Verður uppstokkun í ríkisstjórninni á næstunni?

Ríkisstjórnin
Sögusagnir sem ég hef heyrt úr nokkrum traustum áttum eru þær að uppstokkun sé í vændum hjá ríkisstjórninni, þ.e.a.s. ef hún þá heldur velli í ólgusjó stjórnmálanna þessa dagana. Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson víki af stóli, til að róa niður óánægjuraddir og nýjir menn taki við stöðum þeirra. Sumir telja að deilt sé um hvort báðir eigi að fara eða nóg að annar fari. Leiðtogar stjórnarflokkanna vörðu sína menn um daginn en gáfu sterklega til kynna á víxl að hinn ætti að fara.

Deila má um hvort uppstokkun sé farsæl nú fyrir samstöðu flokkanna. En mikið er talað um að eitthvað nýtt upphaf megi verða svo leiðtogar stjórnarflokkanna fái einhvern frið frá óánægjuröddunum. Því þurfi þeir að fórna ráðherrum fyrir borð og bíta í súra eplið.


mbl.is Farið eftir ráðleggingum Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarræða Davíðs - hverjir verða eftirmálar?

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, kom mjög sterkur af morgunfundi Viðskiptaráðs. Tók þar fyrir fjölmiðlana í traustri gagnrýni, kallaði eftir rannsókn og sagðist hafa varað við stöðunni um nokkuð skeið. Mér fannst liggja í orðunum að ríkisstjórnin hefði brugðist og Fjármálaeftirlitið ekki staðið undir eftirlitsskyldu sinni. Hið síðarnefnda er reyndar öllum augljóst og reyndar ótrúlegt að fjölmiðlar séu ekki búnir að tala við Jónas og Jón, ósýnilegu mennina í Fjármálaeftirlitinu.

Mér fannst Davíð opna á eigin ábyrgð með rannsóknartalinu. Hann beinlínis óskaði eftir því að hlutur Seðlabankans yrði kannaður. Auðvitað á að fara yfir alla þætti og ekki hika neitt í því. Slík athugun á að vera beinskeytt og alvöru, fara á yfir atburðarásina frá upphafi til enda. Ríkisstjórnin ræður því hvort hún tekur gagnrýninni sem sinni. Enginn vafi er á því að sofandagangurinn hjá henni var nærri því algjör. Þar er erfitt að kasta henni af sér. Hún var værukær í besta falli.

Davíð er og hefur alla tíð verið umdeildur. En hann opnaði á ábyrgð allra aðila í ræðu sinni, ræðu sem sumpart var varnarræða en líka heiðarleg yfirferð á stöðunni. Við verðum að horfast í augu við að fáir ef nokkrir hafa svörin sem þarf og fáir eru mjög saklausir. Þetta er skellur sem enginn getur kastað af sér. Við spyrjum þó um eftirmálana. Hvað verður eftir af valdakerfinu þegar yfir lýkur?


mbl.is Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að Viðskiptablaðið muni halda velli

Ég er einn þeirra sem hef haft gaman af að lesa Viðskiptablaðið og fundist það vera mikilvægur fjölmiðill, enda einn af þeim fáu sem eftir eru á markaðnum sem ekki hafa endað í eigu fjölmiðlakóngsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en veldi hans er orðið á Murdoch- og Berlusconi-skala eins og flestum er orðið kunnugt.

Því er það mjög dapurlegt að svo illa horfir með Viðskiptablaðið sem raun ber vitni. Ætla að vona að blaðið nái að halda velli í óbreyttri mynd en muni ekki deyja í þessum efnahagsþrengingum.

mbl.is Hvetur starfsfólk VB til atvinnuleitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofandi fjölmiðlar - varnaðarorð án hlustunar

Mjög margt er til í því hjá Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra, að fjölmiðlarnir hafi brugðist í umfjöllun sinni um útrásina og umfang hennar. Ekki verður um deilt að þeir voru í heljargreipum og gerðu ekkert í því að vara landsmenn við. Sjálfur hafði Davíð margoft varað við stöðunni, en enginn vildi hlusta á þau varnaðarorð eða skelltu skollaeyrum við. En svona er þetta víst bara. Ég er viss um að í flestum lýðræðisríkjum væri fyrir löngu búið að spyrja hvort fjölmiðlarnir sinni skyldum sínum eða sinni upplýsingaöflun fyrir eigendur sína.

Ég man vel eftir sumum varnaðarorðum Davíðs. Í mars 2006 sagði hann t.d. að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom Davíð með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni í efnahagsmálunum og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Og þó, ég held að sjá megi af stöðunni að við létum þetta okkur ekki að kenningu verða.

En fjölmiðlarnir voru í heljargreipum. Hvar voru þeir þegar allt fór á versta veg í samfélaginu? Af hverju sinntu þeir ekki skyldu sinni og þurfti að vekja þá síðasta allra aðila?

mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hillary þiggur boð Obama um utanríkisráðuneytið

Obama og Hillary
Fullyrt er á Drudge Report og vef Guardian í kvöld að Hillary Rodham Clinton hafi ákveðið að þiggja boð Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að verða næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þetta kemur ekki að óvörum. Obama bauð Hillary embættið á fundi þeirra í Chicago fyrir helgina og þegar er hafin vinna við að fara yfir persónuleg mál Clinton-hjónanna fyrir útnefningarferlið í þinginu. Hillary verður þriðja konan á utanríkisráðherrastóli. Madeleine Albright var utanríkisráðherra á seinna kjörtímabili Clintons forseta og Condoleezza Rice, valdamesta blökkukonan í sögu Bandaríkjanna, á seinna kjörtímabili Bush.

Augljós leki úr herbúðum Obama á sögusögnum um að Hillary kæmi til greina var til að búa stuðningsmenn hans undir valið á þessum helsta keppinauti Obama um útnefninguna í eitt valdamesta embættið í stjórnkerfinu og hvort það hlyti einhvern hljómgrunn. Repúblikanar hafa verið mjög jákvæðir í garð þess að Hillary verði utanríkisráðherra og nokkuð öruggt að hún muni eiga auðvelt með að fara í gegnum útnefningarferlið, þó mögulega verði spurt um fjármál þeirra hjóna, einkum persónuleg mál Clintons forseta hvað varðar forsetabókasafnið hans í Little Rock.

Enginn vafi leikur á því að Obama fetar í fótspor Abrahams Lincoln í vali sínu á samherjum í Hvíta húsinu og samstarfsmönnum í Bandaríkjaþingi. Lincoln valdi þrjá keppinauta sína í lykilstöður þegar hann tók við forsetaembættinu árið 1861, en hann hafði álíka litla reynslu í öldungadeildinni og Obama við flutningana í Hvíta húsið. Nú þegar ljóst er að Hillary verður utanríkisráðherra og Joe Biden tekur við varaforsetaembættinu eru sögusagnir um að Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, fái valdamikið ráðuneyti.

Richardson og John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata 2004, sóttust eftir utanríkisráðuneytinu en þeir lýstu báðir yfir stuðningi við Obama á mikilvægum tímapunkti í forkosningaslagnum; Kerry eftir að Ted Kennedy hafði stutt hann ásamt Caroline Kennedy Schlossberg, bróðurdóttur sinni, og Richardson á föstudaginn langa, en þó eftir forkosningarnar í Nýju-Mexíkó. Stuðningur Richardsons færði Obama atkvæði úr hópi spænskumælandi kjósenda. Þeir hljóta að vera með sárt ennið að sjá Hillary fá embættið.

Í dag hitti svo Obama keppinaut sinn úr forsetakosningunum, John McCain. Greinilegt er að hann vill fá McCain í lið með sér í þingstarfinu á komandi árum og reyna að byggja brýr eftir harðvítugan kosningaslag. Obama virðist því ætla að byggja traustan hóp að baki sér, bæði með vali á keppinautum úr forkosningaslagnum í innsta hring þess sem gerist í Hvíta húsinu og með því að tryggja stuðning repúblikana við lykilmál. Fundurinn með McCain gefur allavega margt til kynna.

Hillary mun sem utanríkisráðherra verða einn valdamesti stjórnmálamaður heims og verða í sviðsljósinu á alþjóðavísu - hún hefur sannarlega prófílinn í það. Hún fær traustan sess í Hvíta húsinu þrátt fyrir að hafa ekki tekist að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. Margir lykilráðgjafar og vinir Clinton-hjónanna leika lykilhlutverk í valdaskiptunum. Þetta eru merkileg endalok á baráttu Hillary og Obama. Þau fallast nú í faðma og vinna saman að mikilvægum verkefnum.

Hillary mun því segja af sér öldungadeildarsætinu í New York, eftir átta ár þar. Litið var á þingsætið sem stökkpall í Hvíta húsið þegar hún gaf kost á sér við endalok forsetaferils Clintons árið 2000, á meðan hún var enn forsetafrú. Henni mistókst að tryggja sér forsetaembættið en hlýtur þess í stað utanríkisráðuneytið, sem er eiginlega næsti bær við Hvíta húsið. Hún á eftir að blóðmjólka alla þá athygli sem fylgir því að verða valdamesta kona heims, þó ekki forseti sé.

mbl.is Boða nýtt tímabil umbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband