Ingibjörg Sólrún hittir loks Shimon Peres

Ingibjörg Sólrún Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hitti í morgun Shimon Peres, forseta Ísraels, á fundi í Jerúsalem. Er hún fyrsti stjórnmálamaðurinn af erlendum vettvangi sem hittir forsetann, sem sór embættiseið á sunnudag. Fyrir fjórtán árum vildi Ingibjörg Sólrún ekki hitta Peres hér á Íslandi, eins og frægt er orðið. Peres kom sem utanríkisráðherra í opinbera heimsókn til Íslands í ágúst 1993.

Í mótmælaskyni við Peres og ísraelsk stjórnvöld afþökkuðu forystumenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka, t.d. Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands, Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi utanríkisráðherra, boð stjórnvalda um að sitja kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, honum til heiðurs. Vakti þetta mikla athygli á sínum tíma og var þetta í kastljósi fjölmiðla á ágústdögunum fyrir fjórtán árum er Peres kom til landsins.

Allir þekkja vonandi söguna vel. Mánuði eftir heimsókn Peres tókust sögulegar sættir milli Ísraela og Palestínumanna, eftir umfangsmiklar samningaviðræður í Noregi. Innsigluðu Yasser Arafat, leiðtogi PLO, og Yitzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, friðarsamninginn með frægu handabandi fyrir framan Hvíta húsið í Washington þann 13. september 1993, þar sem samningurinn var undirritaður. Síðar fengu þeir báðir friðarverðlaun Nóbels ásamt Shimon Peres sem var einn lykilmanna í þeim sögufræga friðarsáttmála. Friðarsamningurinn, sem gerður var að mestu leyti í Osló, kostaði Rabin lífið. Hann var myrtur að kvöldi 4. nóvember 1995 eftir fjöldafund í Tel Aviv.

Ég fagna því mjög að Ingibjörg Sólrún hafi farið á fund Shimon Peres. Hún hefði átt að sitja kvöldverðarboðið til heiðurs Peres fyrir fjórtán árum. Peres hefur enda alla tíð verið öflugur stjórnmálaleiðtogi og unnið að friði og einingu á svæðinu. Það sannast af ferli hans sem öflugs stjórnmálamanns. Hann hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels og virtur á alþjóðavettvangi. Það er auðvitað ómetanlegt fyrir stjórnmálamenn að hitta mann á borð við Peres sem er orðinn forseti kominn vel á níræðisaldur og hefur verið virkur stjórnmálamaður alla sögu Ísraelsríkis.

Ég vona að vel hafi farið á með Ingibjörgu Sólrúnu og Shimon Peres. Það væri reyndar fróðlegt að vita hvort að Íslandsförin fyrir fjórtán árum hafi eitthvað verið rædd í Jerúsalem.

mbl.is Ingibjörg Sólrún á fundi með Peres
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Nú get ég ekki verið sammála þér.
Það er mjög gott að hún fari þarna út til þess að kynna sér málin, en ég vona alls ekki að það fari vel á með þeim.

Stofnun Ísraelsríkis og stuðningur BNA, okkar og fleiri er óafsakanlegur, jafnvel siðlaus!

Ég vona og held að Ingibjörg hafi nógu mikið vit í kollinum til þess að gera sér grein fyrir þessu.

Annars er þetta góð grein hjá þér :)

Páll Ingi Kvaran, 17.7.2007 kl. 15:29

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Árni: Ingibjörg Sólrún verður auðvitað að gera og segja það sem hún vill. Hún virðist ekkert vera ósátt við að vera þarna.

Páll: Takk fyrir góð orð um greinina.

Ástarengillinn: Afhverju ertu þá að lesa síðuna ef að þú ert ekki sáttur við hana? Botna ekkert í þessu. Af hverju kommentarðu þetta við þessi skrif útfrá þessari frétt. Fannst þér þessi skrif ekki bæta við fréttina? Það vill nú svo til að það sem er í þessari grein fjallar í verulega litlum mæli um fréttina, nema þá það að ISG er í Ísrael.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.7.2007 kl. 16:58

3 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Ástarengill: Stebbi á það reyndar svoldið oft til að umorða einungis fréttir.
Þetta blogg er samt langt frá því, það er bæði fræðandi og einnig tjáir hann skoðun (þótt ég sé ekki sammála henni) á málinu.
Oftast kemur eitthvað nýtt inn í hvert blogg....

Páll Ingi Kvaran, 17.7.2007 kl. 17:57

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Hér voru settar inn risastórar myndir inn í kommentadálkinn. Ég hef fjarlægt viðkomandi innlegg og bannað þann sem setti þær inn frá kommentaskrifum. Ég mun loka á aðgang allra sem reyna svona hundakúnstir hér eftir. Vil taka það skýrt fram!

Ég er algjörlega ósammála þér annars Páll um það að ég tyggi á fréttum. Vissulega bendi ég á staðreyndir fréttanna en í hverjum einum og einasta dálk sem ég skrifa hér inn koma fram skoðanir mínar á því sem er að gerast. Vísa því algjörlega á bug að ég umorði aðeins fréttir og komi ekki með eigið mat.

Annars vil ég taka það fram að þessi umræðudálkur er til staðar fyrir efnisumræðu um skrifin sem til staðar eru. Ég nenni ekki að standa í svona umræðum og beini því til þeirra sem ekki þola vefinn að hætta að lesa hann eða að senda mér póst undir nafni á netfangið sem er sýnilegt hér. Læt innlegg Ástarengils standa en eyði öllum slíkum framvegis!

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.7.2007 kl. 19:10

5 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

jamm, þetta er svoldið stórt orðað hjá mér, þetta er ekki satt. sannleikurinn væri meira í þá átt að sumar greinar jaðri við hreina umorðun, þótt að ég hafi ekki séð það gerast.

En annars er þessi umræða tilgangslaus, þeim sem ekki líkar við það hvernig þú bloggar geta bara sleppt því að lesa, mjög einfalt mál. Það sést hinsvegar að mörgum líkar bara nokkuð vel við það hvernig þú skrifar og það segir allt sem segja þarf.

Páll Ingi Kvaran, 17.7.2007 kl. 19:24

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég skil ekki skrif þín Páll. Þú talar um umorðun en getur ekki bent á nein dæmi og segist aldrei hafa séð það gerast. Botna engan veginn í þessu orðalagi.

Það væri gott að fá dæmi um það þar sem ég hef skrifað hér inn án þess að segja skoðanir mínar.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.7.2007 kl. 12:58

7 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Jah, ég er að segja að skoðanir eins og "ofboðslega er þetta sorglegt" eða "þetta er gott hjá honum" eru ekki sérstaklega áhugaverðar. Það mætti jafnvel kalla þær almenningsálit, ekki persónubundnar skoðanir.

Ég er samt alls ekkert að setja út á bloggið þitt Stebbi, ef þig langar að tjá skoðanir eins og þessar máttu alveg gera það fyrir mér.

Mér finnst þetta flott blogg, enda kíki ég hingað nánast á hverjum degi. 
 

Páll Ingi Kvaran, 18.7.2007 kl. 14:13

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Eru það umorðanirnar? Ég get ekki betur séð en að það sé mannlegt að tjá þá skoðun að eitthvað sé sorglegt eða eitthvað sé vel gert. Ég hika ekki við að hrósa mönnum geri þeir vel en er alveg ófeiminn, meira að segja, við eigin flokksmenn að skamma þá geri þeir eitthvað af sér. Fyrst og fremst er þetta málefnalegt, eða ég vona það. Ég sleppi almennt öllum stóryrðum. Ég get alveg sagt skoðanir mínar án þess að blóta fólki í sand og ösku.

Annars nenni ég ekki að standa í þessu. Ég sé að þetta eru bara smámunir sem verið er að finna að. Ég hélt satt best að segja að þetta væru verri atriði sem væri bent á. Mér finnst það mannlegt að geta talað um það sem sé sorglegt eða hrósa fyrir hið góða í hversdeginum.

Ég þakka þér fyrir að lesa bloggið. Við eigum kannski eftir að hittast við tækifæri. Þó ekki til að ræða um þetta. Ég get alveg orðið skapmikill og hvass en ég erfi ekki neitt við menn nema þá að það sé persónulegt. Þá fyrirgef ég ekki. Það er bara þannig.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.7.2007 kl. 14:24

9 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

:)

Páll Ingi Kvaran, 18.7.2007 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband