Söngstjarnan Whitney fuðrar upp

Ekki fer á milli mála að frægðarferli Whitney Houston er lokið, hún heldur ekki lagi á tónlistarför sinni, sem átti að marka mikla endurkomu einnar bestu söngkonu bandarískrar tónlistarsögu síðustu áratugi. Þetta er frekar sorglegt, enda var breiddin í rödd Whitney rómuð og hún hlaut heimsfrægð fyrir. En þegar söngkonan getur ekki skammlaust komist í gegnum auðveldustu lögin sín og náð að hækka röddina í gömlu meistaraverkunum er betra heima setið en af stað farið.

Whitney brann upp upp fyrir í baráttunni við dópdjöfulinn sjálfan. Baráttan við fíknina hefur kostað hana söngröddina og tækifærin í bransanum og hjónabandið við Bobby Brown hefur orðið henni dýrkeypt og eyðilagt ferilinn. Persónulegir erfiðleikar Whitney hafa verið alþjóðlegt fjölmiðlaefni nú árum saman og eiginlega sorglegt að sjá hvernig fór fyrir henni. Sjálf tók hún rangar ákvarðanir og hafði ekki það sem þurfti til að byggja sig upp aftur. 

Það vakti t.d. mikla athygli þegar að Whitney slaufaði sig út úr kvikmyndasöngatriði Burt Bacharach á óskarsverðlaunahátíðinni á aldamótaárinu, þar sem margar vinsælustu söngstjörnur seinni ára komu saman og tóku lagið. Whitney átti upphaflega að verða eitt af stærstu númerum atriðsins og Burt hafði valið henni nokkur lög til að syngja, þar á meðal óskarsverðlaunalagið úr A Star is Born. Hún mætti illa og stundum alls ekki á æfingar.

Burt rak hana úr atriðinu með eftirminnilegum hætti og skarð hennar var fyllt af Queen Latifah og frænku hennar, Dionne Warwick, sem kom fram eftir áralanga fjarveru og söng lagið úr Alfie. Þetta var fyrsta merkið um endalokin og síðan orðið æ fleiri. Tónleikaferðin hefur verið frekar sorglegur endapunktur og eiginlega stórundarlegt að ferðinni skyldi ekki slaufað eftir floppin í Bretlandi, þar sem augljóst var að Whitney var laglaus.

Þetta hlýtur að teljast eitt mesta stjörnuhrap bandarískrar tónlistarsögu - sjálfskaparvíti hið mesta hjá einni mestu söngstjörnu síðustu áratuga. Ekki dugar til að vera goðsögn í bransanum til að fóta sig aftur. Fallið getur orðið harkalegt.

mbl.is Whitney Houston gekk fram af Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband