Bush og Brown verða vinir í Camp David

Brown og BushGeorge W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, funda nú í Camp David í Maryland, en það er í fyrsta skipti sem þeir hittast eftir að Brown tók við embætti af Tony Blair fyrir rúmum mánuði. Hafa þeir notað tækifærið til að treysta vinabönd sín á milli og sýna vel að sterk tengsl séu enn milli Bandaríkjanna og Bretlands. Eru það án vafa stærstu tíðindi leiðtogafundarins.

Það hefur löngum verið svo í sögu landanna að leiðtogar þeirra hafa haft með sér öflugt samstarf og byggt traust vináttubönd sín á milli. Flestum er eflaust mjög vel í minni hversu vel Margaret Thatcher og Ronald Reagan unnu saman í fjöldamörg ár. Þau voru eins og systkini í raun og veru, sóttu kraft til hvors annars og pólitískan grunn til verka, en Thatcher var forsætisráðherra Bretlands allan forsetaferil Reagans 1981-1989. Þau héldu góðum vinskap eftir lok valdaferils Reagans og til marks um hversu náin tengsl voru þeirra á milli á pólitískum vettvangi að þá flutti Margaret Thatcher minningarræðu við jarðarför Reagans forseta í Washington í júní 2004.

Tony Blair og Bill Clinton unnu mjög samhent að málum meðan að þeir voru báðir við völd. Lykilmenn Clintons réttu Blair augljóslega hjálparhönd í kosningabaráttunni 1997 og var hún mjög ameríkanseruð af hálfu Verkamannaflokksins að mörgu leyti. Sömu taktar og einkenndu Clinton í forsetakosningunum 1992 og 1996 komu vel fram í Bretlandi vorið 1997. Þeir tóku höndum saman eftir kosningasigur Verkamannaflokksins. Þeir voru eins og pólitískir sálufélagar. Þegar að George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna í janúar 2001 var mjög um það deilt hvort að hann gæti unnið með Tony Blair. Þær áhyggjur voru óþarfar, Blair hélt svipuðu sambandi við Bush og Clinton áður.

Ég held að Tony Blair hafi haldið sama kúrs áfram þó að Bush hefði náð kjöri. Það breyttist ekkert, þó að vissulega væri öllum ljóst að Blair-hjónin hefðu frekar viljað að Al Gore yrði forseti Bandaríkjanna árið 2000. En samskipti landanna héldust sterk. Nú þegar að Tony Blair lét af embætti eftir áratug við völd var eðlilega mikið spáð í stöðu mála milli landanna. Flestir hafa talið að þau samskipti myndu kólna, þar sem að Brown er ekkert sérstaklega ánægður með stjórnmálastefnu Bush forseta. En það hefur engin áhrif á sambandið. Það hefur sést vel í Camp David þar sem böndin milli landanna hafa verið treyst í sessi.

Það var áhugavert að horfa á blaðamannafund leiðtoganna síðdegis. Þetta eru auðvitað tveir mjög ólíkir stjórnmálamenn en þeir treysta bönd landanna í sessi með þessum fundi. Það verður fróðlegt að sjá hvort að staða Gordons Browns breytist vegna fundarins. Brown hefur verið að fá fljúgandi start í embætti og byrjað mjög vel, er með sterka stöðu í könnunum og horfir jafnvel til þess að flýta kosningum, sem eiga að vera í síðasta lagi í maí 2010. Bush fer ekki aftur í kosningar og horfir því óhræddur fram á veginn, þó óvinsældir hans séu gríðarlegar.

Það er öllum ljóst nú að samskipti Bretlands og Bandaríkjanna eru sterk, þó valdaskipti hafi orðið í Bretlandi. Gordon Brown heldur nær alveg sama kúrs í samskiptum við Bandaríkin og fjöldi fyrirrennara hans. Það er líka öllum ljóst af yfirbragði fundarins að það á að treysta böndin. Það er öllum ljóst miðað við ákvörðunina um að hluti fundarins verði í Camp David. Það ber vitni vinarhug. Bush bauð Blair til Camp David fljótlega eftir að hann varð forseti og sama á sér stað nú er Brown er orðinn forsætisráðherra, eftir langa bið.

Og öllum er ljóst að böndin á milli landanna eru sterk. Þau tengsl voru ekki bara byggð á samskiptum Tony Blair og George W. Bush. Fyrri leiðtogar landanna hafa haldið böndin og Gordon Brown innleiðir enga breytingu í þeim efnum. Það sést af andrúmsloftinu í Camp David. Þeir voru allavega flottir saman í golfbílnum, þar sem Bush keyrði Brown um svæðið. Nú verður spennandi að sjá hvort þessi ferð hefur áhrif á stöðu Browns og Verkamannaflokksins.


mbl.is Bush og Brown heita því að starfa saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það dregur sig saman sem dálíkast er!!! /segir máltækið,eg hefði haft þá trú að þessi vinátta væri syndarmenska/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.7.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband