Klukk

Sá siður að klukka hinn og þennan bloggvin sinn eða félaga í netheimum er skemmtilegur. Gísli og Björg, og kannski einhverjir fleiri, hafa klukkað mig. Tek ég að sjálfsögðu áskoruninni. Ég nefni því hér nokkur atriði varðandi mig.

1. Ég er rótarý-félagi. Gekk í þann góða félagsskap bara núna í vor. Ég tók þá ákvörðun samhliða því að hætta alveg virku flokksstarfi hér að finna mér enn betri og notalegri félagsskap til að rækta. Þannig að ég fór í Rótarý á svipuðum tíma og félagi minn einn. Það er notalegur og góður félagsskapur. Við hittumst vikulega, borðum saman góðan mat og ræðum auðvitað málefni hversdagsins; allt frá bæjarmálunum til landsmálanna og allt þar á milli. Það er allavega ánægjulegt að hittast. Hef virkilega gaman af þessu.

2. Ég dýrka ítalska menningu af öllu tagi; mat, lífsbrag og umfram allt ítalskar kvikmyndir. Þær eru í grunninn algjörlega einstakar. Sérstaklega finnst mér myndir Fellinis mannlega bætandi. Nýt þeirra mjög oft, enda eru þær klassískar í gegn og sannar í umfjöllun að svo mörgu leyti. Aðaluppáhaldsmyndin mín er ítölsk - hin eina sanna Cinema Paradiso. Hún heillaði mig fyrst þegar að ég sá hana í bíó fyrir átján árum og ég verð að sjá hana reglulega. Algjörlega mannbætandi og yndisleg. Svo er auðvitað La Vita é Bella yndisleg líka. Miklar perlur.

3. Uppáhaldsmaturinn minn er Kjöt í karrý. Mjög nærri því er lambalæri og kjötsúpa. Borða flest, alltof mikið stundum af skyndimat eins og flestir. Hef þó aldrei getað komist upp á lag með að borða rjúpur eða fugla almennt. Tók það í arf frá pabba að borða ekki fuglakjöt. Get þó borðað kjúkling, ólíkt honum. Ég get með engu móti borðað íslenskan súr- eða innmat. Verð flökurt þegar að ég sé svið og hef alla tíð afþakkað með öllu að borða þann mat. Get ekki borðað það sem horfir á mig. Ég er týpan sem borða mikið af hangikjöti á þorrablótum allavega. Gersamlega vonlaus þorramaður semsagt.

4. Ég á yfir þúsund bíómyndir. Ég hef alltaf haft miklu meiri áhuga á kvikmyndum en stjórnmálum. Kvikmyndaástríðan er eiginlega mér í blóð borin. Hef alltaf haft mikinn áhuga á að skrifa um kvikmyndir, hef fylgst með þeim alla tíð og notið þeirra í botn. Það er alltaf gaman að skrifa um góða kvikmynd og ekki síður yndislegt að njóta góðrar myndar. Þær eru sjaldséðar í dag sönnu stórmyndirnar. Þess vegna þarf að horfa reglulega á þær gömlu til að sjá snilldina.

5. Mér finnst sumarið ekki vera fyllilega komið fyrr en ég fer út í Ólafsfjarðarmúla og sé miðnætursólina í allri sinni dýrð. Mér finnst hún aldrei fallegri og tignarlegri en þar. Það er sannkallaður yndisauki að sumri að fara þangað, svo er auðvitað ekki síður notalegt að sjá hana utan úr Víkurskarði.

6. Ég hef skelfilegt hita- og bómullarofnæmi sem hefur alla tíð háð mér rosalega. Hef þó náð að lifa ágætlega með því.

7. Ég er með stóran skurð ofarlega á enninu eftir slys sem hefur þó tekist að fela mjög vel með árunum.

8. Get orðið nokkuð skapmikill og tekið snerrur. Erfði það frá langafa Stefáni. Tel það kost en ekki löst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Stebbi fílar kindakjöt,

en kann ekki við svið;

Svipljót - og með augnagöt,

það kann hann ekki við.

Aðalheiður Ámundadóttir, 17.7.2007 kl. 16:21

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Hörður: Nei, ég er ekki mjög hrifinn af ítölskum stjórnmálablæ, heldur flestu öðru. Góð skrif um "matinn". :)

Aðalheiður: Takk kærlega fyrir skondna og skemmtilega vísu. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 17.7.2007 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband