Ingibjörg Sólrún gengur á vit sögunnar

Shimon Peres og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagðist í gær hafa gengið á vit sögunnar þegar að hún hitti loks Shimon Peres, forseta Ísraels. Það er ekki óeðlilegt. Þó að Ingibjörg Sólrún hafi ekki viljað sitja kvöldverðarboð til heiðurs Peres, ásamt flestum fulltrúum þáverandi stjórnarandstöðu, á Íslandi árið 1993, getur hún ekki neitað því að Shimon Peres er einn af reyndustu stjórnmálamönnum samtímans. Annað væri enda hrein sögufölsun.

Það vill enginn kannast lengur við andstöðuna við Shimon Peres í Íslandsheimsókninni fyrir fjórtán árum, í ágústmánuði 1993. Þá höfðu leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna uppi mjög stór orð og vildu ekkert við Peres kannast - gátu ekki einu sinni þegið boð í kvöldverðarhóf til heiðurs honum. Mánuði síðar var eitt sögufrægasta friðarsamkomulag í Mið-Austurlöndum, hið sögufrægasta reyndar ef Camp David-samningurinn á áttunda áratugnum er undanskilinn, undirritaður í Washington. Þá vildi reyndar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ekki kannast við Peres. Ætli það muni enda svo að Ólafur Ragnar fari til Ísraels í heimsókn til starfsbróður síns eða þá að Peres komi hingað?

Friðarsamningar í Mið-Austurlöndum hafa verið sögufrægir, enda hefur friðartónn ekki alltaf vofað þar yfir. Lykilleiðtogar svæðanna hafa oft þurft að greiða fyrir með lífi sínu með friðartali. Anwar Sadat, forseti Egyptalands, var hataður fyrir að fara til Ísraels árið 1977, sem var sögufræg heimsókn og sögulegt skref sem lengi verður í minnum haft. Þá talaði Sadat meira að segja í Knesset, ísraelska þinginu. Vinabönd hans og Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, voru styrkt með Camp David-samningnum. Hann kostaði Sadat lífið. Hann var ráðinn af dögum af eigin hermönnum á hersýningu í október 1981 eins og frægt er orðið.

Yitzhak Rabin hafði verið lykilmaður í ísraelska hernum, átti sér þar langa sögu að baki áratugum saman, rétt eins og Ariel Sharon. Hann hélt undir lok ævi sinnar til Osló og samdi við Palestínumenn, skrifaði svo undir þann samning í Washington með mjög sögulegum hætti í september 1993, mánuði eftir að íslenskir stjórnarandstöðuleiðtogar, á borð við Ingibjörgu Sólrúnu og Ólaf Ragnar vildu ekki hitta Shimon Peres, sem var utanríkisráðherra í stjórn Rabins. Handaband Rabins og Yasser Arafat á þeirri stund varð sögulegt. Samningurinn kostaði Rabin lífið. Hann var drepinn, sakaður um að hafa gefið of mikið eftir.  Hann tók áhættuna.

Ariel Sharon var mikill haukur alla tíð og var hershöfðingi, átti þar langa sögu rétt eins og Yitzhak Rabin. Síðar klauf hann Likud-bandalagið, flokkinn sem hann átti lykilþátt í að stofna árið 1973, til þess að snúa af braut stefnu harðlínumanna. Sharon lauk stjórnmálaferli sínum með því að brjóta upp Likud og gera út af við stöðu hans sem ráðandi afls í ísraelskum stjórnmálum. Sharon var alla tíð maður kraftsins. Að loknum ferlinum í hernum var hann ráðgjafi Menachem Begin og varð varnarmálaráðherra í stjórn hans. Undir lok ferilsins var hann sá maður á sviðinu sem talaði mest fyrir friðarumleitunum, rétt eins og Rabin áður.

Ég tek undir með Ingibjörgu Sólrúnu að Shimon Peres er sögulega séð mikilvægur stjórnmálamaður, sakna þess samt að hún segi það fyrst núna. En batnandi fólki er allra best að lifa. Shimon Peres er síðasti risinn sem enn er eftir í ísraelskum stjórnmálum. Hann hefur verið á sviðinu alla sögu Ísraelsríkis og lykilforystumaður allan þann tíma. Hann er að verða 84 ára gamall og hefur nýlega tekið við forsetaembættinu til sjö ára. Hann verður því á tíræðisaldri þegar að hann lætur af embætti árið 2014, lifi hann svo lengi. Það er mjög sjaldgæft að menn ríki á valdastóli svo lengi. En yfirsýn Peres yfir stöðu mála er auðvitað gríðarleg.

Shimon Peres var lykilmaður í ísraelska Verkamannaflokknum áratugum saman. Hann fylkti þó liði í síðustu þingkosningum undir merkjum Ariel Sharon í Kadima. Sharon og Peres fundu sameiginlegan grunn í málefnum Mið-Austurlanda undir lok stjórnmálaferils síns og fylktu liði, sem var söguleg stund. Peres hefur verið forsætisráðherra Ísraels þrisvar, en vann aldrei þingkosningar merkilegt nokk. Hann sat á valdastóli 1977, 1984-1986 og að lokum 1995-1996. Hann tók í síðasta skiptið við embættinu eftir morðið á Rabin, sem felldi hann af leiðtogastóli Verkamannaflokksins á sínum tíma. Þeir fylktu þó liði saman í þingkosningunum 1992.

Shimon Peres er á alþjóðavettvangi maður friðarins í ísraelskum stjórnmálum. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags sem fyrr er nefnt. Á grundvelli þessa alls er skiljanlegt að Ingibjörg Sólrún geti með sóma farið út til Ísraels og hitt loksins Shimon Peres, manninn sem hún vildi ekki sitja til kvöldverðarborðs með fyrir fjórtán árum. Það er nefnilega sem á við að ganga á vit sögunnar að hitta hann. Peres ber söguna með sér í verkum sínum. Svo mikið er víst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

"Shimon Peres er á alþjóðavettvangi maður friðarins í ísraelskum stjórnmálum. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels með Yasser Arafat og Rabin árið 1994, í kjölfar sögulegs friðarsamkomulags sem fyrr er nefnt."

Peres er engin dúfa. Ég leyfi mér að vitna í hann:

"A godless man is not a human being."

"The president of Iran should remember that Iran can also be wiped off the map."
- Ætli hann hafi þarna verið að minna Írani á að Ísraelar eiga meira en nóg af kjarnavopnum? 

Einnig hefur Peres neitað að hefja friðarviðræður við PLO, enda væri það pólitískt sjálfsmorð...

Páll Ingi Kvaran, 18.7.2007 kl. 15:24

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er einfaldlega rangt að engin vilji kannast lengur við andstöðuna við Peres í Íslandsheimsókninni fyrir fjórtán árum. Ég var í hópi þeirra, sem púuðu á hann þegar hann fyrir utan stjórnaráðið á sínum tíma og tel enn eins og ég taldi þá að full ástæða hafi verið til. Á þeim tíma var fyrri Indifata uppreisn Palestínumanna í fullum gangi og brugðust Ísraelar við að mikilli hörku og stóðu fyrir fjöldamorðum á Palestínumönnum, þar á meðal brönum. Það féllu á annað þúsund Pelestínumenn í þessari fyrri uppreisn þeirra og stór hluti þeirra voru börn, sem voru skotinn fyrir að kasta grjóti. Að sjálfsögðu var full ástæða til að fordæma og sýna ráðherra í ríkisstjórn Ísraels á þessum tíma fulla vanvirðingu og fordæmingu.

Í dag er Ingibjörg hins vegar orðin einn af leiðtogum ríkisstjórnar Íslands og, sem slík ber henni skilda til að reyna allt til að gera heiminn friðvænlegri þar á meðal að tala við menn, sem hún hefur lítið álit á eða jafnvel hefur megnustu andúð á. Simon Peris hefur verið í stjórnmálum í Ísrael nær allan þann tíma, sem það ríki hefur verið til og á því sinn þátt í öllum þeim hræðilegu stríðsglæpum, sem það ríki hefur framið. Það verður ávalt svartur belttur á Nóbelsnefndinni að hafa sæmt jafn blóði drifnum fjöldamorðingum og Peres, Rabin og Arafat friðarverðlaunum. Þeir áttu þau svo sannarlega ekki skilið.

Sigurður M Grétarsson, 18.7.2007 kl. 16:16

3 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Sammála síðasta ræðumanni.

Páll Ingi Kvaran, 18.7.2007 kl. 16:42

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Páll: Pólitíkin í Ísrael hefur alla tíð verið harðlínupólitík. Það er það auðvitað víðar á svæðinu. Flestir helstu stjórnmálaleiðtogar Ísraela síðustu áratugina hafa verið fyrrum hershöfðingjar úr breiðu pólitísku spectrumi. Það verður allavega seint sagt að pólitíkin í Ísrael hafi verið eitthvað dútl. Rabin var hershöfðingi áður en hann varð friðardúfan sem samdi við Arafat undir lokin (sá friðarsamningur kostaði hann lífið - bæði Sadat og Rabin féllu vegna friðarvilja síns), sama gerðist reyndar með Sharon sem fór úr Likud vegna ágreinings við harðlínuarminn um það hversu harða pólisíu Likud ætti að taka. Ísraelar vilja spila hart, það vita allir. Það er alveg sama hvort er til hægri eða vinstri þar. En samt sem áður hefur Peres verið friðarins maður og utanríkisráðherrann hafði einmitt sérstakt orð á því hversu mikilvægt hefði nú verið að heyra skoðanir Peres um friðarmálin og spár hans í þeim efnum.

Sigurður: Ég var að tala um stjórnmálamennina sem mótmæltu. Hvar sérðu sömu andstöðuna meðal framlínumannanna sem vildu ekki hitta Peres árið 1993? Hjá ISG sem fór á fund Peres í Jerúsalem?

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.7.2007 kl. 16:58

5 Smámynd: Páll Ingi Kvaran

Stebbi: Já, í Ísrael hefur alla tíð verið harðlínupólitík. Það er einfaldlega afleiðing  óréttlætis stofnunar ríkisins.
Það hefði aldrei átt að stofna og framgangur þess, og að mörgu leyti, tilvist þess, er óréttlát.


Páll Ingi Kvaran, 18.7.2007 kl. 17:13

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Sammála síðasta ræðumanni.

Stefán. Það er mikill munur á því þegar einn af æstu mönnum Íslands hittir einn af æðstu mönnum Ísraels til að ræða friðarhorfur milli Ísraels og Palestínu og hvað Ísland getur lagt á vogaskálarnar í því sambandi og því að hitta sama mann í matarveislu til að skála með honum. Þegar Peres kom til Íslands leit út fyrir að aðeins væri um kurteisisheimsókna að ræða, sem ekki myndi skila neinu þó síðar hafi komið í ljós að Peres var að ræða ákeðin mál varðandi friðarsamninga, sem þegar höfðu verið gerðir en ekki var búið að gera opinbera enn.

Íslendingar ættu ekki að vera sömu hræsnararnir og Ísraelar og Bandaríkjamenn, sem þóttust vilja frið en neituðu að tala við Arafat og seinna leiðtoga Hamas. Hvernig er hægt að semja um frið við menn án þess að tala við þá? Þó þeir hefðu talað við þá hefðu þeir eftir sem áður getað fordæmt þá og neitað að mæta í veislur með þeim.

Eitt hef ég veitt athygli. Þú minnist ekki á það að Svavar Gestson er með Ingibjörgu í för en það var einmitt hann, sem einna mest hafði sig í frammi þegar Peres kom hér á sínum tíma ásamn Ólafi Ragnari. Hann var mun meira áberandi í fordæmingu á Ísraelum og Peres á þeim tíma heldur en nokkurn tímann Ingibjörg. Ég stórefa að annað hvort þeirra hafi skipt um skoðun síðan þá þó þau fari í þessa ferð.

Sigurður M Grétarsson, 20.7.2007 kl. 15:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband