Össuri ætlaður veigameiri sess en Ágústi Ólafi

Stjórnarmyndunarviðræður Það blasir við eftir fyrsta stjórnarmyndunarfund Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í dag að Össuri Skarphéðinssyni er ætlaður veigamikill sess í nýrri ríkisstjórn, mun meira áberandi sess en Ágústi Ólafi Ágústssyni, varaformanni Samfylkingarinnar. Öllum er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður brátt annað hvort fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra, en greinilegt er að Össur kemur næstur henni að völdum í flokknum.

Það vakti mikla athygli í dag að Össur skyldi sitja við hlið Ingibjargar Sólrúnar sem næstráðandi í Samfylkingunni á fyrsta fundi samningaviðræðnanna með Geir og Þorgerði Katrínu. Það kannski vekur ekki athygli í ljósi þess að Össur er fyrsti formaður Samfylkingarinnar og leiddi þennan flokk fyrstu skrefin, yfir viðkvæmasta hjallann, áður en hann missti reyndar þann sess frekar harkalega. Val á Össuri sem þingflokksformanni þegar að Margrét Frímannsdóttir, fyrrum alþingismaður, sté til hliðar af hinu pólitíska sviði fyrir tæpu ári staðfesti lykilstöðu hans innan flokksins og hann var mjög vel auglýstur við hlið Ingibjargar Sólrúnar í kosningabaráttunni í vor.

Það eru vissulega nokkuð athyglisverð tíðindi að Ágúst Ólafur sem varaformaður Samfylkingarinnar virðist ekki hafa sama sess í þessum viðræðum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist hafa sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins við hlið Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Þetta er nýmæli í stjórnarmyndunarviðræðum. Þegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu myndun þeirrar ríkisstjórnar, sem enn situr en brátt heyrir sögunni til, vorið 1995 sátu Friðrik Sophusson og Guðmundur Bjarnason fundi með formönnum flokkanna og sama var árin 1999 og 2003 þegar að Geir H. Haarde var á þeim fundum með Finni Ingólfssyni og síðar Guðna Ágústssyni.

Þarna kristallast því ný staða. Spyrja má sig hvaða sess Össuri sé ætlaður. Margir virðast gefa sér að Össur Skarphéðinsson verði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það yrði vissulega merkileg flétta ef að hann tæki við þeim sess af Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins. Færi svo yrði sess Össurar sem lykilmanns og forystumanns innan flokksins númer tvö endanlega staðfestur. Það hefur reyndar að mínu mati nú þegar verið gert með þessum viðræðum í dag og hvernig frontur flokkanna birtist, enda er þessi fyrsti fundur auðvitað mjög veigamikill, enda upphaf viðræðna og samstarfs flokkanna á komandi árum.

Margir velta reyndar mjög fyrir sér hvort að Ágúst Ólafur Ágústsson verði ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alla jafna væri því ekki velt fyrir sér hvort varaformaður stjórnmálaflokks ætti sæti í ríkisstjórn flokksins síns, nema þá ef þar færi maður utan þings. En samt er þessu velt fyrir sér. Sú umræða vekur vissulega mikla athygli.

Það mun verða mjög áberandi hljóti varaformaður Samfylkingarinnar ekki sæti í ríkisstjórn þeirri sem er í spilunum og mun verða tilefni mikilla vangaveltna um stöðu hans. Fyrirfram hlýtur hann að teljast öruggur um ráðherrastól en fái hann ekki einn slíkan verður spurt hvort hann hafi virkilega einhverja stöðu innan Samfylkingarinnar.

mbl.is Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður getur ekki annað en spurt sjálfan sig að því hversu vel ISG flokksformanni er treystandi ef ekki er farið eftir því sem maður telur eðlilegar forsendur í þessum stjórnarmyndunarviðræðum! - Snýst þetta fyrst og fremst um völd og eiginhagsmuni frekar en áhuga á velferð samlanda sinna? Rifjast enn og aftur upp greinin sem ég skrifaði daginn fyrir kosningar þar sem ég taldi upp pólitískar framkvæmdir Framsóknarflokks til valda - verður Samfylkingin endurtekning á Framsóknarflokknum í plotti eða fær maður að sjá nýar og heilsteyptar leiðir í framkvæmdum? Mín réttlætiskennd vonar það svo sannarlega. Hef trú á Ágústi Ólafi í heilsteyptar framkvæmdir - kannski þess vegna sem hann er ekki hafður með? Ekki nógu plottað innræti í honum? Úff - þarf maður að sætta sig við þetta eða er til önnur leið en að bíða kosninga í 4 ár? Vitið þið það?

Ása (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 23:57

2 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Ólíkt Ágústi Ólafi þá leiðir Þorgerður Katrín listann í sterkasta vígi flokksins. Styrkur hennar á sér þannig fleiri stoðir en varaformannsembættið.

Kallaðu mig Komment, 19.5.2007 kl. 00:00

3 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Annars væri gaman að heyra, hverja þú telur væntanlega ráðherra í nýrri stjórn. Þú ert einn þeirra sem maður hlustar á, þegar kemur að þessum málum!

Kallaðu mig Komment, 19.5.2007 kl. 00:13

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mannaval Samfylkingarinnar er ekki eins breytt og Sjálfstæðisflokksins. Ágúst Ólafur er bara ekki sá þungavigtarmaður sem titill hans segir um.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.5.2007 kl. 00:25

5 Smámynd: Ólafur Valgeirsson

Ég vil benda á að varaformaður Samfylikingarinnar sagði í Ísland í dag í gærkvöldi að hann væri víst þátttakandi í þessum stjórnarmyndunarviðræðum, hann væri bara ekki á staðnum??? Svo nefndi hann að Rannveig Guðmundsdóttir væri þarna heilmikið númer og framkvæmdastjóri flokksins væri líka til taks. Sennilega er honum bara ekki leyft að vaka svona lengi frameftir.

Ólafur Valgeirsson, 19.5.2007 kl. 02:22

6 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Nei nú er ég algjörlega ósammála þér... Ágúst Ólafur er frábær stjórnmálamaður og er mikils metinn innan síns flokks. Auk þess er ISG ekki þannig manneskja að ganga framhjá varaformanni flokksins. Alls ekki!

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 19.5.2007 kl. 02:55

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Kannski er samfylkingin aðeins að nýta það að þeir hafa þarna núverandi og fyrrverandi formenn innanborðs og Össur hefur tekið þátt í stjórnarmyndunum áður. Finnst andskoti langsótt að fara að gera veður út af einhverri uppsetningu á viðræðufundum. Hvað á þá að segja um að ákvarðanir Sjálfstæðisflokksins um samstarf voru kannski teknar á fundi í Landsbanka þar sem mættir voru Friðrik Sophusson, Hannes Hólmsteinn, Davíð Oddson og Geir. Er það ekki ákvarðanir teknar í reykfylltum bakherbergjum?

Magnús Helgi Björgvinsson, 19.5.2007 kl. 10:42

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Var nú ekki umdeild hvernig Ágúst náði varaformannssætinu? kemur kannski í bakið á honum núna drengnum. Hann er óttalega ungæðislegur og einhvernvegin virðist ekki nógu þroskaður, en það er víst reynslan sem þroskar mann svo kannski hann væri bara flottur ráðherra. Kemur í ljós.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.5.2007 kl. 10:59

9 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Stefán... þú ert mikill sérfræðingur í innra starfi Samfylkingarinnar. Blessaður hafðu engar áhyggjur af Gústa...hann er í fínum gír. Hann er flottur stjórnmálamaður og nýtur fyllsta trausts ef þig langar til að vita það sem fluga á veggi í innra starfi Samfylkingar

Jón Ingi Cæsarsson, 19.5.2007 kl. 12:53

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ása Gréta: Það verður að ráðast hvert hlutverk Ágústs Ólafs verður en hann virðist vera lægra í skörinni en Össur. Það sást vel í gær. Við sjáum svo til hvernig gengur í viðræðunum. Á ekki von á að þetta taki langan tíma.

Komment: Ágúst Ólafur er burtséð frá öllu varaformaður flokksins og er kjörinn af flokksmönnum á landsfundi og með umboð þaðan. Staða hans ætti því að vera sterkari en ella. Já, með ráðherraskipan. Mun koma með pælingar um það mjög fljótlega.

Gunnar: Já, það gæti verið. Það ræðst þó fyrst og fremst af því hvort hann verði ráðherra. Fái hann ekki ráðherrastól er staða hans ekki beysin.

Guðmundur: Ojú Össur verður ráðherra, hann mun fá veigamikinn sess í þessari stjórn. Það blasir vel við.

Ólafur: Já, þetta voru mjög undarleg svör og slógu svo sannarlega ekki á kjaftasögurnar heldur kynti undir þær.

Fanney: Mér finnst að Ágúst eigi að vera ráðherra. Við þekkjumst ágætlega eftir ungliðastarfið og þessi skrif eru ekki til að tala hann niður heldur að tala um hið augljósa að efasemdir eru um stöðu hans. Það blasir bara við.

Magnús: Þetta er auðvitað mjög merkileg staða og ekki undarlegt að spáð sé í þetta, enda er þetta í fyrsta skipti í áratugi þar sem varaformaður flokks hefur ekki vigt í að sitja svona merkilegan upphafsfund stjórnarmyndunarviðræðna. Það er mjög vel tekið eftir þessu.

Ásdís: Já, ég tel að það mál hafi skaðað hann mjög og umfram allt sé ástæða þess hvernig staða hans er og birtist okkur.

Jón Ingi: Ég er enginn sérfræðingur í starfi Samfylkingarinnar, ekki vera að snúa út úr. Hinsvegar vekur þetta athygli, það er ekki undrunarefni að þetta sé rætt enda er þetta svo áberandi. Er ekki að tala Ágúst Ólaf niður, en vek athygli á hinu augljósa og ég verð ekki einn um það svo sannarlega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 19.5.2007 kl. 14:11

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ef Ágúst Ólafur verður ekki ráðherra hlýtur það að verða honum veruleg vonbrygði og mun veikja stöðu hans innan flokksins talsvert.
Sem varaformaður myndi maður ætla að hann væri öruggur um ráðherrastól eins og Þorgerður Katrín en svo virðist ekki vera.
Hann treysti sér ekki í oddvitaslaginn í Reykjavík á móti Jóhönnu og Össuri.
Ég vona að Ingibjörg gangi ekki framhjá sínum varaformanni.  

Óðinn Þórisson, 19.5.2007 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband