Auglýsing Jóhannesar ósmekkleg og óviðeigandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 11:01
Kjörstaðir opna - kjósendur taki afstöðu!

Ég er að fara núna og greiða atkvæði. Ég kýs eins og venjulega í Oddeyrarskóla á Akureyri og kjördeildin mín er sú níunda. Ég hef einu sinni lent í því að vinna á kjördegi í Oddeyrarskóla. Það var í forseta- og sameiningarkosningunum. Get ekki beint sagt að það hafi skemmtileg vinna. Ég hef alla tíð verið algjör stjórnmálafíkill og verð að fylgjast með kosningavöku, tölum og pæla í stöðuna meðan að hún gerist í beinni eins og við segjum. Forsetakosningarnar 2004 voru ekki beint spennandi og áhugaverðar og ég gat lifað við það að taka þennan pakka þá. Helst var spursmál þá hversu margir myndu slaufa á forsetann og skila auðu.
Kosningar eru mikilvægar. Öll eigum við eitt atkvæði. Við eigum að taka afstöðu og mæta á kjörstað - krossa við þann lista sem við teljum réttan. Það má heldur ekki gleyma því að maður getur haft afstöðu á listann sinn. Það hefur auglýsingamennska Jóhannesar Jónssonar sýnt okkur vel. Á þó ekki von á að ég breyti neitt mínum lista, enda líst mér heilt yfir vel á hann.
Ég hvet alla til að kjósa, þetta er okkar mikilvægasti lýðræðislegi réttur - nýtum hann!
![]() |
Búið að opna kjörstaði um allt land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 00:31
Umdeild dagblaðaauglýsing Jóhannesar í Bónus
Það má vel vera að margir í samfélaginu þoli suma stjórnmálamenn ekki og telji þá hafa komið illa við sig en fáir geta auglýst með þessum hætti og svona áberandi gegn einni manneskju. Það hefur vissulega verið lífleg umræða um þetta í dag. Ég skrifaði um þetta þegar að ég sá Fréttablaðið í dag. Í greininni vísa ég til þess að þetta sé í Fréttablaðinu en það var auðvitað sagt því að ég sá það blað fyrst. Þetta var í öllum öðrum blöðum nema Viðskiptablaðinu minnir mig. Annars hef ég ekki lesið öll blöð í dag, en sá ekki ástæðu til að breyta skrifunum þrátt fyrir það.
Það er vissulega fordæmi að nokkrir menn í samfélaginu keyptu heilsíður örfáum dögum fyrir forsetakosningarnar 1996 til að telja upp ýmislegt sem þeir töldu neikvætt í garð forsetaframbjóðandans Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta voru menn sem höfðu persónulega andúð á Ólafi Ragnari, meðal annars vegna verka hans sem fjármálaráðherra og þingmanns löggjafasamkundunnar. Þessar auglýsingar komu af stað samúðarbylgju með Ólafi Ragnari. Hann vann forsetaembættið og vist á Bessastöðum með yfirburðarkosningu skömmu síðar og töldu margir auglýsingarnar hafa tryggt honum Bessastaði með áberandi hætti, en fram að því var jafnvel talið að munurinn yrði minni.
Það er erfitt að spá um hvaða áhrif þessi auglýsingamennska Jóhannesar Jónssonar í fjölmiðlum hefur. Það vekur vissulega nokkra athygli að hann lýsi svo opinberlega yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, enda er þetta stuðningur við flokkinn. Hann vísar þó beint til andúðar sinnar á dómsmálaráðherranum. Sú andúð er ekki beint ný af nálinni, en fræg voru hvassyrt ummæli hans í Örlagadeginum, þætti Sigríðar Arnardóttur í haust, gegn Birni og fleiri nafngreindum mönnum.
En svona auglýsingamennska á sér fá fordæmi og vekur athygli á þeirri stundu er kosningabaráttunni lýkur. Þetta hefur verið eitt aðalumræðuefnið á síðasta degi kosningabaráttunnar og var meira að segja rætt í lokaumræðum leiðtoganna á Ríkissjónvarpinu fyrr í kvöld. Þar vöktu athygli ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þetta væru innanflokksátök innan Sjálfstæðisflokksins. Heldur voru það kómísk og dapurleg ummæli að mínu mati.
En svona auglýsingabarátta eins manns gegn einum stjórnmálamanni með svo opinskáum og áberandi hætti vekur athygli. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða eftirmálar fylgi auglýsingamennsku Akureyringsins Jóhannesar Jónssonar.