Jón reynir að bera á móti pólitískum endalokum

Jón Sigurðsson Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, bar á móti orðrómi Steingríms Sævarrs Ólafssonar, fyrrum aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, í Íslandi í dag, í kvöld, í tíufréttum Sjónvarps fyrir stundu. Það er ekki undrunarefni í sjálfu sér enda er Jón orðinn endanlega pólitískt dauður um leið og hann staðfestir orðróm af þessu tagi og það áður en hann missir ráðherrastól sinn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem blasir við að gerist á næstu dögum.

Það er þó algjörlega ljóst að napra staðan er engu að síður óbreytt. Hann stendur í raun eftir án hlutverks í íslenskum stjórnmálum um leið og hann missir ráðherrastólinn. Sennilega væri enginn að velta þessu fyrir sér hefði Jón hlotið kjör á Alþingi í Reykjavík norður eða hefði aðkomu að þinginu sem mögulega varaþingmaður eftir að hafa misst ráðherrastólinn. Það er þó ekki í spilunum og öllum ljóst að missi Jón ráðherrastólinn eru örlögin ráðin, altént að því leyti að hann hafi einhver áhrif í íslenskum stjórnmálum. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það.

Það á varla nokkur maður von á að hann staðfesti þessi endalok sjálfur meðan að hann er enn ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hinsvegar vakti orðalag Jóns, sem höfðu voru eftir honum í tíufréttum í kvöld, mikla athygli en hann talaði þar um að beðið yrði niðurstaðna viðræðna um stjórnarmyndun og þá fyrst yrði framtíðin ljós. Ég er ekki í vafa um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði mynduð og taki við fyrir vikulokin, svo að ég á ekki von á að hann staðfesti eitt né neitt í þessum efnum fyrr en hann hefur látið af ráðherraembætti.

Þeir eru fáir tel ég sem sjá það fyrir sér að Jón Sigurðsson verði formaður Framsóknarflokksins án pólitísks hlutverks út fyrir flokksstofnanir. Það að missa af þingsætinu var Jóni gríðarlegt áfall en það að missa lyklavöldin að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu verður enn meira áfall. Þegar að það gerist eru örlögin ráðin. Þess vegna mun Jón ekki staðfesta orðróm af þessu tagi innan úr Framsóknarflokknum og sem er fluttur af fyrrum aðstoðarmanni forvera hans á formannsstóli flokksins á prime sjónvarpstíma fyrr en hann hefur misst stöðu sína innan Stjórnarráðsins.

En örlögin eru giska ráðin og það efast varla fáir um það hvað framundan er. Allavega ekki þeir sem þekkja stjórnmál vel og vita hvaða hlutverki stjórnmálamenn verða að gegna er þeir sitja sem formenn stjórnmálaflokks. Það er enda vonlaust að vera flokksformaður með völd án þess að hafa hlutverk út fyrir flokkinn. Það er napri veruleikinn sem ekki blasir við Jóni Sigurðssyni fyrr en hann hefur misst ráðherrastólinn sem plat-form í stjórnmálum.

mbl.is Jón segir fregnir af andláti sínu stórlega ýktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Sigurðsson hættir formennsku í Framsókn

Jón Sigurðsson Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur tilkynnt nánustu samstarfsmönnum sínum síðustu dagana að hann ætli sér að láta af formennsku í Framsóknarflokknum. Þetta var óhjákvæmilegt auðvitað í stöðunni fyrir hann. Jón missir ráðherrastól sinn á næstu dögum og hann hlaut ekki kjör á Alþingi í kosningunum 12. maí sl. Staða hans var því orðin vonlaus.

Ég skrifaði ítarlegan pistil um þessi yfirvofandi pólitísku endalok Jóns Sigurðssonar í gær og bendi á þau skrif. Það blasti við öllum að staða Jóns hefði verið allt önnur hefði hann haldið ráðherrastól og verið áfram í fronti innan ríkisstjórnarinnar. Með því hefði hann haft lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum bæði talsmaður innan þingflokks og í þingumræðum - leiða Framsóknarflokkinn innan þings og hafa alvöru hlutverki að gegna við að byggja flokkinn upp.

Með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu þær vonir Jóns Sigurðssonar og endalokin voru ljós. Hann fer frá velli innan við ári eftir formannskjör sitt. Þessi orðrómur um endalokin er bara staðfesting þess sem allir vissu. Það verður fróðlegt að sjá hvað við tekur en óneitanlega er staða Guðna Ágústssonar sterk í þessu ljósi og mjög líklegt að hann taki við formennsku sem sitjandi varaformaður. Aftur á móti gætu orðið átök um formennskuna á næsta flokksþingi.

Það stefnir í uppstokkun innan Framsóknarflokksins á öllum sviðum samhliða yfirvofandi formannsskiptum. Það blasir við öllum. Það verður fróðlegt að sjá hver mun taka við formannshlutverkinu nú þegar að Jón Sigurðsson er orðinn pólitískt landlaus og formannsskipti í augsýn.

Hlé gert á viðræðum - vinna í eðlilegum farvegi

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Hlé hefur nú verið gert á stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um skeið. Þetta var niðurstaðan að loknum fundi Geirs H. Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Össurar Skarphéðinssonar í Ráðherrabústaðnum í dag. Flest bendir til að flokkarnir nái saman um málefnaáherslur bráðlega en þeir ætla greinilega að gefa sér lengri tíma til vinnslu málsins.

Þessar viðræður hafa gengið mjög vel á stuttum tíma. Innan við vika er liðin frá endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Geir H. Haarde fékk umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar á Bessastöðum á föstudaginn, eftir að hafa beðist lausnar fyrir fráfarandi stjórn. Fundað var eftir hádegið á föstudaginn í Ráðherrabústaðnum og helgin var vel nýtt til fundahalda á Þingvöllum, hinum sögufræga stað í íslenskri sögu. Þar var fundað báða daga frá morgni til kvölds og ljóst að þar myndaðist góður grunnur að verkinu.

Það er ljóst að ekkert liggur í sjálfu sér á. Flokkarnir eru enn vel staddir innan við tímafrest þann sem Ólafur Ragnar Grímsson nefndi á föstudag er hann veitti umboð til stjórnarmyndunar. Skv. fréttum mun þingflokkur Samfylkingarinnar hittast í kvöld til að kveðja þá þingmenn, sem létu af þingmennsku 12. maí sl. en meðal þeirra eru eins og kunnugt er þær Margrét Frímannsdóttir, síðasti formaður Alþýðubandalagsins og Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrum félagsmálaráðherra hverfa nú af þingi eftir langa þingsetu.

Það verður fróðlegt að sjá hversu langan tíma vinnan við stjórnarmyndun flokkanna gengur, en vægt er til orða tekið að stjórnmálaáhugamenn bíði spenntir eftir stjórnarsáttmála flokkanna og ráðherrakapal þeirra og skiptingu annarra embætta, bæði innan ríkisstjórnar og á Alþingi.

mbl.is Hlé gert á stjórnarmyndunarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Þorgerður Katrín ráðherra í lykilráðuneyti?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Einn stærsti sigurvegari alþingiskosninganna var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún leiddi flokkinn til glæsilegs sigurs í Suðvesturkjördæmi. Þar tókst að ná helmingi þingsæta kjördæmisins og tryggja kjör kjarnakonunnar Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, á þing. Þorgerður Katrín leiddi að mörgu leyti gjörbreyttan framboðslista frá vorinu 2003. Af sex efstu vorið 2003 voru aðeins Þorgerður Katrín og Bjarni Benediktsson eftir. Nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Kraganum eru því fjórir alls.

Staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur innan Sjálfstæðisflokksins styrkist mjög í ljósi þessara úrslita. Hún er auðvitað í ljósi stöðu sinnar örugg um ráðherrastól og svo gæti farið að kjördæmið hlyti annan ráðherrastól. Þetta er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, staða hans á Kragasvæðinu er auðvitað mjög sterk á sveitarstjórnarstiginu og öllum ljóst að hann er þar í fararbroddi. Það þurfti því varla að koma að óvörum að flokkurinn hefði innistæðu fyrir sex þingsætum, en samt sem áður flokkast þessi úrslit undir mikinn sigur flokksins á svæðinu og kórónar sterka stöðu Þorgerðar Katrínar ennfremur. Það blasir við öllum sem líta á úrslitin og stöðu mála.

Fyrir fjórum árum var mikið talað um stöðu Þorgerðar Katrínar í ráðherrakapal. Margir töldu að hún yrði ekki ráðherra þá, enda skipaði hún fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum 2003. Þá hafði hún barist fyrir prófkjöri á svæðinu en það ekki orðið ofan á og efstu fjögur sætin óbreytt frá framboðslista í Reykjaneskjördæmi hinu forna árið 1999. Þrátt fyrir það ákvað Davíð Oddsson að velja Þorgerði Katrínu á ráðherralista sinn. Hann ákvað að Þorgerður Katrín skyldi verða menntamálaráðherra á gamlársdag 2003 og sló af Tómas Inga Olrich. Þorgerður Katrín var tekin framfyrir bæði Sigríði Önnu Þórðardóttur og Gunnar I. Birgisson, sem voru fyrir ofan hana á lista.

Staða Þorgerðar Katrínar er önnur nú. Stór spurning sem fylgir ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni er hvort að hún taki sæti í lykilráðuneyti að þessu sinni. Lykilráðuneyti eru eins og flestir vita, auk forsætisráðuneytis, utanríkis- og fjármálaráðuneyti. Aðeins ein kona hefur skipað sæti í lykilráðuneyti fram að þessu, en það er Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, sem varð fyrsta konan á stóli utanríkisráðherra fyrir tæpu ári, þann 15. júní 2006. Nú þegar er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, skipar sæti í lykilráðuneyti en óvissa er um hvort sætið hún skipi. Óvissa er þó yfir hvort að Þorgerður Katrín færist upp í hinn stólinn.

Þegar að Árni M. Mathiesen varð fjármálaráðherra í september 2005, við endalok stjórnmálaferils Davíðs Oddssonar, var staða mála önnur. Árni var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrsti þingmaður kjördæmisins og Þorgerður Katrín skör neðar sett. Síðan hefur Þorgerður Katrín orðið varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tekið við leiðtogastöðunni af Árna í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín varð varaformaður flokksins, mánuði eftir að Árni varð fjármálaráðherra, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins haustið 2005 og byggt sig sífellt betur upp til forystu. Árni gaf ekki kost á sér til varaformennsku gegn Þorgerði Katrínu og færði sig um kjördæmi að lokum.

Staða mála er önnur nú. Þó að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þyki eflaust vænt um menntamálaráðuneytið og það sem hún hefur sinnt á þeim vettvangi er ekki ósennilegt að hún færi sig um set og taki sæti í lykilráðuneyti við hlið forsætisráðherrans, Geirs H. Haarde, og formanns Samfylkingarinnar, sem leiðir flokk sinn í fronti Þingvallastjórnarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hver staða Þorgerðar Katrínar verði í nýrri ríkisstjórn.

Verður Ágúst Ólafur ráðherra í Þingvallastjórn?

Ágúst Ólafur Ágústsson Það er ljóst að brátt verða ráðherrar í Þingvallastjórnina valdir. Margir velta fyrir sér stöðu Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, sem ráðherraefnis. Það vakti mikla athygli að hann var ekki viðstaddur fyrsta stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Ráðherrabústaðnum og vakti vandræðalega umræðu fyrir Samfylkinguna.

Nú hefur Ágúst Ólafur svo verið pússaður inn í viðræðurnar á Þingvöllum, enda ekki annað í raun viðeigandi en að hann sé lykilhluti viðræðnanna sem varaformaður stjórnmálaflokks í stjórnarmyndunarviðræðum. Það vekur mikla athygli hversu hávær umræðan um ráðherradrauma hans er. Í flestum tilfellum ætti að vera sjálfgefið að varaformaður flokks sem myndar stjórn, og situr um leið á þingi, fái ráðherrastól. Það virðist vera meira hik á þessari umræðu og óvissan hefur auðvitað orðið áberandi, enda er hefð fyrir því að varaformenn leiki lykilþátt í svona umræðum.

Ég tel að möguleikar Ágústs Ólafs á ráðherrasæti hafi aukist eftir að þessi umræða kom upp fyrst. Hún styrkti stöðu hans sem aðila í þessum viðræðum. Það er auðvitað hreinn vandræðagangur að hann sat ekki fyrsta fundinn, það var áberandi vandræðagangur sem Samfylkingin kippti auðvitað í liðinn. Persónulega finnst mér að Ágúst Ólafur eigi að vera ráðherra, staða hans innan Samfylkingarinnar ætti að tryggja honum öruggan ráðherrastól með Össuri Skarphéðinssyni, fyrrum formanni Samfylkingarinnar. Persónulega tel ég að Kristján Möller verði þriðji og síðasti karlkyns ráðherra flokksins.

En svör við þessu koma fyrr en síðar auðvitað. Það verður þó gríðarlega áberandi fái varaformaður Samfylkingarinnar ekki öruggan sess í ríkisstjórn við þessar aðstæður sem uppi eru.

Styttist í nýja ríkisstjórn - vinna á lokastigi

Geir H. Haarde og Ingibjörg SólrúnÞað blasir við að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru á lokastigi. Vel hefur verið unnið af hálfu flokkanna um helgina á Þingvöllum og ljóst að ný ríkisstjórn tekur við völdum á næstu dögum. Væntanlega verður grunnur hennar kynntur þingflokkum á morgun, mánudag, en þingmönnum hefur verið sagt að vera á höfuðborgarsvæðinu.

Það er auðvitað mikið gleðiefni að sjá hversu vel þessi vinna gengur og að samkomulag sé í sjónmáli. Það hefur verið unnið af krafti síðustu daga og helgin nýtt vel til verkanna sem máli skipta. Það er ljóst að stutt er í ríkisstjórnarskipti og væntanlega mun Alþingi koma saman innan skamms tíma, þar sem nefndir og forysta þingsins verða kjörin og forsætisráðherra flytur stefnuræðu ríkisstjórnarinnar. Mjög fróðlegt verður að fylgjast með upphafi þinghalds, sérstaklega verður þar fylgst með nefndakapal og auðvitað því hvernig nýrri 20 manna stjórnarandstöðu gengur að stilla sig saman.

Vangaveltur þess sem við tekur er málefnagrunnur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er kominn á hreint tengjast skipan stjórnarinnar og skiptingu ráðuneyta. Það mun eflaust skýrast fyrr en seinna. Fróðlegt verður auðvitað að sjá hvort að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra, ennfremur hvort Samfylkingin tekur við ráðuneytum þeim sem Framsóknarflokkurinn hefur haft eða hvort uppstokkun verður. Heldur líklegra er nú að uppstokkun verði og því muni Sjálfstæðisflokkurinn ekki aðeins sitja í þeim ráðuneytum sem hann hefur nú. Fróðlegt verður ennfremur að sjá hvort ráðuneytum verði fækkað.

Skv. mínum heimildum verður það ekki gert og því fái báðir flokkar sex ráðherrastóla. Ennfremur verður auðvitað vel fylgst með því hver verði forseti Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forsetastól þingsins í 16 ár og er auðvitað athyglisvert að sjá hvort hann fær stólinn áfram. Eflaust munu margir fylgjast með því hverjir verði ráðherrar flokkanna. Það má eflaust búast við einhverju athyglisverðu. Meiri efasemdir eru sýnist mér uppi um tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins en formanns Samfylkingarinnar, þó báðar tillögur verði eflaust athyglisverðar.

Heilt yfir er gott að sjá hversu vel vinnan hefur gengið. Það er góður vitnisburður um verklagið hjá flokkunum og góðs viti um það sem koma skal. Allra augu færast brátt frá Þingvöllum og til þess sem tekur við nú við val á ráðherrum og í önnur embætti á fundum þingflokka Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Eflaust munu æðstu stofnanir flokkanna verða kallaðar saman til að staðfesta samstarfið á þriðjudag og flest stefnir í ríkisstjórnarskipti eigi síðar en á miðvikudag. Þetta verða spennandi tímar sem fylgja þeirri uppstokkun mála sem fylgir nýrri ríkisstjórn.

Það er ekki undrunarefni að forystumenn flokkanna hafi ákveðið að funda á Þingvöllum. Þar er mikil kyrrð og greinilegt að vel hefur tekist til yfir helgina. Forystumenn flokkanna hafa fengið góða ró yfir þessum verkum og greinilegt á löngum fundum að þar hefur tekist að ná góðu verklagi og tryggja að forystumenn nýrrar stjórnar smelli vel saman til verkanna framundan. Það skiptir mjög miklu máli, enda eru næg verkefni framundan. Það er greinilegt að þetta verður ríkisstjórn sem hikar ekki við að stokka upp stöðu mála víða og horfa fram á veginn í fjölda mála og hugsa hlutina öðruvísi en gert hefur verið á breiðum vettvangi.

Nú bíða allir stjórnmálaáhugamenn spenntir eftir niðurstöðu í málefnaáherslum nýrrar stjórnar og hvernig hópurinn í forystu Þingvallastjórnarinnar verður mannaður. Þar liggja spennumerki næstu daga í íslenskum stjórnmálum.


Bloggfærslur 21. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband