Hugsjónir og sannfæring Ómars

Í áratugi hefur Ómar Ragnarsson verið í sviðsljósinu, notið velvildar og virðingar þorra landsmanna. Í seinni tíð hefur Ómar orðið umdeildur en ég tel að staða hans sé tiltölulega sterk þó honum hafi mistekist að komast inn á þing, verið hafnað sem stjórnmálamanni. Enda tel ég Ómar yfir pólitíska ruglið hafinn. Hans styrkur felst í því að tala til fólks, fræða og kynna sína sýn á landið og náttúruna á sínum vettvangi en ekki í ræðustól Alþingis eða argaþrasi stjórnmálanna.

Ómar hefur með mikilli elju fært okkur minningar um landið okkar, minningar sem við metum mikils. Í barnsminni eru plötur hans auðvitað ógleymanlegar. Þar var hann í essinu sínu. Við erum minnt á fjársjóðinn sem hann hefur fært okkur öllum með endursýningum Sjónvarpsins á Stiklum, sem eru óumdeilanlega merkustu þættir íslenskrar sjónvarpssögu. Það er einfaldlega landið í hnotskurn sem birtist þar, það er ekki annað hægt en elska það.

Ómar á sennilega heiðurinn af stærstu stund íslenskrar sjónvarpssögu. Það var þegar hann kynnti okkur fyrir Vestfirðingnum Gísla á Uppsölum, alþýðumanni sem lifði sem á 19. öld væri en í raun var uppi á tækniáratugum 20. aldarinnar. Magnað móment. Ómar færði okkur þennan mann fornra tíma heim í stofu og kynnti okkur fyrir honum, þó með nærgætni og tilfinningu. Þessi næma mannlega taug er sýnileg í öllum hans verkum.

Ég virði framlag Ómars í þessum efnum mikils og tel hann eiga heiður okkar allra skilið fyrir þau verk sín. Enginn hefur betur kynnt okkur fyrir svæðum; fjarlægum og fallegum. Á 40 ára sjónvarpssögu okkar hefur Ómar verið í hlutverki íþróttafréttamanns, skemmtikrafts, íhuguls spyrils í mannlegum og heillandi viðtölum og fréttamanns sem kannað hefur landið og mannsálina í víðri merkingu þess orðs.

En umdeildir menn kalla fram ólíkar skoðanir. Ómar hefur orðið umdeildur með árunum og oft á tíðum gengið lengra en mörgum finnst eðlilegt að styðja. Sjálfur hef ég verið ósammála Ómari oft á tíðum á síðustu árum. Það er eins og það er. Fróðlegt verður að sjá hversu margir styðja hann í verki.

mbl.is „Orðlaus, hrærður og þakklátur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband