Kristján L. Möller tekur við samgöngumálunum

Kristján og SturlaKristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar hér í Norðausturkjördæmi, hefur tekið við lyklavöldum í samgönguráðuneytinu. Kristján verður eini ráðherrann sem kemur héðan úr Norðausturkjördæmi. Það verður hans verkefni að klippa á borðann í Héðinsfjarðargöngunum, sem tengir heimabyggð hans, Siglufjörð, og Ólafsfjörð saman eftir tvö ár. Það þarf varla að kvíða því að það verkefni tefjist við komu hans í ráðuneytið.

Það fer ekkert á milli mála að Möllerinn hefur haft mikinn áhuga á samgöngumálum alla tíð á sínum pólitíska ferli. Það er ekki hægt annað fyrir mann sem kemur úr sveitarfélagi sem hefur svo illa verið tengt samgöngulega sem gamli góði Siglufjörður hefur verið nær alla tíð. Það verða þáttaskil fyrir byggðina þar að fá ný göng og ég held að heimafólk þar þurfi ekki að óttast um sinn hag hafandi eignast nú eitt stykki samgönguráðherra. Það verður reyndar notalegt vissulega fyrir okkur íbúa Norðausturkjördæmis að eignast nú í fyrsta skipti í átta ár samgönguráðherra. Halldór okkar Blöndal leiddi málaflokkinn í átta ár áður en Sturla tók við.

Mörg verkefni bíða hér. Það er ekkert leyndarmál að við höfum verið frekar hundfúl yfir málum Grímseyjarferjunnar, langri bið á lengingu Akureyrarvallar og því að Vaðlaheiðargöng, hin löngu þarfa framkvæmd sem tengir betur Eyfirskar og Þingeyskar byggðir, hafi ekki enn verið sett á dagskrá. Það var reyndar svo að í kosningabaráttunni í vor talaði Kristján Möller í fararbroddi Samfylkingarinnar hér fyrir því að ríkisvæða Vaðlaheiðargöngin og hafa þau gjaldfrjáls. Það verður áhugavert að sjá hvort að hann muni gera það eða með hvaða öðrum hætti þau fara á dagskrá, en ég efast ekki um að þau munu nú fara fljótt og vel á dagskrá standi hann við sín loforð um það ásamt lengingu vallarins.

Það eru vissulega vonbrigði að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi ekki valið þingmann úr Norðausturkjördæmi til ráðherrasetu, þrátt fyrir sögulegan kosningasigur flokksins hér og að flokkurinn eiga fyrsta þingmann kjördæmisins. Það breytist því lítið yfir stöðu mála hér, enda var aðeins einn þingmaður kjördæmisins ráðherra fram til dagsins í dag, Valgerður Sverrisdóttir, sem nú hefur eins og allir vita látið af embætti. Það er mikilvægt að kjördæmið eigi ráðherra á tímum mikilvægra verkefna á þessu svæði og því mikilvægt að Samfylkingin valdi leiðtoga sinn til þess verkefnis.

Ég vil óska Kristjáni Möller innilega til hamingju með ráðherrastólinn. Ég veit að hann er trúr sínu og fullur af hugmyndum í samgöngumálum. - fyrst og fremst vona ég að hann verði farsæll í sínum verkum og efast ekki um það, vitandi af krafti hans og hugmyndaauðgi, sem hefur sést af tali hans lengi. Nú er tími framkvæmda vonandi framundan hjá honum en ekki langt orðagjálfur.

Þar sem ég veit að hann les vefinn og fylgist vel með skrifum hér veit ég að hann les kveðjuna.


mbl.is Kristján: Samgönguráðuneytið skriðþungt skip
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband