Skemmtilegt bekkjarmót

Það er oft sagt að hin gömlu kynni gleymist ei. Það átti svo sannarlega vel við hjá okkur í 1977-árgangnum í grunnskóla en við hittumst á laugardaginn á frábæru bekkjarmóti. Það eru núna orðin sextán ár síðan að við fermdumst og fjórtán ár frá því að leiðir skildu í grunnskólanum. Þannig að nokkuð er um liðið frá því að við höfum hist og átt stund saman í hópnum. Aðeins einu sinni frá árinu 1993 hefur verið hittingur í hópnum, en það var árið 2001 þegar að áratugur var liðinn frá fermingunni en þá áttum við frábæran laugardag saman.

Það var virkilega gaman að hittast aftur. Ég hitti allavega þrjá úr bekknum á þessu bekkjarmóti í fyrsta skipti frá árinu 1993. Það voru því miklir fagnaðarfundir. Það hefur reyndar ótrúlega lítið samband verið. Við erum nokkur sem hittumst hér í dagsins önn stundum í búð eða svoleiðis en bein tengsl verið alltof lítil, þó að við séum auðvitað alveg yndislegur hópur saman. Mér fannst sérstaklega gaman að finna hvað við vorum ótrúlega fljót að smella saman og finna gamla góða taktinn frá því í denn.

Við byrjuðum á að hittast í gamla góða skólanum. Það er reyndar orðið frekar fátt þar sem minnir á "gömlu" góðu dagana en það var innilega gaman að hittast og eiga spjall. Fengum okkur svo hádegismat saman og gleymdum okkur gjörsamlega í spjalli um allt sem hefur gerst, enda mættu ekki allir sem komu nú á mótið árið 2001 og því um mikið að tala. Dagskráin breyttist því aðeins og við tókum drjúga og notalega stund bara í hreint spjall, enda full þörf á að bara hreinlega að tala saman.

Síðdegis fórum við svo í sjóstangveiði saman. Það var innilega gaman. Búið var að skipta í lið og vorum við í hópi þrjú bara ansi flott í veiðinni. Þau eru reyndar teljandi skiptin á minni ævi sem að ég hef haldið á veiðistöng að ráði. Samt sem áður tókst mér að næla mér í fisk. Okkur tókst því miður ekki að vinna keppnina en urðum allavega í öðru sæti. Samt var þetta allt til gamans gert og notalegt bara umfram allt. En keppnisskapið í okkur hefur ekkert breyst með árunum.

Bimma, bekkjarsystir, sem var með okkur í núllaranum, fyrsta og öðrum bekk mætti á hittinginn. Höfðum við flest ekki hitt hana í tvo áratugi. Fannst mér sérstaklega gaman að hitta hana og það voru ótrúlegustu minningar sem tókst að muna eftir þar sem hún kom við sögu. Fannst reyndar alveg ótrúlega flott hjá henni að mæta. Hún var í sjöunda himni yfir deginum og við líka. Það var enda alveg magnað flashback að fara yfir þessi ár okkar saman í skólanum.

Síðdegis fórum við í Kalda á Árskógsströnd, þar var starfsemin kynnt okkur og við smökkuðum auðvitað Kalda. Hitti ég Kristinn Pétursson, fyrrum alþingismann, þar þegar að ég kom en hann var í hópnum á undan okkar sem var að skoða þar um. Var ánægjulegt að hitta hann og ræða sjávarútvegsmálin, sem eru enn einu sinni mál málanna á þessu sumri. Var gaman að fara í Kalda. Það er flott að sjá hversu vel þau hjón hafa byggt þetta fyrirtæki upp - já og Kaldi er góður. :)

Um kvöldið fórum við í bústaðina í Ytri Vík og vorum þar um nóttina. Þar var fjörið eins og best gat verið. Við fengum okkur grillmat, drógum fram gítarana og sungum alveg á fullu saman, fengum okkur í glas, fórum í heita pottinn og alles sem við á við svona móment. Maturinn var alveg frábær sérstaklega, en hann var eldaður fyrir okkur af Heiðu og Sibbu. Þannig að þetta var alveg súpergóður dagur. Sérstaklega var gaman að vera með Bjarna Gunnars, sem hafði skipulagt dagskrána okkar, og hélt að mestu utan um þetta. Virkilega vel heppnað.

Það var gaman að rifja upp gamla daga og hitta hópinn. Ætla rétt að vona að við látum ekki líða sex ár í næsta hitting. Þetta þyrfti að vera árlegt dæmi, segi ég og skrifa. Þetta var alveg virkilega skemmtilegur dagur, mikið hlegið og spjallað saman. Þetta er flottur hópur. Sérstaklega gaman að sjá hversu kjarninn í honum er góður enn og líka allir svo hressir. Það er alltaf gaman að rifja upp gömlu dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalbjörg Þórey Ólafsdóttir

Glæsilegt Stebbi, þú verður að láta flokkinn vita af blogginu þínu.

K.kv Alla

Aðalbjörg Þórey Ólafsdóttir, 31.7.2007 kl. 13:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Alla mín. Það var rosalega gaman að hitta þig eftir öll þessi ár. Þetta var frábær hittingur. :)

Þarf að benda liðinu á færsluna. Set tengil á bekkjarsíðuna. ;)

mbk. Stebbi

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.7.2007 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband