Framsókn hikar - þreifingar hafnar um aðra stjórn?

Jón Sigurðsson og Geir H. Haarde Biðstaða er í viðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um myndun ríkisstjórnar á meðan að kjaftasögur verða sífellt háværari um að þreifað sé fyrir sér um samstarf Sjálfstæðisflokks við Samfylkingu eða VG. Það er svosem ekki óeðlilegt að staða mála sé könnuð en það er ljóst að mjög er nú beðið eftir því hver afstaða Framsóknarflokks er til stjórnarmyndunarmála.

Það er ljóst að greinilegt hik er innan Framsóknarflokksins yfir stöðu mála og engin ein afgerandi rödd sem heyrist um hvert flokkurinn skuli stefna eftir sögulegt afhroð í kosningunum á laugardag. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, kannar hug grasrótarinnar í flokknum en þar heyrast mjög ólíkar raddir. Eins og vel hefur komið fram er greinilegt að höfuðborgarkjarni flokksins vilji láta gott heita og horfa til uppbyggingar í kyrrþey en á landsbyggðinni eru þær raddir mjög háværar að flokkurinn eigi að sækjast eftir áframhaldandi áhrifum.

Það er ekki undarlegt að orðrómur sé um að Sjálfstæðisflokkurinn horfi í aðrar áttir. Það er greinilegt að bæði Samfylkingin og VG hafa sýnt afgerandi áhuga á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Árni Páll Árnason, alþingismaður, talaði mjög í þessa átt í Íslandi í dag í kvöld og Birgir Ármannsson, starfandi forseti Alþingis, útilokaði ekki að horft yrði til vinstri eftir samstarfsaðila í ríkisstjórn. Ennfremur hefur vel sést af tali Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar að á þeim bænum sé ekki fjarlægt að horfa til Sjálfstæðisflokksins.

Það er greinilegt á allri stöðu mála að vinstristjórn er úr sögunni. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur öll tromp á hendi og getur í raun valið sér samstarfskost, enda líta Samfylkingin og VG til sterks tveggja flokka samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Í raun eru aðeins þrír valkostir í stöðunni sýnist mér. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn allsstaðar inni í myndinni í tveggja flokka stjórn við þessa þrjá flokka. Því er ekki að neita að sterkari möguleikar eru fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar og þá möguleika verður að skoða hrökkvi Framsókn af stampinum.

Ég spái því að staða mála varðandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ráðist að mestu á morgun. Það er mikilvægt að fram komi frá Framsóknarflokknum afgerandi ein skoðun um hvert þeir vilja stefna. Það virðist vera mikið rót á afstöðu manna og mikill munur á afstöðu trúnaðarmanna um næstu skref. Það gengur varla mikið lengur. Umboð Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, er mun veikara í ljósi þess að hann er ekki í þingflokki Framsóknarflokksins og hann er veikari leiðtogi en ella. Fari Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn er hann utan alls þingstarfs í raun og verður ósýnilegri en ella.

Það virðast vera tvær fylkingar innan Framsóknarflokksins um hvert skuli stefna. Það hlýtur að veikja flokkinn verulega sem samstarfskost haldi staðan áfram með óbreyttum hætti. Kannski verður sú skoðun ofan á að hrun flokksins í Reykjavík sé slíkt áfall að hann muni velja að sitja hjá. Hinsvegar blasir við að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og þingmenn hennar skipa nærri helming þingflokks Framsóknarflokksins og þar virðist vera skýr vilji um að halda áfram og sækjast eftir áhrifum.

Kannski er þetta skýrt merki um viss átök innan Framsóknarflokksins. Það er greinilegt að fari Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu verði Guðni Ágústsson forystumaður flokksins á þingi, enda varaformaður hans og talsmaður í ljósi þess að formaðurinn er ekki alþingismaður. Það má ekki gleyma því að Halldórsarmurinn fór í nokkra hringi í fyrrasumar til að leita að formannsefni til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson tæki flokkinn yfir. Þetta er kannski angi þess að tekist sé á um framtíðina.

Framsóknarflokkurinn þarf að hugsa sín mál vel. Það er erfitt að spá um næstu skref. Það er þó ljóst að aðrir stjórnarkostir eru komnir í umræðuna og ekki hægt að útiloka að þeir verði mun meira áberandi en ella komist ekki brátt skýrari línur um afstöðu mála.

Birgir Ármannsson sestur á forsetastól Alþingis

Birgir Ármannsson Birgir Ármannsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú tekið við störfum forseta Alþingis, þar til að nýr forseti verður kjörinn á þingsetningarfundi á næstu vikum. Sólveig Pétursdóttir hefur látið af þingmennsku og er því ekki lengur forseti Alþingis. Svo vill til að næstu tveir varaforsetar Alþingis, Rannveig Guðmundsdóttir og Jón Kristjánsson, eru ekki lengur þingmenn. Það er því Birgir, sem þriðji varaforseti Alþingis, sem nú verður forseti Alþingis.

Mér telst til að af þeim sjö einstaklingum sem hafa gegnt forsetaembætti Alþingis og varaforsetastöðunum séu aðeins þrír þeirra enn á Alþingi. Það eru Birgir Ármannsson, Þuríður Backman og Jóhanna Sigurðardóttir. Auk fyrrnefndra er Sigríður Anna Þórðardóttir ekki lengur alþingismaður. Það hefur því svo sannarlega orðið mikil uppstokkun á Alþingi, reyndar sú mesta frá árinu 1934, og kristallast það vel af forsætisnefnd Alþingis skv. þessu.

Birgir hefur verið á þingi aðeins í fjögur ár og verður eflaust öflugur fulltrúi í þessu embætti. Ólíklegt verður að teljast að Birgir verði kjörinn forseti þingsins á þingsetningarfundi en embættið er í góðum höndum altént fram að því.

Jacques Chirac kveður - Sarkozy tekur við á morgun

Jacques Chirac Jacques Chirac, forseti Frakklands, kvaddi frönsku þjóðina og forsetaembættið í tilfinningamikilli kveðjuræðu frá Elysée-höll fyrir stundu. Chirac lætur af forsetaembætti á morgun eftir tólf ára forsetaferil. Chirac hefur verið einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Frakklands í áratugi og á að baki litríkan stjórnmálaferil.

Hann hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið áberandi í sínum verkum og telst einn af lykilmönnum franskra stjórnmála alla tíð síðan á valdadögum Charles De Gaulle. Kynslóðaskipti verða í forystusveit með brotthvarfi hans af hinu pólitíska sviði. Eftirmaður hans, Nicolas Sarkozy, tekur við embættinu með sterku umboði eftir forsetakosningarnar 6. maí sl.

Ég fór yfir stjórnmálaferil Chiracs í ítarlegum pistli í mars, þegar að hann lýsti því yfir að hann gæfi ekki kost á sér að nýju. Bendi á þau skrif. Chirac hefur verið áhrifamaður áratugum saman. Hann varð tvívegis forsætisráðherra Frakklands, var borgarstjóri í París í tvo áratugi og tapaði tvennum forsetakosningum fyrir Francois Mitterrand, forvera sínum, áður en hann náði loks sigrinum mikla árið 1995 og hljóta lyklavöld að Elysée-höll.

Heilt yfir boða forsetaskiptin mikil þáttaskil fyrir Frakka. Chirac hefur verið lykilmaður í stjórnmálaflóru Frakka áratugum saman. Forsetakosningarnar fyrir nokkrum vikum voru umfram allt uppgjör við Chirac-tímann. Báðir frambjóðendur boðuðu nýja tíma og litu frá Chirac-tímanum með mjög áberandi hætti. Það verður nú verk Sarkozy að halda utan um franska hægriarminn og framundan eru brátt þingkosningar þar sem reynir á nýja forsetann.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk pólitíski klækjarefurinn frá Correze muni nú leika eftir lok valdaferilsins.

mbl.is Chirac hvetur Frakka til að standa saman í kveðjuávarpi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir horfist í augu við sömu valkosti og Davíð

Davíð og Geir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, horfist nú í augu við sömu valkosti og forveri hans, Davíð Oddsson, eftir þingkosningarnar 1995; það er hvort að 32 þingsæta meirihluti sé nógu traustur til fjögurra ára eður ei. Fyrir tólf árum mat Davíð Oddsson það ótraust að halda til samstarfs við Alþýðuflokkinn í þessari stöðu, eftir ýmsa erfiðleika kjörtímabilið á undan, og leitaði eftir því samstarfi við Framsóknarflokkinn sem síðan hefur setið við völd.

Staða mála er mjög óviss að þessu sinni. Það er þó eðlilegt að tekinn sé góður tími til að velta fyrir sér stöðunni. Að mínu mati er þessi samstarfskostur mun traustari en sá sem blasti við Davíð Oddssyni fyrir tólf árum. Eftir yfirlýsingar Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum í aðdraganda alþingiskosninganna 1995 og fjölda annarra mála sem höfðu komið sér illa var það samstarf í raun dauðadæmt. Það kom í sjálfu sér fáum að óvörum, nema kannski ráðherrum Alþýðuflokksins, þegar að Davíð ákvað að segja skilið við samstarfið.

Að þessu sinni er spurt um tvennt; geta flokkarnir unnið traustir saman og er grunnur enn til staðar fyrir því að halda áfram? Að mínu mati er þetta tvennt enn til staðar. Ég sé enga áberandi farartálma til staðar að þessu sinni. Þetta eru tveir mjög vel mannaðir þingflokkar og þar ætti að geta haldist samhent verklag í þeim málum sem mestu skipta. Sé viljinn fyrir hendi er allt hægt. Þetta var hægt á viðreisnartímanum og gæti vel gengið núna. En þá verður verklagið að vera í lagi. Það var helst að ég væri hugsi yfir Bjarna Harðarsyni, alþingismanni, í Silfri Egils en ég hef þó í sjálfu sér engar efasemdir með að Bjarni vilji vinna vel.

Helst blasir nú við greinileg ólga innan Framsóknarflokksins um valkostina í stöðunni. Það er skiljanlegt að þar á bæ séu menn hugsi yfir þessari stöðu sem þeir horfast í augu við eftir þeirra svartasta dag, laugardaginn 12. maí. Þessi kosningaúrslit eru sögulegt afhroð fyrir Framsóknarflokkinn. Hann horfist í augu við grasrótina og spyr ráða í stöðunni. Þar eru skiptar skoðanir og ekkert eitt svar sem berst. Á höfuðborgarsvæðinu virðist vera helst talað fyrir því að setja punkt aftan við afhroðið, halda í stjórnarandstöðu og safna kröftum og kjarki til að reyna aftur.

Það er ekki undarlegt að hér í Norðausturkjördæmi vilji menn halda áfram, reyndar á landsbyggðinni allri svosem ef út í það er farið. Hér vann flokkurinn sinn besta sigur á kosninganótt og héðan koma þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins á landsvísu. Það vakti athygli í gær að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur ekkert viljað segja og neitaði að kommenta á stöðuna eftir þingflokksfund í gær. Að mínu mati er enginn vafi á því að Valla er orðin lykilforystumaður innan flokksins, leiðandi kjördæmi sem mannar tæpan helming þingflokksins.

Þetta er í sjálfu sér frekar einföld staða. En Framsókn verður að fara á trúnaðarstigið innan sinna raða og gera upp úrslitin og gera það upp við sig hvort þar sé neisti til að halda áfram. Greinaskrif, bloggpælingar og talandi grasrótarinnar fá sjálfstæðismenn til að hugleiða stöðuna. Framsóknarmenn virðast ráðvilltir og ekki feta allir sama stíg til verkanna.

En er á hólminn kemur er það Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur úrslitavaldið. Þó að hann hafi ekki náð kjöri á Alþingi er hann í lykilstöðu innan sinna raða, verandi með umboð flokksþings til að leiða starf flokksins á komandi árum. Það verður Jón sem að lokum verður að taka af skarið eftir að hafa litið yfir það sem eftir stendur.

Á meðan halda vangaveltur um stöðuna áfram og ljóst að fjarri því hafa aðrir valkostir verið teknir úr umræðunni. En það er heiðarlegt og sjálfsagt að reynt verði á það hvort að ríkisstjórn sem hlaut umboð til stjórnarsetu verði endurmynduð. Það er fyrsti kosturinn í stöðunni, enda engin stjórnarkreppa í stöðunni.

Kannski hringir Geir H. Haarde í Seðlabankann og spyr ráða. Þar er staðsettur maður sem þekkir vel valkostina í sömu stöðunni og blasir við stjórnmálamönnum - hann hefur líka tekið afdrifaríkar ákvarðanir í slíkri stöðu og verið maður áhrifa og valda. Hann hlýtur að hafa mörg ráð í stöðunni.

Áfall Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Lára Stefánsdóttir Það fer ekkert á milli mála að úrslit þingkosninganna um síðustu helgi voru áfall fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi. Láru Stefánsdóttur, bloggvinkonu minni, mistókst aðrar kosningarnar í röð að ná kjöri og flokkurinn missti þriggja prósenta fylgi frá alþingiskosningunum 2003. Þessi úrslit eru um leið nokkuð pólitískt áfall fyrir Kristján L. Möller, alþingismann og leiðtoga flokksins, sem hafði frekar viljað stefna að fylgisaukningu og eygja von á að vinna kjördæmið.

Þess í stað tapaði flokkurinn fylgi og það merkilega gerðist að Framsóknarflokkurinn vann bæði VG og Samfylkinguna með mjög afgerandi hætti. Lengst af í kosningabaráttunni stefndi í að bæði Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon myndu komast ofar í þingmannatölu Norðausturkjördæmis en Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og skáka Framsókn verulega fylgislega séð. Þvert á allar skoðanakannanir lengst af kosningabaráttunnar náði Framsóknarflokkurinn yfir 24% fylgi og að verða næststærst en það blasti við nær alla baráttuna að Sjálfstæðisflokkurinn myndi sigra í kjördæminu.

Ég er ekki í vafa um það að það veikti stöðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verulega að Lára Stefánsdóttir varð ekki í öðru sætinu á framboðslista flokksins í prófkjörinu á síðasta ári. Hún sóttist eftir öðru sætinu en varð þriðja. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, var mjög lítið áberandi í kosningabaráttunni hér og ég man hreinlega ekki eftir því að hafa séð hann í baráttunni nema í einhverjum málefnaþætti hjá Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum vikum og það á Ísafirði af öllum stöðum. Einar Már fer inn á þing en Lára situr eftir aðrar kosningarnar í röð með sárt ennið.

Það er kaldhæðnislegt að í bæði skiptin tapaði Lára þingsæti í baráttu við framsóknarmenn. Fyrst í baráttu við Birki Jón um kjördæmasæti vorið 2003 og svo jöfnunarsætinu í baráttu við Höskuld Þórhallsson. En svona er það bara. Þetta er auðvitað hringekja og þeir sem einu sinni komast inn í tæpustu sætin á kosninganótt eru aldrei öruggir fyrr en síðasta atkvæðið í síðasta kjördæminu hefur verið talið. Hringekjan var óvenju hraðskreið þetta árið og ekkert ljóst í neinu fyrr en Norðvestrið var búið.

Mér skilst á Láru að hún ætli nú að fara í skóla til að læra ljósmyndun. Ég vona að henni gangi vel í því og öðrum þeim verkefnum sem hún tekur sér á hendur eftir þessi úrslit. Hinsvegar er öllum ljóst að Samfylkingin fer frekar vængbrotin frá þessum kosningum hér. Væntingarnar voru miklar en vonbrigðin eru enn meiri við leiðarlokin.

Serbía sigrar í Eurovision - skrautleg keppni

Marija Serifovic Það var mjög sérstakt að horfa á Eurovision þetta árið, eins og hin fyrri. Það er greinilegt að austurblokkin hefur þar öll völd og ræður för. Það kom því ekki að óvörum að Serbía myndi sigra keppnina. Einhvernveginn eru yfirburðir austurblokkarinnar orðin svo áberandi að það hættir að koma manni í raun og veru á óvart. Stigagjöfin á laugardagskvöld var svo landamæramiðuð að með ólíkindum var.

Mér fannst serbneska lagið mjög fallegt og það verðskuldaði vissulega sigur. En mörg önnur lög verðskulduðu sigur. Vond útreið V-Evrópuþjóðanna í undanriðlinum var gríðarlega áberandi. Sérstaklega vakti vond staða Íslands mikla athygli. Hinsvegar var Eiríkur Hauksson sorglega nærri því að komast áfram. Honum vantaði svipað lítið upp á það og Silvíu Nótt fyrir ári þegar að hún datt út með Congratulations.

Enn er talað um hvað eigi að gera varðandi þessa keppni. Það er ljóst að eitthvað verður að stokka hana upp. Mér finnst ekki galin hugmynd að hafa einfaldlega tvær keppnir á svipuðum tíma, þar sem annarsvegar er fókuserað á vesturhluta Evrópu og hinsvegar austurhlutann. Þetta eru mjög ólíkar tónlistarstefnur og samræmast illa. Þetta eru tveir menningarheimar, enda mjög ólík svæði.

En það væri gott að heyra í þeim sem lesa um hvað hafi verið uppáhaldslagið þeirra og hvað þeim finnst að eigi að gera varðandi keppnina.

mbl.is Veðjaði aleigunni á sigur dóttur sinnar í Evróvisjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru vinstri grænir að biðla til Sjálfstæðisflokksins?

SJS Það er greinilegt að VG horfir til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Annað verður ekki séð af hlægilegu "tilboði" VG til Framsóknarflokksins um að þeir verji minnihlutastjórn sína og Samfylkingar. Framsóknarflokkurinn væri betur kominn í stjórnarandstöðu en sem aukahjól vinstri flokkanna. Þetta sést enda vel af viðbrögðum framsóknarmanna í dag að þeim er ekki beint skemmt.

Annað hvort eru vinstri grænir aðeins að sparka í framsóknarmenn sér til skemmtunar eða gera það gagngert til að koma vinstristjórnarkosti út af borðinu. Það lítur út fyrir að VG sé farið að biðla til Sjálfstæðisflokks um vist í tveggja flokka stjórn. Þetta sást vel í Silfri Egils á sunnudaginn og í tali Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, í leiðtogaumræðum á sunnudagskvöldið í Ríkissjónvarpinu þar sem hann var að fárast yfir sjónvarpsauglýsingum ungra framsóknarmanna sem voru svar við Zero framsóknar-nælum ungra vinstri grænna.

Það er greinilegt að VG er komið á biðilsbuxurnar til hægri. Í kvöld tókust þeir á Guðni Ágústsson og Ögmundur Jónasson. Þar kom vel fram að einn stærsti möguleikinn um stjórnarmyndun sem Ögmundur nefndi er einmitt stjórnarkostur VG og Sjálfstæðisflokks. Það verður fróðlegt að sjá hvort að vinstri grænir fari að sýna meiri ástúð fyrir því að vinna með Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is Steingrímur: Stjórnarmyndunarumboð liggur ekki á lausu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir H. Haarde heilsaði ekki Árna Johnsen

Í kvöldfréttum voru sýndar myndir frá fyrsta fundi nýs þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar var mjög áberandi að sjá að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, gekk framhjá Árna Johnsen, nýjum alþingismanni, og heilsaði honum ekki en gekk til næstu manna við hann og heilsaði þeim.

Þetta var mjög áberandi!


Bloggfærslur 15. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband