Hillary þiggur boð Obama um utanríkisráðuneytið

Obama og Hillary
Fullyrt er á Drudge Report og vef Guardian í kvöld að Hillary Rodham Clinton hafi ákveðið að þiggja boð Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að verða næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þetta kemur ekki að óvörum. Obama bauð Hillary embættið á fundi þeirra í Chicago fyrir helgina og þegar er hafin vinna við að fara yfir persónuleg mál Clinton-hjónanna fyrir útnefningarferlið í þinginu. Hillary verður þriðja konan á utanríkisráðherrastóli. Madeleine Albright var utanríkisráðherra á seinna kjörtímabili Clintons forseta og Condoleezza Rice, valdamesta blökkukonan í sögu Bandaríkjanna, á seinna kjörtímabili Bush.

Augljós leki úr herbúðum Obama á sögusögnum um að Hillary kæmi til greina var til að búa stuðningsmenn hans undir valið á þessum helsta keppinauti Obama um útnefninguna í eitt valdamesta embættið í stjórnkerfinu og hvort það hlyti einhvern hljómgrunn. Repúblikanar hafa verið mjög jákvæðir í garð þess að Hillary verði utanríkisráðherra og nokkuð öruggt að hún muni eiga auðvelt með að fara í gegnum útnefningarferlið, þó mögulega verði spurt um fjármál þeirra hjóna, einkum persónuleg mál Clintons forseta hvað varðar forsetabókasafnið hans í Little Rock.

Enginn vafi leikur á því að Obama fetar í fótspor Abrahams Lincoln í vali sínu á samherjum í Hvíta húsinu og samstarfsmönnum í Bandaríkjaþingi. Lincoln valdi þrjá keppinauta sína í lykilstöður þegar hann tók við forsetaembættinu árið 1861, en hann hafði álíka litla reynslu í öldungadeildinni og Obama við flutningana í Hvíta húsið. Nú þegar ljóst er að Hillary verður utanríkisráðherra og Joe Biden tekur við varaforsetaembættinu eru sögusagnir um að Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, fái valdamikið ráðuneyti.

Richardson og John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata 2004, sóttust eftir utanríkisráðuneytinu en þeir lýstu báðir yfir stuðningi við Obama á mikilvægum tímapunkti í forkosningaslagnum; Kerry eftir að Ted Kennedy hafði stutt hann ásamt Caroline Kennedy Schlossberg, bróðurdóttur sinni, og Richardson á föstudaginn langa, en þó eftir forkosningarnar í Nýju-Mexíkó. Stuðningur Richardsons færði Obama atkvæði úr hópi spænskumælandi kjósenda. Þeir hljóta að vera með sárt ennið að sjá Hillary fá embættið.

Í dag hitti svo Obama keppinaut sinn úr forsetakosningunum, John McCain. Greinilegt er að hann vill fá McCain í lið með sér í þingstarfinu á komandi árum og reyna að byggja brýr eftir harðvítugan kosningaslag. Obama virðist því ætla að byggja traustan hóp að baki sér, bæði með vali á keppinautum úr forkosningaslagnum í innsta hring þess sem gerist í Hvíta húsinu og með því að tryggja stuðning repúblikana við lykilmál. Fundurinn með McCain gefur allavega margt til kynna.

Hillary mun sem utanríkisráðherra verða einn valdamesti stjórnmálamaður heims og verða í sviðsljósinu á alþjóðavísu - hún hefur sannarlega prófílinn í það. Hún fær traustan sess í Hvíta húsinu þrátt fyrir að hafa ekki tekist að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. Margir lykilráðgjafar og vinir Clinton-hjónanna leika lykilhlutverk í valdaskiptunum. Þetta eru merkileg endalok á baráttu Hillary og Obama. Þau fallast nú í faðma og vinna saman að mikilvægum verkefnum.

Hillary mun því segja af sér öldungadeildarsætinu í New York, eftir átta ár þar. Litið var á þingsætið sem stökkpall í Hvíta húsið þegar hún gaf kost á sér við endalok forsetaferils Clintons árið 2000, á meðan hún var enn forsetafrú. Henni mistókst að tryggja sér forsetaembættið en hlýtur þess í stað utanríkisráðuneytið, sem er eiginlega næsti bær við Hvíta húsið. Hún á eftir að blóðmjólka alla þá athygli sem fylgir því að verða valdamesta kona heims, þó ekki forseti sé.

mbl.is Boða nýtt tímabil umbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

mikið sammála þessari gein þinni Stefán Friðrik/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 18.11.2008 kl. 11:17

2 identicon

Ég sé að einhver hefur verið að lesa um bókina Team of Rivals.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband