Miklar breytingar á fylginu í Norðvesturkjördæmi

Könnun Gallups í Norðvesturkjördæmi er mjög merkileg fyrir margar sakir. Sérstaklega vekur athygli hrun Frjálslynda flokksins í höfuðvígi sínu, enda er Guðjón Arnar Kristjánsson kolfallinn af þingi verði þetta úrslit kosninga og Frjálslyndir heyra þá í raun sögunni til sem stjórnmálaafl, eftir mjög stormasama tíð í innanflokksátökum að undanförnu. Hrunið í Norðvestri er táknrænt fyrir fall flokksins sem heildar, sérstaklega ef akkeri flokksins, sjálfur formaðurinn, fer fyrir borð.

Sjálfstæðisflokkurinn missir þriðja manninn miðað við þessar tölur og forystuna í kjördæminu. Ási á Rifi, leiðtogi flokksins, er nýr í landsmálunum og stimplar sig traust inn eftir glæsilegan prófkjörssigur. Mikil endurnýjun hefur orðið á listanum í kjördæminu og í þriðja sætinu er nú Eyrún á Tálknafirði. Sjálfstæðisflokknum tókst síðast að tryggja endurkjör Einars Odds þrátt fyrir að þingmönnum kjördæmisins fækkaði. Nú verður fróðlegt að sjá hvort sætið verður varið.

Samfylkingin virðist vera með Ólínu Þorvarðardóttur mjög trygga inni á þingi, en hennar staða getur varla hafa styrkst eftir skelfilega fjölmiðlaframmistöðu á Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Fróðlegt verður að sjá næstu kannanir og hvort flokkurinn heldur sinni fylgisaukningu. Vinstri grænir eru ótrúlega sterkir á þessu svæði. Mér finnst reyndar ótrúlegt hversu traust staða Jóns Bjarnasonar er miðað við allt sem á undan er gengið og hvað hann hefur fram að færa.

Framsókn eflist merkilega lítið í Norðvestri miðað við algjöra endurnýjun, með tvo efstu menn nýja í landsmálunum og nokkur sóknarfæri. Guðmundur Steingrímsson virðist mjög traustur inni, en Framsókn var mjög óheppin síðast enda missti hún annan mann sinn á síðustu stigum talningar á kosninganótt og Kristinn H. hélt sínu sæti sem jöfnunarmaður. Sleggjan er reyndar horfin af sviðinu og er ekki leikari í atburðarásinni nú, hvað hann svosem gerir síðar.

Umræðuþátturinn í Norðvestri í kvöld var mjög góður. Þar komu fram skýrar línur. Mér fannst Ási á Rifi standa sig vel og hann átti góða spretti við að benda á undarlegan skoðanamun vinstrimannanna í kosningabandalaginu, sem virðist frekar snúast um völd og bitlinga frekar en málefnin.

mbl.is Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt útspil Landsbankans

Útspil Landsbankans með óverðtryggð íbúðalán og vaxtaafslátt vekur eðlilega mikla athygli. Landsbankinn með Ásmund Stefánsson hefur legið undir miklu ámæli og verið deilt um verklagið þar. Þessi ákvörðun er mjög áhugaverð í ljósi þess og fróðlegt að sjá viðbrögðin.

Þetta er eflaust eitt útspilið til að reyna að koma fasteignamarkaðnum aftur af stað og draga þá upp úr feninu sem hafa tekið á sig þunga skelli að undanförnu. Svo verður að ráðast hvernig það muni ganga.

mbl.is Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegar útskýringar Össurar - hjalað við Breta

Mér finnst það mjög ámælisvert að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hafi ekki notað leiðtogafund NATÓ til að mótmæla ákvörðun Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Í stað mótmælanna var Össur með eitthvað hjal við Brown og gekk ekki eftir því við Brown að hann útskýrði hvers vegna komið var fram við Íslendinga með þessum hætti. Ég er ekki hissa á því að Brown hafi verið flóttalegur á fundinum í garð íslenskra ráðamanna en Össur hefði átt að standa í lappirnar og fá útskýringar.

Mér finnst vegið að heiðri Íslands á alþjóðavettvangi þegar forystumenn íslenskra stjórnmála þora ekki að taka slaginn við Breta á alþjóðlegri lykilráðstefnu sem þessi í Strassborg var óneitanlega. Við hverju skal búast þegar þeir eru hræddir við þá sem beita okkur slíku ægivaldi sem hryðjuverkalög eru. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði ekki í að fara á þennan fund að tala málstað Íslands og ganga á eftir skýringum þeirra sem réðust að okkur og lögðu orðspor okkar í raun endanlega í rúst.

Nú á að halda áfram að kenna Geir Haarde um að hafa ekki talað við Brown fyrir einhverjum mánuðum. Geir er ekki lengur við völd og tæpir 70 dagar síðan ný ríkisstjórn tók við. Hún hefur ekkert gert í þessum málum nema humma það fram af sér. Eru Samfylkingarráðherrarnir hræddir við flokksbræður sína í Bretlandi eða hvað er málið? Eru þeir kannski hræddir við að svíða ESB-taugina ef þeir mótmæla?


mbl.is Össur: Samningaviðræður í góðum farvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar á byrjunarreit

Mér finnst einn mesti vandinn sem við er að eiga í dag að íslensku bankarnir eru hvorki fugl né fiskur. Þeir hafa enn ekki verið endurreistir. Þetta eru eins og hús í gömlu bandarísku myndunum, með veglegri framhlið en ekkert er á bakvið þá. Þetta er mikill vandi, enda mun ekki verða hægt að endurreisa íslenskt atvinnulíf og byggja upp fyrr en bankarnir hafa verið byggðir upp með trúverðugum hætti.

Þetta kemur mjög vel fram í því mati að salan á útibúaneti Spron hefði getað kollvarpað Kaupþingi og dregið það niður. Reyndar eru margar spurningar í þessu Spron-máli sem hefur ekki enn verið svarað og greinilegt að þeir stjórnmálamenn sem kvörtuðu um leynd áður hafa byggt þagnarmúr um verk sín í þeim málum.

mbl.is Óttast áhlaup á Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brennuvargur segir upp í slökkviliðinu

Ég er ekki hissa á því að brennuvargurinn í Eyjum hafi ákveðið að segja sig frá störfum í slökkviliðinu. Þeir sem brjóta svo alvarlega af sér verða að axla ábyrgð á því, enda varla hægt að búast við því að þeir geti sinnt því starfi framar eða hafi trúverðugleika til þess.

Mér finnst virðingarvert að hann geri þetta sjálfur og sjái þessa meginstaðreynd málsins alveg sjálfur, þó varla sé uppsögnin undrunarefni eða stórmerkileg í sjálfu sér. Sá sem hefur brugðist trausti með svo alvarlegum hætti hefur varla traust til verka áfram.

Þeir í Eyjum hljóta samt að vera mjög hugsi yfir öllum íkveikjunum. Fjöldi þeirra er ótrúlega mikill á síðustu árum. Þar er eitthvað stórlega að sem þarf að kanna eða í það minnsta hugleiða.

mbl.is Óskar lausnar frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölga þarf eftirlitsmyndavélum

Jákvæðasta og neikvæðasta frétt helgarinnar tengjast óneitanlega. Jákvæði punkturinn að maður sem ráðist var á í miðbænum sé á batavegi en neikvæði punkturinn að ráðist sé á fólk sem er að skemmta sér á helgarnóttu í miðbænum. Þessi veruleiki hlýtur að kalla á fleiri eftirlitsmyndavélar í miðbæ Reykjavíkur.

Of mikið er af árásarmálum í næturlífinu, oftast af tilefnislausu, og þarf að reyna að taka á því mikla og augljósa vandamáli. Verst af öllu er að ekki sé betur fylgst með svæðinu og til staðar öryggismyndavélar sem færa fólki einhverja vörn eða í það minnsta öryggistilfinningu.

mbl.is Kominn úr öndunarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband