Að loknum sveitarstjórnarkosningum

Sjálfstæðisflokkurinn getur mjög vel unað við stöðu sína að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hann er klárlega stærsti flokkur landsins - vann víða á, á mörgum stöðum vann hann glæsilega kosningasigra - hreina meirihluta eða ráðandi stöðu þar sem sterk liðsheild með traustum forystumanni náði tiltrú kjósenda. Eins og gengur og gerist tapaði flokkurinn fylgi á sumum stöðum, þar sem hann hafði t.d. verið lengi við völd. Í heildina er útkoman góð - mun betri en spáð var.

Reykjavík er þó sérkapítuli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar náði fylgið sögulegum lægðum og hlýtur að teljast verulegt áhyggjuefni. Þar virðist margt að, liðsheildin ekki í takti, vantaði öflugar konur og ungliða ofar á lista, og síðast en ekki síst náði oddvitinn ekki flugi. Fyrir því eru margar ástæður en það er alveg ljóst að meinsemd er í flokksstarfinu í Reykjavík sem verður að laga. Fyrr öðlast Sjálfstæðisflokkurinn ekki trúverðugleika í höfuðborginni.

Mér fannst sláandi og frekar dapurt hversu metnaðarlaust slagorð flokksins var í Reykjavík. Þar var talað um Dásamlegu Reykjavík. Skildi ekki alveg það slagorð eftir minnihlutasetu Sjálfstæðisflokksins. Svo er augljóst að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins voru mislagðar hendur við gerð aðalskipulags, hópurinn sundraður og veikur í verkefninu. Þar vantaði nær allt upp á það sem þarf til að ná árangri. Svo er augljóst að frekari endurnýjun á mannskap þurfti að vera.

Við greiningu vandans í Reykjavík er talað um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst tiltrú og ekki hlustað á almenning. Það má vel vera. En rót vandans þar er einföld - hann þarf að bjóða upp á samhenta og trausta liðsheild, breiðan hóp ungra og öflugra einstaklinga, og hafa konur í forystusveitinni. Breidd listans í Reykjavík var fjarri því sem gott var - svo þarf oddvitinn að vera með sterkt bakland. Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hefur oftast farnast best með ungan oddvita, von framtíðar. 

Hér á Akureyri getum við sjálfstæðismenn vel við unað. Við erum langstærst; toppuðum allar skoðanakannanir - baráttumaðurinn Njáll Trausti náði glæsilegri kosningu. En vissulega vantaði herslumuninn, okkar staða hefði verið enn vænlegri hefði fjórði maður komist inn. En við öðlumst klárlega traust bæjarbúa að miklu leyti og unnum mjög vel á síðustu daga baráttunnar. Verkefnið að byggja flokkinn hér á Akureyri upp til verka og forystuhlutverks er þó langt á veg komið.

Afhroðið 2010 var okkur mikið áfall, en við verðum að horfast í augu við að það var heimatilbúinn vandi. Við hlustuðum ekki á bæjarbúa og trygga stuðningsmenn flokksins þegar miðbæjarskipulag var afgreitt í okkar valdatíð, bæjarstjórakapall þá misheppnaðist og varð okkur til smánar, höfðum setið vissulega lengi við völd. Við lærðum af mistökunum, héldum hverfagöngur um allt sveitarfélagið, efndum til rýnihópa við gerð stefnuskrár og héldum stóran og opinn vinnufund.

Síðast en ekki síst tel ég skipta máli að við hlustuðum á raddir bæjarbúa varðandi skipulagsmálin og tel ég það hafa styrkt okkur á lokaspretti baráttunnar þegar við sóttum meira fylgi en okkur hafði verið spáð alla baráttuna. Við munum væntanlega sitja áfram í minnihluta. En okkar staða er önnur, við erum mætt til leiks aftur með sterkan hóp í bæjarstjórn og munum láta til okkar taka af krafti - tala fyrir okkar málum í minnihluta undir forystu okkar. Og við munum veita nýjum meirihluta aðhald.

Myndun nýs meirihluta L-lista, Samfylkingar og Framsóknar virðist hafa vera kortlögð fyrir kjördag. Þessi meirihlutamyndun var augljóslega komin af stað áður en talið var úr kjörkössum, enda blasir við að þessi myndun er ekki í samræmi við úrslitin þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tvöfaldaði fylgið og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum. Við bíðum eftir nýjum meirihluta og metum hann þegar málefnasamningur liggur fyrir. En við verðum beitt og ákveðin í minnihluta, nú með nýtt umboð.

Stóru tíðindin að loknum kosningunum er þó léleg kjörsókn. Mér finnst það mikið áhyggjuefni að lýðræðisvitund sé hnignandi og almennt áhugaleysi á stjórnmálum virðist vera að aukast. Kosningarétturinn er okkar helsta lýðræðislega verkfæri, ef við mætum ekki á kjörstað sendum við skilaboð um áhugaleysi og okkur sé sama um stjórnun nærsamfélagsins og landsins í senn.

Kannski finnst fólki það ekki hafa áhrif þó það kjósi - atkvæðið sé gengisfellt í pólitískum hrossakaupum. Þess eru klárlega dæmi að menn myndi meirihluta framhjá úrslitum og hlusti ekki á kjósendur. Eflaust munu einhverjir sérfræðingar skrifa lærðar greinar, en eigi ekki illa að fara þarf að fara í alvöru greiningu og reyna að laga það sem að er - þetta er þróun sem þarf að vinna gegn.


mbl.is Ármann áfram bæjarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband