Miklar breytingar á fylginu í Norðvesturkjördæmi

Könnun Gallups í Norðvesturkjördæmi er mjög merkileg fyrir margar sakir. Sérstaklega vekur athygli hrun Frjálslynda flokksins í höfuðvígi sínu, enda er Guðjón Arnar Kristjánsson kolfallinn af þingi verði þetta úrslit kosninga og Frjálslyndir heyra þá í raun sögunni til sem stjórnmálaafl, eftir mjög stormasama tíð í innanflokksátökum að undanförnu. Hrunið í Norðvestri er táknrænt fyrir fall flokksins sem heildar, sérstaklega ef akkeri flokksins, sjálfur formaðurinn, fer fyrir borð.

Sjálfstæðisflokkurinn missir þriðja manninn miðað við þessar tölur og forystuna í kjördæminu. Ási á Rifi, leiðtogi flokksins, er nýr í landsmálunum og stimplar sig traust inn eftir glæsilegan prófkjörssigur. Mikil endurnýjun hefur orðið á listanum í kjördæminu og í þriðja sætinu er nú Eyrún á Tálknafirði. Sjálfstæðisflokknum tókst síðast að tryggja endurkjör Einars Odds þrátt fyrir að þingmönnum kjördæmisins fækkaði. Nú verður fróðlegt að sjá hvort sætið verður varið.

Samfylkingin virðist vera með Ólínu Þorvarðardóttur mjög trygga inni á þingi, en hennar staða getur varla hafa styrkst eftir skelfilega fjölmiðlaframmistöðu á Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Fróðlegt verður að sjá næstu kannanir og hvort flokkurinn heldur sinni fylgisaukningu. Vinstri grænir eru ótrúlega sterkir á þessu svæði. Mér finnst reyndar ótrúlegt hversu traust staða Jóns Bjarnasonar er miðað við allt sem á undan er gengið og hvað hann hefur fram að færa.

Framsókn eflist merkilega lítið í Norðvestri miðað við algjöra endurnýjun, með tvo efstu menn nýja í landsmálunum og nokkur sóknarfæri. Guðmundur Steingrímsson virðist mjög traustur inni, en Framsókn var mjög óheppin síðast enda missti hún annan mann sinn á síðustu stigum talningar á kosninganótt og Kristinn H. hélt sínu sæti sem jöfnunarmaður. Sleggjan er reyndar horfin af sviðinu og er ekki leikari í atburðarásinni nú, hvað hann svosem gerir síðar.

Umræðuþátturinn í Norðvestri í kvöld var mjög góður. Þar komu fram skýrar línur. Mér fannst Ási á Rifi standa sig vel og hann átti góða spretti við að benda á undarlegan skoðanamun vinstrimannanna í kosningabandalaginu, sem virðist frekar snúast um völd og bitlinga frekar en málefnin.

mbl.is Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

þessi könnun er gagnleg og fróðleg en er mjög ónákvæm.

skekkjumörk hennar eru hjá hverjum flokki um 5%. það útaf því hversu lítið úrtakið var og hversu fáir svöruðu. 60,2% eru innan við 500 manns í þessari könnun. fylgi flokkanna allra er því á bilinu 15% til 30%. 

það sem er hvað markverðast er að fylgi þeirra sé svona jafnt og að frjálslyndir séu í svona slæmri stöðu. 

En já það var merkilegt hversu vandræðalegir Guðbjartur og Jón urðu þegar minnst var á ESB. greinilegt er að þetta er mál sem hvorugur vill ræða og að flokkar þeirra hafa ekki náð saman um. 

þá er bara spurningin. hvor gefur eftir? VG eða Samfylkingin. Samfylkingin getur alltaf hótað VG að þeir fari í sæng með Sjálfstæðismönnum. það er ekkert í landsfundarályktunum þeirra sem bannar þeim það eins og hjá VG. VG getur því ekki myndað neina starfhæfa ríkisstjórn nema grátbiðja Samfylkinguna um að koma með sér. nema þeir fari gegn eigin landsfundar ályktunum. 

Fannar frá Rifi, 7.4.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

Hef heyrt að sleggjan fari fram með 2000 kallinum

Hilmar Dúi Björgvinsson, 7.4.2009 kl. 09:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband