Góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum

Ingibjörg Sólrún og GeirGóður gangur virðist vera í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hófust í dag í Ráðherrabústaðnum. Vel fór á með Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, og áttu þau góðan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, en athygli vakti að hann sat fundinn en ekki Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Ég hef fengið nokkuð oft síðasta sólarhringinn spurninguna um það frá vinum og ættingjum hvort að það verði ekki erfitt að styðja stjórnarsamstarf með Samfylkingunni. Það tel ég svo sannarlega að verði ekki neitt teljandi vandamál. Það er eðli íslenskra stjórnmála að við völd er samsteypustjórn tveggja eða fleiri ólíkra flokka. Að baki er tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en þeir voru andstæðingar áður en það stjórnarsamstarf hófst vorið 1995. Nái þessir tveir flokkar góðum samstarfsgrunni er það sjálfsagt að þeir vinni saman, enda ljóst að enginn einn flokkur getur hér ríkt einn í því landslagi sem við þekkjum.

Ég persónulega á marga góða vini, sem ég met mjög mikils, innan Samfylkingarinnar og ég veit ekki betur en t.d. hér á Akureyri vinni Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin saman. Það er reyndar einstakt samstarf milli þessara flokka fram að þessu, enda höfðu þeir aldrei átt með sér samstarf fram að því. Það tók vissulega tíma reyndar að slípa saman það samstarf sýnist mér, en þar réði miklu að stór hluti bæjarfulltrúa meirihlutans voru nýliðar í sveitarstjórnarmálum. Ég hef vissulega ekki verið beinn þátttakandi í því, enda sit ég ekki í nefndum fyrir sveitarfélagið, en hinsvegar hef ég mjög vel fylgst með því samstarfi og get ekki betur séð en að það gangi heilt yfir mjög vel.

Margir hafa litið svo á að það muni verða erfitt fyrir sjálfstæðismenn að styðja stjórnarsamstarf með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Það er mér persónulega ekkert vandamál. Auðvitað er Ingibjörg Sólrún í öðrum flokki og hún hefur verið umdeild. Hinsvegar hef ég aldrei efast um að hún er dugleg og heiðarleg í sínum verkum, hún hefur verið mjög öflug stjórnmálakona sem hefur barist af krafti fyrir sínu. Hvað mig varðar tel ég að það verði bara styrkleikamerki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda til samstarfs með Ingibjörgu Sólrúnu og loka á allan orðróminn um óvild okkar í hennar garð. Ég held að það sé báðum flokkum styrkleiki að halda í þetta samstarf af krafti.

Ég lít svo á að það séu spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum með þessu stjórnarsamstarfi. Með þessu samstarfi er hægt að tryggja öflugan og heilsteyptan meirihluta til mikilvægra verkefna. Það verður hægt að taka betur af skarið með fjölda mála og halda til verka sem t.d. hafa verið umdeild en ég tel að myndast geti góður grunnur um í þessu samstarfi að óbreyttu. Þar gæti myndast sterk blokk með afgerandi umboð og það verður svo sannarlega ekki vandamál á þessum vettvangi að einn maður geti tekið heilt mál í gíslingu eins og hefði því miður orðið reyndin hefði samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verið endurnýjað.

Heilt yfir tel ég þetta nýja stjórnarsamstarf sem blasir við gott tækifæri fyrir báða flokkana til að tryggja öfluga forystu um lykilmál. Þar eiga ekki ólíkar skoðanir um persónur að vefjast fyrir heldur á mikilvægi samstöðu til verka að skipta máli. Það er enda þannig sýnist mér sem fólk heilt yfir hugsar og það er líka mikilvægt að allur orðrómur um mögulega áralanga óvild á einhverjum manneskjum deyi og hægt verði að horfa fram á veginn. Það er aldrei farsælt að horfa til baka í þeim efnum.


mbl.is Segjast komin nær stjórnarmyndun og að góður andi sé í viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Vonandi hefurðu rétt fyrir þér í þessu mati þínu og auðvitað hlýtur reynslan af samstarfinu á Akureyri að hafa sitt að segja að þessi leið er reynd. Ég tók þó eftir í orðum Geirs H. Haarde að viðræður um málefnin væru rétt að hefjast og það vekur spurningar um framhaldið. Ég á þó ekki von á öðru að flokkarnir hafi verið búnir að fá botn í þau mál sem talið var erfiðast að brúa á milli flokkanna. Að sama skapi hlýtur að liggja fyrir skipting ráðuneyta á milli flokkanna. Ef ekki þá getur allt gerst.

Jón Baldur Lorange, 18.5.2007 kl. 21:15

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég tek undir þetta hjá þer Stefán, ég hef trú á að þau nái saman og þó ég hafi nú ekki elskað ISG út af lífinu, þá náði hún örlítið til mín í kosningabaráttunni, ég vona að þetta taki ekki langan tíma. Held að báðir flokkar hafi gott af að starfa saman.

Ásdís Sigurðardóttir, 18.5.2007 kl. 21:32

3 Smámynd: Guðfinnur Sveinsson

Heyr heyr! Loksins sjálfstæðismaður sem að vill er ekki með óverðskuldað skítkast útí Ingibjörgu! :)

Ég held að þetta verði hin fínasta ríkisstjórn, og langlíf í kaupbæti ef að endar ná saman!

Kv,

Guffi 

Guðfinnur Sveinsson, 18.5.2007 kl. 21:48

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Jón: Þetta tekur auðvitað sinn tíma. Hef enga trú á öðru en öflugur grunnur myndist og tel að það muni ekki taka marga daga í sjálfu sér.

Ásdís: Gott að við erum sammála um það Ásdís mín. Það þarf stundum að líta í kringum sig og upplifa hlutina upp á nýtt. Ég held að nýtt stjórnarmynstur verði gott fyrir okkur sjálfstæðisfólk.

Guffi: Ég hef ekki hikað við að gagnrýna Ingibjörgu Sólrúnu ef ég hef verið ósammála henni. Stundum hef ég hrósað henni, t.d. í umræðuþáttunum fyrir kosningar þegar að mér fannst hún standa sig vel. Ég hef aldrei verið þekktur fyrir að hata annað fólk eða tala ómerkilega um það, enda jafnan reynt að vera málefnalegur og ég vona að það sé það sem standi eftir heimsóknina að ég tali málefnalega um fólk þó að ég mögulega sé ósammála því. Mér finnst fátt skemmtilegra en spjall við pólitíska andstæðinga, það þarf ekki að vera karp og leiðindi heldur málefnaleg umræða um málin. Heilsteypt og gott að þekkja fólk úr öllum flokkum og geta spjallað við það yfir kaffibolla með notalegum hætti þó kannski sé maður ekki sammála um algjörlega allt.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2007 kl. 21:57

5 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Gleðileg lesning.. vona að þú verðir sannspár :)

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 18.5.2007 kl. 22:11

6 Smámynd: Brynjólfur Bragason

Þetta er nokkuð sérstök stemming yfir þessu, margt Samfylkingarfólk fyrir kosningar taldi að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn betri kost en kaffibandalagið og enginn ræddi nýtt R-lista samstarf. Ég held að viðbrögð og yfirlýsingar Framsóknarmanna og Vinstri Grænna síðustu daga sýni fram á að þetta er rökrétt niðurstaða. 

Brynjólfur Bragason, 18.5.2007 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband